3016 - Covid og stjórnmál

Margir þeirra sem við opinber skrif fást, hvort sem um er að ræða bloggskrif eða skrif á fésbókina eða aðra miðla, virðast halda að innihaldslaus stóryrði séu það sem aðrir hljóti að taka mest mark á. Svo er ekki. Einkum er þetta áberandi ef fjallað er um stjórnmál. Ef mikið er tekið upp í sig verður að gæta þess að innistæða sé fyrir því sem sagt er. Hægt er að vitna í aðra, en gæta verður þess þá að þeir sem vitnað er í séu ekki því marki brenndir að fullyrða meira en þeir geta staðið við. Margs þarf að gæta ef nöfn eru nefnd og vandalaust er að vara sig á þessu öllusaman. Reginmunur er á því sem skrifað er og því sem talað er um í góðra vina hópi. Í vaxandi mæli þarf fólk þó að gæta sín á hvað það segir. Þó virðast margir ekki gera það. Um þetta allt saman væri hægt að fjölyrða mikið, en ég læt þetta nægja að sinni enda minnir mig að ég hafi minnst á þetta áður.

Veirufjárinn er svo sannarlega í vexti hér á hinu litla Íslandi. Sóttvarnalæknirinn og reyndar sóttvarnateymið allt saman er gagnrýnt fremur harkalega núorðið. Bæði eru þau gagnrýnd fyrir of mikla og of litla hörku. Ég hneygist heldur til að gagnrýna þau fyrir of litla hörku á röngum tíma. Hefðu þau farið fram með meiri hörku og meiri lokanir þegar þriðja bylgjan byrjaði að gera vart við sig, værum við hugsanlega að mestu laus við veiruskrattann núna. Í staðinn er eins og hann fari sífellt vaxandi. Það er fremur auðvelt að sjá í baksýnisspeglinum hvernig hefði átt að haga sér. Ekki er hægt að hætta núna og fella niður allar hömlur þó sumir vilji það. Engin líkindi eru til þess að það verði gert. Ef kúrfan fer ekki að falla fljótlega er samt aldrei að vita hvað muni taka við. Mér finnst Þórólfur hafa verið of hallur undir ríkisstjórnina. Henni hefur tekist að láta líta svo út að allt sé frá teyminu komið. Bjarni þarf að berjast við eigin flokksmenn sem sumir hverjir láta ófriðlega. Ekki er víst að bíða þurfi lengi á næsta ári eftir bóluefni og þá er hægt að fara að draga andann.

Margt bendir til þess að stjórnmálin verði í skrautlegra lagi í vetur. Ekki er nóg með að Covid-veiran hafi mikil áhrif á þingið heldur verður deilt harft um stjórnarskrármál þar og eins og venjulega á kosningaári verður tekist harkalega á um ýmis mál. Ekki er gott að sjá um hvað verður talað mest en kosningalöggjöfin gefur sennilega tilefni til ýmislegs. Ríkisstjórnin gæti sprungið, því eins og eðlilegt er munu komandi kosningar verð ofarlega í hugum flestra.

Veit ekki betur en Cher, Kim Kardasian, André Agassi og sjálfur Kasparov séu af armenskum ættum. Sömuleiðis minnir mig að það hafi verið greifinn af Karabak sem átti stígvélaða köttinn í frægu barnaævintýri. Af hverju er ég að segja þetta? Nú, bara til þess að láta á mér bera. Eru ekki flestöll skrif til þess gerð? Veit ekki um aðra, en þetta er mín ástæða. Armenía og allt sem armenskt er virðist og mikið fréttum núna. Útaf stríðinu við Azera.

Þykist vita að þetta land sé í fjallahéröðum Kákasus og eigi landamæri að Tyrklandi. Sagt er að Tyrkir hafi framið þar þjóðarmorð. Man ekki einu sinni hvað höfuðborgin heitir í Armeníu.

IMG 5458Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Simmi ætíð ybbar gogg,
óttalegur kjáni,
pínlegt alltaf Palla blogg,
perralegur bjáni.

Þorsteinn Briem, 12.10.2020 kl. 18:04

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini alltaf stærir sig
stór þó sýnist ekki.
Öll hans gerð er gífurlig
og gerir marga hrekki.

Sæmundur Bjarnason, 13.10.2020 kl. 06:48

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Umræða um Covid ætti ekki að fara eftir flokkslínum. Hún ætti heldur ekki að mótast af tilfinningum. Hún ætti að snúast um rök og staðreyndir og miðast við breiða langtímahagsmuni. Því miður virðist hún ekki gera það nema að litlu leyti.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.10.2020 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband