1850 - Eva Hauksdóttir

Einhver harðasta refsingin sem úthlutað er á Norðurlöndum (og kannski víðar) um þessar mundir er útilokun frá fésbókinni. Pia Kjærsgaard er sögð hafa fengið útskúfun í heilan dag. Innlendur feminist hefur víst verið útlokaður þrisvar sinnum (einn dag í hvert sinn) Ekki held ég að Ögmundur hafi gert sér grein fyrir hvernig er hægt er að græða á þessu.

Einfaldast væri náttúrlega á láta fésbókina sjá um allar refsingar en ekki er víst að samningar mundu nást um það. Þar sem um er að ræða óvandað málfar, ærumeiðingar og annað smáskítlegt væri upplagt að nota fésbókina. Skoða þyrfti vandlega hvort ekki mætti líka láta í þessa ágætis verksmiðju háreisti og djöfulgang í heimahúsum.

Nota má þessa aðferð til prufu við næstu alþingiskosningar og hafa refsingarnar þá fremur vægar fyrsta kastið.

Ein frétt frá síðustu viku er mér ofar í huga en flestar aðrar. Veit ekki af hverju:

Laus armur laganna
gaf í og gusaði
á viðstaddar vampýrur
svo ljósmyndin langa
lukkaðist vel.

Gef ekki frekari skýringar. Meina ekkert sérstakt með þessu. Svona er þetta bara í mínum huga.

Himstrakeppnin í handbolta hófst í gær. Hún er haldin annað hvert ár á móti Evrópumeistaramótinu svo hægt sé að nota sér áhuga almennings sem mestur er jafnan í janúar. Einhver hélt því fram í sjónvarpi um daginn að handbolti væri þjóðaríþrótt Íslendinga og stæði jafnvel framar glímunni. Minntist ekki á knattspyrnuna sem enn er langvinsælust og mest iðkuð hér á ísa köldu landi þó himstrakeppnin þar sé bara fjórða hvert ár og ekki í janúar. Glíman er bara þjóðaríþrótt að því leyti að aðrir stunda ekki slíka vitleysu og hefur verið þannig þjóðaríþrótt í marga áratugi.

Einhverntíma ekki alls fyrir löngu skrifaði Jens Guð athugasemd við bloggið mitt og kvaðst oft líta á það hjá mér. Sömuleiðis. Ég varð náttúrulega talsvert upp með mér enda finnst mér Jens góður bloggari. Kannski fær hann hugmyndir af því að lesa bloggið mitt. Fæ ég kannski hugmyndir af því að lesa bloggið hans? Ekki finnst mér það. Ætli það sé ekki yfrið nóg af hugmyndum á sveimi um allt þó maður nái í skottið á einni og einni. Skrifelsishugmyndir fara mest eftir þeim sem hugmyndirnar fær. Ekki því hvað bloggarinn hefur farið oft til útlanda eða gert hitt oft. Að gera hitt einsog Þórbergur komst jafnan að orði er ekki það sem lífið snýst um. Kannski gerir það það samt hjá sumum.

Eva Hauksdóttir reynir af veikum mætti að berjast gegn feminisma og pólitískri rétthugsun. Stundum verður henni prýðilega ágengt í því, en það er þegar hún talar um rétt fólks til að skrifa undir dulnefni sem ég sperri eyrun. Með eignarrétti stórfyrirtækja á Internetinu, sem er í undirbúningi, líður ekki á löngu áður en frelsið til að dyljast þar líður undir lok og það er mikill skaði. Sú þöggun sem þá verður hægt að beita er hættuleg allri netumræðu. Það er sú þöggun sem hingað til hefur verið beitt. Með Internetinu hefur svolítið los komist á hana og það eiga ráðandi öfl erfitt með að þola. Auðvitað misnota sumir dulnefnisréttinn en hjá því verður aldrei komist.

IMG 2391Það er alveg að koma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmi.
Flott vísa hjá þér. Hellingur af hugsanlegum stuðlum og svo einn höfuðstafur.
Hverjir eru að ásælast internetið? Hef ekki séð þetta fyrr. Veit JÁJ af þessu?
Ég er annars bara að athugasemdast þetta til að gera eitthvað.

Guðmundur Bjarnason 13.1.2013 kl. 03:59

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, Guðmundur stórfyrirtækin eru að reyna að ná valdi yfir netinu. Google, Microsoft, Apple, Yahoo, Facebook o.s.frv. T.d. með því að safna upplýsingum um alla og enginn má skrifa á netið nema hægt sé að rekja það. Þau eru útsendarar stórþjóðanna. Þau ætla sér að ná valdi á þessu tæki með góðu eða illu.

Sæmundur Bjarnason, 13.1.2013 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband