Færsluflokkur: Bloggar
21.10.2020 | 06:31
3019 - Borat
Á sínum tíma leit ég ekki á Borat sem gagnrýni á Bandaríkin fyrst og fremst, heldur aðallega sem feikilega vel heppnaða gamanmynd. Minnisstæðust er fáránleg sundskýlan sem hann var sem oftast í og áherslan á nektina. Er alls ekki viss um að ég hafi séð kvikmyndina alla. Borat brandarar tröllriðu öllum fjölmiðlum á þessum tíma. Sennilega hefur þessi Borat-vitleysa öllsömul mótað að einhverju leyti hugmyndir mínar um Kirgistan. Allir fjölmiðlar voru ofurseldir þessu og á vissan hátt má segja að þetta allt saman hafi náð hámarki sínu í raunveruleika sjónvarpinu og þar með í Trump og öllu sem þróast hefur í kringum hann. Í einhverjum skilningi er hann einskonar afsprengi Borat fíflagangsins sem kenna má pressunni um að sumu leyti.
Nú er verið að boða Borat2 og kannski verður það jafnmikið flopp og Segway var á sínum tíma. Fjölmiðlar þreyttust ekki á því að skrifa um þetta tækniundur, en svo gleymdist það eiginlega alveg. Segja má að rafknúnu hlaupahjólin séu afsprengi þeirrar tæknivitleysu.
Að þessi nýja Boratmynd skuli vera frumsýnd einmitt núna er að mörgu leyti skiljanlegt. Gagnrýni heimsins á Trump og þá últra hægristefnu í stjórnmálum sem hann stendur fyrir er á margan hátt eðlileg. Vel er samt hægt að hugsa sér að öll þessi gagnrýni á bandarískt þjóðlíf komi Trump til góða á einhvern hátt. Áhuginn á komandi forsetakosninum í Bandaríkjunum (3. nóvember) er að minnsta kosti geysimikill um allan heim.
Man vel eftir því, þó það komi ekki þessu beinlínis við, að á sínum tíma (1959) var ég að hefja nám í Samvinnuskólanum að Bifröst og var í einhverri nefnd sem ákvað að sýna á skemmtíkvöldi (laugardagskvöldi) kvikmynd um kappræður þeirra Nixons og Kennedys. Þá kvikmynd man ég að við fengum hjá einhverri upplýsinga og áróðursskrifstofu sem bandaríkjamenn ráku þá í Reykjavík. Nú eru þessar kappræður álitnar sögulegar í meira lagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.10.2020 | 11:43
3018 - Blái himininn
Í baksýnisspeglinum fræga sýnist mér að við Íslendingar höfum verið óvenju heppnir í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þá var eftirspurn eftir matvælum mikil og við græddum á því. Sömuleiðis voru íþróttir lítið stundaðar í útlandinu á stríðsárunum. Þessvegna meðal annars gekk okkur vel þar á fyrstu árunum eftir stríð. Á hrunárunum fyrir 2008 höguðum við okkur óskynsamlega. Fer samt ekki nánar útí það. Ef bóluefni gegn Covid-19 veirunni finnst og kemst í dreifingu nokkuð fljólega kann að koma í ljós að við Íslendingar höfum undanfarið hagað okkur nokkuð skynsamlega. Vonum það að minnsta kosti meðan enn er sæmileg von um að það rætist. Annars má búast við að þessi faraldur hafi mikil og djúpstæð áhrif á pólitík alla og efnahagslíf í heiminum ef vel tekst til.
Enn er mörgum spurningum ósvarað varðandi Covid-19 faraldurinn.
AHver er raunveruleg dánartíðni í Covid-19 faraldrinum?
Er e.t.v. gert fullmikið úr eftirköstum veirusýkingarinnar? Hve algeng eru þau? Og hve alvarleg eru þau?
Hvað með eftirköst annarra veirusýkinga t.d. venjulegrar og algengrar flensu?
Hve líkleg er almenn dreifing viðurkennds bóluefnis við Covid-19 á næstunni?
Af einhverjum ástæðum steinhætti ég fyrir nokkru að birta hér á blogginu mínu örsögur eða eitthvað í þá áttina. Ekki veit ég af hverju það var. Sennilega hefur andinn steinhætt að koma yfir mig. Auk þess bað ég hann ekkert um það.
Man ekki fyrir víst hvort ég var búinn að birta þessa sögu. Held ekki. Og nenni eiginlega ekki að gá. Sennilega hef ég ætlað að hafa þessa sögu svolítið lengri. Hér kemur semsagt sagan og ég held að hún hafi átt að heita Blái himininn:
Tjaldhimininn var blár. Af hverju hann var blár hafði Lárus ekki hugmynd um. Helst datt honum í hug að það væri vegna þess að hinn raunverulegi himinn væri stundum blár. Oftast var hann samt grár og blautur. Túristar voru alveg hættir að koma. Þessvegna var það sem hann fékk tjaldvagninn fyrir lítið. Þetta var sérlega vel heppnaður tjaldvagn og vel mátti hengja hann aftan í jepplinginn. Sem betur fer var dráttarkrókur á honum.
Lárus ætlaði sér að fara í hringferð um landið. Þórólfur og Víðir mæltu með því að hann færi í hringferð um sína eigin stofu, en honum leist ekki á það. Vonandi mundu Þóra og krakkarnir sætta sig við þennan tjaldvagn. Að tjaldhimininn væri blár skipti í rauninni engu máli. Tjaldveggirnir voru gulir og það var hann ánægður með. Þegar allt væri komið í kring ætlaði hann í fyrsta áfanga að fara austur að Seljalandsfossi. Næsta dag ætlaði hann svo alla leið til Hornafjarðar, svo til Egilsstaða og þaðan sem leið liggur til Akureyrar. Þar með sleppti hann Húsavík, Dettifossi og Mývatni. Ef til vill mundi hann endurskoða þessa áætlun. Sérstakleg ef Þóra mundi setja sig upp á móti þessu.
Við Seljalandsfoss var allt á fullu. Túristarnir voru greinilega komnir aftur. Kannski höfðu þeir aldrei farið neitt. Bílar og jafnvel stórar og stæðilegar rútur voru á víð og dreif í ánni. Lárusi kom þetta töluvert á óvart því hann hafði búist við því að engir eða að minnsta kosti fáir ferðamenn væru þarna. Lét samt eins og þetta væri alveg eðlilegt. Sagði krökkunum að svona væri þetta alltaf. Brunaði svo út á sjó og tjaldaði þar.
Vitanlega er ekki hægt að tjalda úti á sjó. Þessvegna sukku þau til botns fyrr en varði. Þar var allt fullt af fiski. Einstak túristar voru þar á rangli. Vissu greinlega ekkert hvert ætti að halda. Risavaxnar kórónuveirur voru margar á botninum og Lárus og fjölskylda urðu að passa að verða ekki fyrir þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2020 | 15:25
3017 - Bæling vs Barrington
Nú er ég alvarlega dottinn í að skoða lemúrinn á netinu. Aðdáun mín á þeim feðginum Veru og Illuga fer sívaxandi. Þó hef ég um sumt illan bifur á Illuga. Á lemúrnum er margt athyglisvert að finna. Einkum og sér í lagi fyrir þá sem áhuga hafa á sögulegu efni. Tala nú ekki um gamlar ljósmyndir. Vel getur verið að þetta verði til þess að ég skrifi minna á bloggið mitt á næstunni. Auk þess sem ég hef áhuga á sögulegu efni er meistari Kjarval í sérstöku uppáhaldi hjá mér um þessar mundir. Man eftir honum úr listamannaskálanum. Hef lesið næstum allt sem Ingimundur Kjarval hefur skrifað um afa sinn á Moggabloggið.
Þórbergur Þórðarson var í miklu uppáhaldi hjá mér og síðustu árin sem ég var í Reykjavík. Rétt fyrir 1970, var ég verslunarstjóri í Silla og Valda búðinni sem var á Hringbraut 45 að mig minnir og sá hann oft. Sérkennilegur um margt og eftirminnilegur. Sömuleiðis gamla konan sem slapp stundum út hjá þeim á Grund, til að kaupa sér neftóbak. Pálína minnir mig hún héti.
Sigurliði og Valdimar eru líka eftirminnilegir. Eftir því sem aldurinn færist yfir mig verða löngu liðnir atburðir sífellt meira ljóslifandi fyrir manni, en skammtímaminnið lætur á sjá. Þessvegna er það meðal annars sem ég er orðinn svona illa að mér í tölvumálum sem einu sinni voru mitt forte.
Meira virðist núna vera deilt um þær sóttvarnaraðgerðir sem gripið er til en var í vetur í fyrstu bylgunni. Meðal annars held ég að það sé vegna þess að nú er pólitíkin hlaupin í þetta. Slæm er sú tík eftir því sem Nebelsskáldið okkar sagði. Þá er nú rjómatíkin skárri. Hvað sóttvarnirnar snertir eru það einkum bælingarstefnan og Barrington-stefnan sem takast á. Þórólfur hefur hingað til fylgt bælingarstefnunni en því er ekki að neita að einhverjir læknar og jafnvel sóttvarnasérfræðingar fylgja Barrington-stefnunni sem tekur nafn sitt af smábæ þar sem ráðstefna um þetta var nýlega haldin. Sú stefna snýst í sem allra stystu máli um það að vernda viðkvæmu hópana en láta veiruna að öðru leyti afskiptalausa og ná þannig hjarðónæmi á stuttum tíma. Með því megi ná viðunandi árangri án þess að hjól atvinnulífsins þurfi nokkuð að ráði að hægja á sér. Hin stefnan sé næstum óframkvæmanleg nema til komi bóluefni nokkuð fljótlega aðgengilegt fyrir alla. Satt að segja virðist það allsekki fjarlægur möguleiki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.10.2020 | 06:52
3016 - Covid og stjórnmál
Margir þeirra sem við opinber skrif fást, hvort sem um er að ræða bloggskrif eða skrif á fésbókina eða aðra miðla, virðast halda að innihaldslaus stóryrði séu það sem aðrir hljóti að taka mest mark á. Svo er ekki. Einkum er þetta áberandi ef fjallað er um stjórnmál. Ef mikið er tekið upp í sig verður að gæta þess að innistæða sé fyrir því sem sagt er. Hægt er að vitna í aðra, en gæta verður þess þá að þeir sem vitnað er í séu ekki því marki brenndir að fullyrða meira en þeir geta staðið við. Margs þarf að gæta ef nöfn eru nefnd og vandalaust er að vara sig á þessu öllusaman. Reginmunur er á því sem skrifað er og því sem talað er um í góðra vina hópi. Í vaxandi mæli þarf fólk þó að gæta sín á hvað það segir. Þó virðast margir ekki gera það. Um þetta allt saman væri hægt að fjölyrða mikið, en ég læt þetta nægja að sinni enda minnir mig að ég hafi minnst á þetta áður.
Veirufjárinn er svo sannarlega í vexti hér á hinu litla Íslandi. Sóttvarnalæknirinn og reyndar sóttvarnateymið allt saman er gagnrýnt fremur harkalega núorðið. Bæði eru þau gagnrýnd fyrir of mikla og of litla hörku. Ég hneygist heldur til að gagnrýna þau fyrir of litla hörku á röngum tíma. Hefðu þau farið fram með meiri hörku og meiri lokanir þegar þriðja bylgjan byrjaði að gera vart við sig, værum við hugsanlega að mestu laus við veiruskrattann núna. Í staðinn er eins og hann fari sífellt vaxandi. Það er fremur auðvelt að sjá í baksýnisspeglinum hvernig hefði átt að haga sér. Ekki er hægt að hætta núna og fella niður allar hömlur þó sumir vilji það. Engin líkindi eru til þess að það verði gert. Ef kúrfan fer ekki að falla fljótlega er samt aldrei að vita hvað muni taka við. Mér finnst Þórólfur hafa verið of hallur undir ríkisstjórnina. Henni hefur tekist að láta líta svo út að allt sé frá teyminu komið. Bjarni þarf að berjast við eigin flokksmenn sem sumir hverjir láta ófriðlega. Ekki er víst að bíða þurfi lengi á næsta ári eftir bóluefni og þá er hægt að fara að draga andann.
Margt bendir til þess að stjórnmálin verði í skrautlegra lagi í vetur. Ekki er nóg með að Covid-veiran hafi mikil áhrif á þingið heldur verður deilt harft um stjórnarskrármál þar og eins og venjulega á kosningaári verður tekist harkalega á um ýmis mál. Ekki er gott að sjá um hvað verður talað mest en kosningalöggjöfin gefur sennilega tilefni til ýmislegs. Ríkisstjórnin gæti sprungið, því eins og eðlilegt er munu komandi kosningar verð ofarlega í hugum flestra.
Veit ekki betur en Cher, Kim Kardasian, André Agassi og sjálfur Kasparov séu af armenskum ættum. Sömuleiðis minnir mig að það hafi verið greifinn af Karabak sem átti stígvélaða köttinn í frægu barnaævintýri. Af hverju er ég að segja þetta? Nú, bara til þess að láta á mér bera. Eru ekki flestöll skrif til þess gerð? Veit ekki um aðra, en þetta er mín ástæða. Armenía og allt sem armenskt er virðist og mikið fréttum núna. Útaf stríðinu við Azera.
Þykist vita að þetta land sé í fjallahéröðum Kákasus og eigi landamæri að Tyrklandi. Sagt er að Tyrkir hafi framið þar þjóðarmorð. Man ekki einu sinni hvað höfuðborgin heitir í Armeníu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.10.2020 | 17:39
3015 - Um nafnlausa frænku mína
Frænku átti ég sem eflaust er dáin núna. Man ekki með vissu hvað hún hét. Einhverju sinni kom hún í heimsókn til okkar í Hveragerði. Stoppaði í nokkra daga og gisti. Á þeim tíma voru allar leiðir lengri en núna. Kannski var hún úr Vestmannaeyjum. Það gæti skýrt gistinguna. Einn daginn tilkynnti hún að hún ætlaði þennan daginn í langferð upp að Reykjum í Ölfusi gangandi. Okkur heimilisfólkinu á Bláfelli blöskraði þessi gönguferð ekki tiltakanlega. Fannst líklega ekki um sérlega langan veg að fara. Þar ætlaði þessi frænka mín að hitta fólk, sem hún sagðist þekkja.
Hún lagði síðan af stað, en kom afskaplega andstutt til baka að nokkrum tíma liðnum og sagði sínar farir ekki sléttar. Hún hefði neyðst til þess að snúa við því hún hefði á leiðinni rekist á hóp sauðnauta sem væru stórhættuleg dýr. Þetta varð tilefni mikilla heilabrota, því þó við Ingibjörg segðum henni að engin sauðnaut væru finnanleg á Íslandi lét hún sér ekki segjast. Mamma var einnig mjög skeptísk á þetta með sauðnautin, en hún hefur eflaust verið sú sem fyrst frétti af þessu. Fleiri tóku og undir þetta með okkur. Gott ef skólabækur um dýrafræði voru ekki dregnar fram. En það var sama hvað sagt var það hafði bókstaflega engin áhrif. Hún hélt fast við það að hún hefði séð sauðnaut á leiðinni upp að Reykjum og neyðst til að snúa við.
Ekkert varð úr þessari Reykjaferð og þar kom að þessi frænka mín hvarf til síns heima, sem ég veit ekki gjörla hvar var. En lengi á eftir varð þessi sauðnautasaga tilefni mikilla heilabrota hjá fjölskyldunni. Helst vorum við á því að hún hefði eitthvað villst af leið og ef til vill rekist á kúa- eða nautahóp á leið sinni.
Þessi saga er frábrugðin þeim sögum sem ég hef sett hér á bloggið mitt að undanförnu, að því leyti að hún er alveg sönn. Að minnsta kosti í aðalatriðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.10.2020 | 10:28
3014 - Covid, Trump o.fl.
Dálkinn á baksíðu fréttablaðsins les ég yfirleitt því stundum er hann eins og blogg af bestu gerð. Um daginn var þar talað um Dewey-skömmina. Ég kannast við þessa bókasafns-skömm sem mér finnst vera af alveg sérstakri tegund. Mín reynsla í gegnum árin er sú að það sé vel hægt að semja við starfsfólk bókasafna. Sennilega finnst þeim þetta jafnleiðinlegt og afbrotafólkinu. Best hefur mér reynst að bjóðast til að láta aðra bók í staðinn fyrir sektina. Sú bók má vera hundleiðinleg bara ef hún er álíka þykk og stór um sig og sektarbókin eða sú týnda. Það kemur nefnilega líka fyrir að bækur týnast eða gufa hreinlega upp. Engin hemja er að krefjast sektar sem er hærri en sanngjarnt bókaverð af einstakri bók. Eiginlega er þetta ágætt ráð til að losna við leiðindabækur. Ennþá eru nefnilega þónokkuð margir sem hika við að henda bókum. Þær eru samt víða að verða alltof margar. Fyrirlitning unga fólksins á þeim fer vaxandi. Sem geymsla heimilda eru þær óviðjafnanlegar þó margt hafi verið talið koma í staðinn fyrir þær. Gúgli er samt ómetanlegur og timarit.is sömuleiðis.
Eins og pestina (pun intended) hef ég að undanförnu forðast í flestum bloggum mínum að minnast mikið á Covid-veiruna. Nú eru viðbrögðin aftur á móti að verða pólitískari og hatrammari en áður. Ég vil þó segja, að vel sé hægt að deila á ráðstafanir þríeykisins án þess að gera þau persónuleg og óþarflega hatursfull. Þórólfur verður þó að sætta sig við að vera talinn að minnsta kosti jafnoki ráðherra að þessu leyti. Allur hringlandaháttur í þessu efni er stórhættulegur. Mér finnst að þó ýmsar ráðstafanir sem runnar eru undan rifjum sóttvarnarteymisins megi gagnrýna, ef horft er í baksýnisspegilinn, sé allsekki hægt að snúa við. Aðferð þeirri, sem kosin hefur verið af færusu sérfræðingum megi ekki hætta við. Hingað til hefur ríkisstjórnin sett mesta ábyrgð á þessum ráðstöfunum á hendur teymisins.
Kannski eru þau Bjarni Benediksson og Katrín Jakobsdóttir að skapa sér stöðu fyrir væntanlegar kosningar með því að hallmæla sem minnst skoðunum pólitískra andstæðinga. Brynjar Nielsen gerir það aftur á móti ekki. Hann gengur beint í gin ljónsins og eyðileggur með því hugsanlega allar framtíðarvonir sínar innan flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn kann að klofna einu sinn enn vegna afstöðunnar til Covid.
Ef talað er um stjórnmál er oftast nær stutt yfir í Trump-umræður. Ef haldið er áfram að ræða um hann gæti útkoma hans í komandi forsetakosningum orðið nokkuð góð. Ég sé nefnilega ekki betur en að hann vilji umfram allt að talað sé um sig. Sama hvort það er jákvætt eða neikvætt. Allar líkur held ég samt að séu á því að hann tapi stórt í kosningunum sem verða núna í byrjun nóvember. Gagnstætt því sem sumir halda fram held ég að hann viðurkenni strax ósigur sinn. Bandaríkin eru ekki á þeirri einangrunarbraut sem hann vill vera láta. Biden er kannski ekki sá frambjóðandi sem vinstri menn vildu helst, en hann er samt mun skárri en Trump.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.10.2020 | 08:13
3013 - Moggabloggið
Verð víst að skrifa eitthvað til að halda mér á 50-listanum. Heldur er það nú slappt markmið að hanga á honum. Hef aldrei komist á toppinn þar, enda er hann víst frátekinn fyrir fasista. Auk þess að skrifa þar eingöngu um pólitík þarf að skrifa þar daglega til þess að komast þangað. Ég reyndi einu sinni að skrifa daglega, en gafst svo upp á því. Jónas Kristjánsson bloggaði daglega eða jafnvel oft á dag, var feikilega vinsæll og áberandi vinstri sinnaður. Svo tók hann uppá því að deyja. Ómar Ragnarsson og jafnvel fleiri virðist mér að séu alltaf að reyna að komast á Moggabloggstoppinn. Ég er löngu hættur þeirri vitleysu. Þessi vinsældalisti á Moggablogginu er skrýtið fyrirbrigði. Þeir sem skrifa á það reglulega eru það líka. Eins og ég til dæmis. Eiginlega held ég að það sé betra að vera vinstri sinnaður og skrýtinn en að vera alveg við toppinn. Ég er samt ekkert að líkja mér við Ómar Ragnarsson. Þekki samt að minnsta kosti tvo með því nafni.
Ágætt er að Moggabloggast öðru hvoru finnst mér. Eintal sálarinnar á ekki við á fésbókinni. Tvennt er það sem ég finn henni einkum til foráttu. Þar er alltaf verið að breyta. Breytinganna vegna finnst mér. Í öðru lagi finnst mér ganga fullmikið á þar. Næstum eins og í amerískum kvikmyndum. Þar og í sjónvarpsseríum þaðan er eins og það sé markmið í sjálfu sér að vera með sem mestan djöfulgang. Einu sinni sá ég kvikmyndina Animal House. Held að ég hafi aldrei beðið þess bætur. Þar tók einn djöfulgangurinn við af öðrum. Íhaldssemin og óbreytanleikinn á Moggablogginu á nokkuð vel við mig. Ég er nefnilega auk þess að vera hundgamall introvert hinn mesti. Kannski er ég á næsta bæ við að vera einhverfur. Eða á leiðinni með að verða Alsheimersjúklingur. Kannski er ég alltof opinskár hérna. Það má kalla þetta einslags dagbók mín vegna. Hugsanlega er það Covid-ið sem gerir mann svona. Veiruskömmin breytir öllu. Betra er að reyna að sálgreina sjálfan sig en aðra. Til lengdar er það ekki gáfulegt að þykjast alltaf vera voða gáfaður og vita alla skapaða hluti.
Held að það sé grenjandi rigning úti núna, svo ég er að hugsa um að fara ekkert út að ganga. Það voru áberandi fáir sem höfðu skoðað bloggið mitt núna áðan, svo það er kannski best að senda þetta út í eterinn áður en ég sé eftir því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.10.2020 | 11:39
3012 - Ansi er þetta skrýtið
Svo virðist vera sem einhverjir hafi haft fyrir því að lesa langlokuna sem ég setti á bloggið mitt um daginn. Allt er þetta satt og rétt. Athugasemdir hef ég samt fengið. Fyllstu nákvæmni er ekki allsstaðar gætt.
Þannig er nú mín minning af þessum atburðum. Aðrir hefðu eflaust skrifað þetta öðruvísi. Við því er ekkert að gera. Engir hafa mér vitanlega gert það.
Moggabloggið er minn staður. Undanfarið hef ég talsvert fylgst með vinsældum bloggara þar. Hægt er að sjá þær með því að fara í vinsældagluggann. Páll Vilhjálmsson er í sérflokki þar. Sennilega er það vegna þess að hann skrifar eitthvað lítilsháttar á hverjum degi. Svo er það náttúrulega pólitíkin. Hann skrifar helst ekki um annað, en er þó mjög stuttorður. Þar að auki minnir mig að Davíð Oddsson hafi einhverntíma hrósað honum og stundum held ég að Staksteinarnir frægu séu endurtekning á einhverju sem hann hefur haldið fram. Annars er ég ekki áskrifandi að Morgunblaðinu og les það afar sjaldan. Sennilega fá margir sína pólitísku línu frá Páli.
Halldór Jónsson og Ómar Ragnarsson koma svo í humáttina á eftir Páli. Halldór er hægrisinnaður mjög, en Ómar Ragnarsson vinstri sinnaður. Halldór skrifar oftast stutt ef hann skrifar þá sjálfur. Endurbirtir oft langar greinar, sem honum finnst athyglisverðar og það er að mörgu leyti vel þess virði að fylgjast með honum.
Ómar Ragnarsson linkar oftast í fréttagreinar sem birtast á mbl.is og setur á blað ýmislegt sem honum dettur í hug í því sambandi. Hann hefur ansi fjölþætta reynslu á mörgum sviðum en lætur stundum vaða á súðum og bloggar stundum oft á dag.
Þessir þrír eru greinilega mjög vinsælir og fá oft fjölmargar athugasemdir. Sjálfum hefur mér tekist að halda mér innan við 50 nokkuð lengi. Hægt er að fá vinsældalista frá 50 til 400. Satt að segja er ekki mjög vinsælt að skrifa á Moggabloggið nú um stundir. Fésbókin er miklu vinsælli. Þó eru margir, og þar á meðal ég, sem hafa ekki sérstakt álit á henni. Sem samskiptamiðill er hún þó óviðjafnanleg. Bloggið er meira til að láta ljós sitt skína. Á Moggablogginu eru flestir þeirra sem ofarlega eru á vinsældalistanum annaðhvort mjög hægri sinnaðir í pólitík eða pínulítið skrýtnir.
Frá íslenskulegu sjónarmiði er orðið skrýtinn svolítið skrítið. Mér er ekki kunnugt um að mörg orð á íslensku megi (samkvæmt ströngustu reglum) skrifa með eða án upsilons án þess að merkingin breytist nokkuð.
Eflaust gæti ég skrifað miklu meira um Pál, Halldór og Ómar en ég gerði hér að ofan. Ætla samt ekki að þreyta lesendur mína með því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.9.2020 | 09:00
3011- Þegar ég tapaði jafnvægisskyninu og fórst næstum í flugslysi
Mig minnir að það hafi verið árið 2004 sem við fórum til Fljótavíkur fyrir vestan. Vita annars ekki allir hvar Fljótavík er? Mér telst til að hún sé nyrst og vestast á Vestfjarðakjálkanum. Vestan til á Vestfjarðakjálkanum og fyrir norðan Ísafjarðardjúp eru tvær víkur eða firðir. Sú syðri heitir Aðalvík en sú nyrðri Fljótavík. Nú, við hjónakornin ég undirritaður (eða ofanritaður.) og Áslaug Benediktsdóttir, konan mín, fórum semsagt þangað til nokkurra daga dvalar ásamt einhverjum öðrum. Ætli það hafi ekki verið Bjarni og Benni sem voru með okkur í för. Guðrún og Guðmundur ásamt Jóhanni og Hafdísi voru þar fyrir að ég held. Annars muna sennilega aðrir betur en ég hverjir voru með í ferðinni og hvenær hún var farin. Ég held að það hafi verið samtals þau átta sem talin hafa verið upp, sem dvöldu þarna þann tíma sem ég ræði um. Guðrún og Guðmundur eru foreldrar Jóhanns, en Bjarni, Benni og Hafdís eru börn okkar Áslaugar.
Eftir að hafa keyrt í einni striklotu til Ísafjarðar, um Steingrímsfjarðarheiði, fórum við með flugvél til Fljótavíkur. Sú för var tíðindalaus með öllu. Að minnst kosti man ég ekki eftir neinu sem gerðist á þeirri leið. Kannski hefur flugvélin sem við fórum með þá verið stærri en sú sem við fórum með á bakaleiðinni, því mig minnir að við höfum ekki verið einbíla á norðurleiðinni og að talsvert hafurtask hafi fylgt okkur. Ef til vill hefur Guðmundur verið með okkur í ferðinni vestur í Fljótavík og ekki verið þar fyrir, eins og ég sagði hér að framan. Tilbakaferðin var ekki nærri eins viðburðasnauð í minningunni og verður frá því sagt seinna. Flugvélin lenti á hörðum sandinum í fjörunni, því að sjálfsögðu er enginn alvöruflugvöllur í Fljótavík.
Þegar til Fljótavíkur var komið og við gengum uppúr fjörunni og að bústaðnum varð okkur ljóst að allt var gjörólíkt því sem viðgengst á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík telst þó varla til stórborga að flestra áliti. Fara þurfti yfir læk á mjóum plönkun til að komast að bústaðnum sem stóð í grösugri brekku nokkuð fyrir ofan fjöruna. Frá bústaðnum sást ekki til annarra bæja. Bústaðurinn. Já, ýmislegt má eflaust um hann segja. Það var fjölskylda Jóhanns sem hafði yfir honum að ráða. Áttu hann ásamt einhverjum öðrum sem ég kann ekki að nefna. Bústaðurinn var ekki ýkja stór. Þó höfðum við Áslaug yfir sérherbergi að ráða, en ég man ekki gjörla hvar aðrir holuðu sér niður.
Fleiri bæir stóðu í víkinni, en í engum þeirra var um fasta búsetu að ræða allt árið. Fólk var í sumum þeirra en samskipti við það voru engin eða nær engin, enda óþörf með öllu. Matarafgangar voru settir á ákveðinn stað skammt frá bústaðnum. Tófa kom svo þegar fáir sáu til og fjarlægði eða át það sem henni leist best á. Annað rusl var grafið. Allt var þarna fremur frumstætt og allsenginn íburður í neinu. Um rafmagn eða símasamband var ekki að ræða. Þetta var um hásumar, veður gott og ljós og hiti óþarfi hinn mesti.
Sjóbirtingsveiði var í sjónum svotil beint framundan bústaðnum og voru þeir feðgar Guðmundur og Jóhann aðalsérfræðingar okkar í öllu sem laut að veiðiskap. Svosem því á hvaða tíma best væri að veiða, hvar bestu veiðistaðirnir væru, hve langt útí sjóinn óhætt væri að vaða og hvaða beitu eða öngla skyldi nota og svo framvegis. Aðrir voru varla marktækir í þeim efnum enda veiddu þeir feðgar vel þegar þess þurfti með og leyfðu öðru hvoru öðrum að kasta á réttum stöðum. Ekki man ég þó um úrslit þessara mála annað en það að Bjarni Sæmundsson dró vænan fisk úr sjó og hef ég séð myndir sem sanna það svo ekki verður um villst.
Allt annað matarkyns en sjóbirtinginn þurfti að taka með sér og höfðu þau sem fyrir voru þegar við komum séð um það að mestu leyti. Vatn var þó að hafa í ótakmörkuðu magni úr læk sem rann rétt hjá bústaðnum. Ílát öll og húsgögn voru í bústaðnum eftir því sem þurfa þótti og nauðsyn bar til. Þarna dvöldum við í þónokkra daga, kannski viku eða svo, í góðu yfirlæti og fórum í göngu- og rannsóknarferðir um nágrennið eftir þörfum og óskum hvers og eins.
Einn daginn, sem hlýtur að hafa verið um Jónsmessuna, því það kom eitthvað til tals að gamlar sagnir segðu að um miðnættið mætti af Kögrinu sjá sólina dansa á hafinu. Semsagt það var ákveðið að við karlmennirnir í hópnum. Það er að segja Guðmundur, Jóhann, Bjarni, Benni og ég undirritaður færum í fjallgöngu á Kögrið. Kögur og Horn og Heljarvík / huga minn seiða löngum, kvað Jón Helgason endur fyrir löngu í hinu fræga kvæði sínu Áföngum. Fjallahringurinn við bústaðinn er mikilfenglegur og bústaðurinn margnefndi fast við fjallið Kögur. Þó er það svo að stofan, eða helsti íverustaður okkar í ferðinni, snýr í áttina að sjónum og er það engin furða. Við gluggann þar mátti una sér löngum stundum í dvöl okkar á staðnum við kaffidrykkju og umræður um heimsins vandamál.
Nú, við ákváðum semsagt að fara í fjallgöngu eina mikla og ganga á Kögrið. Við stikuðum af stað eftir að hafa útbúið okkur, nesti var lítið enda engin þörf á því. Áður en við komum að Kögrinu sjálfu fórum við upp eftir grösugri brekku, ekki brattri og þegar við komum að fjallinu er mér í ferskustu minni að sérkennilegt var að sjá næstum samtímis út á sjóinn milli Kögursins og næsta fjalls fyrir austan, sem ég man ekki lengur hvað heitir og útá vatn eitt ekki stórt, sem náði næstum fram á bjargbrúnina og var mun hærra í landslaginu en sjórinn.
Þegar við komuna að fjallinu hófst uppgangan og ég man ekki eftir neinu sérstöku varðandi hana og ekki hvar ég var í röðinni. Framanaf gekk uppgangan mjög vel, en fjallið varð sífellt brattara eftir því sem ofar dró. Ekki leið á löngu þar til ég fór að dragast svolítið aftur úr, þó ég hefði á þeim tíma talsvert stundað fjallgöngur og oft látið drýgindalega yfir færni minni á því sviði.
Mest furðaði mig á því að Guðmundur, sem líklega er nokkrum árum eldri en ég, var einna fremstur í flokki. Smám saman jókst brattinn og að lokum var þetta eiginlega orðið hálfgildings klifur hjá okkur. Þar kom að ég fann að jafnvægið var ekki sem skyldi hjá mér. Ég þurfti hvað eftir annað að styðja mig með höndunum og enn jókst brattinn. Loksins sá ég að við svo búið mátti ekki standa og ákvað að snúa við enda var ég sífellt að dragast meira og meira aftur úr. Kallaði þá til þess sem næst var á undan mér að ég ætlaði að snúa við. Man ekki hver það var.
Sennilega hefur hann látið það ganga og ég er ekki frá því að Guðmundur hafi verið fremstur í flokki þegar það var. Ég sneri semsagt við og kom fljótlega í bústaðinn aftur og tilkynnti að ég hefði snúið við vegna jafnvægisleysis. Auðvitað var þetta dálítið áfall fyrir mig en við því var ekkert að gera. Taldi líka að þetta mundi lagast fljótlega og að ég hefði sýnt mikla skynsemi og sjálfsafneitum með því að snúa við. Sannleikurinn er samt sá að allar götur síðan hef ég fundið til jafnvægisleysis. Að minnsta kosti öðru hvoru.
Hinir fjórir fóru alla leið uppá Kögrið, en hvort þeir sáu sólina dansa veit ég ekki. Segir svo ekki meira af þessari ferð enda tók ég ekki þátt í henni, en hvort löng leið hefur verið uppá fjallið frá þeim stað sem ég sneri við á veit ég ekki. Eins og allir vita eru Vestfjarðafjöllin, eins og fleiri fjöll á landi hér, rennislétt eftir að upp er komið. Hér gæti komið kennslustund um jarðfræði og ísaldarjökla en ég læt það liggja á milli hluta.
Þegar við vorum að fara frá Fljótavík varð hitt atvikið sem minnst er á í fyrirsögninni. Símasamband var hægt að hafa við Ísafjörð með hjálp einhverrar talstöðvar. Sú talstöð minnir mig að hafi verið á einhverjum bæ í nágrenninu og kemur hún við sögu síðar í þessari frásögn. Með því móti gátum við pantað flugvél til að sækja okkur og gekk það vandræðalaust fyrir sig. Flugvélin tók fjóra farþega og ákveðið var að við hjónin og Bjarni og Benni færum með henni. Hin ætluðu að verða eftir og koma seinna. Flugferðin og flugtakið voru söguleg á margan hátt og ekki er líklegt að ég eigi eftir að upplifa annað eins. Þessvegna er ekki úr vegi að lýsa þessu allnákvæmlega.
Flugmaðurinn raðaði í vélina. Benni var aftast og sá ekkert út. Við Bjarni vorum hlið við hlið fyrir framan hann. Flugmaðurinn var í flugmannssætinu að sjálfsögðu, en í varaflugmannssætinu við hliðina á honum var Áslaug, konan mín. Hún er dálítið flughrædd og einmitt þessvegna vildi flugmaðurinn að hún væri þar. Ekki man ég greinilega hvaða rök voru færð fyrir þeirri ákvörðun, ef þá nokkur.
Hugsanlega hefur verið rangt raðað í vélina, við öll stór og þung eða vindur ekki verið nægilegur. Nú er ég farinn að útskýra það sem á eftir kom. Ekki er það nú gáfulegt og best að ég hætti því.
Flugmaðurinn tók nú sand milli fingra sér og lét sandkornin falla til jarðar. Sennilega hefur hann verið með þessu að athuga vindáttina. Ekki mælti hann þó orð af vörum. Hann snaraðist síðan upp í vélina því engan tíma mátti missa vegna sjávarfalla. Fyrst fór hann alllangt í öfuga átt og herti síðan á vélinni eins og hann gat.
Hafdís Rósa, Jóhann og foreldrar hans sneru hinsvegar við og héldu í átt að bústaðnum, en þau höfðu fylgt okkur að flugvélinni. Hafdís Rósa fylgdist með fluginu og sýndist henni að vélin ætlaði aldrei að komast á loft. Eflaust hefur henni brugðið verulega þegar hún sá flugvélina rekast á sandbakka einn sem varð fyrir vélinni. Við sem í flugvélinni vorum sáum hinsvegar lítið, en treystum flugmanninum.
Allt í einu fundum við að kom mikill slinkur eða högg á flugvélina og hún breytti talsvert um stefnu. Þetta var þó ekki það mikið högg að við sem í flugvélinni vorum værum í nokkurri hættu. Flugmaðurinn var nægilega snjall til þess að ná strax valdi á flugvélinni og þrátt fyrir að rekast með þessum hætti í sandbakkann, sem fyrir varð, tókst honum að komast á loft. Að sjálfsögðu eða að sjálfsögðu ekki krossbölvaði hann þessum sandbakka, sem þarna var að flækjast fyrir eða einhverju öðru. Það athugist að flest eða allt sem fram fór í sambandi við stjórn vélarinnar og frá er sagt hér á eftir hef ég frá konu minni sem samkvæmt hans fyrirskipunum sat við hliðina á honum, stjörf af ótta eins og nærri má geta. Við sem sátum í miðjunni svo ekki sé talað um Benna sem var einn afturí heyrðum ekkert fyrir vélarhljóði. Á ég þar bæði við það sem gerðist í aðdraganda árekstursins og fyrst eftir að flugmanninum tókst að ná vélinni á loft.
Þegar hann var kominn á loft flaug hann yfir sveitabæinn þar sem talstöðin hafði aðsetur sitt og bað um að sóttur yrði stóri kíkirinn hans pabba síns (hmm þetta var misheppnuð tilvitnum í aðra sögu) og athugað hvort hjólabúnaðurinn væri í lagi. Flugmaðurinn þekkti eitthvað til á bænum sem flogið var yfir. Einnig bað hann Áslaugu um að athuga sín megin hvort allt væri í lagi með hjólabúnaðinn. Svörin sem bárust frá þeim sem með kíkinn var voru á þá leið að ekki væri sjáanleg nein missmíði á hjólabúnaðinum. Áslaug neyddist hinsvegar til að opna augun og þykjast kíkja út. Ekki sagðist hún sjá neitt athugavert við hjólin og þá var stefnan tekin á Ísafjörð.
Að sjálfsögðu vissi ég ekkert um þessar athuganir Áslaugar, flugmannsins og á jörðu niðri. Setti allt mitt traust á flugmanninn. Reyndi ekki einu sinni á halda uppi samræðum við Bjarna son minn en hugsaði því meira á leiðinni. Einkum var það vegna hins mikla hávaða sem þarna var sem ég sagði lítið og auk þess var með öllu útilokað fyrir mig að hafa samband við Áslaugu og Benna. Auðvitað óttaðist ég að illa færi.
Þegar við fórum að nálgast Ísafjörð man ég vel að ég reyndi að sjá hvort einhver viðbúnaður væri þar. Reiknaði semsagt með að ef eitthvað alvarlegt væri að hjólabúnaðinum mundi flugmaðurinn hafa haft samband við flugvöllinn og einhvern viðbúnað væri hugsanlega hægt að sjá þar. Svo var ekki og engan viðbúnað að sjá. Ég reyndi því að telja sjálfum mér trú um að allt væri í lagi.
Vissi samt vitanlega að sá möguleiki væri fyrir hendi að flugmaðurinn treysti bara á Guð og lukkuna og ætlaði að lenda þó allt væri kannski í skralli með hjólin. Ég gat þó ekkert gert og hefði sennilega ekki einu sinni náð til flugmannsins, þó ég hefði reynt.
Lendingin gekk ágætlega og um nóttina keyrði ég á mínum/okkar Subaru Outback alla leið til Kópavogs og horfði á leiðinni á mikinn fjölda af vindsorfnum skýjum á himninum. Ský í líkingu við þetta hafði ég aldrei áður séð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2020 | 05:27
3010 - Hvort er betra að vera venjulegur eða einstakur?
Alllangt er nú síðan ég hef bloggað nokkuð. Margar ástæður eru fyrir því. Geri mér ekki grein fyrir þeim öllum sjálfur. Um að gera að hafa þetta stutt. Veit ekki hvort lesendur mínir vilja langlokur eða stuttar greinar. Get ómögulega skrifað lengi um sama efni. Covid-veiran er orðin að, eða um það bil að verða, það sem skilur fólk að stjórnmálalega. Hvernig beri að tækla veiruskrattann er það lismus-test sem öllu máli skiptir í því sambandi. Nú fer verulega að styttast í kosningar í Bandaríkjunum og vissulega verða þær spennandi. Ég er ennþá þeirrar skoðunar að Trump muni skíttapa, þó Biden sé allsekki góður kostur að áliti allmargra.
Hvort er betra að vera einstakur eða venjulegur? Flestir eru alla sína ævi að berjast við annað hvort eða hvorttveggja. Sumir eru frægir, en aðrir ekki. Sumir eru bara frægir fyrir að vera frægir. Hvað gerir menn fræga? Sennilega eru það einkum fjölmiðlarnir. En allir vilja verða eða vera fjölmiðlar nútildax. Fésbókin og svipaðir miðlar ýta undir það. En til þess að verða fjölmiðlafrægur þarf að gera eitthvað. Allir gera svosem eitthvað. En fyrir frægðina þurfa menn að gera eitthvað einstakt. Þar kemur þetta með að vera einstakur eða venjulegur inn. Kannski er hægt að líta á þetta sem einskonar paradox. Svo geta menn orðið frægir að endemum. Engir vilja það. Ég held það að minnsta kosti. En er kannski nóg að halda eitthvað til að verða frægur? Það held ég ekki. (Annar paradox) Er kannski nóg að fjölmiðlafólk haldi að menn séu frægir? Er lífið samsett úr paradoxum, eða hvað? Tilheyra þeir þá fræga og ríka fólkinu? Ef fjölmiðlafólki dettur sú frægð í hug. Stundum dettur manni það í hug. En svo koma upp augnablik þar sem sést að það er talsvert dýrkeypt að vera/verða frægur. Kannski er bara best að vera hvorki einstakur eða venjulegur. Allir ættu að geta það. Um þetta er hægt að bollaleggja endalaust.
Fésbókin og aðrir svipaðir miðlar eru þrátt fyrir allt alveg ómissandi. Samskipti fólks byggjast á þessu forriti. Margir virðast vinna við þetta á hverju og einu tungumálasvæði. Íslenska er hér engin undantekning og verulegur hluti vinnu blaðamanna er greinilega fólginn í því að fylgjast sem best með þessu. Tölvulæsi eða tölvunotkun og tölvukunnátta fólks er orðin miklu meiri nú, en áður var. Greinilega eru þeir margir sem vilja láta ljós sitt skína. Hæfni á þessu sviði er nauðsynleg til árangurs. Svo virðist vera á flestum sviðum.
Þó Ginsburg sé eða hafi verið talin frjálslynd og vinstri sinnuð er enginn vafi á því á bandarísk lög ætlast til þess að forsetinn og öldungadeild þingsins komi sér saman um hæstaréttardómara. Þessvegna styð ég Tromparann og leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni í þeirri ætlan sinni að koma nýjum og væntanlega íhaldssömum dómara í réttinn fyrir forsetakosningarnar eða að minnsta kosti áður en nýr forseti tekur við völdum. Kannski styð ég Trump ekki í neinu öðru. Að minnsta kosti ekki í afstöðu hans til byssulöggjafar og flóttamanna. Pressan styður ekki Trump í neinu og hefur aldrei gert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)