1849 - Athugasemdir

Hef alltaf svolitlar áhyggjur af því að þeir sem lesa bloggið mitt missi af mjög gáfulegum athugasemdum. Hér eru t.d. þrjár þær síðustu síðan um daginn. Kannski einhverjir hafi misst af þessum súperfínu og krassandi umræðum.

-          - - - - - - - - -

Er nokkur munur á Facebook og blog.is hvað varðar markaðsvæðingu samskiptavefja? Er kvótadrottningin í Eyjum sem dælir peningum í Morgunblaðið eitthvað ólíklegri til að selja þennan gagnagrunn sem þessi orð eru skrifuð í í til hæstbjóðanda, heldur en Mark Zuckerberg?

Theódór Norðkvist, 11.1.2013 kl. 04:52

...heldur en Mark Zuckerberg er til að selja Facebook með öllum sínum upplýsingum.

Átti þetta að vera þarna síðast til að setja hlutina í skýrt samhengi.

Theódór Norðkvist, 11.1.2013 kl. 04:53

Nei, Eyjadrottningin er ekkert betri, held ég. Zuckerberg er samt óseðjandi. Alltaf að biðja um (eða heimta) nýjar og nýjar upplýsingar og svo hleypir hann allskyns fólki (öppum) að manni. Hún er líka mun minni og ólíklegt að eftirspurnin sé lík.

Sæmundur Bjarnason, 11.1.2013 kl. 13:32

-          - - - - - - - - -

Svona er ég nú sjálfmiðaður ef ég passa mig ekki. Og ég passaði mig ekkert núna.

Fór áðan út að labba og samdi eftirfarandi: Kannski ég kalli það bara ljóð.

Á göngustígum borgarinnar.

Uppþornaðir ánamaðkar,
sælgætispappír,
sinustrá,
gæsaskítur,
rakettuprik.
Allt ber þetta vott um líf,
sem hefur látið undan síga.

Nú er ég semsagt búinn að fylla næstum því heila blaðsíðu. Ókey ég viðurkenni að það er með hálfgerðu svindli svo ég ætti að reyna að bæta einhverju við. Veit ekki hvernig það gengur. Reyni.

Það virðist vera keppikefli sumra að skemmta sér undir drep. Ennþá held ég að enginn hafi samt skemmt sér til dauðs, enda býst ég ekki við að dauðinn sé skemmtilegur. Margir hafa samt stytt líf sitt töluvert með ótímabærum skemmtunum. Er skemmtilegast að éta? Það gæti maður haldið. Allur vondur matur er bráðhollur.

Mér þykir slæmt hvernig veröldin er, því hún gæti verið svo miklu betri. Það er til dæmis engin hemja að láta mann drepast þegar maður er að byrja að skilja lífið. Auðvitað er það engum að kenna en ég set mig upp á móti því samt.

Ekki er líklegt að stjórnarmunstur blasi við eftir kosningarnar í vor. Þá hefst hið brjálaða tilstand. Allir reyna að ganga í augun á öllum hinum og kjaftasögurnar spretta upp hvar sem tveir menn hittast. Í þessu grugguga vatni finnst Ólafi forseta gaman að leika sér. Því hann veitir umboð til stjórnarmyndunar og getur haft áhrif á hana. Hvernig hrossakaupin ganga og hver platar hvern fer að sjálfsögðu talsvert eftir úrslitum kosninganna en ekki er öruggt að sú úrslit hafi úrslitaáhrif. Leiknin og fimin í kjötkatlastríðinu hefur mikil áhrif líka. Líklega skipta einhverjir peningar einnig um eigendur í þessu millispili, en að lokum kemst á vopnaður friður og ríkisstjórn verður mynduð. Svona hefur þetta gengið og svona á þetta að ganga til, eða hvað? Samsteypustjórnir eru mál málanna því þá er alltaf hægt að svíkja það sem menn sjá mest eftir að hafa lofað.

IMG 2381Frosið laufblað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband