1911 - Stjórnmál o.fl.

Furðumargir á fésbók virðast halda að sóðalegt og dónalegt orðbragð sé eitthvert sérstakt stílbragð sem valdi því að orð þeirra hafi meiri vigt en ella og að með því ávinni þeir sér virðingu annarra. Kannski ávinna þeir sér stundarvirðingu og aðdáun einhverra sem hugsa á líkan veg. Annars er óþarfi að vera að fjölyrða um þetta, orðbragðið dæmir sig sjálft. Með kurteislegu hjali er svosem hægt að gera hvað skoðanir sem er, hversu fáfengilegar, andfélagslegar eða glæpsamlegar sem þær eru, eftirbreytniverðar í augnablik. Þegar tangarhaldi höfundar sleppir og hugsun tekur við hjá lesandanum er samt hætt við að því augnabliki ljúki.

Að sumu leyti er það galli hve margir eru teknir uppá því að skrifa um allan fjárann á fésbókina og víðar. Samt er rangt að fordæma þann nýja sið eða gera hann hlægilegan með aðfinnslum. Eiður Guðnason fer næstum yfir strikið með smásmugulegum leiðréttingum og á stundum vafasömum orðskýringum. Virða má þó Eiði það til vorkunnar að hann einbeitir sér að útbreiddum fjölmiðlum. Strangar kröfur til allra eru einfaldlega fordæmanlegar. Segja má að þær séu argasti fasismi. Einn af aðalkostum Internetbyltingarinnar, sem margir þekkja og virða, er einmitt sá að mun fleiri en áður taka þátt í allskyns skoðanaskiptum þar. Það er ekki nema heilbrigt og þá breytingu á alls ekki að reyna að losna við.

Pólitíkin er stórfurðuleg um þessar mundir. Óvíst er með öllu, sýnist mér, hvernig og hvenær alþingi lýkur. Helsta kosningamálið gæti orðið stjórnarskrárbreytingar og það gæti aftur valdið því að minna verði að marka þær skoðanakannanir sem undanfarið hafa verið birtar. Þeir flokkar sem á einhvern hátt véla um það mál á síðusu metrunum (erfitt að komast hjá því) hljóta að bera einhverja ábyrgð á því hvernig því verður hent í kjósendur, því hent þangað verður því.

Á margan hátt finnst mér Hrunið hafa verið svo einstæður atburður að vel sé réttlætanlegt að endurskoða stjórnarskrána vandlega og stjórnarfarið allt í framhaldi af því. Mér finnst ekkert sérstök meðmæli með þeirri gömlu að hún sé bara gömul. Get ekki séð að hún hafi valdið því að neinu leyti samt og alls ekki komið í veg fyrir það.

Það er hálfilla gert að gera ræðustól alþingis að einskonar útibúi frá Morfís. Svo virðast þessir vesalingar halda að þeir séu að gera eitthvert gagn. Satt að segja er það furðulegt (ef rétt er hjá Jónasi) að ekki skuli vera hægt að fá 9 þingmenn til að flytja dagskrártillögu um að hætta þessari málþófsvitleysu og gera eitthvað af viti. Já, ég hef sagt það áður að ég sé meðmæltur því að kjósa um stjórnarskrána núna áður en þingmenn fara í páskafrí. (Og endanlegt frí – sumir a.m.k.)

IMG 2818Blóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband