Færsluflokkur: Bloggar

3009 - Örsögur og ýmislegt annað

Kannski er ég vitlaus. Eða að minnsta kosti pínulítið skrýtinn. En eru það ekki allir? Hugsanlegt er að ég sé verri en flestir. Þó er það allsekki víst. Steini Briem er talsvert skrítinn líka. Ætti ég nokkuð að vera að sálgreina hann eftir þessum kommentum sem hann lætur svo lítið að skrifa hér. Hann leggur greinilega talsverða vinnu í þetta og þó hann hugsi mikið um vexti gera það alls ekki allir. Það er nú bæði kostur og galli að ekki eru nærri allir eins. Í vissum tilfellum eru vextir mikilvægir en þeir ráða ekki öllu. Heldur ekki það sem ég skrifa. Þessvegna reyni ég að hafa þetta stutt.

Örsögurnar, sem ég kalla svo, eru líka stuttar. Þá er líklegra að menn þreytist ekki á því að lesa þær. Þorsteinn Siglaugsson er sá eini sem kommentar á þessar sögur og les þær greinilega. Ekkert skil ég í þeim sem lesa langar sögur. Þær þreyta mig. Ef hægt er að koma í stuttu máli orðum að því sem maður vill segja er það miklu betra en að teygja lopann sem allra mest. Þetta er það sem ég hef einkum á móti krimmunum. Oft væri hægt að koma plottinu fyrir á fáeinum blaðsíðum. En, nei. Það verður að hafa þetta heila bók. Stundum hafa höfundarnir heilmikið að segja fyrir utan plottið og vitanlega verður að virða það. En oft hljómar það sem uppfylling, einkum hjá Yrsu.

Ekki veit ég almennilega hvernig á því stendur að bloggin hjá mér, auk þess að vera fleiri og fleiri, eru að verða á þá lund að í upphafi eru hugleiðingar um allan fjandann, en svo lýkur þeir gjarnan á einhverri örsögu sem ég kalla svo. Sumar þeirra eru kannski einhvers virði en aðallega eru þær bölvað bull. Svona á maður alls ekki að tala um sín eigin verk. Best er að segja sem minnst um þau. Aðrir gætu haldið að þau væru afar merkileg og túlkað þau út og suður.

„Út og suður“ og „norður og niður“ eru annars merkileg orðatiltæki og ekki eins auðskýranleg og í fyrstu virðist. Íslenskan hefur alltaf heillað mig og orð og orðtiltæki eru að sumu leyti mínar ær og kýr. Hef jafnvel stundum íhugað að skrifa leikrik sem væri ekkert nema orðatiltæki. Kannski geri ég einhverntíma örsögu sem er svona. Ekki ætti það að vera mikill vandi. Jæja-ð og ha-ið eru líka merkileg orð sem geta þýtt ýmislegt. 

Svo kemur sagan:

Sú síðasta var stutt. Kannski ég reyni að hafa þá næstu svolítið lengri. Annars ræð ég þessu ekki alfarið. Það er andinn, sem er að flækjast hérna út og suður. Þegar hann er fyrir ofan mig þá bætast við fáein orð eða að minnsta kosti nokkrir stafir. Auðvitað get ég haft á það einhver áhrif, en þau eru takmörkuð.

Þegar Jón bóndi kom út á hlað og hafði signt sig leit hann til veðurs. Bakkinn í austri hafði stækkað til muna og hann var ekki í neinum vafa um að óveður var í aðsigi. Hóaði saman rollunum og sendi hundinn á eftir þeim óþekkustu. Sennilega boðaði þessi bakki bæði rok og rigningu. Best að vera við öllu búinn. Jón setti á sig höfuðljósið og startaði snjallsímanum sem gekk nefnilega fyrir olíu en ekki bensíni.

Um leið og hann hafði lokið því opnaði hann dyrnar á fjárhúsinu með rafknúnu fjarstýringunni sinni. Hann hafði nefnilega fengið þessa dýrindis fjarstýringu frá Mumma á Grjóti um síðustu jól. Þegar hann var búinn að öllu þessu tók hann til við að lemba ærnar, ég meina rollurnar. Ekki fer miklum sögum af því hvernig hann gerði það en svokölluð Nokia-aðferð var notuð. Þetta var einmitt nokkru áður en Nokia farsímarnir urðu algengir. Veðurspána var ekkert að marka frekar en venjulega og líka var frá því sagt að símasambandið við tunglið var ekki nógu gott.

Í sjónvarpsfréttum var sagt frá því í smáatriðum hvernig símasambandinu við tunglið leið. Yfirleitt leið því illa. Sífelldar truflanir og brak og brestir þess á milli. Helst ekki mátti segja neitt frá öðru en þessu símasambandi, því hugsanlega gæti það verið ríkisleyndarmál.

Jóni var alveg sama um það. Hann þekkti hvort eð var engan á tunglinu og þurfti ekkert að hringja þangað. Samt sem áður snerist allt um símasambandið við tunglið. Kannski voru menn hræddir um að þar færu menn sér að voða. Verst er að vita ekkert um hvort þessar smásögur eða örsögur eru einhvers virði. Að bulla svona endalaust er ekkert gaman. Það hlýtur samt að vera ennþá leiðinlegra að lesa þessi ósköp.

Allt í einu varð mikil sprenging á tunglinu. Svo mikil að hún sást með allsberum augum frá Jörðinni. Kannski er hægt að segja að það hafi sprungið í loft upp en þó er það vafasamt. Getur hlutur sem er í lofttómu rúmi sprungið í loft upp? Og ef útí það er farið hvað er þá upp og hvað niður. Allavega rofnaði símasambandið fljótlega eftir sprenginguna. Hvers vegna varð þessi sprenging? Og hvað varð um mennina sem þar voru? Þetta var erfitt verkefni fyrir lögregluna. Hún lét samt ekki hugfallast og fékk lánaða aflóga geimflaug hjá Space-X fyrirtækinu. Hún fór síðan að leka á miðri leið og þá varð einum lögregluþjóninum að orði: „Ja, mikill andskoti“. Hinir sögðu ekki orð en fóru strax að reyna að gera við. Það tókst ekki og verðum við því að ljúka þessari sögu hér.

IMG 5478Einhver mynd.


3008 - Meirafíflskenningin

Hætt er við að um hálfgert tröllasamtal verði að ræða í kommentum ef margir taka þátt. Einhver á alltaf bloggið og getur skrúfað fyrir athugasemdir ef honum sýnist svo. Það gerði Jón Valur Jensson óspart, en ég sjálfur aldrei. Hann átti líka mörg blogg og var sískrifandi. Hingað til a.m.k. hef ég ekki tekið mér hann til fyrirmyndar að þessu leyti enda ekki þurft á því að halda. Moggabloggið sjálft held ég að á sinni tíð hafi verið hugsað sem einskonar kommentakerfi að útlenskri fyrirmynd. Nú nú, ég ætlaði eiginlega að fjölyrða eitthvað um  meirafíflskenninguna. Núna er ég búinn að steingleyma hvað ég ætlaði að skrifa.

Siglaugsson minntist í kommenti sínu á „Íslenska Erfðagreiningu“ í sömu andrá og keðjubréfasvindl. Nú vildu samt allir „Kára kveðið hafa“ svo ekki er alveg á þetta að treysta. Aðstæður geta breyst og manneskjur líka. Davíð Oddsson er sumsstaðar hataður, annarsstaðar elskaður o.s.frv. Pólitíkin er undarleg tík eins og Nóbelsskálið sagði einhverntíma. Styrmir er ekkert meiri heimsendaspámaður en aðrir þó Steini Briem segi það.

Að tala bara um hlutlausa vexti, meginvexti og þessháttar leysir engan vanda. Ef Steini og aðrir skilja það ekki er aðild að eða ósk um aðild að ESB eða EU, eins og skammstafa ber það á flestum heimstugnum öðrum en íslensku, allsekki eingöngu eða aðallega vegna vaxtanna, heldur vegna hins að þróunin sé þá kannski í átt að stærri heildum en ekki minni. Munurinn á EU og USA er einkum sá að ekki er hægt fyrir ríki að segja sig úr lögum við sambandsríkið í USA en Brexit er dæmi um annað.

Ekki held ég að þessar svokölluðu örsögur mínar séu merkilegar. Ég nota þær aðallega til uppfyllingar í bloggið mitt. Hér er ein:

 

Eitt sinn þegar Guð almáttugur var á ferðalagi í Himnaríki kom kona ein til hans og bað hann um áheyrn.

„Hvað viltu góða mín“, sagði Guð almáttugur.
„Bara að þú segir honum Jóni mínum að hann geti sjálfum sér um kennt að vera dauður núna“, sagði konan.

  • Nú, var það ekki annað?
  • Nei, eiginlega ekki.
  • Nú.
  • Ja, kannski hefði ég viljað að þú gerðir við saumavélina mína úr því ég náði sambandi við þig.
  • Það er nú eiginlega ekki í minni deild.
  • En þú gætir eflaust haft áhrif á það.
  • Já, kannski. Ég skal nefna þetta við hann Pétur.

 

Þannig vildi það til að Lykla-Pétur fór að fást við saumvélaviðgerðir. Og af því hann var snillingur í því eins og mörgu öðru leið ekki á löngu þar til hann var beðinn um að sauma kjól á Jesú. Á ég þá að gera ráð fyrir brjóstum? Spurði Lykla-Pétur og þóttist þar með geta sloppið við þennan saumaskap. Auðvitað er hann með brjóst og allt tilheyrandi. Skegg líka og allt eftir því, var svarið. Á ég kannski að hafa buxnaklauf á kjólnum? Spurði Lykla Pétur þá og þóttist nokkuð góður.

Þetta með buxnaklaufina hefur síðan verið deiluefni í aldaraðir meðal guðfræðinga, sem ekki gátu komið sér saman um hvort þörf væri fyrir buxnaklauf á kjólnum eða ekki og þessvegna klæðast prestar enn þann dag í dag kjólum, sem þeir kalla að vísu hempur, en enginn tekur það alvarlega. Og ekki er buxnaklauf á þeim.

IMG 5483Einhver mynd.


3007 - Kartöflugarðar og önnur fyrirtæki

Að minnsta kosti tveir Þorsteinar lesa bloggið mitt að staðaldri. Kommenta oft á það sem ég skrifa. Báðir eru þeim miklir sérfræðingar, en það er ég ekki. Ég er gamalmenni. Komst á sínum tíma lengst á fræðasviðinu fyrir ríflega hálfri öld með því að komast á Samvinnuskólann að Bifröst árið 1959. Við útskrift þaðan var ég í slöku meðallagi hvað einkunnir snerti.

Steini Briem segist hafa unnið á Morgunblaðinu og verið næturvörður í Seðlabankanum. Hann bloggar ekki sjálfur núorðið á Moggablogginu en lætur ljós sitt skína víða annarsstaðar. Hefur mikið yndi af fyrirsögnum og feitletrunum. Fjármál eru hans ær og kýr. Hinn Þorsteinninn er Siglaugsson og er ef til vill tiltölulega nýútskrifaður lögfræðingur. Að því er ég best veit hefur hann fyrir ekki löngu hafið Moggablogg eitt mikið og á örugglega framtíð fyrir sér sem slíkur. Veit ýmislegt en hljómar stundum eins og kennslubók í hagfræði.

Þó ég hafi horn í síðu fésbókarinnar er ekki þar með sagt að ég kenni henni um allt sem aflaga fer í samskiptum fólks. Ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega vill gjarnan tosa landinu í átt til Bandaríkja Norður-Ameríku, en ég og aðrir vinstri menn viljum gjarnan að landið þokist meira í átt til Evrópu og Norðurlandanna sérstaklega og þar með í átt til ESB. Auðvitað er þetta ekki einfalt mál og margar hliðar á því. Vextir Seðlabankans og það hvort eitt pínulítið flugfélag lifir eða deyr eru smámál í stóra samhenginu. Allt er komið undir þróuninni.

Í bloggi um daginn sagði ég eitthvað á þá leið að hlutabréf væru ímynduð verðmæti. Við það stend ég og geri ekki þann greinarmun á kartöflugörðum og öðrum fyrirtækjum sem Þorsteinn Siglaugsson vill gera. Hlutabréf geta sem best verið einskonar afurð. Meirafíflskenninguna vil ég standa við. Minnir að ég hafi fyrst heyrt um hana í einhverju sem haft var eftir Margeiri Péturssyni. Engin furða er þó ekki fallist allir á það að hlutabréfamarkaðurinn sé nútíma vestræn útgáfa af keðjubréfum. Þessi skoðun er nefnilega talsvert róttæk og ég eigna mér hana allsekki. Blessuð keðjubréfin tröllriðu nefnilega einu sinni Íslenskum veruleika.

IMG 5492Einhver mynd.


3006 - Hlutabréf

Hlutabréf eru ímynduð verðmæti. Enginn raunverulegur munur er á hlutabréfamarkaði og keðjubréfafaraldri. Meirafíflskenningin er ráðandi þarna. Mikill stærðarmunur er þó á þessu tvennu. Hlutabréfamarkaðurinn er margfalt stærri og nær um allan heim og nýtur mikillar virðingar. Enda er engin hætta á  að hann hrynji með öllu. Hann byggist nánast eingöngu á væntanlegum gróða. Lengi má auðvitað bjarga sér með aukinni veltu og samruna. Eignir og annað þessháttar skiptir engu eða sáralitlu máli. Allt snýst um væntingar. Íslendingar fengu góðfúslega að vera memm í hlutabréfaleiknum á veltiárunum fram að 2008 eða svo, en kunnu ekki fótum sínum forráð og því fór sem fór. Nú stendur til að beina öllum okkar kröftum í að fá að vera memm aftur. Kannski tekst það. Sennilega er mesta furða hvað við vorum fljót að standa upp aftur þrátt fyrir Hrunið. Ef til vill var það ESB að þakka. Eitt af inntökuskilyrðunum í memm-klúbbinn núna er greinilega að láta Flugfélag Íslands (sem nú um stundir er kallað Icelandair) lifa áfram. Greinilega er samt þarna um fallítt félag að ræða. Ræði ekki meira um þessi mál í bili. Þetta er mín skoðum.

Hef að undanförnu verið að lesa dálítið athyglisverða bók. Hún nefnist Hitlers Children eða eitthvað þessháttar og er eftir Gerald Posner. Um endurútgáfu er að ræða. Þessi bók kom upphaflega út um 1990 og vakti talsverða athygli þá. Bókin er byggð á viðtölum við börn nokkurra nasistaforingja sem samþykktu að ræða við Posner. Þessir menn eða nasistaleiðtogar eru þekktir úr sögunni og voru flestir líflátir (hengdir) að Nurnberg-réttarhöldunum loknum. Þeir voru oft ágætir fjölskyldufeður þrátt fyrir grimmdarverkin sem þeir frömdu í vinnunni. Það sem rak a.m.k. suma þeirra áfram var hugsanlega sókn í auðæfi og völd. Siðferði flæktist ekki fyrir þeim.

Útrætt að sinni um þessa andskota, en kannski minnist ég á þá seinna. Gyðingahatrið er á leiðinni til Evrópu aftur. Hugsanlega munu flóttamenn af öllu tagi finna mest fyrir því að þessu sinni. Útrýmingarbúðir í stíl við þær sem tíðkuðust í síðustu heimsstyrjöld eru þó tæpast á leiðinni aftur. Þó ekki væri nema vegna þess að þriðja heimsstyrjöldin verður stutt og mun á margan hátt líkjast tölvuleikjum nútímans a.m.k. frá sjónarmiði þeirra sem þátt taka í henni. Ég sagði áðan að flóttamenn mundu sennilega finna mest fyrir Gyðingahatri. Kannski er ekki rétt að kalla það Gyðingahatur, en lítill vafi er á því að heimaríkir hundar munu reyna að halda öllum flóttamönnum frá nægtaborði vestræns veruleika. Þeir eru mjög hataðir víða nú þegar.

Þriðja heimstyrjöldin mun koma. Á því er enginn vafi en hvort þangað til líða ár eða aldir er engin leið að spá fyrir um. Það eina sem kemur í veg fyrir hana nú um stundir er að sennilega mun enginn sigra í henni. Að minnsta kosti er ómögulegt að spá nokkru um það. Hvort verður á undan að valda þvílíkum ógnum í heiminum að hann verður nánast óbyggilegur þriðja heimsstyrjöldin eða loftslagskrísan er ekki hægt að segja neitt um. Jafnvel er Covid faraldurinn hugsanlega að gera það nú þegar. Ég geri mér alveg grein fyrir að heimsendaspádómar eru sérgrein þeirra sem eru á förum héðan úr heimi. Að allt fari til andskotans í framtíðinn er fyrirsjáanlegt og hefur lengi verið.

unglingaliðEinhver mynd.


3005 - Heilsan mikilvæga

Þú ert það sem þú hugsar,  gerir og étur (eða drekkur). Hvort þú færð hættulegan sjúkdóm eða ekki, andlegan eða líkamlegan, er eins og hvert annað happadrætti (eða lottó). Vinningslíkurnar eru þó miklu meiri í heilsuhappadrættinu en í lottóinu eða hvaða happadrætti sem vera skal og þú getur haft heilmikil áhrif á þær líkur. Svo fer það að sjálfsögðu eftir hverjum og einum hver vinningurinn er. Langlífi mundu flestir segja. En hvað er langlífi? Er það að verða níræður, hundrað ára eða kannski meira? Sumir mundu kannski segja að það væri að vera vel á sig kominn bæði andlega og líkamlega fram á grafarbakkann. En hvar er þessi fjárans grafarbakki? Er hann við sjötugt, áttrætt eða nírætt. Kannski ennþá seinna. Það verður hver og einn að ákveða fyrir sig.

Ef maður fer illa með líkama sinn, er ekki hægt að byrja upp nýtt og fá varahluti í hann nema að mjög takmörkuðu leyti. Þarflaust er með öllu fyrir flesta að velta því nokkuð fyrir sér. Betra er að reyna að lifa sem heilsusamlegestu lífi og borða ekki það sem óhollt er. Reykja ekki og drekka ekki. Það er að segja áfengi. Það er hægt að gera vel sig í mat og drykk án þess að slaka mikið á í hollustunni. Annars breytast áherslurnar í þessu efni með tímanum. Ég man þá tíð að fitunni var kennt um næstum allt sem aflaga fór. Sum fita var holl og önnur óholl. Þetta var alltof flókið. Nú er það sykurinn og hvíta hveitið sem er óvinurinn mikli. Allt sem er hollt er frekar dýrt. Þannig er þetta bara og það breytist afar hægt. Annars er ég enginn næringarfræðingur og varasamt er að treysta þessu. Þetta er bara það sem ég held.

Trump Bandaríkjaforseti verður það vonandi ekki lengi til viðbótar. Að ekki sé um annað að velja en hann eða Biden er fjandi hart. Þar að auki er það hart að aðrar þjóðir geti engin áhrif haft á þetta forsetakjör. Bandaríkjaforseti, hver sem hann er, vill og getur haft heilmikil áhrif á aðrar þjóðir. Þær, eða réttara sagt stjórnir þeirra, vilja þó alls ekki viðurkenna það. Stórveldin eru það samt sem ráða alltof miklu í heiminum. Stóru alþjóðlegu fyrirtækin sem gjarnan vilja koma í staðinn eru faktískt ekki hótinu betri. Þar er bara hugsað um gróða í peningum. Skítt með líf og heilsu fólks, ef gróðinn er sæmilega mikill. Smáríki á borð við Ísland ættu að fá að ráða heiminum. Að minnsta kosti öðru hvoru. Í gegnum Sameinuðu Þjóðirnar svokölluðu reyna þau það vissulega, en við stofnun þessara samtaka var starfsemi þeirra lömuð og næstum eyðilögð með neitunarvaldi stórþjóðanna í Öryggisráðinu sem svo er kallað.

Eiginlega verð ég að gera jántningu hér. Eftir að ritsjórn Moggans eða Moggabloggsins ákvað þá breytingu að birta ekki stöplaritin þó maður sé búinn að lauma sér inn með passvordi þá er ég í vandræðum með að sjá nema tölur dagsins. Af því að ég fer yfirleitt snemma að sofa og veit ekkert hverning á að virkja þennan fjárans flash-spilara get ég ekki séð tölur gærdagsins. Veit samt að á heildarvinsældalistanum hef ég hoppað úr tuttugasta sæti í það sautjánda. Kannski Steini gáfaði geti hjálpað mér.

IMG 5498Einhver mynd.


3004 - Spanó-málið

Í sjálfu sér kemur mér lítið við hvað misvitrir (og aðallega vitlausir) stjórnmálamenn ákveða. Samt er það nú svo að kosningarétturinn er helgasti réttur hvers manns. Ef kosningaþátttaka fer niður fyrir fimmtíu prósent er það greinilega til marks um algjörlega misheppnaða stjórnmálamenn. Nema það séu kjósendur sjálfir sem eru misheppnaðir. Varla þó allir. Af því að kjósendur eru mun fleiri (væntanlega) en stjórnmálamenn ættu þeir (stjórnmálamennirnir) að fara í fýlu og hætta að stjórna, allir sem einn. Við það mundu kjósendur vakna til vitundar um að stjórnendur eru nauðsynlegir, þó misvitrir séu. Af þessu öllu leiðir að stjórnmálamenn eru nauðsynlegir. Samt er allsekki sama hvað þeir gera. Auðvitað geta þeir gert allskonar vitleysur. Það er þó víða hægt að leiðrétta. Lýðræðisfyrirkomulagið er sennilega skásta aðferðin til þess. Með því verða nokkuð margir samsekir um lélega stjórnun. Hægt þarf líka að vera að skipta um stjórn með hæfilegu millibili. Oftast er það millibil haft svona fjögur ár. Ástæðulaust er samt að binda sig við þann árafjölda.

Róbert Spanó er litmus testið um þessar mundir. Ingibjörg Sólrún og fleira fólk sem telur sig vera vinstri sinnað hefur fordæmt hann fyrir að hafa ekki hunsað Tyrki. Skipta má mögulegum ávirðingum hans í tvennt. Annars vegar fyrir að hafa farið í opinbera heimsókn til Tyrklands og hins vegar að fyrir að hafa þegið heiðursdoktorsnafnbót við Istambul-háskólann. Mér finnst þetta hanga á sömu spýtunni. Ef sagt er já við öðru, er beinlínis asnalegt að segja nei við hinu. Spanó tók með þessu ákvörðun sem hann gat vitað að yrði mjög umdeild. Hinsvegar má alveg halda því fram að dómstóll sá sem hann var fulltrúi fyrir eigi að vera fordómalaus með öllu. Þeirrar skoðunar er ég. Margt fleira má um þetta mál og mannréttindi almennt segja, en ég læt þetta nægja að sinni.

Finnst það liggja í augum uppi að Flugleiðir muni nýta sér að fá lán með ríkisábyrgð. Tryggingar eru allsekki nógar eins og bent hefur verið á. Réttast hefði að sjálfsögðu verið að láta þetta félag fara á hausinn. En það var ekki gert og þessvegna verður það um ókomna tíð rekið með álitlegu tapi á kostnað okkar allra. Kannski fer svo vel á endanum að kostaðurinn verður ekki meiri en nokkrir tugir þúsunda á hverja fjölskyldu. Þar að auki getur verið að hann dreifist sæmilega.

Nú er ég búinn að minnast á þrjú mál án þess að minnast á veiruskrattann. Hvernig er það hægt? Veit það ekki almennilega, en kannski ber það vott um að málum þar hafi verið sæmilega sinnt hér á landi. Óumdeilt er að við höfum ekki farið afar illa útúr þessari plágu og verðum kannski ekki mjög lengi að jafna okkur. Samanburður allur er þó erfiður vegna þess að við erum svo fá.

IMG 5502Einhver mynd.


3003 - Þetta er um hana Guðrúnu

Ekki var þetta sögubindindi langvarandi. Nú þegar er ég búinn að semja sögu sem ég er að hugsa um að nota til að lengja þetta blogg. Kannski fer ég aftur í sögubindindi en það getur verið svolítið erfitt að venja sig af ósiðum. Kannski er það ekki neinn sérstakur ósiður að skrifa sögur, þó þær endi svolítið skringilega. Kannski gæti ég skrifað eitthvað um heimsstjórnmál núna til að þurfa ekki að treysta eingöngu á sögurnar.

Ekki finnst mér hægrið sýna mikla skynsemi í því að höfða svona mikið til föðurlandsástarinnar eins og gert er. Hún er að sjálfsögðu allra góðra gjalda verð svo lengi sem hún skaðar ekki aðra. Nútíma stjórnmál hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir því að framfarir í tækni og verkkunnáttu verða því aðeins umtalsverðar að allar þjóðir leggi sitt að mörkum. Engin þjóð má skera sig úr og stefna að einangrum. Hvorki stór eða smá. Auðvitað er þetta takmark langt í burtu en það þýðir ekki að afsakanlegt sé að stefna að einhverju öðru. Þetta er það takmark sem Trump bandaríkjaforseti berst ákveðið gegn og það er hans veikleiki umfram annað. Enginn vafi er á því að unga fólkið stefnir í þessa átt, hvort sem það veit af því eða ekki. Og þessi stefna mun sigra að lokum.

Nú er komið að sögustundinni. Best að sækja þessa sögu sem ég samdi í gær og setja hana hér:

Nú er það orðið slæmt. Ég get ekki samið fleiri sögur. Andinn kemur ekki yfir mig. Hvert skyldi hann hafa farið? Ekki má hann vera að því að koma við hérna.

Ómögulegt er að hafa þessi skrif með öllu andlaus svo sennilega verð ég bara að láta sem andinn hafi komið yfir mig.

Guðrún gekk og gekk. Á endanum komst hún ekki lengra fyrir þreytu. Settist því á bekk, sem svo vel vildi til að var þarna staddur. Ekki var hún farin að hugsa fyrir því hvernig hún kæmist til baka. Ef hún hvíldi sig nógu rösklega hlyti hún samt að hafa það af. Eiginlega ætlaði hún alls ekki að ganga svona langt, en átti erfitt með að stoppa því hún var saltvond útí manninn sinn. Hann ætlaði enn einu sinni í veiðiferð. Og ekki átti hún á fá að fara með frekar en venjulega. Þessar blessarar veiðiferðir voru orðnar ansi margar. Ætli þetta verði ekki sú fjórða á þessu sumri. Hún hafði einmitt ætlað að fá hann með sér í heimsókn til foreldra sinna um þessa helgi. Nú var það fyrir bí. Allt útaf þessari andskotans veiðiferð.

Nú var fimmtudagur og krakkarnir, sem voru orðin næstum uppkomin, voru á leiðinni á einhverja útiskemmtun. Það hefði semsagt verið upplagt að skreppa austur á Hornafjörð núna um þessa helgi. Aldrei gat hún farið neitt útaf þessum sífelldu veiðiferðum hjá Hróðmari.

Þó hún ætti bágt með að fyrirgefa honum allar þessar veiðferðir fann hún samt vel að hún var pínulítið ósanngjörn. Hann langaði vitanlega til að sleppa fram af sér beislinu og satt að segja gat hún vel unnt honum þess. Sjálf hafði hún ekki viljað fara í berjatínslu um síðustu helgi þó hann hefði ámálgað það við hana. Það var bara svo margt sem hún átti ógert þá. Hafði hamast öll kvöld í þessari viku til að hafa ekki svona mikið að gera um þessa helgi. Svo þegar hann hafði sagt að Hannes hefði hringt og sagst geta reddað dögum í laxveiði hefði hann slegið til og ætlaði nú í enn eina veiðiferð, þá hafði hún ekki getað á sér setið og farið að rífast við hann. Sagði sem satt var að hann væri alltaf í veiðiferðum og hún gæti aldrei farið neitt.

Svo hafði hún rokið út og sagst ætla út að ganga smávegis.

Á bakaleiðinni villtist hún og vissi ekki fyrr til en hún var komin alla leið til Hornarfjarðar. Úr því hún var komin svona langt ákvað hún að heimsækja foreldra sína. Þau voru að sjálfsögðu ekki heima og bíllinn ekki heldur svo sennilega höfðu þau farið út að keyra. Af því hún var öllum hnútum kunnug á heimilinu hafði hún lítið fyrir því að komast inn. Settist inn í stofu og lét fara vel um sig. Sofnaði í sófanum og vaknaði við það að Hannes var að reyna að vekja hana. Hún leit í kringum sig og sá að hún var á Hornafirði og sagði því við Hannes:

  • Hvernig í ósköpunum fórst þú að því að komast hingað?
  • Nú, ég bara elti þig.
  • Af því bara.
  • Gekk ég alla þessa leið?
  • Já, og stoppaðir hvergi.
  • Ég er svo aldeilist hissa.

Og þannig atvikaðist það að Guðrún gekk alla leið til Hornafjarðar. Hvar hún byrjaði fylgir ekki sögunni.

IMG 5510Einhver mynd.


3002 - Hútúar og Tútsar

Aldrei hef ég verið alveg viss um hvorir væru meira sekir í sambandi við fjöldamorðin í Rúanda og Búrúndí. Voru það Hútúar eða voru það Tútsar? Einhvern vegin rugla ég þessum þjóðum alltaf saman. Hvernig skyldi standa á því? Einnig rugla ég saman löndunum Rúanda og Búrúndí. Veit ekki einu sinni hvað höfuðborgirnar heita eða hvort er stærra og/eða fjölmennara. Auðvitað gæti ég spurt Gúgla að þessu og reynt að setja það á mitt sálarprik hver er hver. Margar sögur hef ég heyrt frá þessum tímum og síðar, en samt rugla ég allaf saman þessum þjóðum. Skil ekki hvernig á þessu stendur. Ekki er það vegna þess að ég eigi vanda til að rugla þjóðum saman. Kannski rugla ég fólki stundum saman. Ekki þarf það þó að vera líkt til þess að ég geri það. Svona er ég bara og kannski margir fleiri.

Nú er ég hættur að skrifa sögur. Í bili að minnsta kosti. Það er helst að Þorsteinn Siglaugsson hafi látið svo lítið að gagnrýna þessar sögur pínulítið. Gætir þess samt að hrósa ofboðlítið í leiðinni fyrir eitthvað annað. Ekki er það vegna þess að ég sé kominn í þrot með efni, sem ég hætti þessu, heldur hafa undirtektir lesenda minna ekki verið miklar. Ég er ekki að kvarta heldur að benda á staðreyndir.

Varðandi pólitíkina held ég að skoðanir mínar hafi ekkert breyst. Ég er t.d. ennþá þeirrar skoðunar að Trump tapi í kosningunum í nóvember. Þegar ég spáði því upphaflega var kórónuveiran þó ekki komin til sögunnar en núna held ég eins og svo margir aðrir að hann tapi fyrir Biden vegna hennar meðal annars.

Ég geld mikinn varhug við öllum þeim ótrúlegu vírusfréttum sem tröllríða flestum fjölmiðlum um þessar mundir. Rússneska bóluefnið virðist þó gefa nokkuð góða raun þó það hafi allsekki verið prófað nógu mikið. Ráðlegg þó öllum að bíða í rólegheitum a.m.k. til jóla.

Þó ég sé kominn á fjórða þúsundið með blogginnleggin mín er ástæðulaust að miklast af því. Þetta er einskonar dagbók og þar að auki eru mörg hver ansi stutt. Einkum uppá síðkastið. Löng históría er til um kvenmann sem kallaður var Síðkastið en ég fer ekki nánar útí það. E.t.v. væri þetta upplagt söguefni. Fæstar þeirra verða þó til vegna aumlegs útúrsnúnings. Mjög tíðkaðist i eina tíð meðal þeirra sem ég umgekkst einkum, að snúa útúr og breyta vinsælum söngtextum og dægurlagatextum. Nefni engin dæmi en það gæti ég þó gert ef eftir væri leitað. Druslur var það kallað í gamla daga þegar kirkjukórar og aðrir æfðu sig á vinsælum sálmalögum með öðrum textum en áttu að vera.

IMG 5524Einhver mynd.


3001 - Bloggið mitt

Eiginlega hef ég sýnt fram á það með þessum þrjú þúsund bloggum, að það er lítill vandi að skrifa og skrifa; spurningin er bara hvort það er eitthvað að marka þetta allt saman. Eða hvort það hefur einhvern tilgang. Tilgangurinn væri þá einkum og sér í lagi sá að þeir sem lesa bloggin mín færu fyrir rest að hugsa eins og ég. Þó ekki væri nema í smástund eða þangað til þeir lesa hugsanlega eitthvað annað og merkilegta eða komast að því á annan hátt. Kannski er það einkum þetta sem vakir fyrir þeim sem skrifa fyrir aðra. Ég voga mér ekki að skrifa rithöfundum, því það eru svo sannarlega fleiri en þeir sem skrifa. Alla tíð síðan ég byrjaði að blogga hef ég átt því láni að fagna að lesendur hafa verið einhverjir. Aldrei verulega margir en þó ekki tiltakanlega fáir. Núorðið eru þeir sjaldan færri en svona eitt til tvö hundruð, ef ég læt svo lítið að blogga þann daginn og ég er ágætlega ánægður með það.

Þessar smásögur eða örsögur sem ég vil kalla svo og ég hef verið að birta og skrifa undanfarið eru ekki sérstaklega vinsælar. Enda má gera ráð fyrir að allir eða allflestir hafi yfirdrifið nóg að lesa. Þessvegna er ég að hugsa um að hætta þessari vitleysu og halda áfram með mínar hugleiðingar um lífið og tilveruna. Þó ekki séu þær hugleiðingar sérlega frumlegar eða framúrstefnulegar. Helsti gallinn sem ég sé á Moggablogginu er að það virðist hafa orðið að láta í minni pokann gagnvart fésbókinni og vera einkum og sér í lagi notað til ritæfinga í skólum. Fésbókin er væntanlega að syngja sitt síðasta svo þessi 3000 blogg gætu hugsanlega orðið mér til framdráttar með tímanum.

Á fimmtudaginn fór ég í augnskoðun hjá henni Elvu Dögg á Hondunni okkar hjónanna og nú er Bílás búinn að selja Fókusinn svo eins og stendur eigum við bara einn bíl, sem er að sjálfsögðu alveg nóg. Ekkert sérstak er að frétta að þessari augnskoðun. Þó get ég vænst þess að fara í augnsteinaskipti á næsunni hjá lansanum svokallaða eða Landsspítla Íslands. Vera mín á hinum landsfrægu biðlistum þar lengist því enn svolítið.

Það sem ég er hvað óánægðastur með í sambandi við bloggið mitt er það hve fáir virðast finna hjá sér hvöt til þess að kommenta á það sem ég skrifa. Alveg er ég samt viss um að þeir sem lesa eru ekki nærri alltaf sammála mér. Aðallega eru það sömu mennirnir sem kommenta og ég svara þeim að ég held yfirleitt. Kannski finnst samt mörgum að svör mín einkennist af einhverju sem þau ættu ekki að einkennast af. Þó get ég ekki vitað það án þess að mér sé bent á það.

IMG 5527Einhver mynd.


3000 - Þrjúþúsundasta bloggið

Þetta er víst þrjúþúsundasta bloggið mitt. Auðvitað ætti ég að hafa það eitthvað minnisstætt, en mér dettur ekkert í hug. Ég er ekki einu sinni búinn að semja örsögu til að setja hérna, en kannski fæðist eitthvað þegar líða tekur á daginn.

Margir eru þeir sem skreyta bloggin sín eða fésbókargreinar með myndum sem finnast á netinu, en því nenni ég ekki. Nógu erfitt er að fara sífellt og ná í einhverja mynd sem ég sjálfur hef tekið og birta með sérhverju bloggi. Satt að segja er ég að hugsa um að hætta því og láta bókstafina nægja. Ef ekki er hægt að koma orðum að því, sem segja þarf, á íslensku og hugsanlega með hæfilegu magni af útlenskuslettum, sem allir þekkja og skilja, er hætt við að bloggið eða fésbókarinnleggið sé ekki mikils virði. Bloggathugasemdir eru líka oft hálfmarklausar vegna þess að sá sem skrifar er sjaldan viðlátinn.

Samt sem áður virði ég fésbókina mikils fyrir hraðann, samskiptin og kjaftavaðalinn. Það er ómetanlegt fyrir marga að geta strax brugðist við ef eitthvað vitlaust er sagt. Sem birtir greina og alvarlegrar umræðu er hún fremur lítils virði. Fyrir þá sem eru með Messíalarkomplexa og halda að þeir séu ómissandi er bloggið alveg upplagt. Auðvitað eru ekki allir bloggarar þannig. Líkja má blogginu við greinaskrif og e.t.v. við blaðamennsku. Þeir sem skrifa í blöðin  þurfa oft á því að halda að margir lesi það sem þeir skrifa en bloggarar virðast síður í þörf fyrir slíkt.

Hér er saga sem ég skrifaði áðan:

Andafjandinn kemur ekki, þó hann eigi að koma undireins og ég sest við tölvuna. Sennilega hefur hann öðru að sinna akkúrat núna svo réttast er að bíða svolítið. Undarlegur andskoti með þennan blessaðan anda. Hann er genverðugur mjög og engin leið að ganga útfrá því að hann komi alltaf þegar hann á að koma. Annars þarf ég ekki að kvarta neitt því örsögur hef ég skrifað hömlulítið undanfarið. Kannski hann hafi eitthvað að athuga við það að ég setji þær jafnóðum á Moggabloggið. Það verður bara að hafa það. Ekki fer ég að breyta því bara útaf einhverju andleysi.

Guðlaugur gekk í hringi. Loksins áttaði hann sig á því. Hann var semsagt orðinn villtur. Grjóthólinn framundan sér hafði hann áreiðanlega séð fyrir stuttu. Ekki gat hann með nokkru móti séð fyrir að þessi þokuskratti legðist yfir allt. Bölvaðar rolluskjáturnar að stinga svona af. Ef hann hefði hlaupið á eftir þeim er eins víst að þær hefðu farið sér að voða í þessari þoku. Sennilega voru þessar rollur frá honum Jónasi á Hóli, svo honum var skapi næst að láta þær eiga sig. Eiginlega var hyskið á Hóli í engu afhaldi hjá honum. Ekki dugði samt að láta það bitna á saklausum skepnunum. Nú var von á slæmu veðri og hann hefði viljað koma þessum kindum og þeim sem hann hafði fundið í dældinni hjá Staðarfjallinu niður að skála fyrir myrkur. Nú leit illa út með það útaf þessum skjátum sem hlupu út í buskann þegar þær áttu að fara í hópinn hjá hinum kindunum.

Hundlaus var hann því miður. Snoddas hafði verið svo fótafúinn að undanförnu að hann vildi ekki leggja það á hann að fara í þessar leitir. Ef hann hefði haft hundinn hefði hann samstundis og rollurnar tóku á rás sent hann á eftir þeim og látið hann sækja þær. Hann fann sér til sárrar armæðu að hundlaus var hann vanbúinn til þess að takast á við kindur sem voru að eðlisfari strokgjarnar. Sennilega var Hólsféð ekki af réttu kyni. Efast mátti um að búið væri að rækta strokið úr þeim. Kindurnar sem hann hafði fundið við Staðarfjallið voru muna meðfærilegri. Líklega var engin þeirra frá Hóli.

Guðlaugur vonaði að þokunni mundi bráðlega létta og á meðan var hann að hugsa um að hvíla sig. Hann var búinn að vera á næstum stöðugri göngu frá því snemma um morguninn og var satt að segja orðinn talsvert lúinn. Hann lagðist því á mosaþembu og fór brátt að hrjóta. Enginn Snoddas var að þessu sinni til að vekja hann. Þegar hann loksins vaknaði var næstum komið myrkur. Þokan var horfin og kindurnar sem höfðu rásað frá honum voru skammt frá. Hann sótti þær í flýti og setti saman við hinn hópinn sem var skammt í burtu í hina áttina.

Guðlaugur skildi ekkert í því hvernig hann hefði farið að því að vakna akkúrat á þessum tíma. Honum datt síst af öllu í hug sannleikurinn í málinu. Það var nefnilega svo að huldustrákurinn sem rakst á hann hafði einmitt vakið hann á sama hátt og Snoddas var vanur að gera. Það er að segja með því að sleikja hann í framan.

IMG 5529Einhver mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband