1916 - Nesjavellir

Umræða um skattaskjól og lögleg undanskot fjölþjóðlegra stórfyrirtækja frá skattheimtu hefur verið allmikil að undanförnu. Þetta er ekki nýtt og sérstakar deildir hjá flestum stórfyrirtækjum sjá um að finna heppilegustu og vænlegustu leiðirnar til að greiða eins litla skatta og mögulegt er. Heilmikið hugmyndaflug og mannvit er oft fólgið í þeim aðferðum. Með þessu er ekki aðeins það land þar sem starfsemin fer fram svikið um sinn eðlilega skatt heldur er skapað með þessu forskot fyrir stórfyrirtækið gagnvart þeim fyrirtækjum sem minni eru og starfa kannski bara í einu landi eða mjög fáum.

Ef til vill er það alvarlegasti hluti málsins. Alþjóðlegu stórfyrirtækin stjórna að miklu leyti heiminum í dag og hafa áhrif á lagasetningu bæði hjá stórum þjóðum og smáum. Þó margskyns hópar berjist gegn þeim af alefli hefur það lítil áhrif því stuðningsmenn fyrirtækjanna eru bæði betur að sér og margfalt fleiri. Þurfa oft á tíðum að hugsa um atvinnu sína og eru mótsnúnir þeim sem andmæla aðferðunum.

Vissulega má kalla þetta þrælahald nútímans þó allt aðrar aðferðir séu stundaðar nú en fyrir öldum síðan. „Þrælarnir“ hafa það sumir ágætt peningalega og alþjóðlegu fyrirtækin eru oft það stór að þau eiga erfitt með að ljúga eftirá og þó erfitt sé að ná upplýsingum þaðan tekst það stundum og þá blasir gjarnan ófögur mynd við.

Völd pólitíkusa eru sífellt að minnka og völd hverskyns þrýstihópa aukast stöðugt. Fjölþjóðlegu fyrirtækin ráða löggjöf í heiminum að mestu leyti, en þingmenn ekki, þó þeir haldi það e.t.v. Almenningsálitinu ráða allskyns þrýstihópar og því ráða þeir gjarnan með því að kunna sem best á internetið og semja forrit fyrir það. Sennilega gera fæstir sér grein fyrir veru sinni í þrýstihóp. Mér finnst ég t.d. ekki vera í neinum. Einhverjir kynnu samt að álíta að svo sé og ekki get ég gert að því.

„Akureyringar loka þjóðveginum“ kallast grein á Smugunni. Það á víst að vera einhverskonar svar við umræðunni um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Mér finnst greinin ekkert sérlega fyndin. Hingað til hafa bæjafélög sóst eftir því að hafa hringveginn sem næst sér. Man ennþá eftir skaðabótunum sem Ingólfur á Hellu (sem e.t.v. var samgöngumálaráðherra þá) fékk fyrir kaupfélagið Þór afþví að þjóðvegurinn var fluttur frá bænum. Hvergerðingar fengu einnig smábeygju fyrir neðan Kambana með því að rövla svolítið. Blönduósingar mega ekki til þess hugsa að hringvegurinn verði styttur umtalsvert því þá má búast við því að þjóðvegasjoppurnar þeirra missi spón úr aski sínum. Ef hægt væri að fara með hringveginn dálítið langt frá Akureyri væri það eflaust mjög þjóðhagslega hagkvæmt.

Einhverntíma þegar ég vann á Stöð 2 fórum við í gönguferð frá Nesjavöllum til Hveragerðis. Líklega var það að minni tillögu því ég hafði farið þessa leið áður. Skömmu eftir að við fórum frá Nesjavöllum (fórum þangað bílandi að sjálfsögðu) datt kona ein í ferðinni og fótbrotnaði. Einn úr hópnum hljóp þá að Nesjavöllum eftir hjálp. Hann kom fljótlega aftur og sagði að þyrla mundi koma fljótlega og sækja konuna. Þá var ráðslagað um hvað gera skyldi. Úr varð að ég varð eftir hjá fótbrotnu konunni. (M.a. vegna þess að ég hafði farið þessa leið áður.)

Skömmu síðar kom þyrlan og björgunarsveitarmenn eftir konunni og mér var boðið far í bæinn. En ég þáði það ekki heldur hljóp á eftir hópnum og náði honum að mig minnir við hverasvæðið á Ölkelduhálsi. Kannski var ég ekki einsamall hjá fótbrotnu konunni en allavega var ég sá eini sem hélt áfram til Hveragerðis eftir að þyrlan kom.

Þegar við komum til baka fórum við af einhverri ástæðu öll uppá Stöð 2. Þar var Eiríkur Hjálmarsson (sem nú er blaðafulltrúi Orkuveitunnar) að koma út af fréttastofunni og við sögðum honum ferðasöguna í stuttu máli. Man að ég sá að hann velti fyrir sér hvort ástæða væri til að gera sjónvarpsfrétt um málið. En það var ekki gert.

IMG 2855Falleg skófla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband