3011- Þegar ég tapaði jafnvægisskyninu og fórst næstum í flugslysi

Mig minnir að það hafi verið árið 2004 sem við fórum til Fljótavíkur fyrir vestan. Vita annars ekki allir hvar Fljótavík er? Mér telst til að hún sé nyrst og vestast á Vestfjarðakjálkanum. Vestan til á Vestfjarðakjálkanum og fyrir norðan Ísafjarðardjúp eru tvær víkur eða firðir. Sú syðri heitir Aðalvík en sú nyrðri Fljótavík. Nú, við hjónakornin ég undirritaður (eða ofanritaður.) og Áslaug Benediktsdóttir, konan mín, fórum semsagt þangað til nokkurra daga dvalar ásamt einhverjum öðrum. Ætli það hafi ekki verið Bjarni og Benni sem voru með okkur í för. Guðrún og Guðmundur ásamt Jóhanni og Hafdísi voru þar fyrir að ég held. Annars muna sennilega aðrir betur en ég hverjir voru með í ferðinni og hvenær hún var farin. Ég held að það hafi verið samtals þau átta sem talin hafa verið upp, sem dvöldu þarna þann tíma sem ég ræði um. Guðrún og Guðmundur eru foreldrar Jóhanns, en Bjarni, Benni og Hafdís eru börn okkar Áslaugar.

Eftir að hafa keyrt í einni striklotu til Ísafjarðar, um Steingrímsfjarðarheiði, fórum við með flugvél til Fljótavíkur. Sú för var tíðindalaus með öllu. Að minnst kosti man ég ekki eftir neinu sem gerðist á þeirri leið. Kannski hefur flugvélin sem við fórum með þá verið stærri en sú sem við fórum með á bakaleiðinni, því mig minnir að við höfum ekki verið einbíla á norðurleiðinni og að talsvert hafurtask hafi fylgt okkur. Ef til vill hefur Guðmundur verið með okkur í ferðinni vestur í Fljótavík og ekki verið þar fyrir, eins og ég sagði hér að framan. Tilbakaferðin var ekki nærri eins viðburðasnauð í minningunni og verður frá því sagt seinna. Flugvélin lenti á hörðum sandinum í fjörunni, því að sjálfsögðu er enginn alvöruflugvöllur í Fljótavík.

Þegar til Fljótavíkur var komið og við gengum uppúr fjörunni og að bústaðnum varð okkur ljóst að allt var gjörólíkt því sem viðgengst á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík telst þó varla til stórborga að flestra áliti. Fara þurfti yfir læk á mjóum plönkun til að komast að bústaðnum sem stóð í grösugri brekku nokkuð fyrir ofan fjöruna. Frá bústaðnum sást ekki til annarra bæja. Bústaðurinn. Já, ýmislegt má eflaust um hann segja. Það var fjölskylda Jóhanns sem hafði yfir honum að ráða. Áttu hann ásamt einhverjum öðrum sem ég kann ekki að nefna. Bústaðurinn var ekki ýkja stór. Þó höfðum við Áslaug yfir sérherbergi að ráða, en ég man ekki gjörla hvar aðrir holuðu sér niður.

Fleiri bæir stóðu í víkinni, en í engum þeirra var um fasta búsetu að ræða allt árið. Fólk var í sumum þeirra en samskipti við það voru engin eða nær engin, enda óþörf með öllu. Matarafgangar voru settir á ákveðinn stað skammt frá bústaðnum. Tófa kom svo þegar fáir sáu til og fjarlægði eða át það sem henni leist best á. Annað rusl var grafið. Allt var þarna fremur frumstætt og allsenginn íburður í neinu. Um rafmagn eða símasamband var ekki að ræða. Þetta var um hásumar, veður gott og ljós og hiti óþarfi hinn mesti.

Sjóbirtingsveiði var í sjónum svotil beint framundan bústaðnum og voru þeir feðgar Guðmundur og Jóhann aðalsérfræðingar okkar í öllu sem laut að veiðiskap. Svosem því á hvaða tíma best væri að veiða, hvar bestu veiðistaðirnir væru, hve langt útí sjóinn óhætt væri að vaða og hvaða beitu eða öngla skyldi nota og svo framvegis. Aðrir voru varla marktækir í þeim efnum enda veiddu þeir feðgar vel þegar þess þurfti með og leyfðu öðru hvoru öðrum að kasta á réttum stöðum. Ekki man ég þó um úrslit þessara mála annað en það að Bjarni Sæmundsson dró vænan fisk úr sjó og hef ég séð myndir sem sanna það svo ekki verður um villst.

Allt annað matarkyns en sjóbirtinginn þurfti að taka með sér og höfðu þau sem fyrir voru þegar við komum séð um það að mestu leyti. Vatn var þó að hafa í ótakmörkuðu magni úr læk sem rann rétt hjá bústaðnum. Ílát öll og húsgögn voru í bústaðnum eftir því sem þurfa þótti og nauðsyn bar til. Þarna dvöldum við í þónokkra daga, kannski viku eða svo, í góðu yfirlæti og fórum í göngu- og rannsóknarferðir um nágrennið eftir þörfum og óskum hvers og eins.

Einn daginn, sem hlýtur að hafa verið um Jónsmessuna, því það kom eitthvað til tals að gamlar sagnir segðu að um miðnættið mætti af Kögrinu sjá sólina dansa á hafinu. Semsagt það var ákveðið að við karlmennirnir í hópnum. Það er að segja Guðmundur, Jóhann, Bjarni, Benni og ég undirritaður færum í fjallgöngu á Kögrið. „Kögur og Horn og Heljarvík / huga minn seiða löngum“, kvað Jón Helgason endur fyrir löngu í hinu fræga kvæði sínu „Áföngum“. Fjallahringurinn við bústaðinn er mikilfenglegur og bústaðurinn margnefndi fast við fjallið Kögur. Þó er það svo að stofan, eða helsti íverustaður okkar í ferðinni, snýr í áttina að sjónum og er það engin furða. Við gluggann þar mátti una sér löngum stundum í dvöl okkar á staðnum við kaffidrykkju og umræður um heimsins vandamál.

Nú, við ákváðum semsagt að fara í fjallgöngu eina mikla og ganga á Kögrið. Við stikuðum af stað eftir að hafa útbúið okkur, nesti var lítið enda engin þörf á því. Áður en við komum að Kögrinu sjálfu fórum við upp eftir grösugri brekku, ekki brattri og þegar við komum að fjallinu er mér í ferskustu minni að sérkennilegt var að sjá næstum samtímis út á sjóinn milli Kögursins og næsta fjalls fyrir austan, sem ég man ekki lengur hvað heitir og útá vatn eitt ekki stórt, sem náði næstum fram á bjargbrúnina og var mun hærra í landslaginu en sjórinn.

Þegar við komuna að fjallinu hófst uppgangan og ég man ekki eftir neinu sérstöku varðandi hana og ekki hvar ég var í röðinni. Framanaf gekk uppgangan mjög vel, en fjallið varð sífellt brattara eftir því sem ofar dró. Ekki leið á löngu þar til ég fór að dragast svolítið aftur úr, þó ég hefði á þeim tíma talsvert stundað fjallgöngur og oft látið drýgindalega yfir færni minni á því sviði.

Mest furðaði mig á því að Guðmundur, sem líklega er nokkrum árum eldri en ég, var einna fremstur í flokki. Smám saman jókst brattinn og að lokum var þetta eiginlega orðið hálfgildings klifur hjá okkur. Þar kom að ég fann að jafnvægið var ekki sem skyldi hjá mér. Ég þurfti hvað eftir annað að styðja mig með höndunum og enn jókst brattinn. Loksins sá ég að við svo búið mátti ekki standa og ákvað að snúa við enda var ég sífellt að dragast meira og meira aftur úr. Kallaði þá til þess sem næst var á undan mér að ég ætlaði að snúa við. Man ekki hver það var.

Sennilega hefur hann látið það ganga og ég er ekki frá því að Guðmundur hafi verið fremstur í flokki þegar það var. Ég sneri semsagt við og kom fljótlega í bústaðinn aftur og tilkynnti að ég hefði snúið við vegna jafnvægisleysis. Auðvitað var þetta dálítið áfall fyrir mig en við því var ekkert að gera. Taldi líka að þetta mundi lagast fljótlega og að ég hefði sýnt mikla skynsemi og sjálfsafneitum með því að snúa við. Sannleikurinn er samt sá að allar götur síðan hef ég fundið til jafnvægisleysis. Að minnsta kosti öðru hvoru.

Hinir fjórir fóru alla leið uppá Kögrið, en hvort þeir sáu sólina dansa veit ég ekki. Segir svo ekki meira af þessari ferð enda tók ég ekki þátt í henni, en hvort löng leið hefur verið uppá fjallið frá þeim stað sem ég sneri við á veit ég ekki. Eins og allir vita eru Vestfjarðafjöllin, eins og fleiri fjöll á landi hér, rennislétt eftir að upp er komið. Hér gæti komið kennslustund um jarðfræði og ísaldarjökla en ég læt það liggja á milli hluta.

Þegar við vorum að fara frá Fljótavík varð hitt atvikið sem minnst er á í fyrirsögninni. Símasamband var hægt að hafa við Ísafjörð með hjálp einhverrar talstöðvar. Sú talstöð minnir mig að hafi verið á einhverjum bæ í nágrenninu og kemur hún við sögu síðar í þessari frásögn. Með því móti gátum við pantað flugvél til að sækja okkur og gekk það vandræðalaust fyrir sig. Flugvélin tók fjóra farþega og ákveðið var að við hjónin og Bjarni og Benni færum með henni. Hin ætluðu að verða eftir og koma seinna. Flugferðin og flugtakið voru söguleg á margan hátt og ekki er líklegt að ég eigi eftir að upplifa annað eins. Þessvegna er ekki úr vegi að lýsa þessu allnákvæmlega.

Flugmaðurinn raðaði í vélina. Benni var aftast og sá ekkert út. Við Bjarni vorum hlið við hlið fyrir framan hann. Flugmaðurinn var í flugmannssætinu að sjálfsögðu, en í varaflugmannssætinu við hliðina á honum var Áslaug, konan mín. Hún er dálítið flughrædd og einmitt þessvegna vildi flugmaðurinn að hún væri þar. Ekki man ég greinilega hvaða rök voru færð fyrir þeirri ákvörðun, ef þá nokkur.

Hugsanlega hefur verið rangt raðað í vélina, við öll stór og þung eða vindur ekki verið nægilegur. Nú er ég farinn að útskýra það sem á eftir kom. Ekki er það nú gáfulegt og best að ég hætti því.

Flugmaðurinn tók nú sand milli fingra sér og lét sandkornin falla til jarðar. Sennilega hefur hann verið með þessu að athuga vindáttina. Ekki mælti hann þó orð af vörum. Hann snaraðist síðan upp í vélina því engan tíma mátti missa vegna sjávarfalla. Fyrst fór hann alllangt í öfuga átt og herti síðan á vélinni eins og hann gat.

Hafdís Rósa, Jóhann og foreldrar hans sneru hinsvegar við og héldu í átt að bústaðnum, en þau höfðu fylgt okkur að flugvélinni. Hafdís Rósa fylgdist með fluginu og sýndist henni að vélin ætlaði aldrei að komast á loft. Eflaust hefur henni brugðið verulega þegar hún sá flugvélina rekast á sandbakka einn sem varð fyrir vélinni. Við sem í flugvélinni vorum sáum hinsvegar lítið, en treystum flugmanninum.

Allt í einu fundum við að kom mikill slinkur eða högg á flugvélina og hún breytti talsvert um stefnu. Þetta var þó ekki það mikið högg að við sem í flugvélinni vorum værum í nokkurri hættu. Flugmaðurinn var nægilega snjall til þess að ná strax valdi á flugvélinni og þrátt fyrir að rekast með þessum hætti í sandbakkann, sem fyrir varð, tókst honum að komast á loft. Að sjálfsögðu eða að sjálfsögðu ekki krossbölvaði hann þessum sandbakka, sem þarna var að flækjast fyrir eða einhverju öðru. Það athugist að flest eða allt sem fram fór í sambandi við stjórn vélarinnar og frá er sagt hér á eftir hef ég frá konu minni sem samkvæmt hans fyrirskipunum sat við hliðina á honum, stjörf af ótta eins og nærri má geta. Við sem sátum í miðjunni svo ekki sé talað um Benna sem var einn afturí heyrðum ekkert fyrir vélarhljóði. Á ég þar bæði við það sem gerðist í aðdraganda árekstursins og fyrst eftir að flugmanninum tókst að ná vélinni á loft.

Þegar hann var kominn á loft flaug hann yfir sveitabæinn þar sem talstöðin hafði aðsetur sitt og bað um að sóttur yrði stóri kíkirinn hans pabba síns (hmm þetta var misheppnuð tilvitnum í aðra sögu) og athugað hvort hjólabúnaðurinn væri í lagi. Flugmaðurinn þekkti eitthvað til á bænum sem flogið var yfir. Einnig bað hann Áslaugu um að athuga sín megin hvort allt væri í lagi með hjólabúnaðinn. Svörin sem bárust frá þeim sem með kíkinn var voru á þá leið að ekki væri sjáanleg nein missmíði á hjólabúnaðinum. Áslaug neyddist hinsvegar til að opna augun og þykjast kíkja út. Ekki sagðist hún sjá neitt athugavert við hjólin og þá var stefnan tekin á Ísafjörð.

Að sjálfsögðu vissi ég ekkert um þessar athuganir Áslaugar, flugmannsins og á jörðu niðri. Setti allt mitt traust á flugmanninn. Reyndi ekki einu sinni á halda uppi samræðum við Bjarna son minn en hugsaði því meira á leiðinni. Einkum var það vegna hins mikla hávaða sem þarna var sem ég sagði lítið og auk þess var með öllu útilokað fyrir mig að hafa samband við Áslaugu og Benna. Auðvitað óttaðist ég að illa færi.

Þegar við fórum að nálgast Ísafjörð man ég vel að ég reyndi að sjá hvort einhver viðbúnaður væri þar. Reiknaði semsagt með að ef eitthvað alvarlegt væri að hjólabúnaðinum mundi flugmaðurinn hafa haft samband við flugvöllinn og einhvern viðbúnað væri hugsanlega hægt að sjá þar. Svo var ekki og engan viðbúnað að sjá. Ég reyndi því að telja sjálfum mér trú um að allt væri í lagi.

Vissi samt vitanlega að sá möguleiki væri fyrir hendi að flugmaðurinn treysti bara á Guð og lukkuna og ætlaði að lenda þó allt væri kannski í skralli með hjólin. Ég gat þó ekkert gert og hefði sennilega ekki einu sinni náð til flugmannsins, þó ég hefði reynt.

Lendingin gekk ágætlega og um nóttina keyrði ég á mínum/okkar Subaru Outback alla leið til Kópavogs og horfði á leiðinni á mikinn fjölda af vindsorfnum skýjum á himninum. Ský í líkingu við þetta hafði ég aldrei áður séð.

IMG 5473Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, Sæmi minn. cool

Þorsteinn Briem, 29.9.2020 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband