3017 - Bæling vs Barrington

Nú er ég alvarlega dottinn í að skoða lemúrinn á netinu. Aðdáun mín á þeim feðginum Veru og Illuga fer sívaxandi. Þó hef ég um sumt illan bifur á Illuga. Á lemúrnum er margt athyglisvert að finna. Einkum og sér í lagi fyrir þá sem áhuga hafa á sögulegu efni. Tala nú ekki um gamlar ljósmyndir. Vel getur verið að þetta verði til þess að ég skrifi minna á bloggið mitt á næstunni. Auk þess sem ég hef áhuga á sögulegu efni er meistari Kjarval í sérstöku uppáhaldi hjá mér um þessar mundir. Man eftir honum úr listamannaskálanum. Hef lesið næstum allt sem Ingimundur Kjarval hefur skrifað um afa sinn á Moggabloggið.

Þórbergur Þórðarson var í miklu uppáhaldi hjá mér og síðustu árin sem ég var í Reykjavík. Rétt fyrir 1970, var ég verslunarstjóri í Silla og Valda búðinni sem var á Hringbraut 45 að mig minnir og sá hann oft. Sérkennilegur um margt og eftirminnilegur. Sömuleiðis gamla konan sem slapp stundum út hjá þeim á Grund, til að kaupa sér neftóbak. Pálína minnir mig hún héti.

Sigurliði og Valdimar eru líka eftirminnilegir. Eftir því sem aldurinn færist yfir mig verða löngu liðnir atburðir sífellt meira ljóslifandi fyrir manni, en skammtímaminnið lætur á sjá. Þessvegna er það meðal annars sem ég er orðinn svona illa að mér í tölvumálum sem einu sinni voru mitt forte.

Meira virðist núna vera deilt um þær sóttvarnaraðgerðir sem gripið er til en var í vetur í fyrstu bylgunni. Meðal annars held ég að það sé vegna þess að nú er pólitíkin hlaupin í þetta. Slæm er sú tík eftir því sem Nebelsskáldið okkar sagði. Þá er nú rjómatíkin skárri. Hvað sóttvarnirnar snertir eru það einkum bælingarstefnan og Barrington-stefnan sem takast á. Þórólfur hefur hingað til fylgt bælingarstefnunni en því er ekki að neita að einhverjir læknar og jafnvel sóttvarnasérfræðingar fylgja Barrington-stefnunni sem tekur nafn sitt af smábæ þar sem ráðstefna um þetta var nýlega haldin. Sú stefna snýst í sem allra stystu máli um það að vernda viðkvæmu hópana en láta veiruna að öðru leyti afskiptalausa og ná þannig hjarðónæmi á stuttum tíma. Með því megi ná viðunandi árangri án þess að hjól atvinnulífsins þurfi nokkuð að ráði að hægja á sér. Hin stefnan sé næstum óframkvæmanleg nema til komi bóluefni nokkuð fljótlega aðgengilegt fyrir alla. Satt að segja virðist það allsekki fjarlægur möguleiki.

IMG 5454Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Barrington stefnan er erfið í framkvæmd - það þarf að skipuleggja hlutina vel.  Bælingin byggir á að það sé alveg að koma bóluefni, sem WHO segir að eigi ekki að búast við næstu tvö árin. 

Örugglega auðveldara að fá fólk til að taka þátt í stefnu þar sem endamarkið er ljóst og ekki of fjarlægt. Og auk þess er bælingarstefnan ábyggilega nú þegar búin að drepa fleiri en pestin.

Þorsteinn Siglaugsson, 16.10.2020 kl. 15:54

2 identicon

Eftir því sem ég best veit hefur Illugi ekkert með Lemúrinn að gera, fyrst og fremst Vera dóttir hans og Helgi Hrafn Guðmundsson. Skrifuðu bók saman um árið.

Karl 16.10.2020 kl. 21:01

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bóluefni gegn Covid-19 verða trúlega tilbúin í byrjun næsta árs, eins og lengi hefur verið búist við. cool

Hins vegar er næsta víst, eins og Bjarni Fel. myndi segja, að mörlensku frjálshyggjustaurarnir muni gapa daglega um Covid-19 næstu mánuðina, enda þótt það hafi engin áhrif. cool

En nokkra mánuði gæti tekið að bólusetja fólk í öllum ríkjum í heiminum.

15.10.2020 (í gær):

Tíu bóluefni gegn Covid-19 á lokastigi prófana

15.10.2020 (í gær):

"Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að það sé ekki sjúkleg bjartsýni að gera ráð fyrir að það verði eitthvað komið á markað í byrjun næsta árs en að öllum líkindum ekki í mjög almenna dreifingu fyrr en um mitt næsta ár eða upp úr því. cool

Kári segir að í mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sé ekki gert ráð fyrir að það sé mikil samvinna milli lyfjafyrirtækjanna."

Fjöldaframleiðsla á bóluefni hafin í milljarðavís

13.10.2020 (síðastliðinn þriðjudag):

"Ríkisstjórn Íslands ákvað í sumar að kaupa bóluefni gegn farsóttinni á grundvelli samninga Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur.

Gert er ráð fyrir að Ísland þurfi 550 þúsund skammta af bóluefni.

Miðað er við að bólusetja um 75% þjóðarinnar til að ná fullnægjandi hjarðónæmi og að hver einstaklingur verði bólusettur tvisvar."

15.10.2020 (í gær):

"Ef hérlendis væri stefnt að hjarðónæmi og engar sóttvarnarráðstafanir væru í gildi mætti búast við að 88 þúsund ný smit gætu greinst fyrir áramót, ef marka má finnskt spálíkan um þróun faraldursins. cool

Og þá myndu allt að þrjú þúsund greinast daglega í lok nóvember.

Þetta kemur fram í grein sem þríeykið Alma D. Möller landlæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir birtu í Fréttablaðinu í morgun."

"Í greininni segir að leiðin sem Great Barrington hópurinn leggur til með hinni svokölluðu Great Barrington-yfirlýsingu sé óframkvæmanleg "ef vilji er til þess að halda innviðum heilbrigðiskerfisins starfandi" cool

Yfirlýsingin var skrifuð af þremur bandarískum vísindamönnum, undirrituð af fjölda fólks og styrkt af frjálshyggjuhugveitunni American Institute for Economic Research." cool

Um 88 þúsund ný smit hér á Íslandi fyrir áramót án sóttvarnaraðgerða

Þorsteinn Briem, 16.10.2020 kl. 22:04

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

WHO gerir ekki ráð fyrir að bóluefni verði til fyrr en eftir tvö ár. Það er meiri ástæða til að trúa því en Kára Stefánssyni. Vangaveltur veiruþrenningarinnar í þessari blaðagrein eru ekkert annað en vangaveltur. Það er meiri ástæða til að taka mark á fremstu sóttvarnasérfræðingum heims en veiruþrenningunni.

Þorsteinn Siglaugsson, 17.10.2020 kl. 00:08

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Satt að segja er ég meira sammála Steina Briem þarna. Mér finnst Barrington aðferðin mála skrattann á vegginn. Að bóluefni komi ekki fram á sjónarsviðið fyrr en eftir tvö ár finnst mér óþarfa svartsýni. Flestir virðast vera að komast á þá skoðun að bóluefni komi fram miklu fyrr. Dreifingin og milljarðaframleiðslan kann þó að valda einhverjum vandræðum en ef allir leggjast á eitt ættu þau vandræði ekki að standa nema nokkra mánuði. í þessu tilfelli er hagstæðast að treysta yfirvöldum. Svo er þó ekki nærri alltaf.

Sæmundur Bjarnason, 17.10.2020 kl. 05:17

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þeirri skoðun er mikið haldið fram að bóluefni sé handan við hornið. En meðan Alþjóða heilbrigðismálastofnunin álítur að svo sé ekki verðum við að taka þeim staðhæfingum með miklum fyrirvara. Eins og Stóuspekingarnir sögðu forðum er vonin hættuleg, sér í lagi þegar við tökum að trúa því að eitthvað gerist af því að við vonum að það gerist.

Við höfum treyst yfirvöldum, en því miður er löngu komið í ljós að það eru mistök að treysta þeim. Þeirra stefna snýst ekki um að leysa vandann heldur aðeins að reyna að fresta honum. Og staðhæfingar eins og nafni vitnar í frá þessu svokallaða þríeyki sýna auðvitað glöggt af hverju þessu fólki er ekki treystandi. Þau staðhæfa að ef Barrington leiðin yrði farin myndi það yfirkeyra heilbrigðiskerfið. En forstjóri LSH hefur sagt skýrt að kerfið ráði við jafnvel svartsýnustu spár. Og Barrington leiðin er einmitt leið til að lágmarka álagið, vegna þess að hún einangrar 90% þeirra sem þurfa sjúkrahúsvist. Það er því miður ekkert að marka þetta fólk. Því hefur mistekist verkefnið algerlega og er nú einfaldlega í bullandi vörn. Þetta er alvarlegt því ábyrgð þessa fólks er mikil. Það rís ekki undir henni.

Og það alvarlegasta við stefnuna sem hér er rekin er að viðkvæmu hópunum er leyft að smitast alveg til jafns við aðra. Við vitum að fólk yfir sjötugu er í þúsund sinnum meiri hættu en yngsti aldurshópurinn, en það er ekkert gert til að vernda þennan hóp sérstaklega. Væri það gert væri hann ekki að smitast til jafn við aðra. Svo einfalt er það. Væri hann hins vegar varinn væri nánast enginn að deyja úr þessum sjúkdómi. Þetta sýnir nú best hversu skynsamlegt er að treysta yfirvöldunum í þessu tilfelli.

Þorsteinn Siglaugsson, 17.10.2020 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband