3203 - Um ketti

Nú er ég búinn að blogga tvo daga í röð og ætla að reyna við þann þriðja. Kannski verður

þetta blogg í styttra lagi, en það læt ég mér í léttu rúmi liggja. Vissulega gæti ég reynt að segja eitthvað gáfulegt um eldgosin á Reykjanesi, en ég nenni því ekki.

KATTASPEKI

Kettir „heyra“ hreyfingu og sjá með tvennu móti. Annars vegar það sem hreyfist og hins vegar það sem ekki hreyfist. Þeir skynja hvort maður er sofandi eða ekki. Einnig í hvernig skapi maður er og hvort eitthvað kemur nálægt þeim, þegar þeir eru sofandi. Kettir veiða ekki fugla. A.m.k. gera heimiliskettir það ekki. Annars vegar vegna þess að þeir fá nóg að borða með öðru móti og hins vegar vegna þess að þeim þykja mýs og flugur miklu betri. Og svo er allt hitt. Níu líf og þessháttar.

Læt ég svo þessari speki lokið. Ekki er víst að allir séu sammála mér.

Ekki veit ég hvor ástæða er til að hafa þetta lengra.

IMG 3470Einhver mynd.


3202 - Um skák

Í dag er sunnudagur og ég er búinn að setja upp blogg. Samt veitir mér ekki af að byrja á því næsta ef ég á að standa við það að blogga daglega. Reikna svosem ekki með að standa við það. Of erfitt fyrir mig.

Reyni samt. Nú er kominn mánudagur. Þarna kom þorn, en átti að vera punktur. Ekki er þetta fullkomið, þó skárra sé en áður. Fingrasetningin lifi. Hraðinn líka. Kannski ég fari að blogga oftar. Greinilega er mér að skána.

Bjarni sonur minn er að tefla á Reykjavíkurskákmótinu, og ég fylgist með honum á Netinu. Það er alveg hætt að skrifa um skák á öðrum fjölmiðlum. Kannski get ég talið hann á að blogga um skák. Hann er nefnilega mjög vel að sér um skáksöguna.  

Kisa er að hjálpa mér við bloggskrifin og það flýtir ekkert fyrir. Annars er þetta mesti sómaköttur. Veit samt ekkert um bloggskrif.

Kannski ég láti þetta duga í dag. Hættur.

IMG 3471Einhver mynd.


3201 - Tilraun, einn ganginn til

Ég er að hugsa um að gera enn eina tilraun til að blogga reglulega. Að þessu sinni er ekkert líklegra að ég geri það en áður fyrr. Helst er það að ég vélrita heldur hraðar en síðast. Þegar ég var yngri og hraustari stikaði ég hér á Akranesi um gangstíga og leitaði að 5 kílómetra hring, en núna er ég gamalmenni með staf og verð að sætta mig við miklu minna.

Nú er ég kominn á annað ár miðað við endurfæðinguna, sem engin virðist ætla að taka mark á.

Klukkan er að verða átta á sunnudagsmorgni og ekki seinna vænna að byrja á bloggi, ef ég ætla að blogga á hverjum degi. Það þarf ég þó að gera ef ég á að ná eihverjum tökum á fingrasetningunni. Ég er að verða betri að því leyti smá saman.

Kannski er betra að vera ekki að stefna að því að skrifa daglega. Skrifa heldur vikulega og gera það almennilega. Sjáum til. Hættur í bili.

IMG 3492Einhver mynd.


3200 - Endurfæðing

Held að ég hafi eitthvað verið að tala um endurfæðingu um daginn.

Hvað er endurfæðing?

Til dæmis ef maður öðlast djúpan skilning á eðli annarra. Þórbergur hefði sennilega sagt: „eðli alheimsins“. En ég er nú svosem ekki að líkja mér við hann, þó hann hafi endurfæðst hvað eftir annað.

Mér fannst ég vera á margan hátt nýr maður eftir veikindin í fyrra.

Það sem skilur manninn frá dýrunum er einkum „samstarfið“.

Vissulega hafa mörg dýr komist að því að það að ferðast í hópum eykur lífsvon þeirra mikið. Samstarf um að komast af er mikilvægt, en manninum hefur lánast með t.d. málinu að láta samstarfið ná til næstum allra mannlegra verka. Og með því hefur hann náð yfirburða stöðu gagnvart öðrum dýrum.

 

Þegar ég var á ferð í Færeyjum fyrir tæpu ári notaði ég ýmist færeyskar krónur eða danskar og létu menn sér nokk í léttu rúmi liggja hvorri þjóð seðillinn var merktur hverju sinni. -- Þegar ég aftur á móti ætlaði að borga með færeyskum afgangsseðlum þegar ég í Danmörku á dögunum rak þarlenda í stans og vildu ekki sjá þessa snepla.
Samt hef ég aldrei heyrt eða séð Færeyinga væla undan því að litla krónan þeirra sé ónýt.

Þessi klausa er eftir Sigurð Hreiðar. Mér finnst þetta mesta vitleysa, en get illa sagt það.

 

Það er margt sem maður rekst á ef maður ferðast fram og aftur í skjali því sem ég nota til að blogga. Þetta hef ég einhverntíma ætlað að fjölyrða eitthvað um. Það var fyrir veikindin og er á vissan hátt til marks um endurfæðingu mína. Man ekki hvar eða af hverju þetta var skrifað eða hvenær. Nú þætti mér ekki taka því að vera að finna að svona löguðu.

IMG 3497Einhver mynd.


3199 Þessi vika

Allavega er ég að hugsa um að skrifa eitthvað í hverjum mánuði héðan í frá. Ef ég verð í stuði skrifa ég kannski daglega eða svona sirkabát annan hvern dag.

Að vísu er ég ekkert viss um að neinir lesi þetta bull í mér. A.m.k. er þetta nýjasta blogg hjá mér alveg athugasemdalaust. Það er samt ekki alveg að marka því að á meðan ég þokast upp vinsældalistann hljóta einhverjir að lesa þetta. Var áðan að athuga hve margar örsögur ég á á lager og eru aftan við söguna um Guttorm dúllara og þær reynust vera yfir tuttugu, svo ég verð ekki á flæðiskeri staddur á næstunni þeirra vegna.

Í gærkvöldi fór ég seint að sofa. Vesen með tölvuna. Þegar ég vaknaði í morgun klukkan að verða 10 var farið að birta. Svei mér þá. Fannst næstum því vera komið vor. Á morgun fer ég suður til Rvíkur. Til að mynda kviðslitið sem ég held að ég sé með. Heimilislæknirinn hann Árni heldur það líka, held ég.

Á miðvikudaginn eigum við svo að fá læknisvottorð vegna endurnýjunar á ökuskíteininu. Fleira liggur svo ekki fyrir í þessum mánuði, held ég. Ég ætla samt að reyna að vera duglegur að blogga og taka til. Fór með dót í geymsluna í dag.

Á laugardaginn kemur verð ég að vísu eins árs, en nánar um það seinna.

Ég endurfæddist nefnilega í vissum skilningi þegar ég kom heim í fyrra af sjúkrahúsinu eftir alvarleg veikindi.

Í gær var miðvikudagur og við fórum að fá læknisvottorð, en prentarinn hjá lækninum var bilaður svo ég þarf að fara aftur í dag.                                  

En nóg um það, ég skrifa kannski um það og margt fleira seinna meir. Um að gera að hafa bloggin stutt núna, svo það er kannski væri bara best að hætta strax.

Eldgos hófst í dag og ég ekki búinn að setja upp bloggið mitt. Kannski ég hætti bara. Aðrir verða eflaust til að skrifa um það. Sem sagt hættur.

 

IMG 3518Einhver mynd.


3198 - +Isak

Nú er að því komið að ég þarf eiginlega að byrja á bloggskrifum. Veit samt ekkert um hvað ég muni skrifa.

 

Það var þann nítjánda apríl 2015 sem Ísak Harðarson (eða einhver sem kallaði sig það) birti á Facebook eftirfarandi ljóð:

 

MINN HEIMUR HRUNDI LÖNGU ÁÐUR
(Tileinkað Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Geir Haarde
og þeim öflum sem hafa skapað þau og þau þjóna).

Minn heimur hrundi löngu áður:
strax við fæðingu tók við mér sundrað líf,
foreldrar ekki til staðar nema sem dauðar myndir,
engar vonir og væntingar, engar elskandi hendur
og augu, ekkert hjarta sem sló fyrir mig, engin
framtíð lá fyrir barninu í vöggunni á fæðingardeildinni.

Allt frá upphafi var ég aðskotahlutur, tákn
um mistök, brostna drauma, ég var einhver
sem þvældist fyrir, áminning um hræðilegt klúður,
óafmáanlegt merki um sneypu, örlítill púki
sem átti ekki að vera til – líkast til kominn
beint úr sjálfu helvíti.

Þannig að þegar hrunið varð hálfri öld síðar,
þá hrundi í mínu tilfelli maður sem hafði fæðst sem rúst
og reynt öll þessi ár að verða að einhvers konar byggingu;
ef ekki höll, ef ekki státið einbýlishús í einhverju úthverfi
nálægt sjónum, ef ekki lítil blokkaríbúð í Breiðholti
með drapplitum gluggatjöldum og nafnskilti á hurðinni 
– Ísak Harðarson, eiginkona og börn – 
þá að minnsta kosti leiguherbergi, kjallaraskonsa með þeim
lágmarkstengslum við lífið sem fást með rennandi vatni
úr krana og útsýni út í heiminn um ódýrustu sjónvarpsstöðvarnar,
annars að minnsta kosti samþykktur hundakofi,
og ef ekki einu sinni það, þá síðasti úrkosturinn: 
leyniafdrep hins smæsta í forsal hinnar komandi Paradísar.

Hrunið ykkar rústaði mig til fulls. 
Þeir sem stuðluðu að því hafa í rauninni maskað endanlega
líf, sjálfsvirðingu og framtíðarvonir margra fyrir fullt og allt
og þurfa að borga fyrir með því að taka við sendiherrastöðum,
skipta um starfstitla, flytjast úr einni höllinni í aðra,
til þess að geta haldið áfram að græða sjálfsvirðinguna á daginn
og grilla á kvöldin í félagsskap djöfulsins í helvíti. 
Veggir þeirra, eyru og hjörtu eru eilíflega einangruð
fyrir sálarkvölum þeirra sem þau lögðu endanlega í rúst, 
á meðan fjármálakerfið þeirra endurreisir sig smám saman
eins og svartur djöfull sem sperrir hægt en ákveðið út eiturvængi sína
og gerir sig kláran til sprengjuflugs yfir næfuþunnan heim mannanna.

          Ísak Harðarson 19. Apríl 2015 – Fésbók.

 

Af einhverjum ástæðum svaraði ég þessu ljóði nokkrum dögum seinna, þannig:

 

 

ÉG VEIT EKKI NEITT

Auðvitað má margt um Hrunið segja.

Sumt verður þó aldrei sagt. Sumir þegja sem fastast.

Einhverjir töpuðu aleigunni, aðrir talsverðu.

En ég bjargaðist.
Verðum við smáfuglarnir ekki að hugga okkur við það

Að hamingjan er ekki fólgin í rúmgóðum bílskúrum, sem aldrei kemur bíll inn í
Og tvöföldum gasgrillum?
Eigum við ekki bara að sætta okkur við að peningalegum verðmætum er stolið af okkur jafnharðan.

Hvað er það sem aðskilur einskisvert líf og það sem verðmætara er? Eru þeir einskisverðari sem drukkna í Miðjarðarhafinu eða eru nægilega ólíkir okkur til að vera einskisverðir?

Hvað þá með Balkanskagastríðin fyrir skemmstu?

Er allt líf jafnmikils virði? Bæði mannlegt og dýrslegt? Jafnvel kjúklingalegt? Eða plöntulegt og skordýralegt?
Veit það ekki.

                      Sæmundur Bjarnason 26. Apríl 2015 (eftir að hafa lesið ljóðið hans Ísaks Harðarsonar)

 

Mig minnir að við höfum skipst á einhverjum tölvupósum í tilefni af þessu og að þar hafi það komið fram að ekki yrði þetta ljóð geymt. Samt hef ég haldið uppá þetta.

Á þessum tíma voru margir uppteknir af Hruninu og ekki að ástæðulausu. Sárin sem það skildi eftir munu seint gróa og kannski aldrei, frekar en þau áföll sem við Íslendingar höfum orðið fyrir, gegnum tíðina. Þó erum við heppin samanborið við marga aðra. En þetta blogg er orðið nógu langt (kannski of) og því er skást að hætta.

 

IMG 3520Einhver mynd.


3197 - Það er nú svo

3197 – Það er nú svo

Ekki fór það nú svo að ég færi að blogga reglulega þó ég hafi svosem ætlað mér það.

Ýmislegt hefur á daga mína drifið að undanförnu og þar að auki hefur veðrið verið hálfrysjótt síðustu daga.

Við erum bæði hjónin komin með nýjar tölvur núna og búast má við ýmsum kárínum þess vegna. Ég ætla mér að komast á 50 listann hér á Moggablogginu fljótlega, ef ég blogga. Flestir eru hættir því og farnir á fésbókina, en ég er svo íhaldssamur að ég er ennþá hér.

Hérna eru aðallega sannfærðir öfgaíhaldsmenn og ýmsir furðufuglar. Þykist sjálfur tilheyra síðari kategóríunni, en veit ekki hvað öðrum finnst.

Áslaug konan mín var áðan að kvarta yfir því, við Bjarna son okkar, að hún fyndi ekki íslensku stafina á lyklaborði nýju tölvunnar. Ég fór náttúrulega að athuga hvort þetta væri eins á minni tölvu. Svo reyndist að sjálfsögðu vera. Ég nota nefnilega fingrasetninuna sem ég lærði á Bifröst í fornöld. Að vísu vélrita ég óhóflega hægt og geri mikið af villum. Horfi jafnan á það sem ég skrifa, en þess þurfti ég ekki áður og fyrr.

Veit ekki hvort ég ætti að skrifa meira. Fyrrmeir vildi ég helst að blogg væru sem lengst en núorðið er „attention spanið“ orðið svo stutt hjá flestum að stutt blogg eru í tísku, held ég. Tala nú ekki um ef menn blogga oft, einsog ég gerði áður en ég veiktist.

Kannski ég bloggi lengri blogg einhverntíma þegar mér vex fiskur um hrygg og vélritunarhraðinn vex.

IMG 3537Einhver mynd.


3196 - Matur er mannsins megin

Ég er stundum að velta því fyrir mér af hverju ég borða miklu minna núna en ég gerði. Einkum borðaði ég mikið á heilsuhælinu. Sennilega var það í og með af því að þannig fæði á betur við mig. Ástæða þess að ég borða ekki eins mikið núna er að svolitlu leyti, ímynda ég mér, sparnaður. Við lifum óhemju spart, en það finnst mér allsekki vera aðalástæðan. Önnur ástæða er leti. Aðrar ásæður veit ég ekkert um. Þær eru samt örugglega mjög mikilvægar. Eiginlega hef ég ekki komist að niðurstöðu um þetta, þrátt fyrir talsverðar umþenkingar.

Sumum kann að finnast þetta lítilsvirði sem umræðuefni, en það er ekki rétt. Heilbrigðisvísindi eru mikilvæg. Óneitanlega er maður það sem maður étur. Um það er þarflaust að deila.

Ómótmælt er að öll sú kjötframleiðsla sem stunduð er, er ekki umhverfisvæn. Þarflaust er um það að deila. Að láta allt þetta grasmagn fara gegnum maga jórturdýra til að breyta því í kjöt er óhagkvæmt mjög og mun smám saman breytast. Ég er ekki endilega að predika að allir gerist grasætur, en neysla jurtafæðis hverskonar mun á næstu árum aukast mjög og er það vel.

Á sama tíma munu veiðar hvers konar, að meðtöldum fiskveiðum dragast mjög saman. Slíkt er óhjákvæmilegt. Vonandi verður nýbyrjuð öld ekki öld styrjalda, þó sú síðasta hafi á margan hátt verið það.

Í dag er mánudagur og e.t.v. ráðast örlög ríkisstjónarinnar í dag. Ég held samt að Sjálfstæðismenn munu lúffa og Katrín sýna hvað í henni býr. Hún virðist ekki þurfa nema að setja BB stólinn fyrir dyrnar og að hann muni þá láta í minni pokann. Annars er þetta óljóst.

Læt þessum hugleiðingum hér með lokið, enda kominn tími til.

IMG 3538Einhver mynd.


3195 - Kattavísindi

Mamma og Amma sögðu alltaf að þau sem sáu óorðna hluti sæmilega fyrir hefðu svokallaðan „sagnaranda“. Þar gat bæði verið um dýr og fólk að ræða. Jói segir að Breki viti alltaf uppá hár hvenær Hafdís kemur heim. Ég var víst eihverntíma búinn að lofa að segja eitthvað um sálarlíf katta. Ekki hef ég í hyggju að gera það núna, en heyrn þeirra kemur þar við sögu. Eins og flestir vita hafa kettir afburðagóða heyrn. Hún ásamt innbyggðri klukku nægir að mínu viti til þess að skýra þetta með Hafdísi. Kettir vita ávallt með 100% nákvæmni úr hvaða átt hljóð kemur. Sennilega vita þeir einnig hve langt er að upptökum hljóðsins og geta þannig greint bílhljóð útí hörgul. Þetta með „gestaspjótið“ er erfiðara að skýra, en verið gæti að það væri verulega ýkt.

Annars er sálarlíf katta gagnmerk vísindi og verður seint lokið. Alltaf má þó reyna.

Fyrir utan þetta hef fátt að segja núna og læt þessu því lokið. Auðvitað er þetta blogg í styttra lagi, en við því er ekkert að gera. Skárra er að blogga stutt en allsekki.

Bið ég svo hugsanlega lesendur vel að lifa.

IMG 3539Einhver mynd.


3194 - Sætsúpan köld

Þegar ég var í skóla, fyrir svona sjötíu árum, var alltaf safnast saman á ganginum uppi á lofti og sungið. Að sjálfsögðu söng ég ekkert, enda vita laglaus. Textana lærði ég samt, því ég átti á margan hátt létt með að læra og fékk venjulega fremur háar einkunnir.

Söngur allur og hverskonar tónlist hefur samt verið mér alla tíð að mestu lokuð bók. Um það ætlaði ég ekki að fjölyrða hér, heldur um textana.

Man að ég hreifst allnokkuð af einföldum og skiljanlegum textum Þorsteins Erlingssonar einsog t.d. þessum:

Heyrðu snöggvast Snati minn
snjalli vinur kæri.

Óþarfi hinn mesti þótti mér samt hjá höfundinum að vera að blanda jólunum í þetta, því mér fannst „jólakaka“ bara vera jólakaka og ekkert koma jólunum við. Þannig var það á mínu heimili að jólakökur voru á boðstólum jafnt á helgidögum sem rúmhelgum dögum.

Eitt af þeim kvæðum sem við sungum á loftinu undir stjórn Hróðmars Sigurðssonar var þannig að í miðju kvæðinu voru þessar ljóðlínur:

Var það útaf ástinni ungu sem ég ber
eða var það feigðin sem kallaði að mér?

Þetta með feigðina olli mér miklum heilabrotum. Auðvitað vissi ég mætavel hvað feigð þýddi en við okkur krakkana var aldrei rætt um dauðann og af þessu fékk ég þá hugmynd að svokölluð ást væri stórhættuleg. Eimir jafnvel enn eftir af þessum skilningi.

Annars var það einskonar íþrótt hjá okkur strákunum að snúa útúr vinsælum kvæðum og dægurlagatextum. Ég man t.d. eftir þessum:

Nú blikar við sólarlag sætsúpan köld.

Eða:

Í vor kom ég sunnan með sólskin í nýra
og þambaði á leiðinni hálfflösku af spíra.

Og

Hvað er svo glatt sem góðtemplarafundur.....o.s.frv.

Nú er best að hætta, því ég er víst kominn á vafasamar slóðir.

IMG 3540Einhver mynd.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband