Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

1858 - Prag

Það eru bara 2 góðir ræðumenn á alþingi um þessar mundir. Þeir heita Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Og það er alveg sama hve miklu moldviðri og einelti framsóknarmenn og sjálfstæðismenn beita, þeir komast ekki framhjá þeirri staðreynd.

Reyndar er alveg óvíst að það skipti nokkru máli varðandi önnur störf hversu góðir ræðumenn þeir eru. Jóhanna Sigurðardóttir er t.d. nokkuð séður stjórnmálamaður en það er Bjarni Benediktsson alls ekki. Ég hélt lengi vel að Illugi Gunnarsson væri gáfaður, en missti alla trú á honum þegar hann tók upp málþófsstælana fyrr í vetur. Held að talsverð breyting verði á alþingi eftir næstu kosningar, en að öðru leyti finnst mér ekki taka því að tjá mig mikið um stjórnmálaástandið.

Það sem mig langar mest til í sambandi við bloggið er að einbeita mér að einhverju ákveðnu og sjá kannski einhvern árangur af því. Það er bara ekki í boði því mér finnst svo gaman að láta móðann mása um allt mögulegt. Þó finnst mér þeim málum fara sífellt fækkandi sem ég hef raunverulegan áhuga á. Áður fyrr hafði ég áhuga á næstum öllu.

Mest langar mig til að skrifa um bækur. Það er bara svo erfitt því fyrst þarf að lesa viðkomandi bók upp til agna (sem getur tekið talsverðan tíma) og svo er alls ekki víst að það taki því neitt að skrifa um hana. Og ef það tekur því, þá tekur það svo langan tíma að kannski er best að sleppa því. Jæja þetta er nú að mála skrattann á vegginn.

Bókin sem ég var að lesa í dag (og undanfarið) heitir „Under a cruel star.“ A life in Prague 1941 – 1968 og er eftir Hedu Margolius Kovály. Afar eftirminnileg bók. Hún lendir í útrýmingarbúðum nasista en tekst að flýja og komast til Prag aftur. Giftist kommúnista sem nær nokkuð langt, en er svo svikinn og tekinn af lífi. Hún heldur samt áfram að lifa við sífellt þrengri og þrengri kost og flýr að lokum frá Prag árið 1968. Ein allra eftirminnilegasta setningin úr bókinni er þessi:

Everyone assumes it is easy to die but that the struggle to live requires a superhuman effort. Mostly, it is the other way around. There is, perhaps, nothing harder than waiting passively for death. Staying alive is simple and natural and does not require any particular resolve.

Af einhverjum ástæðum hef ég enn ekki getað slitið mig frá Moggablogginu. Er einhvernvegin ekki tilbúinn til að taka stökkið. Hræddur um að þeir sem vanir eru að lesa það sem ég skrifa finni mig ekki og leiti lítið að mér. Íhaldssemin er líka kostur. Mogginn er reyndar alveg hættur að sinna bloggurum eins og hann gerði einu sinni. Mér er sama. Það þarf ekkert að sinna mér. Gott að hafa samt einhverja sem eru tilbúnir til þess ef á þarf að halda. Hef ennþá ekkert borgað fyrir að fá að vera hérna nema einn þúsundkall fyrir aukið myndapláss.

IMG 2410Rótarhnyðja.


1857 - Vigdís Hauksdóttir

Finnst svolítið lélegt af Vigdísi Hauksdóttur að vera sífellt að þessu eineltistali. Hún verðfellir raunverulegt einelti með þessu. Menn taka hana ekkert meira fyrir en hún gefur tilefni til. Er það þá ekki einelti líka þegar sífellt er verið að núa Þráni Bertelssyni því um nasir að hann þiggi margföld laun frá ríkinu? Jú, hann reiðist en ég hef ekki heyrt hann kalla það einelti. Eða þegar verið er að tala um Ásmund Einar og ferðalag hans til framsóknar? Er það ekki einelti? Eða það sem sagt er um Össur Skarphéðinsson? Nei, það þýðir ekkert að vera sífellt að gagnrýna aðra (oft með heimskulegum rökum) en væla svo sífellt um einelti ef sá málflutningur er gagnrýndur. Stjórnmálamenn þurfa þykkari skráp en það.

Það er reyndar íslenskur plagsiður að fara fremur í manninn en boltann. Þannig er það bara og því verður ekki breytt í einu vetfangi. Síst í svona litlu samfélagi eins og okkar. Ég get alveg viðurkennt að oft er hún gagnrýnd persónulega þegar nær væri að ráðast gegn sjónarmiðum hennar. Hún er samt ekkert ein um þetta. Stjórnmálamenn virðast oft fremur verða fyrir barðinu á þessu en aðrir.

Hingað til hef ég tekið talsvert mark á skrifum Þorsteins Pálssonar um ESB. Nú verð ég víst að hætta því. Hann er orðinn að mestu óskiljanlegur í þeim skrifum sínum. Annars verður eflaust forvitnilegt að fylgjast með flokkunum hvað þetta mál varðar í aðdraganda kosninganna. Fjórflokkurinn er allur í þeirri stöðu að enginn þar getur útilokað stuðning við aðild og alls ekki lokað öllum dyrum. Kosningarnar munu einkum snúast um aðild og niðurstaða þeirra mun verða afgerandi. Stjórnarskráin verður sett útí horn og látin hírast þar.

Jú jú, þetta blogg er í styttra lagi en mér er sama um það. Auðvitað gæti ég skrifað eihverja langloku, en nenni því bara ekki. Ætti reyndar að skrifa um eitthvað af þeim bókum sem ég les. Verst að ég klára þær svo sjaldan. Er yfirleitt búinn að fá leið á þeim löngu áður þein lýkur.

IMG 2408Íbúðarhús?


1856 - Lance Armstrong

Í fréttum í dag er að sjálfsögðu sagt frá Lance Armstrong, hjólreiðagarpnum sigursæla sem nú hefur játað á sig ólöglega lyfjanotkun. Fyrir nokkru las ég bókina „Always looking up“ eftir Michael J. Fox sem eins og kunnugt er hefur barist lengi við Parkinsonsveikina. Langur kafli er í bókinni þar sem því er lýst þegar Michael hitti Lance Armstrong í París eitt sinn eftir að hann hafði unnið „Tour de France“ rétt einu sinni. Hjá honum fékk Michael leiðbeiningar um hvernig hann ætti að bera sig til við stofnun samtaka sem berðust fyrir hönd þeirra fjölmörgu sem Parkinsons-sjúkdómurinn herjar á. Aðdáun hans á Armstrong var greinilega ósvikin. Þess vegna hljóta það að vera Michael J. Fox sár vonbrigði að Armstrong skuli nú sokkinn á þetta plan og ég vorkenni honum margfalt meira en Armstrong.

Ég er líka sammála þeim sem ásakað hafa Lance Armstrong fyrir að hafa eyðilagt framtíð margra tilvonandi hjólreiðagarpa með tvöfeldni sinni. Þetta er mikið áfall fyrir hjólreiðar sem íþrótt. Sú íþrótt hefur samt aldrei náð mikilli útbreiðslu á Íslandi svo vel má segja að þetta ætti ekki að snerta okkur mikið.

Fyrir hvað er verið að refsa VG og fyrir hvað er verið að verðlauna Bjarta Framtíð? Það sem mér dettur fyrst í hug er að refsingin sé fyrir svikin við ESB-stefnuna og verðlaunin fyrir að hafa tekist að innbyrða Gnarrinn. Þetta er bara svona það sem mér dettur fyrst í hug og þarf alls ekki að vera rétt. Þetta er bara hugboð og á kannski eftir að breytast þegar öll kurl eru til grafar komin. Það sem ég á þó erfiðast með að skilja er hið gríðarlega fylgi Sjálfstæðisflokksins. Þó ég hafi almennt mikla trú á skoðanakönnunum á ég von á að ýmislegt eigi eftir að breytast áður en að kosningum kemur. 

Auðvitað er ég á móti bændum. Þeir eru nefnilega margir hverjir svo klárir við að barma sér að það hálfa væri nóg. Bændur virðast líka flestir vera af innstu hjartans rótum á móti ESB. Það er reyndar vel skiljanlegt, en samt er það næstum trúaratriði hjá mér að styðja þau samtök. Samfylkinguna síður. Man vel eftir Gunnari á Hjarðarfelli á fundi á Breiðabliki þar sem hann lýsti því fjálglega hvernig bændaforystan færi að því að svindla á ríkinu. Langaði til að mótmæla honum þar, en treysti mér ekki til þess.

Þó mér sé ekkert sérlega vel við bændur get ég ekki annað en viðurkennt að Svanur í Dalsmynni er úrvalsbloggari. Man best eftir honum þegar við sátum í gamla félagsheimilinu þar í Dalsmynni á köldu vetrarkvöldi með sultardropa á nefinu og þóttumst vera að halda Lionsfund. Skemmtileg minning.

IMG 2407Stórt tré.


1855 - Vilborg Arna Gissurardóttir

Þegar ég verð andvaka á nóttinni þá gengur mér vel að skrifa. A.m.k. þangað til svefntaflan fer að virka. Núna í nótt er það Vilborg Arna sem truflar mig meira en svefntaflan. Ég fór nefnilega að sofa um ellefu leytið, en vaknaði svo klukkan að verða tvö og sé að henni hefur tekist að komast á pólinn í millitíðinni og það var nóg til þess að um fátt annað er hægt að skrifa. Úthald,  þrek og taugastyrk er ekki hægt að mæla betur en með ferð af þessu tagi. Því miður næ ég víst aldrei að vinna neitt svona afrek, en það verður bara að taka því.

Miðað við þann áhuga sem verið hefur fyrir göngu Vilborgar á Suðurpólinn er söfnunarféð afar lítið. Ekki nema 5 milljónir. Það samsvarar því að hver Íslendingur hafi gefið einar 17 krónur, gamlar, hrundar og trosnaðar en samt fjötraðar niður með gjaldeyrishöftum. Ekki hef ég gefið neitt svo einhverjir hafa gefið heldur meira en það. Það breytir því samt ekki að þetta er skammarlega lítið, en mér ferst auðvitað ekki að láta svona.

Nú er lífið að færast í eðlilegar skorður eftir mikinn gauragang í kringum áramótin. Loksins virðist sprengiefnið þrotið og í gærkvöldi heyrðust ekki nema átta sprengingar og í morgun hefur verið svo hljót að jafnvel hefur heyrst einstaka bílflaut. Baggalutur.is og gys.is eru þær vefsíður sem skylda er að byrja daginn á að skoða og eru þær álíka fyndnar og venjulega svo óhætt er að sleppa fram af sér beislinu og fara í bað. Svo er ekki að vita nema einhverntíma birti.

Mér dettur helst í hug að hafa fyrirsögnina á þessu bloggi: Vilborg Arna Gissurardóttir. Það ætti að tryggja sæmilega upphæð á Moggabloggslistanum. En er ég að sækjast eftir því. Ég hélt ekki. Auðvitað er það samt skemmtilegra að einhverjir lesi það sem ég skrifa. 

Það skelfilega við uppsagnir læknaliðsins á Lansanum er að ekki er víst að það sjái högg á vatni í útlandinu þó allir fari þaðan. Vel er hugsanlegt að allir ráði sig til Noregs eða eitthvert annað. Jafnvel forstjórinn líka. Ekki er samt víst að neinn verði var við það fyrr en enginn mætir lengur til vinnu. Þá kann að vera of seint að gera nokkuð.

Þar sem enginn þekkir mann
þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
er þar hægt að gera.

Kvað einhver hagyrðingurinn fyrir margt löngu. Nú er það Vilborg Arna sem getur kyrjað þessa vísu af mestri sannfæringu, enda engum háð. Hin vísan sem ég kann er svona:

Hvað er það sem úti frýs?
Fyrir utan Paradís?
Það eru bæði maðkar og mýs.
Mannaskítur og færilýs.

Nei, ég get ekkert að því gert þó mér detti svona samsetningur í hug. Mér fannst bara þurfa að lengja þetta blogg pínulítið.

IMG 2406Tertuleifar.


1854 - Davíð

Mér finnst viss skaði að það skuli ekki lengur vera útrásarvíkingarnir sem eru helsta bitbein hinnar pólitísku rétthugsunar. Það eru greinilega barnaníðingar sem hafa stolið glæpnum af þeim. Alla sem hugsa öðruvísi en ég kalla ég pólitískt rétthugsandi. Einkum þá sem eru til vinstri. Þá sem eru hægra megin við mig kalla ég yfirleitt öfga-hægrimenn. Þannig er það bara. Allir verða að fara í réttar skúffur. Annars er á illu von. Pólitískt séð virðast margir hugsa svona. Þessvegna er svona leiðinlegt að skrifa á þennan hátt. Gaman að lesa skrifin samt. Einkum ef skrifarinn er með svipað skúffusystem og maður sjálfur.

Ekki það að barnaníðingar eigi ekki skilið flest þau óvægnu skrif sem á þeim dynja þessa dagana. Ég er hræddastur um að þetta valdi því að hætt verði (nema af sérstökum) að elta ólar við víkingabesefana. Þeir eru líka svo margir og afbrot þeirra svo illskiljanleg að best er að hætta þessu veseni. Blöð eins og DV mega ekki orðinu halla þá eru þau lögsótt. Kærurnar dynja á þeim og sumar eru staðfestar af dómstólunum, enda er blaðið nánast á hausnum.

Svo fara kosningar víst að nálgast. Æ, þetta er hálfleiðinlegt. Vildi að það væru bara nokkrir dagar í kosningar. Það sem líklega verður mest spennandi núna á næstunni er formannskjörið í Samfylkingunni. Held samt að Guðbjartur vinni þó þeir sem um þetta skrifa virðist flestir vera á bandi Árna Páls.

Vont er að skrifa um það sem maður á að skrifa um og hefur verið sagt að skrifa um. Óvíst er að það skipti nokkru máli þó maður hafi sagt sér það sjálfur. Það þýðir nefnilega ekkert að ákveða fyrirfram hvað maður ætlar að blogga um. Langbest er að blogga bara um það sem manni finnst skemmtilegt að skrifa um. Eftir að búið er að skrifa er ágætt að lesa það yfir sem skrifað hefur verið. Þá má alltaf stroka það út sem heppilegra er að sleppa. Greinilega er ómögulegt að skrifa of mikið. Alltaf er hægt að eyða því sem maður hefur skrifað um of eða fela það ef maður er hræddur um að enginn nenni að lesa það.

Við ellilífeyrisþegarnir erum áreiðanlega talsvert öfundaðir af þeim sem þurfa að vinna uppá næstum hvern einasta dag. Það er samt margt sem kemur á móti þessum ímynduðu gæðum lífsins. Allt gengur miklu hægar og í ofanálag þurfum við svo að horfa framá það að æfin styttist sífellt. Kannski eru líka allskyns sjúkdómar að hrjá okkur og við erum ekki nærri eins fljót og áður að hrista veikindi og þessháttar af okkur. Margt fleira mætti tína til og það er ekkert sérstakt að mega sofa út á hverjum degi. Það hættir undireins að vera eitthvað spennandi. Ef heilsan er góð og ekkert amar að er þó auðvitað hægt að nýta sér þetta seinfengna happ sem fólgið er í því að þurfa ekki að vinna. Eiginlega eigum við það alveg inni að slappa svolítið af .

Já, ég er orðinn gamall og hef mest gaman af því að skrifa um allan fjandann. Réttara sagt samt að blogga því ég get ekki hugsað mér að vera að fást vikum og mánuðum saman við sama textann.

Skilst að Davíð Oddsson hafi haft eitthvað við stjórnarskrárfrumvarpið að athuga. Það er hugsanlega sumt rétt hjá honum. Mér finnst farið með of miklum látum í það mál. Verst að enginn tekur, að ég held, mark á Davíð lengur. Hef ekki trú á að stjórnarskrármálið komist samt í gegn á þessu þingi. Ekki verður heldur neitt ákveðið varðandi ESB fyrir kosningar. Steingrímur virðist svo ætla að sjá til þess að útvegsmenn fái allar sínar kröfur uppfylltar í kvótamálinu. Sorglegt.

IMG 2404Hvað er þetta?


1853 - Noroveira í dularbúningi

Ef ég fer eftir mínum Moggabloggstölum þá var svolítil lægð í blogglestri um jól og áramót en glæddist svo aftur í byrjun janúar. Ekki veit ég af hverju þetta stafar, en svona virðist þetta vera. Auðvitað eru mínar aðsóknartölur ósköp takmarkaðar, en kannski eru þær samt sem áður vísbending.

Er samfélagið að verða of flókið? Já, á margan hátt, en e.t.v. er hægt að leysa það með réttri notkun tölvtækninnar. Gúgli er einhver sá besti besservisser í heiminum ef rétt er farið að honum. Það má spyrja hann um ótrúlegustu hluti. Samt er það svo að margir treysta allt of mikið á hann. Skilninginn vantar. Án lágmarksskilnings á því sem spurt er um er til einskis spurt.

Afleitt finnst mér að láta hann ráða stafsetningu. Kannski er það bara af því að ég er sæmilegur í stafsetningu sjálfur. Hugsanlega er hann eins afleitur í mörgu öðru. Þekking og vitneskja um ótrúlegustu hluti er styrkur hans. Hvernig fær hann þá vitneskju? Nú, hjá mér og þér. Kóngulóin hans fer um allt á netinu og raðar því efni sem þannig fæst eftir sínu höfði og er öskufljót að finna það aftur ef spurt er. En gerir Gúgli nokkurn greinarmun á vitlausum upplýsingum og réttum? Það held ég nefnilega að hann geri ekki. Þar með er hann orðinn ómarktækur, eða hvað?

Hlutirnir gerðust einkum á Fáfengistöðum, einn og einn þó á Stökustað.

Á kyndlinum mínum var ég áðan að lesa bók sem gefin hafði verið út árið 1896. Hún heitir: „History of Astronomy“ og höfundurinn er George Forbes. Þó höfundurinn finni Astrologíunni felst til foráttu og telji hana vera meiri háttar vitleysu sem engir nema fávitar og rugludallar trúi á get ég ekki séð annað en bókin fjalli aðallega um stjörnuspeki. Auðvitað las ég ekki bókina en reyndi að fletta í gegnum hana og sá ekki neitt sem minnti á stjörnufræði.

Þetta minnir mig á að ég var að lesa baggalút um daginn og verð að viðurkenna að mér líst vel á kenninguna um að Færeyingar séu hrifnir á háskerpukjötinu.

Ég er að hugsa um að hætta í bili, enda er þetta fjandans nóg. Mér líður orðið eins og hverri annarri noroveiru sem kærð hefur verið fyrir kynferðislegt ofbeldi. Svo það er líklega best að fara að sofa.

IMG 2402Eldiviður.


1852 - Robert James

Einhver gleðilegasti atburður sem ég hef orðið vitni að og við Íslendingar höfum tekið þátt í er mótttaka Bobby Fischers árið 2005. Ekki aðeins vegna þess að ég varð vitni að einvíginu fræga árið 1972 og hef allar götur síðan (og reyndar fyrr líka) haft mikið álit á Fischer sem skákmanni. Heldur færði sú aðgerð mér heim sanninn um það að stórveldin geta ekki skipað öðrum fyrir eins og þeim lystir. Ísland leyfði sér þá að standa uppi í hárinu á stórveldinu Bandaríkjunum og komst upp með það. Það er til lítils að bjóða stórveldi byrginn ef nauðsynlegt reynist seinna meir að gefa eftir vegna hefndaraðgerða. Eflaust hafa þeir Bandaríkjamenn sem reyndu að fá Fischer framseldan þá álitið þetta mál fremur lítilsvert, eða neyðst til þess. Ekki er víst að Ísland hefði komist upp með að bjóða Könum byrginn í hverju sem var.

Nú ætla ég að spá um stjórnmálaþróunina næstu mánuði. Auðvitað er lítið að marka þá spá en segja má að nú sé rétti tíminn til þess, því alþingi er að koma frá veisluborðunum og á að fara að vinna fyrir mat sínum.

Ekki er að sjá annað en stjórnarskrármálið leggist í dvala eins og oft hefur gerst. Vel má samt vera að einhverskonar samkomulag fjórflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslur og kosningalög líti dagsins ljós. Ef sjálfstæðisflokkur og samfylking ná saman um eitthvað slíkt eru líkur til að sú stjórnarskrárbreyting verði samþykkt beggja megin við næstu kosningar. En fráleitt er að ný og bætt stjórnarskrá verði samþykkt. Til þess er alltof mikill tilraunabragur á henni. Samstarf sjálfstæðismanna og samfylkingar gæti byrjað með því að tryggja einhverjar breytingar á henni. Ekki er sjáanlegt að vinstri menn sætti sig við þann bastarð sem líklegt er að komi útúr kvótalögunum. Kannski verður því öllu grautað saman orkunýtingunni, kvótanum og ESB og frestunaráráttan verði þar yfirgnæfandi.

Guðbjartur held ég að vinni Árna Pál, einkum vegna þess að Skagamenn eru vanir að vinna. Gott ef Jóhanna reynir svo ekki að hafa það sitt síðasta verk að tryggja honum formennskuna.

Síminn hefur tilkynnt að allir sem eru aðilar að sjónvarpi símans geti horft á dagskrá sjónvarpsins hvenær sem er. Eflaust er þetta til bóta fyrir einhverja. Ef boðið hefði verið uppá þetta fyrir svona tíu til fimmtán árum hefði það þó verið mun áhrifaríkara. Ég er hræddur um að svo margir séu alveg orðnir fráhverfir sjónvarpsstöðvunum að þetta hafi fremur lítil áhrif. Það eru helst fréttir og einstöku innlendir þættir sem enn er áhugi fyrir. Að öðru leyti held ég að sá hópur sé orðinn ansi stór sem er búinn að gefa sjónvarpsstöðvarnar alveg uppá bátinn. Ég á reyndar eftir að sjá að þetta verði framkvæmt á þann hátt að allir verði ánægðir með það.

IMG 2398Mannvirki.


1851 - Breytingar

Skáksvindl er orðið vaxandi vandamál á mótum. Skákforrit eru svo feiknarlega sterk og aðgengileg að það að standa upp frá skák sinni, svo ekki sé talað um klósettferðir, vekur grunsemdir mótshaldara. Lyfjaneysla er líka orðin vandamál svo það er alls ekki auðvelt eða ódýrt að halda skákmót lengur. Lengi vel voru skákmót með öllu laus við þennan óþverra og ég man satt að segja ekki eftir öðrum vandamálum á þessu sviði en sígarettum. Ekki var ætlast til að menn blésu sígarettureyk framan í andstæðinginn, ef hann var svo óheppinn að reykja ekki, en að öðru leyti var svotil allt leyfilegt og vei þeim skákstjórnanda sem gleymdi að setja öskubakka á borðin.

Heilbrigðin ræður ríkjum á skákmótum nútildags og meiri líkur eru á að sjá þátttakanda bryðja gulrætur en súkkulaði.

Eins og nú er orðin venja getum við haldið skákmót í Hörpunni og boðið uppá óviðjafnanlega lífsreynslu fyrir þá sem hafa gaman af að tefla. Þeir eru alls ekki svo fáir í heiminum. Árleg skákmót þar eru sú besta landkynning sem hægt er að hugsa sér.

Seinni heimsstyrjöldin færði okkur Íslendingum heim sanninn um það að við getum sem best lifað í þeim heimi sem er. Við gætum alveg látið öllum líða vel. Við höfum aðgang að bestu fiskimiðum heims og ef þau bregðast sitjum við á nógu af heitu vatni til að lifa ágætu lífi eins lengi og það endist eða lengur. Líklega endurnýjast það að einhverju leyti.

En við þurfum endilega að herma eftir þeim sem mest eiga og gera fámenna yfirstétt forríka. Svo ríka að hún neyðist til að tortíma auðæfunum á Tortola. Ef við mundum losa okkur við afætur og þjófa úr eigin röðum gætum við komist ágætlega af.

Hvað á þá að gera við þá sem endilega vilja koma hingað í öll auðæfin. Það er þegar nokkuð erfitt. Gerum það bara ekki miklu auðveldara í einhverju hugsunarleysi. Við erum Norðurlandaþjóð og viljum vera það. Ef við erum það verðum við að hafa svipuð lífskjör. Hættum að elta Bandaríkjamenn útí hvaða fen sem vera skal. Högum okkur eins og Norðurlandabúar. Skandinavíska módelið er það besta.

Skammdegisþunglyndið leggst nú yfir okkur Íslendinga eins og kolsvart ullarteppi. Sama málið er upp á teningnum í Kastljósinu í heila viku. Engin grið eru gefin. Allir verða að hafa skoðun á barnaníði. Það er í tísku núna. Auðvitað leysum við ekki nema eitt mál í einu. Gallinn er bara sá að í skammdeginu leysum við yfirleitt ekki nokkurn skapaðan hlut, heldur flækjum okkur sem mest í ullarteppinu svarta. Svo kemur vorið og þá erum við svo himinsæl að við gleymum öllum Kastljósum og tengdum atburðum í fuglasöng og fíneríi.

Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn þreytast ekki á að tönnlast á því að stjórnarskrármál þurfi endilega að afgreiða í sem mestri sátt. Sátt hjá hverjum? Á alþingi? Já, en þar situr hópur sem hefur beinna hagsmuna að gæta og álit þeirra er í rauninni ómark. Sátt meðal þjóðarinnar? Já, en eru þær breytingar einhvers virði sem allir eru sammála um? Og er ekki nýja stjórnarskráin einmitt í talsverðri sátt hjá þjóðinni? Sátt hjá forsetanum? En hann sættir sig aldrei við neitt. Sátt hjá ofsatrúarmönnum? En þeir sætta sig ekki við neitt nema Guðlega forsjón. Sátt hjá vinstri vitleysingum? En þeir eru alltaf á móti öllu, nema kannski pólitískri rétthugsun. Er stjórnarskráin þá rétthugsun? Uss, ekki hafa hátt um það.

Hræddur er ég um að stjórnarskrármálið detti upp fyrir. Sá er hagur fjórflokksins. Tveir þeirra standa að ríkisstjórninni. Þeir svíkja heldur þjóðina en fjórflokkaskilninginn. Allt á að vera sem mest óbreytt. Engar breytingar skal samþykkja nema útúr neyð. Sá er skilningur þeirra. Ef farið er of ört í breytingar gætu völdin verið í hættu. Ekki skal taka þá áhættu að nauðsynjalausu.

Það virðist ætla að duga mér til talsverðra bloggvinsælda að setja nafn vinsæls bloggara sem fyrirsögn á bloggið mitt. Sú var samt ekki ætlunin, heldur var ég í einhverjum vandræðum með fyrirsögnina (eins og oft vill verða) og sá að ég hafði skrifað eitthvað um Evu Hauksdóttur í bloggið mitt. Þetta er a.m.k. ágætt sem eftiráskýring. Ég hef nefnilega fyrir löngu uppgötvað að það virkar vel til vinsælda að setja nafn eða nöfn í fyrirsögnina.

IMG 2392Listaverk.


1850 - Eva Hauksdóttir

Einhver harðasta refsingin sem úthlutað er á Norðurlöndum (og kannski víðar) um þessar mundir er útilokun frá fésbókinni. Pia Kjærsgaard er sögð hafa fengið útskúfun í heilan dag. Innlendur feminist hefur víst verið útlokaður þrisvar sinnum (einn dag í hvert sinn) Ekki held ég að Ögmundur hafi gert sér grein fyrir hvernig er hægt er að græða á þessu.

Einfaldast væri náttúrlega á láta fésbókina sjá um allar refsingar en ekki er víst að samningar mundu nást um það. Þar sem um er að ræða óvandað málfar, ærumeiðingar og annað smáskítlegt væri upplagt að nota fésbókina. Skoða þyrfti vandlega hvort ekki mætti líka láta í þessa ágætis verksmiðju háreisti og djöfulgang í heimahúsum.

Nota má þessa aðferð til prufu við næstu alþingiskosningar og hafa refsingarnar þá fremur vægar fyrsta kastið.

Ein frétt frá síðustu viku er mér ofar í huga en flestar aðrar. Veit ekki af hverju:

Laus armur laganna
gaf í og gusaði
á viðstaddar vampýrur
svo ljósmyndin langa
lukkaðist vel.

Gef ekki frekari skýringar. Meina ekkert sérstakt með þessu. Svona er þetta bara í mínum huga.

Himstrakeppnin í handbolta hófst í gær. Hún er haldin annað hvert ár á móti Evrópumeistaramótinu svo hægt sé að nota sér áhuga almennings sem mestur er jafnan í janúar. Einhver hélt því fram í sjónvarpi um daginn að handbolti væri þjóðaríþrótt Íslendinga og stæði jafnvel framar glímunni. Minntist ekki á knattspyrnuna sem enn er langvinsælust og mest iðkuð hér á ísa köldu landi þó himstrakeppnin þar sé bara fjórða hvert ár og ekki í janúar. Glíman er bara þjóðaríþrótt að því leyti að aðrir stunda ekki slíka vitleysu og hefur verið þannig þjóðaríþrótt í marga áratugi.

Einhverntíma ekki alls fyrir löngu skrifaði Jens Guð athugasemd við bloggið mitt og kvaðst oft líta á það hjá mér. Sömuleiðis. Ég varð náttúrulega talsvert upp með mér enda finnst mér Jens góður bloggari. Kannski fær hann hugmyndir af því að lesa bloggið mitt. Fæ ég kannski hugmyndir af því að lesa bloggið hans? Ekki finnst mér það. Ætli það sé ekki yfrið nóg af hugmyndum á sveimi um allt þó maður nái í skottið á einni og einni. Skrifelsishugmyndir fara mest eftir þeim sem hugmyndirnar fær. Ekki því hvað bloggarinn hefur farið oft til útlanda eða gert hitt oft. Að gera hitt einsog Þórbergur komst jafnan að orði er ekki það sem lífið snýst um. Kannski gerir það það samt hjá sumum.

Eva Hauksdóttir reynir af veikum mætti að berjast gegn feminisma og pólitískri rétthugsun. Stundum verður henni prýðilega ágengt í því, en það er þegar hún talar um rétt fólks til að skrifa undir dulnefni sem ég sperri eyrun. Með eignarrétti stórfyrirtækja á Internetinu, sem er í undirbúningi, líður ekki á löngu áður en frelsið til að dyljast þar líður undir lok og það er mikill skaði. Sú þöggun sem þá verður hægt að beita er hættuleg allri netumræðu. Það er sú þöggun sem hingað til hefur verið beitt. Með Internetinu hefur svolítið los komist á hana og það eiga ráðandi öfl erfitt með að þola. Auðvitað misnota sumir dulnefnisréttinn en hjá því verður aldrei komist.

IMG 2391Það er alveg að koma.


1849 - Athugasemdir

Hef alltaf svolitlar áhyggjur af því að þeir sem lesa bloggið mitt missi af mjög gáfulegum athugasemdum. Hér eru t.d. þrjár þær síðustu síðan um daginn. Kannski einhverjir hafi misst af þessum súperfínu og krassandi umræðum.

-          - - - - - - - - -

Er nokkur munur á Facebook og blog.is hvað varðar markaðsvæðingu samskiptavefja? Er kvótadrottningin í Eyjum sem dælir peningum í Morgunblaðið eitthvað ólíklegri til að selja þennan gagnagrunn sem þessi orð eru skrifuð í í til hæstbjóðanda, heldur en Mark Zuckerberg?

Theódór Norðkvist, 11.1.2013 kl. 04:52

...heldur en Mark Zuckerberg er til að selja Facebook með öllum sínum upplýsingum.

Átti þetta að vera þarna síðast til að setja hlutina í skýrt samhengi.

Theódór Norðkvist, 11.1.2013 kl. 04:53

Nei, Eyjadrottningin er ekkert betri, held ég. Zuckerberg er samt óseðjandi. Alltaf að biðja um (eða heimta) nýjar og nýjar upplýsingar og svo hleypir hann allskyns fólki (öppum) að manni. Hún er líka mun minni og ólíklegt að eftirspurnin sé lík.

Sæmundur Bjarnason, 11.1.2013 kl. 13:32

-          - - - - - - - - -

Svona er ég nú sjálfmiðaður ef ég passa mig ekki. Og ég passaði mig ekkert núna.

Fór áðan út að labba og samdi eftirfarandi: Kannski ég kalli það bara ljóð.

Á göngustígum borgarinnar.

Uppþornaðir ánamaðkar,
sælgætispappír,
sinustrá,
gæsaskítur,
rakettuprik.
Allt ber þetta vott um líf,
sem hefur látið undan síga.

Nú er ég semsagt búinn að fylla næstum því heila blaðsíðu. Ókey ég viðurkenni að það er með hálfgerðu svindli svo ég ætti að reyna að bæta einhverju við. Veit ekki hvernig það gengur. Reyni.

Það virðist vera keppikefli sumra að skemmta sér undir drep. Ennþá held ég að enginn hafi samt skemmt sér til dauðs, enda býst ég ekki við að dauðinn sé skemmtilegur. Margir hafa samt stytt líf sitt töluvert með ótímabærum skemmtunum. Er skemmtilegast að éta? Það gæti maður haldið. Allur vondur matur er bráðhollur.

Mér þykir slæmt hvernig veröldin er, því hún gæti verið svo miklu betri. Það er til dæmis engin hemja að láta mann drepast þegar maður er að byrja að skilja lífið. Auðvitað er það engum að kenna en ég set mig upp á móti því samt.

Ekki er líklegt að stjórnarmunstur blasi við eftir kosningarnar í vor. Þá hefst hið brjálaða tilstand. Allir reyna að ganga í augun á öllum hinum og kjaftasögurnar spretta upp hvar sem tveir menn hittast. Í þessu grugguga vatni finnst Ólafi forseta gaman að leika sér. Því hann veitir umboð til stjórnarmyndunar og getur haft áhrif á hana. Hvernig hrossakaupin ganga og hver platar hvern fer að sjálfsögðu talsvert eftir úrslitum kosninganna en ekki er öruggt að sú úrslit hafi úrslitaáhrif. Leiknin og fimin í kjötkatlastríðinu hefur mikil áhrif líka. Líklega skipta einhverjir peningar einnig um eigendur í þessu millispili, en að lokum kemst á vopnaður friður og ríkisstjórn verður mynduð. Svona hefur þetta gengið og svona á þetta að ganga til, eða hvað? Samsteypustjórnir eru mál málanna því þá er alltaf hægt að svíkja það sem menn sjá mest eftir að hafa lofað.

IMG 2381Frosið laufblað.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband