1913 - Mannlíf

Jú, ekki ber á öðru. Mannlíf er ókeypis á netinu. Ekki er samt öruggt að það verði lengi. Búinn að fletta nýjasta tölublaðinu frá þessu ári og lesa viðtal við Stefán Jón Hafstein. Það var Einar Kárason sem tók það eins og viðtalið við Margeir Pétursson sem ég sagði frá um daginn að mig minnir. Það er einfaldast að fara á birtingur.is eða á Moggablogið hans Ómars Ragnarssonar til að skoða þetta. Annars var linkurinn sem ég notaði þessi: http://issuu.com/birtingur/docs/mannlif1tbl2013x?mode=window&viewMode=doublePage og auðvitað má vel nota hann.

Það stefnir í að flest blöð komi á netið, en satt að segja á ég varla von á því að íslensk blöð verði til langframa ókeypis. Einu sinni fór ég oft á http://www.salon.com/ en er að mestu hættur því núna. Annars er þetta ágætis blað og áreiðanlega er http://www.time.com/time/ ekkert verra. Best er að sjálfsögðu að lesa bara bloggið mitt. Það má ég náttúrulega ekki auglýsa, en geri samt á fésbókinni.

Heldur er leiðinlegt þetta sífellda fjas á alþingi. Augljóst er að þjóðin vill fá að ráða sínum málum meira sjálf en tíðkast hefur. Alþingi hefur brugðist henni. Ríkisstjórnin að sumu leyti líka. Hrunið hefur farið illa með hana og hún veit eiginlega ekki sitt rjúkandi ráð. Ekki er samt fullvíst að öruggur meirihluti sé fyrir því að taka upp nýja stjórnarskrá sem er nákvæmlega eins og sú sem verið er að ræða um núna á þinginu. Einhvern vegin verður samt að ljúka þessu og það verður áreiðanlega gert. Líklega kem ég ekki til með að hafa nein áhrif á hvernig farið verður að því, en margir eru þeir samt sem virðast halda áhrif sín mikil. Hvernig þjóðin hugsar, stjórnarfarslega séð, kemur líklega í ljós í kosningunum í vor.

Fór á bókasafnið í dag og fékk þar m.a. nýlegan Skírni og eina grein er ég búinn að lesa þar. Hún var náttúrulega eftir Einar Kárason og þar vill hann meina að Njála hljóti að vera eftir Sturlu Þórðarson. Rök hans fyrir því eru nokkuð sannfærandi. Hann vitnar svolítið í Helga á Hrafnkelsstöðum og ég man eftir að hafa hitt Helga eitt sinn á strætóstoppi fyrir utan Lynghaga 17. Þá sagði hann mér það í óspurðum fréttum að þetta væri í fyrsta sinn sem hann væri í Reykjavík á kosningadag.

Með tímanum hættir maður alveg að muna hvern grefilinn maður setti á bloggið sitt og er jafnvel farinn að óttast að sumir, sem hugsanlegt er lesi allt sem maður setur þar, séu farnir að þekkja mann of vel. Sá ótti er þó vonandi ástæðulaus því maður getur ansi lengi huggað sig við það að einhverjir hljóti að vera verri en maður sjálfur.

Það er beinlínis líklegt að það dragi dilk á eftir sér fyrir fréttamenn 365 að bjóða Jóni Ásgeiri byrginn. Hann er ekki vanur að láta aðra eiga neitt hjá sér. Losar sig við menn „alveg hægri vinstri“ svo notað sé auglýsingamálfar og sannar með því að fátt er auðveldara en að fá menn til að segja upp vinnu. Hann getur þó ekki losað sig við mig, því ég er nefnilega ekki í neinni vinnu – ha – ha. Bíð bara eftir að drepast eins og fleiri á mínum aldri og rísla mér við bloggskrif á meðan.

Þingfundur á að hefjast núna klukkan hálfellefu og líklegast er að haldið verði áfram þar sem frá var horfið í gær. Við málþófsréttinum verður ekki hróflað. Þó þingmenn séu í hjarta sínu sammála um að hrófla heldur ekki við stjórnarskránni (því hún tryggir völd þeirra eins og nú er) má búast við að þeir þurfi að verja þá afstöðu fyrir kjósendum. Tími þeirra núna fer einkum í að hugsa upp ráð til þess.

IMG 2822Ómarktækt skilti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband