1915 - Edison, Tesla og Houdini

Lítil spurning er að Árni Páll hefur leikið alvarlega af sér. Það er eins og hann hafi lagt alla sína orku í að telja Katrínu Jakobsdóttur á sitt mál. Hefði hann (eða þau öll) fengið stuðning Framsóknar við auðlindaákvæðið og Sjálfstæðismanna við ýmis önnur ákvæði nýju stjórnarskrárinnar auk þess að ræða betur við sína flokka, og lagt fram tvö mál, er ekki víst að mál væru komin í þann hnút sem þau virðast vera í núna. Annars hef ég þá trú að þessi mál leysist. Undarlegt hjá þeim að halda að nóg væri að undirrita eitthvað og allir mundu hlýða eins og var á dögum Davíðs og Dóra.

Tilraununum með Árna Pál og Bjarna Benediktsson lýkur sennilega fljótlega eftir næstu kosningar. Hanna Birna tekur þá við af Bjarna. Það er nokkuð augljóst. Sé ekki hver getur tekið við af Árna Páli. Ekki er víst að Samfylkingin eigi neinn góðan kost þar og liðist einfaldlega í sundur. Katrín Júlíusdóttir gæti þó komið til greina. Vel getur verið að Katrín Jakobsdóttir spjari sig hjá Vinstri grænum. Leiðinlegt held ég þó að sé fyrir hana að hafa Steingrím sífellt vokandi yfir sér.

Ég er tortrygginn að eðlisfari. Jafnvel mjög tortrygginn. Svo tortrygginn er ég þó ekki í pólitík að ég hræðist mjög að semja við þjóðir sem líkastar eru okkur um þjóðlíf allt og menningu. Margir eru það samt og vilja reyna í staðinn að semja við þjóðir sem lengst í burtu eru og ólíkastar okkur um alla hluti.

Sá áðan smáhluta af sakamálaþætti í sjónvarpinu – nennti ekki að standa upp. Castle held ég hann heiti. Geri yfirleitt lítið af slíku. Rifjaðist upp fyrir mér og ég skildi allt í einu hvað er einkennandi fyrir þann óraunveruleika sem einkennir þannig þætti. Fólkið talar alltof hratt. Þau eru á glæpavettvangi (fjöldi fólks) og koma með gáfulegar athugasemdir (rosalega gáfulegar virðist vera) svo hratt að næsti maður á undan nær varla að klára sína replikku. Kvikmyndir eru oft betri. Skárri leikur. Leiðinlegar samt. Ritað mál er best. Er vanastur því. Þá getur maður látið hugann reika, en er ekki í viðjum leikstjórans.

Já, ég er búinn að skila skattframtalinu, eða það held ég a.m.k. Var fljótlegt. Fyrst fór ég á rsk.is og sagðist hafa týnt lyklinum frá skattstjóra. Fór síðan í heimabankann minn og fann lykilinn þar og fór aftur á rsk.is vopnaður lyklinum og þurfti tvisvar að tilgreina hann. Í seinna skiptið í lokin þegar ég var búinn að samþykkja allt. Skora á alla að draga þetta ekki. Vona bara að ég hafi ekki verið lokkaður í einhverja árans gildru. Sú var tíðin að skattframtal hvers árs var mikill höfuðverkur. Svo er ekki núna sem betur fer. Finnst hampaminnst að játa öllu ef tölurnar eru ekki alveg útúr kú.

Las nýlega ævisögu Harrys Houdinis á kyndlinum mínum. Man að ég las einhverntíma í fyrndinni ævisögu hans (eða sjálfsævsögu) og hreifst mjög af henni. Sennilega hefur sú bók haft talsverð áhrif á mig. T.d. hef ég aldrei getað litið á miðla nema sem algjöra svikara eftir lestur þeirrar bókar. Nú er ég að lesa þar (í kyndlinum) ágrip af sögu Tómasar Alva Edisons og Nicola Tesla. Það er eitt og sama fyrirtækið sem gefur þessar bækur út og hefur gefið út mikinn fjölda ævisagna og annarra rafbóka. David Rivers Editors minnir mig að það heiti.

Skelfilegur ófriður er alltaf í símanum útaf þessum eilífu tilboðum sem maður er að fá þar, án þess að hafa beðið um þau. Kannski hef ég samt gert það óvart, enda er sending SMS smáskilaboða að verða viðurkennd markaðsaðferð – hlýtur að vera. (Hræðileg þó.) Get varla á heilum (eða hálfum) mér tekið fyrir að hafa samþykkt þessi ósköp.

IMG 2849Blokkir við Skúlagötu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tesla og Edison.

Eru svona svipaðir og Wozniak og Steve Jobs í mínum huga. Tesla og Wozniak snillingar sem fáir þekkja.

Edison og Steve Jobs Góðir í að eigna sér hugmyndir annara.

Annars held ég að Tesla hafi nú verið meiri snillingur en Wozniak.

Benni 22.3.2013 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband