1852 - Robert James

Einhver gleðilegasti atburður sem ég hef orðið vitni að og við Íslendingar höfum tekið þátt í er mótttaka Bobby Fischers árið 2005. Ekki aðeins vegna þess að ég varð vitni að einvíginu fræga árið 1972 og hef allar götur síðan (og reyndar fyrr líka) haft mikið álit á Fischer sem skákmanni. Heldur færði sú aðgerð mér heim sanninn um það að stórveldin geta ekki skipað öðrum fyrir eins og þeim lystir. Ísland leyfði sér þá að standa uppi í hárinu á stórveldinu Bandaríkjunum og komst upp með það. Það er til lítils að bjóða stórveldi byrginn ef nauðsynlegt reynist seinna meir að gefa eftir vegna hefndaraðgerða. Eflaust hafa þeir Bandaríkjamenn sem reyndu að fá Fischer framseldan þá álitið þetta mál fremur lítilsvert, eða neyðst til þess. Ekki er víst að Ísland hefði komist upp með að bjóða Könum byrginn í hverju sem var.

Nú ætla ég að spá um stjórnmálaþróunina næstu mánuði. Auðvitað er lítið að marka þá spá en segja má að nú sé rétti tíminn til þess, því alþingi er að koma frá veisluborðunum og á að fara að vinna fyrir mat sínum.

Ekki er að sjá annað en stjórnarskrármálið leggist í dvala eins og oft hefur gerst. Vel má samt vera að einhverskonar samkomulag fjórflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslur og kosningalög líti dagsins ljós. Ef sjálfstæðisflokkur og samfylking ná saman um eitthvað slíkt eru líkur til að sú stjórnarskrárbreyting verði samþykkt beggja megin við næstu kosningar. En fráleitt er að ný og bætt stjórnarskrá verði samþykkt. Til þess er alltof mikill tilraunabragur á henni. Samstarf sjálfstæðismanna og samfylkingar gæti byrjað með því að tryggja einhverjar breytingar á henni. Ekki er sjáanlegt að vinstri menn sætti sig við þann bastarð sem líklegt er að komi útúr kvótalögunum. Kannski verður því öllu grautað saman orkunýtingunni, kvótanum og ESB og frestunaráráttan verði þar yfirgnæfandi.

Guðbjartur held ég að vinni Árna Pál, einkum vegna þess að Skagamenn eru vanir að vinna. Gott ef Jóhanna reynir svo ekki að hafa það sitt síðasta verk að tryggja honum formennskuna.

Síminn hefur tilkynnt að allir sem eru aðilar að sjónvarpi símans geti horft á dagskrá sjónvarpsins hvenær sem er. Eflaust er þetta til bóta fyrir einhverja. Ef boðið hefði verið uppá þetta fyrir svona tíu til fimmtán árum hefði það þó verið mun áhrifaríkara. Ég er hræddur um að svo margir séu alveg orðnir fráhverfir sjónvarpsstöðvunum að þetta hafi fremur lítil áhrif. Það eru helst fréttir og einstöku innlendir þættir sem enn er áhugi fyrir. Að öðru leyti held ég að sá hópur sé orðinn ansi stór sem er búinn að gefa sjónvarpsstöðvarnar alveg uppá bátinn. Ég á reyndar eftir að sjá að þetta verði framkvæmt á þann hátt að allir verði ánægðir með það.

IMG 2398Mannvirki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég hef ekki hugsað út í þetta með sjónvarpsstöðvarnar. Ég er einmitt ekki með neitt sjónvarp í gangi hjá mér, þ.e.s. nota ekki sjónvarpsstöðvarnar, heldur horfi ég á það sem ég vel sjálfur á netinu eða efni sem ég hala niður. Ég er semsé ekki neinn sérstakur sérviskupúki, eða hvað?

Theódór Gunnarsson, 15.1.2013 kl. 19:12

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei,ég hugsa að þú sért ekki neinn sérstakur sérviskupúki með það. Annars væri gaman að sjá rannsókn á þessu. Gamla reglan var sú að sjónvarpsáhorf minnkaði eftir því sem sjónvarpsstöðvum fjölgaði. Held að rétt væri að taka tímafaktorinn með í reikninginn líka. Eru ekki allir búnir að gefast upp á þessum sjónvarpsstöðvum?

Sæmundur Bjarnason, 16.1.2013 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband