Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

1848 - Tilraun til speki

Þú getur ekki stjórnað því sem gerist, en þú getur stjórnað því hvernig þú bregst við því. Þetta er hægt að segja á margan hátt. Það er hægt að taka allt frá manni, en það hvernig því er tekið og hvernig við því er brugðist er ekki hægt að taka frá neinum, sem ekki vill láta það af hendi. Er þetta þá ekki grundvöllur lífsins? Freud minnir mig að hafi sagt að sóknin eftir ánægju væri grundvöllur mannlegrar tilveru. Er það þá rangt?

Eiginlega erum við ekki nægilega þakkát forsjóninni fyrir hvað hún fer vel með okkur. Erum að reyna að búa okkur til áhyggjur yfir því hvað langt er í vorið. Það er bara ekkert lengra en venjulega. Náttúran bregst aldrei í sínum reglubundnu hreyfingum þó við finnum þær ekki nærri alltaf.

Nú er umfjöllunin um barnaníðinginn orðið svo mikil að það liggur við að maður sé farinn að vorkenna karlvesalingnum. Auðvitað er það pólitísk ranghugsun að láta sér detta slíkt í hug, en ég er bara svona gerður. Kannski finnst honum bara fremd í því að vera svona umtalaður. Verð að viðurkenna að ég hélt að ástæðan fyrir niðurstöðu skýrslunnar og því að karlinn var látinn alveg í friði væri sú að hann væri þroskaheftur. Svo virðist þó ekki hafa verið og er skömm þeirra sem áttu að sjá til þess að málið héldi áfram enn meiri fyrir vikið. Einhverjir hljóta að hætta og rýma til fyrir yngra fólki sem er ekki eins brennimerkt aðgerðarleysinu og hvítþvottinum.

Alltaf reyni ég með öðru að skrifa einsog ég held að lesendur mínir vilji. Best af öllu er samt þegar ég get talið sjálfum mér trú um að það sem mér þykir skemmtilegast að skrifa um sé akkúrat það sem lesendur mínir vilja helst lesa. Hræðilega hlýtur að vera leiðinlegt að þurfa alltaf að skrifa næstum því það sama daginn út og daginn inn. Þannig held ég t.d. að fréttir fari fljótlega að virka á þá sem eru sískrifandi í blöðin um þær. Fá samt aldrei að fara úr húsi. Eru bara látnir þýða einhverjar hundleiðinlegar fréttir og svo er þeim kannski bara hent. Nei, þá er nú betra að geta  bloggað viðstöðulaust um það sem manni dettur í hug.

Sumir eru svo uppteknir af Hruninu að þeir geta bara ekki bloggað um neitt annað. Skelfing held ég að þeim líði illa. Ætli draumar þeirra séu ekki líka um Hrun í öllum mögulegum útgáfum. Sennilega eru þeir oft og mörgum sinnum búnir að upplifa angistina sem fylgdi byrjun hrunsins. Útlendingum sem hér voru um það leyti var vorkunn því þeir skildu alls ekki hvað um var að vera. Man vel eftir að einn sem var að vinna hjá Mjólkursamsölunni (ég var þar næturvörður) spurði mig hvað í ósköpunum væri eiginlega að gerast.

Er ég alltaf að skrifa það sama aftur og aftur með örlitlum orðalagsbreytingum? Ég er orðinn svolítið hræddur um það. Hvernig er öðruvísi hægt að skrifa (blogga) á næstum hverjum degi án þess að segja nokkuð sérstakt? Ekki veit ég það. Samt blogga ég.

IMG 2380Himnastiginn hallærislegi.


1847 - Nú er manni sagt að dag sé farið að lengja

Með því að skrá þig á fésbókina og ég tala nú ekki um ef þú samþykkir flest sem þar er stungið uppá og lækar og sérar dálítið mikið ertu búinn að gera sjálfan þig að ómerkilegri verslunarvöru. Allar upplýsingar sem fást á fésbókinni eru seldar hæstbóðanda. Ekki þarf samt að gera ráð fyrir að einhverjir misyndismenn komist yfir þessar upplýsingar fljótlega, til þess eru þær alltof almenns eðlis, en vegna þess hve þær eru margar geta þær í framtíðinni orðið nokkurs virði. Enginn veit heldur hvernig hægt verður að nota (eða misnota) þessar upplýsingar seinna meir.

Þegar ég skrifa um pólitík á netið ímynda ég mér að ég sé nægilega grunnur og nægilega djúpur til að nálgast eitthvert meðaltal. Sennilega er þetta tóm ímyndun hjá mér og kannski skiptast lesendur mínir í tvo hópa. Í þeim fyrri eru væntanlega þeir sem vorkenna mér vitleysuna en í hinum þeir sem eru mér að mestu leyti sammála. Hvor hópurinn er svo stærri læt ég lesendur um að ímynda sér. Sjálfur ímynda ég mér áreiðanlega allskyns vitleysu í því efni og sú ímyndun er sífellt að breytast. Jæja, nú er ég hættur þessum speglasjónum.

Leit aðeins á skammstafanirnar sem ég setti á bloggið í gær og sé auðvitað strax að ég hef misritað a.m.k. eina. Það er skammstöfunin WYSIWIG. Hún á auðvitað að vera WYSIWYG, en á því er stór munur eins og allir sjá. Þessi skammstöfun minnir mig að þýði: What You See Is What You Get og er t.d. notuð talsvert í tölvumáli.

Fór áðan út að ganga. Rokið var talsvert og þegar rigningin bættist við sneri ég við. Eiginlega birtir ekkert þessa dagana. Það vantar alveg sólskin svo maður sannfærist um að daginn sé farið að lengja. Nú hefst semsagt biðin langa. Það er að segja biðin eftir vorinu, fuglunum, hitanum, góða veðrinu, sólskininu og græna litnum. Þingkosningarnar í vor eru algjörlega í öðru sæti.

Eiginlega er ég alveg uppiskroppa með myndir núna. Biðst afsökunar á því hvað myndirnar sem fylgja blogginu þessa dagana eru lélegar. Það er líka svo mikið myrkur að það er ekkert sniðugt að taka myndir. Vonandi rætist samt úr þessu fljótlega svo ég þurfi ekki að grípa til gamalla mynda. Það geri ég samt sennilega frekar en að hætta þeim sið að láta eina mynd fylgja hverju bloggi. Þó veit ég það ekki. Kannski hætti ég bara þessari vitleysu.

IMG 2377Dominos.


1846 - Skammstafanir

Hér eru nokkrar skemmtilegar skammstafanir sem ekki verða birtar ráðningar á (nema þá kannski einhverntíma seinna eða eftir beiðni þar um.) Þið megið giska á hvað þær eiga að þýða. Bannað að Gúgla. Engin verðlaun.

NATO, FUBAR, WOMBAT, LASER, RADAR, ACLU, ABS, ADIDAS, ADSL, ASDL, AKA, AOL, ASAP, ASCII, BASIC, BLOG, BLT, BMX, CAD, CIA, NASA, NASDAQ, COBOL, ROFL, NYSE, NAFTA, ABBA, FIDE, GPS, FIFA, FIAT, DLL, DOS, USB, DVD, EBITDA, FBI, FAQ, FDR, FAT, KKK, SEAT, SPAM, TEMP, SWAT, HTTP, HIV, HTML, IBM, ICBM, IKEA, IRC, IRS, JEEP, JFK, KPMG, MODEM, MSG, NAACP, NASCAR, NBA, NBC, NTSC, RFK, NYPD, OCR, PDF, PERL, PLO, PVC, QWERTY, RIP, RPH, REM, RPG, ROTC, SETI, SMS, UAE, UFO, VVV, WASP, WYSIWIG, YMCA, ZIP.

Er hægt að segja fésbókinni í eitt skipti fyrir öll að ég kæri mig ekkert um að einhver öpp séu að skrifa tölvupóst í mínu nafni? Mér finnst þessi viðleitni vera að versna. Svo virðist sem í hvert skipti sem einhver fésbókarvinur minn mælir með einhverju sem er á appi sem ég er ekki áskrifandi að, þá rjúki fésbókin til (eða appið) og tilkynni mér það og spyrji um leið hvort ég vilji ekki endilega gerast áskrifandi að þessu appi sem svo og svo mörg hundruð þúsund séu nú þegar áskrifendur að og býðst til að skrifa tölvubréf í mínu nafni. Mér leiðist þetta.

Mér viðast það einkum vera þrír aðilar sem kemur til greina að kjósa í alþingiskosningunum í vor. Mér finnst ekki koma til greina að kjósa fjórflokkinn. Þá lítur þetta þannig út í huga mér um þessar mundir.

1.      Björt framtíð. Þar viðist fylgið ætla að safnast nokkuð saman. Þar eru þingmenn í forsvari og þar er um að ræða miklu betri kost en fjórflokkinn. Þar er Jón Gnarr og hans lið.

2.      Dögun. Þar er um nokkurt þingval að ræða og hópar sem starfað hafa saman eins og frjálslyndi flokkurinn, hreyfingin og hagsmunasamtök heimilanna ásamt öflugum einstaklingum.

3.      Pírata partíið hennar Birgittu. Áhersla er þar lögð á opið og frjálst samfélag og ýmislegt annað sem mér hugnast bærilega.

Hef ekki trú á að Samstaðan hennar Lilju Mós. né hægri grænir verði til stórræðanna þegar á hólminn er komið. Annars þurfa allir þessir flokkar eða flokksbrot á kynningu að halda.

Það er tiltölulega auðvelt að sýnast ljóngáfaður með aðstoð Google.com og venjulegur besservisseraháttur er nær útilokaður. Það er svosem hægt að þykjast vita allan fjandann (ljúga bara einhverju) ef það er öruggt að enginn komist í tölvu. En meðal annarra orða, hvers vegna er sagt; ljóngáfaður? Eru ljón eitthvað gáfuð? Nautheimskur, hundveikur, svínslegur, sauður, hrútleiðinlegur, kindarlegur, mélkisa, kattliðugur, úlfgrár, o.s.frv. er svosem sagt líka. Þýðir það eitthvað sérstakt?

IMG 2345Snjór og krap í úrvali.


1845 - ESB

Segjum að öfgahægrimennirnir eins og Jón Valur Jensson hafi rétt fyrir sér varðandi ESB. Þeir hafa þrástagast á því að ekkert sé um að semja í samningaviðræðunum, nema í hæsta lagi einhverjar frestanir á ákvæðum sem er að finna í lögum sambandsins. (Geta þess þó ekki hversvegna yfirleitt er setið við samningaborðið.) Er líklegt að íslenska samninganefndin samþykki slíka vitleysu? Ég held ekki. En gerum samt ráð fyrir þeim fjarlæga möguleika. Er þá líklegt að samningurinn verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég held ekki. Samt er eitthvert fylgi við þá heimsku að steinhætta öllum samningaviðræðum núna strax.

Já, ég er hlynntari aðild að ESB en ekki. Hef verið það frá 1972, þegar Danir og Bretar gengu í sambandið. Auðvitað skiptir samt máli hver niðurstaðan verður úr samningaviðræðunum við ESB.  Verði fiskveiðiákvæðin þar ekki nægilega sértæk og hagstæð fyrir okkur Íslendinga mun ég að sjálfsögðu verða á móti inngöngu. Ekki er hægt að horfa framhjá þeim möguleika að ESB kæri sig ekki nokkurn skapaðan hlut um að við göngum í sambandið á þeim kjörum sem okkur líkar. Ekki er heldur hægt að neita því að samningaviðræðurnar hafa tekið alltof langan tíma. Erfiðleikarnir á að ná samningum hljóta að vera ESB-megin. Ég geng að minnsta kosti útfrá því. Hverju töpum við Íslendingar á að halda samningviðræðunum áfram? Engu. Ég get a.m.k. ekki komið auga á það. Jú, hugsanlega töpum við auknum launum samninganefndarfólksins, ef þannig hefur verið samið við það, að það græði því meira sem samningaviðræðurnar standa lengur. Kannski hefur það verið.

Það er hægt að telja upp ýmislegt sem mundi vinnast við inngöngu. Ég ætla samt ekki að reyna það. Einhverjir hljóta samt að tapa á því. Ef ekki er talið með að ESB kunni að tapa fjárhagslega á því er líklegt að sú innlenda stétt sem helst mundi tapa sé bændur. Það er samt engan vegin víst að svo verði. Styrkir og fyrirkomulag þeirra kann að verða hagstæðara þeim eftir inngöngu en fyrir. Jafnvel þó ekkert ynnist við inngöngu væri ég samt fylgjandi henni, einfaldlega vegna þess að gott samband við nágrannaríki okkar er mörgu öðru mikilvægara.

Stærstu mál er aðeins hægt að afgreiða í miklum ágreiningi. Takist öðrum hvorum aðilanum að koma í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla skeri úr um málið, er samt möguleiki á að aðstæður breytist svo mjög að hún verði óþörf. Þannig fór t.d. um hermálið. Miklu máli getur skipt hvenær viðkomandi þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram og um hvað nákvæmlega er spurt. Um slíkt ætti þó að vera hægt að semja. Um margt er hægt að semja, en aldrei verður samið milli allra innlendra aðila um inngöngu í ESB. Málið er einfaldlega ekki þannig vaxið.

IMG 2333Beðið eftir verkefnum.


1844 - Tölvuleikir forðum daga

Alveg er það dæmigert og ekki til fyrirmyndar að alþingi skuli ætla sér að vera í jólafríi fram í miðjan janúar. Venjulega getur vinnandi fólk ekki leyft sér slíkt.

Eflaust má kenna ríkisstjórninni og stjórnarliðum um þessi ósköp. Ekki er að sjá annað en talsvert sé af málum sem koma þarf í gegn, en stjórnarandstaðan mun standa grá fyrir járnum og reyna að koma í veg fyrir að nokkuð verði af því. Hóta málþófi og fara kannski í einhverjar aðgerðir varðandi það.

Málþóf þekkist óvíða, en þar sem því er beitt, beinist það gegn einstökum málum. Hér er það aftur á móti almennt og beinist ekki að neinu sérstöku. Bara að valda sem mestum skaða og koma ef hægt er í veg fyrir allar breytingar.

Einkennilegt hve tölvuleikir geta haft sterk áhrif á mann. Man vel eftir fyrsta tölvuleiknum sem ég eignaðist. Ég var þá útibússtjóri á Vegamótum á Snæfellsnesi og keypti sérútbúinn kassa á 40 þúsund krónur (gamlar). Hægt var að tengja kassann við sjónvarp og spila borðtennis við tölvuna með mismunandi stórum spöðum. Einnig fylgdi einskonar byssa sem hægt var að skjóta með á punkt sem hreyfðist á sjónvarpsskjánum. Fleiri leiki var hugsanlega hægt að fara í á tæki þessu en ég man bara eftir þessum.

Seinna komu svo Space Invaders, Pacman og fleiri leikir þegar heimilistölvurnar fóru að koma. Þegar Wolfenstein kom og seinna meir Doom breyttust leikirnir töluvert. Tetris var líka alveg sér á part og ævintýraleikir allskonar, t.d. Civilisation og fleiri. Man vel eftir þeim sigri sem vannst þegar okkur tókst að spila Doom yfir Internetið og koma aftan að andstæðingnum. Þá átti ég heima á Vífilsgötunni hér í Reykjavík.

Langt mál mætti skrifa um þessa gömlu tölvuleiki en ég er varla besti maðurinn til þess. Margir hljóta að þekkja þá. Einhversstaðar á netinu er líka hægt að fara í eftirlíkingar af þessum leikjum. Þær eru samt ekkert sérlega spennandi.  

Skelfing leiðist mér margt á fésbókinni. Þó get ég ekki stillt mig um að fara þangað oft á dag. Er það sjálfspíningarhvöt eða hvað? Ég held ekki. Þrátt fyrir alla sína galla er fésbókin aðferð til þess að gleyma ranglæti heimsins. Með því að lesa sumt af því sem þar er að finna má sjá að fólk er ákaflega líkt. Allir, eða flestallir, þykjast vera mun betri en þeir eru. Netandlit flestra er nokkuð gott. Sumir gera þó í því að sýnast ónæmir fyrir öllu. Kannski verður maður það með því að skrifa þar sem allra minnst. Það reyni ég að gera. Blogga frekar eins og hér má sjá. Reyni sífellt að telja mér trú um að bloggið sé æðra fésbókinni. Hversvegna er það? Aðallega er það vegna þess að mér fellur betur að blogga. Þangað koma ekki aðrir en þeir sem hafa á því áhuga. Ekki er um það að ræða að henda einhverju framan í fólk eins og blautri tusku. Þetta er annars hugmynd sem ég þyrfi að rannsaka nánar og fjölyrða kannski um seinna meir.

IMG 2328Meira púður

1843 - Mannanafnanefnd

Fólk óskapast mikið útaf mannanafnanefnd. Slíkur fíflagangur minnir mig alltaf á Friðrik sem eitt sinn var skólastjóri í Laugargerði á Snæfellsnesi. Krökkunum í skólanum var stranglega bannað að nota tyggjó. Ég minntist einhverntíma á það við hann að mér þætti framfylgd þess banns óþarflega ströng. Hann sagði að það væri rétt, en þá væri líka auðveldara að vera virkilega strangur ef afbrotin væru stærri.

Sama er um nöfnin að segja. Fólk getur belgt sig út vegna mannanafnanefndar án þess að það saki nokkuð. Á meðan er fólk gert að þrælum og heilbrigði þess og lífsgleði stolið frá því, en það gerir minna til. Annars held ég að mannanafnanefnd reyni að vinna starf sitt af samviskusemi og ábyrgð. Langflestir þeirra sem hæst hafa um andlegt og líkamlegt ástand nefndarinnar vita næstum ekkert um starf hennar.

Að íslenskan (og nafngiftirnar líka) skuli hafa haldist óbreytt um aldir er nokkuð sem við ættum ekki að miklast af. Auðvitað væri samt eðlilegra að hafa enga mannanafnanefnd og prestar og aðrir skráningaraðilar réðu hvað þeir gerðu varðandi nöfn og síðan gætu börn, ef þau vildu, skipt um nöfn þegar þroski til þess væri orðinn nægur. Veit ekki til að mannanafnanefnd hafi  nokkurntíma haft afskipti af nafni sem unglingur hefur valið sjálfum sér.

Einhver stöðin eða vefritið kaus mann ársins. Ég kannaðist ekkert við nafnið. Það hlýtur að vera mér að kenna. Fylgist vafalaust ekki nærri nógu vel með fréttum. Líka er möguleiki að fréttamat mitt sé eitthvað frábrugðið því sem er hjá þeim sem völdu þennan mann ársins. Hef líka grun um að menn ársins (bæði karlmenn og kvenmenn) séu fullmargir. Það er þó bara hugmynd. Ekki er mikil hætta á að ég verði maður ársins. Get bloggað af hjartans lyst án þess að vera hræddur um það.

Nú er allur snjór horfinn hér á höfuðborgarsvæðinu. Vonandi verður svo áfram. Mér er eiginlega sléttsama þó það þýði að einhversstaðar verði kal í túni. Verð bara að segja það. Sumsstaðar er snjórinn nefnilega eins og ábreiða yfir viðkvæman gróður. Veit ósköp vel að ekki verður frostlaust til vors en það er alveg leyfilegt að vona að snjór, slabb og krap heyri fortíðinni til.

IMG 2279Gangstéttar eru ekki fyrir óbreytta Kópavogsbúa. 


1842 - Tunglið

Sennilega ber það vott um einhverskonar inngróinn karlrembusvínshátt hjá mér að allt í einu og án viðvörunar skuli þess vísuorð dúkka upp í hugann og að ég geti ekki annað en haft þau yfir hvað eftir annað:

Þá fer hún mamma að gráta og góla
og gerir hann pabba sturlaðan.

Auðvitað er það miklu meira mál ef pabbinn sturlast, en þó að mömmugreyið sé að gráta og góla. Ég ætla ekkert að fullyrða um karlrembuna sem í þessu felst, en vafalaust eru feministar ekki hrifnir af þessu. Ég var samt ekki að hugsa eftir þeim línum þegar þetta kom fyrirvaralaust upp í hugann.

Hvað gerir maður í svona tilfellum? Mér varð það fyrst fyrir að spyrja Gúgla frænda (google.is) hvort hann kannaðist eitthvað við þetta. Jú, víst gerði hann það. Þetta er úr vísum tveim eftir Jón Ólafsson fyrrum ritstjóra og þær eru svona:

Tunglið, tunglið taktu mig
og berðu mig upp til skýja.
Þar situr hún móðir mín
og kembir ull nýja.

Tunglið má ekki taka hann Óla
til sín upp í himnarann.
Þá fer hún mamma að gráta og góla
og gerir hann pabba sturlaðan.

Sagt er að hann hafi ort þessar vísur um Ólaf son sinn sem seinna varð tannlæknir í Bandaríkjunum.

Theodora Thoroddsen gerði hinsvegar þuluna frægu og löngu sem byrjar alveg eins og vísurnar tvær. Annars má finna greinargerð um allt þetta á vefnum hans Ágústar H. Bjarnasonsar og óþarfi fyrir mig að vera að endurtaka það http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/739942/ 

Það sem ég hef einkum á móti fésbókinni er að ég skil hana alls ekki. Svo virðist líka sem alltaf sé verið að breyta virkni hennar fram og aftur. Þar að auki virðast mjög fáir treysta sér til að reka athugasemdakerfi án þess að njóta til þess aðstoðar hennar. Allt væri þetta nú samt gott og blessað ef hún (fésbókin) væri ekki með þessa sífelldu frekju. Ég hef enga tölu á því hvað oft hún hefur farið fram á að fá að skrifa tölvubréf í mínu nafni. Veit samt ekki betur en ég hafi jafnan neitað því. Samt halda öppin hennar áfram að staglast á þessu. Satt að segja er ég orðinn hundleiður á því.

IMG 2278Þar vaxa jólatré og önnur tré.


1841 - Margrét Tryggvadóttir

Afstaðan til ESB-aðildar er dæmigert spursmál, sem ekki er hægt að komist hjá að taka afstöðu til með já-i eða nei-i. Auðvitað er hægt að bíða með það og ég held að það sé sú afstaða sem flestir hafa. Ég skammast mín ekkert fyrir að vera fremur hlynntur aðild þó andstaðan við hana sé greinilega meirihlutaafstaða nú um stundir. Miðað við þá afstöðu er ekkert skrýtið þó fylgjendur hennar vilji fá atkvæðagreiðslu um málið sem fyrst. Þeir sem fylgjandi eru aðild vilja auðvitað halda viðræðunum áfram og vona eflaust að afstaða almennings breytist með tímanum og þegar öll rök eru fram komin. Umræðan er í hálfgerðu skötulíki núna þegar óvissan er sem mest. Sennilega kærir ESB sig ekkert um okkur.

Áreiðanlega munu flestir (eða allir) flokkar reyna að sveipa mál þetta allt eins mikilli dulúð og hægt er þegar dregur að næstu þingkosningum. Ekki er þó hægt að komast hjá því að velta afdrifum þessa máls fyrir sér í aldraganda þeirra kosninga. Auðvitað hefur stjórnarskrármálið og hvernig alþingi gengur frá því, einnig heilmikil áhrif.

Eflaust á ýmislegt eftir að gerast á alþingi eftir að það kemur saman í janúar. Þetta þing getur orðið fyrir margra hluta sakir mjög merkilegt. Stórtíðindi gætu gerst þar. Þó á ég ekki von á að þingmenn fari að slást.

Í nútímarafmagnsleysi horfir fólk á sjónvarp og fær til þess lánað rafurmagn frá næsta húsi. Þetta var víst á Vestfjörðum og ljósavél sem rafmagnaði sjónvarpið. Mér finnst reyndar Internetleysi vera einskonar nútímarafmagnsleysi. A.m.k. hér í Kópavoginum. Og svo fer klukkan á bakarofninum alltaf í fýlu ef rafmagnið fer.

Sé að ég hef ekki minnst á áramótaskaupið ennþá, en það er víst skylda. Mér fannst það fremur ófyndið, en hló þó að handabandinu milli Jóhönnu og Ólafs. Meira er eiginlega ekki um skaupið að segja, finnst mér.

Sprengináttúra fólks um áramót er undarlegur siður. Eitthvað hefur kvisast út um þennan sérkennilega sið og túrhestar koma hingað til lands til að fylgjast með þessari venju mörlandans. Og svo er nýr siður í þann veginn að skapast þar sem seljandinn verður að skuldbinda sig til að sækja kaupandann uppá eitthvað fjall á vissum tíma ef keyptur er heill Ólafur Liljurós, sem sagður er Grímsson og kann ég ekki meira frá þessu að segja.

Var að lesa grein eftir Margréti Tryggvadóttur þingmann http://blog.pressan.is/margrett/2013/01/02/ad-vera-a-thingi/ og hún var ágæt. Man vel hvað henni hætti til að spenna greipar og vera eins og hún væri að biðjast fyrir þegar hún var að taka til máls á alþingi. Þetta hefur rjátlast af henni og hún er að mínu mati ágætur þingmaður. Veit ekki hvar hún ætlar að halda sig í næstu kosningum, en vafalaust get ég ekki kosið hana frekar en áður. Sagan hennar um Árna Johnsen er lýsandi. Svona starfa alltof margir þingmenn. Árni er einn af fjölmörgum sem þyrfti endilega að hreinsast af þingi. Ekki aðallega vegna þess að hann var á Kvíbryggju á sínum tíma, heldur vegna þess að svona karakterar eiga ekkert erindi á alþingi.

IMG 2270Tréhús. (Í tvennum skilningi.)


1840 - Togarinn Hallgrímur

Nú er komið nýtt ár og tilvalið að hætta að blogga. Ég ætla samt ekki að gera það. Kannski blogga ég meira en áður og kannski minna. Það fer bara eftir efnum og ástæðum. Get ekkert ákveðið um það fyrirfram. Pólitíkin lekur af mér eins og mörgum öðrum. Veit samt ekki til þess að ég standi öðrum framar í slíkum efnum. Á bara sæmilega gott með að koma fyrir mig orði og er orðinn óstöðvandi í blogginu, þó ég sé alltaf að reyna að hætta.

Mér fannst það ekki sérlega sniðugt hjá forsetanum að eyða mestöllu áramótaávarpinu í að gagnrýna stjórnarskrárfrumvarpið sem liggur fyrir alþingi. Eiginlega kemur honum þetta ekkert við. Ekki var hann kosinn á stjórnlagaþing. Bauð sig ekki einu sinni fram. Hafði líka hagsmuna að gæta. Svo er þessi gagnrýni alltof seint fram komin. ÓRG hefur hvenær sem er tækifæri til þess að láta hlusta á sig. Margir hlusta á áramótaávarpið í von um að heyra eitthvað annað en venjulegt pólitískt þvaður. Ný stjórnarskrá,  sem eitthvað er spunnið í, er ómögulegt að verði samþykkt nema í talsverðum ágreiningi. Ef enginn ágreiningur er um málin þá eru þau yfirleitt lítils virði. Þá var nú Kristján Eldjárn betri en ÓRG, þó hann véraði sig og ossaði í bak og fyrir. Vigdís var bara eins og hún er. Hvorki góð né slæm. Hljóp stundum illilega á sig, en ÓRG er ennþá í stjórnmálabuxunum sínum og heldur að hann sé eitthvert sameiningartákn. Það er hann alls ekki og vill fremur sundrungu en sameiningu.

Ég er sannfærður um að ef það verður ekki Bjarni Benediktsson sem kemur í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn komist í stjórn á næsta kjörtímabili, þá verður það Ólafur Ragnar Grímsson. Þeir sitja uppi með hann núna eftir að Bjarni hætti stuðningi sínum við ESB og Ólafur tilkynnti formlega um andstöðu sína við sama fyrirbæri. Hvorugur getur hugsað sér hlutleysi og andstaðan er fremur skammsýn.

Ég man vel eftir kastljósviðtalinu við Eirík Inga sem komst lífs af þegar togarinn Hallgrímur fórst undan Noregi snemma á síðastliðnu ári. Það viðtal (eða eintal) er eitt af því besta sem kastljósfólkið hefur nokkurntíma gert. Venjulega er ég heldur óstöðugur áhorfandi að kastljósi ríkissjónvarpsins. Gefst stundum fljótlega upp, eða er á einhverju rápi fram og aftur og skipti jafnvel um stöðvar. Það er þó sjaldgæft að ég geri það, því sjónvarpsáhorfandi er ég lítill. Horfi þó oftast á fréttir (eða a.m.k. upphafið) og oft á báðum stöðvunum. Einhverra hluta vegna var ég að horfa á sjónvarpið þegar þetta viðtal hófst og ég horfði á það til enda og þorði varla að draga andann á meðan. Eiríkur lýsti því sem þá hafði nýlega gerst með slíkri tilfinningu að annað eins hef ég aldrei séð í sjónvarpi. Sjálfur var hann það langathyglisverðasta við viðtalið. Hægt hefði verið að segja frá atburðarásinni í styttra máli og gleymanlegra, en ég tel að útilokað hafi verið að horfa á þetta viðtal ósnortinn.

IMG 2274Bogfimi o.fl.


1839 - Ansans vesen

Auðvitað vil ég að sem flestir hafi það skítt á nýja árinu og dettur ekki í hug að þakka neinum fyrir það gamla. Margir virðast halda að nauðsynlegt sé að vera góður við alla rétt um jólin og áramótin. Svo megi taka upp fyrri hætti og spúa eitri sínu um allt. Mér leiðist bara alveg skelfilega að vera eins og allir aðrir. Þessvegna forðast ég eins og heitan eldinn allar jólakveðjurnar og nýjársóskirnar.

Nú get ég semsagt farið að taka upp fyrri hætti, sem felast einkum í þvi að hafa allt á hornum mér. Nenni samt ekki að finna að réttritun og öðrum smáatriðum eins og Eiður gerir. Nei, ég er allur í því stóra. Mestar áhyggjur hef ég núna af tertuleifunum sem liggja eins og hráviði út um allt. Þeir sem sprengjuglaðastir eru nenna aldrei að þrífa upp eftir sig. Þarna liggur pappadraslið svo framað páskum eða lengur öllum til ama, einkum þó mér.

Svo verða víst kosningar á árinu. Þær fara illa. Ætli einhverjir vinni ekki og setji saman nýja og vonlausa ríkisstjórn uppúr því. Alveg er ég viss um að hún verður ákaflega misheppnuð. Spáfötin mín eru inni í skáp og ég sé ekki almennilega hverjir verða ráðherrar, en það eru örugglega einhverjir fávitar.

Þegar illa gengur að koma ríkisstjórninni frá verður gripið til málþófs sem er þó búið að margsanna að er vonlaus aðferð. Sprengjurnar eru miklu betri. Alþingi verður sent í sumarfrí þegar veður tekur að skána og snjóinn að taka upp og bílarnir að finnast. Já, ég gleymdi víst að geta þess að snjókoma verður með mesta móti á útmánuðum. Bílar týnast og björgunarsveitir líka. Snjóflóð falla og allt verður í hers höndum.

En nú er ég hættur. „Falin er í illspá hverri, ósk um hrakför sýnu verri“ segir Stephen G. í þjóðsöng Vestur-Íslendinga, sem eru víst orðnir miklu fleiri en þessir Plat-Íslendingar sem hírast enn hérna á skerinu. Kannski taka Noregs-Íslendingar hér við ef þeir mega vera að því vegna olíudrykkju.

IMG 2268Fólk á ferðinni í Fossvogsdal. (Sennilega að flýja land)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband