Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

1907 - Skák og mát

Mig vantar eiginlega staf. Altsvo listabókstaf. Er nefnilega að hugsa um að stofna flokk. Kannski lendi ég bara í ruslflokknum ABC++. Það er nú eiginlega skaði því ég var að hugsa um að fella niður allar skuldir á landinu. Ef ríkið getur ekki borgað þær verð ég líklega að gera það sjálfur. Jæja, það er svosem ágætt að losna við það.

Er fólk ekkert hugsi yfir öllum loforðum flokkanna? Það á bara að gera allt fyrir alla. Stinga verðbólgudrauginn á hol og hvaðeina. Mér finnst verst að ég skuli ekki skulda meira en ég geri. Það væri ekki ónýtt að fá niðurfellingu skulda. Annars er flest áhugaverðara en þessar yfirvofandi kosningar.

Þingmennirnir Skúli Helgason og Björn Valur Gíslason telja Guðlaug Þór Þórðarson hafa farið með staðlausa stafi þegar hann hélt því fram í þingræðu að því hefði verið haldið fram á nefndarfundi alþingis að réttlætanlegt væri að svíkja undan skatti. Ummæli þingmanna í ræðustól alþingis minnir mig að séu friðhelg og ekki sé hægt að kæra menn fyrir þau. Skúli og Björn hafa því þann kost að skora á Guðlaug að endurtaka þessi ummæli sín á opinberum vettvangi og kæra hann svo. Það held ég að þeir muni ekki gera.

Frétt dagsins er sennilega sú að Lagarfljótsormurinn hafi það ekki gott. Þó náðust myndir af honum ekki alls fyrir löngu. Annars er ekki grín gerandi að þessum fréttum sem berast að austan. Svona getur farið þegar tvær ár eru gerðar að einni. En auðvitað er þetta ekki Landsvirkjun að kenna.

Eftirlitsiðnaðurinn blómstrar sem aldrei fyrr. Samt er reynt að gera honum erfitt fyrir með hrossakjötsíblöndun og ýmsu öðru.Veit ekki betur en menn noti saltpétur og önnur snefilefni eins mikið og kostur er. Svo er aldrei á vísan að róa með það hvað er óhollt og hvað ekki. Þetta er sífellt að breytast. Það er a.m.k. stórhættulegt að lifa. Gott ef ekki lífshættulegt. Einu sinni urðu menn að láta sér nægja að drepast úr skyrbjúg eða vafasömum innanmeinum en þetta er alltsaman orðið fullkomnara núna. Samt deyja menn ennþá úr lungabólgu.

15. mars n.k.(semsagt á föstudaginn kemur) hefst í London merkilegt skákmót. Þar verður tefld tvöföld umferð um réttinn til að skora heimsmeistarann Anand á hólm. Heimsmeistaratitillinn er búinn að vera lengi í lausu lofti. Kannksi batnar það ástand núna. Þeir sem taka þátt í þessu sögulega móti í London eru:

Magnus Carlsen
Vladimir Kramnik
Levon Aronjan
Teimour Radjabov
Vassily Ivanchuk
Alexander Grischuk
Peter Svidler og
Boris Gelfand.

Auðvitað vonum við Íslendingar að Magnus Carlsen vinni og hann er vissulega líklegastur til þess. Stigahæstur og allt. Með þeim yngstu í hópnum einnig og í góðu formi líkamlega. Þar að auki er hann Norðmaður og hefur oft til Íslands komið. Kannski segi ég eitthvað meira frá þessu sögulega skákmóti seinna, ef ástæða verður til.

IMG 2732Tröppur.


1906 - Að læra af bloggi

Andstæðingar Jón Steinars, Davíðs Oddssonar og þeirrar klíku allrar saman eru æfir yfir því að Jóni skuli hafa verið hleypt í Kastljósið. Svo vildi til að ég horfði á þennan Kastljósþátt þar sem Jón Steinar þruglaði sem mest. Mér fannst þetta mál með öllu óáhugavert, en fylgdist samt með því og var mest hrifinn af því hvað Helgi hafði sett sig vel inní allar hliðar málsins og lét Jón Steinar svosem ekki komast upp með allt of mikinn moðreyk. Fréttamatið hjá kastljósfólkinu fannst mér oft afar skrítið en ég er vanur því. Ætlast engan vegin til að fréttamatið þar sé yfirleitt líkt mínu.

Menn eru nú sem óðast að jafna sig eftir lætin á alþingi í gær (mánudag). Held satt að segja að það komi í ljós í þessari viku eða í byrjun þeirrar næstu að búið er að semja um þinglok. Fjórflokknum hefur tekist (eða hann heldur það a.m.k.) að svæfa stjórnarskrármálið. Það getur þó blossað upp aftur og orðið ýmsum skeinuhætt í kosningabaráttunni sjálfri. Annars finnst mér rétt að nota það pólitíska hlé sem nú verður til að kynna betur stefnu flokkanna og komast til botns í því hve framboðin verða mörg o.þ.h. svo hægt sé að mæla þau í skoðanakönnunum.

Nú eru þingmenn komnir í málþófsgírinn aftur og reikna sýnilega ekki með því að neinir horfi á. Sennilega er búið að semja um þinglok o.þ.h. (Eða verið að því) svo það sem verið er að segja núna er bara fyrir þingtíðindin og til að hertaka ræðustólinn.

Það er þetta með „þjóðina“ og „alþjóðasamfélagið“. Mér finnst hvorttveggja jafnóskiljanlegt og notað af fullkomnu skeytingarleysi. Vil hvorki tilheyra þjóðinni né alþjóðasamfélginu. Hugsanlega er ég þó meðtalinn af þeim sem taka sér þessi málblóm oftast í munn. Þjóðaratkvæðagreiðslur er þó hægt að halda, en ekki alþjóðasamfélagsatkvæðagreiðslur. Aðallega virðast menn tala um alþjóðasamfélagið þegar verið er að sprengja einhverja í tætlur.

Með þjóðartalinu er aftur á móti verið að reyna að sprengja fjórflokkinn og aðrar valdaklíkur í tætlur. Eru þeir þá að framkvæma einhver hryðjuverk? Það finnst sumum. Er ekki tekin of mikil áhætta og stefnt að of miklum flokkadráttum með slíkri afstöðu? Það finnst mér.

Af hverju eru ekki alltaf allir að hugsa um það sama og ég? Mér finnst það vera það minnsta sem fólk getur gert. Þegar ég lít inn á fésbókina (sem er alltof oft) finnst mér það áberandi að fólk er að hugsa um allt mögulegt. Auðvitað fer það að einherju leyti eftir því að hverju ég er að leita, hvað ég finn.

Mér finnst það ansi mikið grunnstef í stjórnmálum hvort fólk er álitið fífl eða ekki. Í sumum bloggum er hamrað á því að fólk sé fífl. Það er ekki mín skoðun. Fólki er miseiginlegt að tjá sig í orðum, hvort sem þau eru skrifuð, töluð eða hugsuð. Það er samt enginn mælikvarði á gáfnafar þess. Vissulega getur vel verið að fólk sé misjafnlega gáfað og að jafnvel sé hægt að mæla það með einhverjum hætti. Hætt er samt við að sú mæling sé ónákvæm og mæli bara þá eiginleika sem höfundur mælikerfisins ákvað í upphafi.

Erfiðast af öllu í bloggi af því tagi sem ég stunda er að koma hlutum að. Einfaldast af öllu væri að blogga bara um það sem ég hef áhuga á. Það finnst mér samt vera alltof takmarkandi. Ég þykist jafnan vera að læra um leið og ég blogga. Sumir predika ævinlega þegar þeir eru að því, en ég hef ekki þá tilfinningu. Mér finnst ég læra mest sjálfur á því, sem ég blogga um.

IMG 2729Hús í Kópavogi.


1905 - Stjórnmál, blogg o.fl.

Já, ég kaus Borgaraflokkinn í síðustu kosningum og þannig má auðvitað segja að Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þráinn Bertelsson séu umboðsmenn mínir á alþingi. Þau réðu miklu um afdrif vantrauststillögunnar í dag. (Mánudag.) Ég er (eins og Birgitta Jónsdóttir) skíthræddur um að verið sé að semja um stjórnarskrána einmitt núna og sú tilraun dauðanum mörkuð. Held samt að mörg þeirra atriða sem þar eru frábrugðin núverandi stjórnarskrárákvæðum njóti mikillar hylli kjósenda.

Ég er þeirrar skoðunar, að meiri pressa verði á nýju alþingi, sem saman kemur í haust, ef það stendur frammi fyrir því, að samþykkja nýja stjórnarskrá eða hafna henni, en ef bara þarf að taka afstöðu til eins eða mjög fárra atriða (eða láta það alveg vera) eins og mér finnst tillaga ÁPÁ og félaga fjalla um.

Allar líkur eru á að einkum verði fjallað um stjórnarskrármálefni í þeirri kosningabaráttu sem í hönd fer. Mér finnst slagurinn standa um það hvort fjórflokkurinn (sem kallaður er) eigi að ráða eða fólkið. Vissulega eru álitamálin mörg, en mér finnst málið ekkert flókið. Fjórflokkurinn stendur saman um að reyna að fæla fólk frá því að kjósa útfyrir hann. 5% lágmarkið er sett af honum. Óþarfi er að láta slíkt fæla sig frá að kjósa samkvæmt bestu samvisku.

Sjálfur kem ég líklega til með að kjósa Píratana þrátt fyrir algjörlega misheppnað nafn. Þeir eru alls ekki talsmenn þess að fólk steli hugverkum, þó mælt sé með því að þau mál öll séu endurskoðuð. Mér finnst sá flokkur taka mun skynsamlegar en aðrir á byltingu þeirri sem internetið hefur valdið. Einnig er þar barist fyrir opnara samfélagi og vernd fyrir lítilmagnann. Það að Birgitta Jónsdóttir styður þann flokk hefur engin úrslitaáhrif á þessa skoðun mína.

Almennt eru tölur lygi. Við sjáum þetta vel ef ræður alþingismanna eru skoðaðar. Nefni þeir tölur máli sínu til stuðnings eru þeir næstum alltaf að blekkja eða ljúga. Auðvitað er hægt að ljúga án þess að nefna tölur og það er oft gert. Augljósast er þetta samt þegar menn hyggjast styðja mál sitt með tilvísun í einhverjar tölur og skýrslur. Kannski segi ég þetta bara af því að ég get aldrei munað tölur sjálfur og reyni frekar að styðja mál mitt með þverstæðukenndum fullyrðingum. Jæja, sleppum því.

Athugasemdir við bloggið mitt birtast fremur á fésbókinni en á blogginu sjálfu. Af þessu dreg ég þá ályktun að þeir sem heimsækja það komi fremur þaðan (eða af blogg-gáttinni), en af Mogganum sjálfum. Ég linka líka yfirleitt ekki í fréttir þar enda á ég erfitt með það því bloggin mín fjalla yfirleitt um hitt og þetta en það gera fréttaskrifin á mbl.is ekki. Stundum hef ég samt velt því fyrir mér hvort lesendum myndi ekki fjölga ef ég gerði það. Svo hef ég líka nýlega tekið uppá því að setja brot úr blogginu á fésbókina. Vona að engir hafi á móti því.

Helvítis Vísirinn. Hann uppnefnir mig og kallar mig „virkan í athugasemdum“. Það er argasta vanvirðing. Sennilega þýðir samt ekkert að fara fram á skaðabætur. Ég er þó allavega ekki virkastur þar. Hélt að ég slyppi.

Því fer fjarri að ég búi yfirleitt yfir „inside knowledge“ um pólitísk málefni. Vildi að ég gerði það. Þá mundi vera meira að marka þessi sífelldu stjórnmálaskrif mín. Má vera að samt sé alveg að marka þau að því leyti að ég er kannski að hugsa líkt og allir hinir andlitslausu kjósendur, sem sífellt er verið að höfða til.

IMG 2727Perlan o.fl.


1904 - Fjórflokkurinn

Vísindaleg þekking er ofmetin. Visindaleg þekking í dag byggist á því að sitja við sína tölvu og láta sig dreyma. Spila í mesta lagi enn og einn tölvuleik. Slík tegund af vísinalegri þekkingu kemur aukinni framleiðslu lítið við. Nei, það er ógeðslegt að vera innan um síprumpandi og sóðalegar kýr eða löðrandi í óhollri olíu við að gera við einhverjar úr sér gengnar vélar og telja sjálfum sér trú um að það geri eitthvað gagn. Þeim sem vinna ræktunar- og framleiðslustörfin fækkar alltaf meir og meir. Beljunum fækkar líka og grænmetinu og tilbúna matnum sömuleiðis. Að lokum tekst með harðfylgi að rækta uppskerubrest. Hann breiðist út og enn fjölgar vísindastörfunum. Þeir sem ætluðu á bændaskóla til þess eins að verða svolítið betri bændur breytast í sérfræðinga og þegar þeir eru búnir að fá leið á öllum nýjustu tölvuleikjunum fara þeir að glíma við excelið og langskólanámið og gengur bara vel. Sérfræðingunum fjölgar þar ört en framleiðslan eykst ekkert. (Nema í Kína.)

Mér finnst ég ekki þurfa að rökstyðja þá ákvörðun mína að kjósa engan af fjórflokknum að þessu sinni. Samkvæmt skoðanakönnunum er það samt svo að mjög margir munu kjósa í komandi kosningum eins og þeir eru vanir. Mér dettur ekki í hug að halda að það sé vegna einhverrar heimsku. Það ber frekar vott um að fólki finnst þetta brölt stjórnmálamannanna við stjórnun landsins ekki koma sér mikið við og því sé í raun sama hvernig því sé háttað. Nýjung eins og að spyrja fólk ákveðinna spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslum nýtur talsverðrar hylli í byrjun, en búast má við leiða á því líka með tímanum.

Hvað er þá til ráða? Er ekki nauðsynlegt að láta fólk hugsa um eigin hag? Það er nefnilega hægt að stjórna á marga vegu. Jafnvægi á milli þess að fólk hugsi fyrst og fremst um að bæta andlegt líf sitt og að bæta efnislegu velferðina er nefnilega grunnur flestra hagfræðikenninga. Hvort vill fólk í raun fremur andlega velferð eða líkamlega.

Á sama hátt og hægt er að segja að sjóða megi niður efni Íslendingasagnanna í eina setningu sem þá mundi hljóma einhvernveginn svona: „Bændur flugust á.“ Er auðvitað hægt að segja að grundvöllur allrar hagfræði og þar með stjórnmála hvíli á eftirfarandi setningu: „Hvort viltu heldur vera ánægt svín eða óánægður Sókrates?“

Auðvitað er þetta mikil einföldun. En eru ekki einfaldanir kjörorð dagsins? Er það ekki óhæfileg einföldun að halda því fram að „verðtryggingin“ sé undirrót alls ills og að nauðsynlegt sé til að ná óánægjufylgi til nýs flokks að setja áþreifanlega dúsu uppí svokölluð „hagsmunasamtök heimilanna“ til að komast á þing og hafa áhrif?

Nú er mánudagsmorgunn. Til tilbreytingar hefst sjónvarpið frá alþingi með umræðum um vantrauststillögu. Hún er flutt í bríaríi. Hefur ekki mikinn sjens á að verða samþykkt og er nánast flutt óvart. Samt verður víst að taka hana alvarlega. Jafnvel þó hún verði samþykkt eru það ekki mikil tíðindi. Ríkisstjórnin er hvort eð er að fara frá eftir smástund og það eina sem mundi gerast við þá samþykkt er að færa bóndanum á Bessastöðum tækifæri til að hræra í mönnum. Er þörf á því? Ég held varla.

Nú er að verða komið heilt „blaðsíðublogg“ þó ég hafi í rauninni ekki sagt neitt. Í því er ég algjör sérfræðingur svo nú er best að snúa sér að tölvuleik. (Ef ég finn einhvern).

IMG 2721Strompur við vöxt.


1903 - Fita

Æsingur fólks útaf því sem er að gerast á alþingi núna, er með mesta móti. Hvernig þessu lýkur öllu saman skiptir samt alls ekki miklu máli. Það sem skiptir mestu máli er hvernig úrslit kosninganna í apríl verða og hvernig spilast úr stjórnarmyndunarviðræðum eftir þær. Varðstaða XD við LÍÚ er að bila, á því er enginn vafi. Hvort stjórnarskráin verður samþykkt í heilu lagi eða í mörgum hlutum skiptir ekki neinu meginmáli. Að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé að minnka eru mestu pólitísku tíðindi aldarinnar. Kannski dreymir Davíð Oddsson enn um að verða bjargvætturinn mikli.

Einföld loforð um þá hluti sem mest eru í umræðunni virðast hafa mikil áhrif. Með því að lofa að taka verðtrygginguna og vanda heimilanna og henda á bak við sig hefur Framsókn tekist að auka fylgi sitt töluvert. Kannski er það bara skoðanakönnunarfylgi en sannleikurinn er sá að stundum skilar það sér á kjördag. Annars er langt ennþá til kosninga og fyrirkvíðanlegt að þurfa að búa við þessa vanstillingu þangað til.

Nú eru kaffibrúsakarlarnir víst komnir á kreik aftur. Í mínum huga gerðu þeir setninguna „hentu í mig hamrinum“, nánast ódauðlega. Það er samt ótrúlega misjafnt hvað fólki er minnisstætt, það hef ég oft rekið mig á. Alls ekki er víst að margir setji þessa setningu sérstaklega í samband við þá.

Yfirburðir Bandaríkjanna felast einkum í því hvað aðrir heimshlutar leyfa þeim. Sú skuldasöfnun sem þar fer fram getur ekki staðist endalaust, en er á meðan er. Evrópa reynir á margan hátt að koma vitinu fyrir þá, en ræður ekki við það einsömul og óstudd. Við Íslendingar erum lítið peð á alþjóðasviðinu en tilheyrum Evrópu og Norðurlöndunum miklu fremur en Bandaríkjunum og erum sem betur fer á áhrifasvæði hins Vestræna heims.

„Líkaminn byrjar ekki að brenna fyrr en fyrsta máltíðin er komin í magann og er það beinlínis fitandi að sleppa því að borða morgunmat.“

Ég veit að ég er tregur, en ég skil ekki svona röksemdafærslu. Þetta sá ég nýlega á netinu og á einhverjum stað sem ég treysti sæmilega. (einkunn 6-8) Ég er yfirleitt lystarlítill á morgnana og hef alltaf verið. Af hverju er það beinlínis fitandi að sleppa morgunmatnum? Þessa fullyrðingu hef ég aldrei skilið. Af hverju er það betra að líkaminn brenni einhverju nýétnu, en nýti ekki afganga? Eru kannski engir afgangar? Ég er ekkert að tala um að það sé kannski betra og fullkomnara að brenna einhverju sem nýlega er komið í magann. En af hverju er fitandi að gera það ekki? Kannski er ekki mikil eftirspurn eftir orku í líkamanum á kvöldin svo búast megi við að hún sé aðallega sett í fitusöfnun. Það er helsta skýringin sem mér dettur í hug. En hvaðan kemur þá morgunorkan?

Eitt af því sem fésbókin hefur framyfir sum svipuð fyrirbrigði er að kramar-auminginn nýtur þar sama réttar og forseti Íslands og allir geta farið í fýlu þar og verið í henni eins lengi og þeir vilja eða nenna. Þetta er á margan hátt helsti kostur netsins. Með því að heimta að allir geri grein fyrir sér og segi hverjir þeir eru, er þetta atriði gert alveg máttlaust. Gallar fylgja því að sjálfsögðu að viðhalda þessu, en mér finnst menn eiga að geta forðast gallana án þess að henda öllu kerfinu.

IMG 2719Miðbær Kópavogs.


1902 - Meira um stjórnarskrána

Já, ég er hlynntur nýrri stjórnarskrá, þó ég viti ekki nákvæmlega og út í hörgul hvernig hún er. Það er að vísu illskiljanlegt hve lengi hún var hjá þeirri nefnd á alþingi sem fjallaði um hana áður en hún var lögð fram á alþingi. Það og athugasemdir hæstaréttar við upphaflegu kosningarnar er það eina sem hægt er að setja útá varðandi málsmeðferðina. Auðvitað eru svo einstök ákvæði í henni sem ég er ekkert sérlega sáttur við, en við því er ekkert að gera. Aldrei verður gert svo öllum líki.

Mér finnst með öllu ástæðulaust að ég tíni til öll jákvæðu atriðin varðandi gerð stjórnarskrárinnar því þau eru svo mörg. Ekki finnst mér heldur ástæða til að tína til öll þau atriði sem athugaverð eru við þá gömlu. Það er hægt að halda því fram að hún hafi enst okkur bærilega og ekki sé hægt að benda á einstök atriði í henni sem hafi beinlínis valdið Hruninu. Gömul og gölluð er hún þó, því verður alls ekki á móti mælt.

Valdið til breytinga á henni er eitt mikilvægasta ákvæðið í henni. Hingað til hefur alþingi eitt haft þennan rétt og breytt henni oft, en einkum í eigin þágu. Þjóðin hefur aðeins komið óbeint að því máli. Tækifærið til að fá alþingi til að fallast á að deila þessum rétti með þjóðinni er einmitt núna. Takist það ekki er óvíst að það tækifæri komi aftur í bráð.

Tillaga Árna Páls og félaga fjallar um að hætta við að reyna þetta. Sú tillaga hlýtur að vera sprottin af ótta við væntanleg kosningaúrslit og stjórnarmyndun eftir þær kosningar. Satt að segja er stjórnarskráin mikilvægari en öll kosningaúrslit og einstakir þingmenn.

IMG 2715Ástu Sólliljugata (sjá skilti).


1901 - Stjórnarskráin

Sennilega er Gumma Steingrímsblaðran sprungin. Líklega hefði þeim verið nær að setja Jón Gnarr ofar á listann. Breytingin frá borgarmálefnum yfir í landsmálin tekst samt ekki nærri alltaf. Um það getur Ingibjörg Sólrún eflaust vitnað. Eina ályktunin sem ég dreg af síðustu atburðum er að styðja ekki fjórflokkinn undir neinum kringumstæðum og þó Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall vilji kalla sig menn bjartrar framtíðar hugsa ég um þá á mjög svipaðan hátt.

Verulegur hiti virðist vera að færast í stjórnmálin núna á lokasprettinum og er það að vonum. Mér finnst tillöguna um vantraust á ríkisstjórnina skorta allan tilgang. Tilvera hennar ein (ekki hugsanleg samþykkt) virðist eiga að hræða fólk frá því að fresta afgreiðslu stjórnarskárinnar. Verði stjórnarskráin samþykkt í heilu lagi núna, eins og margir virðast vilja, setur það mikla pressu á næsta þing um að gera það einnig. Jafnvel er hugsanlegt að svo verði þó andstæðingar nýju stjórnarskrárinnar sigri í kosningunum.

Útlit er fyrir að þingmennirnir þurfi fljótlega að taka ákvörðun um hver örlög stjórnarskrármálið á að fá. Sú ákvörðun gæti haft áhrif á kosningarnar í vor. Annars er sá helsti lærdómur sem virðist mega draga af skoðanakönnunum þeim sem birtar hafa verið undanfarið að sveiflurnar séu stærri en venjulega. Það gæti bent til þess að áhugi almennings á stjórnmálum hafi aukist með Hruninu.

Veðrið hefur leikið höfuðborgarbúa nokkuð grátt undanfarið. Eina huggun þeirra er að ekki er líklegt að snjór og frost verði viðvarandi úr þessu. Vorið kemur einhverntíma. Nú er klukkan rúmlega átta á fimmtudagsmorgni og næstum orðið albjart. Svolítið rok virðist vera og fremur kalt en þó alls ekki afleitt veður.

Já, það er með ólíkindum hvað ég er duglegur að blogga. Og það án þess að segja nokkuð merkilegt. Eiginlega er þetta bara rabb hjá mér. Sjálfum finnst mér þó að ég hafi skoðanir á flestu. Aðrir eru bara ekki sammála mér. Hef líka dálitla andsyggð á því að menn taki stærra uppí sig en ástæða er til. Þeir sem „virkir eru í athugasemdum“ gera það þó oft. Sjálfur er ég ekki mjög virkur í athugasemdum en forðast þær samt ekki með öllu. Athugasemdir við bloggið mitt eru yfirleitt fremur fáar núorðið. Veit ekki hvort ég á að gleðjast eða hryggjast yfir því. Allmargir virðast þó lesa það ef trúa má Moggabloggstölunum.

Man vel eftir því þegar ég kynntist tölvum og tölvuleikjum fyrst. Það hefur verið fyrir 1978. Kynntist þeim þó betur eftir 1980. Það fyrsta af slíku tagi sem ég man eftir var einskonar borðtennisleikur sem leikinn var á sérstakri leikjatölvu. Eftir 1980 komu síðan „Space Invaders“ og „Pacman“. Man vel eftir ævintýraleiknum „Pirate Cove.“ Man síðan vel eftir „Wolfenstein, Tetris, Doom, Donkey Kong“ og mörgum fleiri. Umfjöllun og jafnvel afrit af öllum þessum leikjum og mörgum öðrum er á Internetinu.  Hef bara ekki skoðað það.

Sennilega er erfitt að komast lengra í öfga-hægrinu en Jón Valur Jensson gerir. Svona fer hann að því komast hjá athugasemdum:

Nafnlausar athss. ókunnra verða fjarlægðar af þessum vef, einnig dónalegar eða óheflaðar persónuárásir, guðlast, landráðatillögur og árásir á lífsrétt ófæddra. Athss. fjalli um mál vefsíðu. Áskil mér rétt t.a. gera hlé á umræðum frá miðnætti.

Eflaust hafa einhverjir verið að bögga hann, en það er vel hægt að losna við hrekkjalóma með öðrum hætti en þessum. Einu sinni var ég bloggvinur Jóns þessa og hann hefur svosem skrifað í athugasemdadálkinn hjá mér. Margt fleira er einkennilegt á Moggabloggsvef hans og ég hvet þá sem hafa áhuga á honum til að kíkja þangað.

IMG 2712Leið milli Dalbrekku og Auðbrekku.


1900 - Nítján hundruð

Já, þetta er víst blogg númer 1900. Ekki er ég að hugsa um að halda neitt uppá það. Furða er samt hvað ég hef haldið þessu lengi áfram. Samkvæmt heimildum þeim sem aðgengilegar eru hér á Moggablogginu hef ég skrifað mitt fyrsta blogg þar í desember árið 2006. Fyrir þann tíma hafði ég gert lítilsháttar tilraunir með bloggskrif, en þau eru að mestu marklaus og týnd. Finnast kannski á „pitas.com“. Númeringin er mitt einkenni og ég get ekki hætt.

Nú er ég semsagt að lesa það sem ég veit að enginn annar er að lesa. Nefnilega gömlu bloggin mín. Assgoti hef ég skrifað vel þá. Held að mér hafi bara farið aftur síðan.

Samkvæmt frétt á RUV.IS hefur Halldór Gunnarsson í Holti sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum og segir eftirfarandi í yfirlýsingu:

„Það er því með eftirsjá og hryggð, að ég kveð flokkinn, vegna þess fólks, sem ég hef átt samleið með lengi. Þau hafa verið misnotuð til varðstöðu um hagsmuni auðs og valds í landinu, eins og ég fram að þessu, síðustu ár. Ég kveð því minn gamla flokk, sem er orðinn annar flokkur.“

Við þetta er engu að bæta.

Mitt álit á Íslandssögunni er í stuttu máli þannig: Sturlunga er eins og besta glæpasaga nútímans. Atburðirnir þar eru sannir og lítið færðir í stílinn. Auðvitað fjalla atburðirnir þar einkum um upplifanir skrásetjara af þeim. Íslendingasögurnar gerast flestar svona þrjúhundruð árum fyrr og eru mikið færðar í stílinn, þó sennilega séu einhver sannindi að baki þeim.

Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar er í mínum huga aðalrit Sturlungu. Flestar Íslendingasagnanna eru skrásettar á svipuðum tíma og sú bók er rituð. Eftir Sturlungaöld og ritunartíma Íslendingasagnanna fer íslensku þjóðlífi mjög aftur og Íslendingar eru við hungurmörk framundir lok nítjándu aldar. Þá fer að rofa eilítið til og Þórbergur kemst á skútu. Svo kemur blessað stríðið sem reyndar er í tveimur hlutum.

Óli Gneisti Sóleyjarson spurðu útí Sturlungu á fésbók. Sennilega er fróðleikur minn um Sturlungu heldur meiri en venjulegt er. Ætlaði að svara Óla Gneista með því að tala eitthvað um þríleik Einars Kárasonar um efni úr Sturlungu en gat ómögulega munað hvað fyrsta bókin hans hét þó ég myndi vel um hvað hún fjallaði. Nafnið á henni kom ekki upp í hugann fyrr en nokkru seinna. Bækurnar heita: Óvinafagnaður, Ofsi, og Skáld. Ég á enn eftir að lesa þá síðustu en hún mun einkum fjalla um Sturlu Þórðarson. Að sjálfsögðu hef ég lesið „Ofsa“ sem fjallar um Eyjólf Ofsa og Flugumýrarbrennu. Einnig hef ég lesið „Óvinafagnað“ sem er aðallega um Þórð Kakala og aðdraganda Flóabardaga.

Satt að segja finnst mér einkennilegt að fólk skuli ekki hafa helstu atburði Sturlunga-aldar á hraðbergi. Það sem þá gerðist er einstakt í Íslandssögunni. Segja má að þá  hafi eina borgarastyrjöldin sem háð hefur verið á Íslandi átt sér stað. Auðvitað er ekki hægt að láta það sem gerðist á þrettándu öld vísa sér mikið veginn í stjórnmálum dagsins, en samt.

Nóg efni er þar enn að finna, þó Einar Kárason hafi gert fáeinum atburðum þaðan nokkur skil í skáldsöguþríleik sínum. Þekking þjóðarinnar á efni sem tengist Íslendingasögunum og Sturlungaöld er áreiðanlega allmikil.

Af yngri höfundum, sem hafa sótt sér efni þangað, finnst mér einkum bera að  nefna Ármann Jakobsson sem með skáldsögu sinni „Glæsi“ hefur  haslað sér völl þar svo eftir er tekið. Því miður á ég eftir að lesa þá sögu.

Þeir sem ekki nota gleraugu að staðaldri eiga kannski erfitt með að gera sér í hugarlund hve nauðsynlegt getur verið að þekkja í sundur í (lélegri) sjónhendingu lesgleraugu og venjuleg gleraugu. Þetta þarf ég samt að búa við og eftir talsverðar tilraunir hef ég komist að því að rörateip hentar ágætlega til slíkra merkinga.

IMG 2710Auglýsingabás eða strætóskýli.


1899 - Líf ríkisstjórnarinnar í lausu lofti

Ég sé fram á þýðingarmikla umræðu og sennilega atkvæðagreiðslu í þinginu á morgun miðvikudag. Um hvað hún verður nákvæmlega veit ég ekki. Líf ríkisstjórnarinnar og stjórnarskrármálið allt verður hugsanlega undir í þessari atkvæðagreiðslu.

Svo virðist sem ágreiningur sé mikill í Samfylkingunni og e.t.v. fleiri flokkum. Sagt er að Ásta Ragnheiður forseti þingsins, Árni Páll Árnason formaður flokksins og Kristján Möller fyrrverandi samgönguráðherra séu andvíg stjórnarskármálinu og ætli að koma í veg fyrir að það verði samþykkt.

Miðvikudagurinn í þessari viku verður semsagt spennandi. Allavega verður sjónvarpsútsendingin frá þingfundinum þá meira spennandi en venjulega. Sá einhversstaðar að kosningarnar verði 27. apríl. Ekki nenni ég að halda mig á háa C-inu þangað til. Einhverjir gera það samt og ég vorkenni frambjóðendum og þingmönnum það ekkert. Árni Páll ætlar að funda með einhverjum háttsettum fjórflokksmönnum í dag (þriðjudag) og búast má við að sá fundur skipti máli fyrir pólitíska framtíð hans.

Kannski skiptir hann líka máli fyrir fleiri, en ekki fyrir mig eða nokkuð marga sem ég þekki. Undir engum kringumstæðum mun ég kjósa þetta hyski í komandi kosningum. Þvert um geð er mér einnig að kjósa ekki.

Ætli ég taki mig ekki bara til og kjósi Pírataflokkinn hennar Birgittu. Þar eru stefnumálin nokkuð á hreinu. Ný stjórnarskrá, breytingar á höfundalögum, opin stjórnsýsla, þjóðaratkvæðagreiðslur og óhamið Internet. Veit ekkert hvort þar er einhver ESB afstaða og ætla ekki að spyrja. Hagsmunasamtök heimilanna kannast ég ekkert við og hef aldrei heyrt nefnd á nafn.

IMG 2706Ekki er hægt að fara upp tröppur á reiðhjólum.


1898 - Árni Páll

Fyrir allmörgum áratugum síðan heyrði ég fyrst af merkilegri tillögu varðandi alþingiskosningar. Hún var sú að kjósendur fengju það kostaboð að geta (í stað fjórflokksins) fengið að kjósa auða stóla á alþingi. Sjálfkrafa væru þeir að móti öllu. Ekki man ég útfærsluna nákvæmlega, en hugmynd er þetta.

Einhvernveginn þarf að losna undan ofurvaldi þeirra afla sem ráða í flokkunum. Búið er að ganga þannig frá málum að smáflokkar eiga svotil enga möguleika til neins. Þeir sem óánægðir eru með fjórflokkinn sameinast aldrei. Þessvegna var óhætt að stöðva og eyðileggja kvótafrumvarpið (með aðstoð Steingríms) og nú er Árni Páll notaður til að eyðileggja tilraunina með nýja stjórnarskrá. Að mörgu leyti er þetta leiftur liðinna tíma. Er Árni Páll ekki bara að máta sig við Davíð og Halldór?

Ef annað bregst er alltaf hægt að etja saman landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Það læknar víst flest mein og aldrei verður fullkominn jöfnuður þar frekar en annarsstaðar.

Vel er hugsanlegt að næstu dagar verði spennandi fyrir þá sem stjórnmálaáhuga hafa. Ríkisstjórnin gæti fallið og allt mögulegt gerst. Árni Páll er greinilega að taka mikla áhættu með leifturárás sinni á hina flokkana. Hugsanlega telur hann sig hafa engu að tapa og kannski er það rétt hjá honum.

Jónas segist miða við 140 slög. Ég geri þó heldur betur. Málsgreinarnar eru fleiri og stundum dálítill fita á þeim. Þeim mun styttri sem þær eru því betra.

RUV virðist hafa ákveðið að taka orðaleppinn „fasbók“ uppá sína arma. Sennilega er þetta of seint hjá þeim. Í munni unga fólksins heitir fyrirbrigði þetta „facebook“ (borið fram feisbúkk). Þeir sem endilega vilja þýða nafnið kalla það flestir „fésbók“. Sennilega fer líkt fyrir þessu orði og „alnetinu“ alræmda. Kannski er þýðingarsóttin þýðingarlaus.

Það er dýrt að draga andann og eftir nýjustu fréttum að dæma er líka dýrt að hætta því. Sagt er að það kosti margar milljónir að drepast. Vitanlega á ég við útfararkostnað o.þ.h. Verður maður ekki að hugsa um það líka? Og svo eru læknarnir svotil ekkert farnir að græða á mér ennþá.

Að hlusta á þriggja ára afastelpuna mína söngla fyrir munni sér illskiljanlegan texta sem hún býr til jafnóðum og er auðvitað tómt bull, færir mér heim sanninn um að íslenskan er ekki það viðkvæma og brothætta blóm sem margir vilja meina. Hún þolir alveg að henni sé misþyrmt og farið með hana eins og hverja aðra útlensku. Réttritun er bara handverk. Ef fólk talar skiljanlega íslensku eru því allir vegir færir.

IMG 2704Að senda steypu upp í loftið – 2.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband