Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020
30.11.2020 | 06:26
3033 - 2020
Annus horribilis sagði Englandsdrottning eitt sinn þegar hún þurfti að slá um sig með latínu. Enskumælandi gera það oft að slá um sig með latínu eða frönsku. Hún átti nú við eitthvað annað ár og er alveg hundgömul, bráðum 100 ára, svo lítið er að marka hana. Samanborið við hana er ég hreinasta unglamb, ekki orðinn áttræður.
Samt er það svo að ársins í ár 2020, verður áreiðanlega lengi minnst sem eins hins hryllilegasta sem við flest höfum lifað. Hvurslags er þetta? Árið er ekki búið, þarftu endilega að láta svona? Gæti einhver sagt. Satt er það árið er ekki búið, en síðustu mánaðmót þess eru á næsta leyti. Dag skal að kveldi lofa, en mey að morgni, segir máltækið. Ekki er þvi að neita að landið er aðeins að rísa. Hvað mega þeir segja sem upplifðu árið 1918?
Væntingastjórnun sagði Kári. Og rataðist enn einu sinni satt orð á munn. Þríeyið hefur sennilega ekki staðið sig nógu vel einmitt þar. Kannski er Kári Samviska þjóðarinnar eins og tímaritið Spegillinn þóttist einu sinni vera.
Kannski er ég alltof fljótur á mér að útnefna árið í ár annus horribilis, en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Ég er nefnilega því marki brenndur að vilja alltaf vera að slá um mig með málsháttum eða spakmælum. Þegar árið er líðið í aldanna skaut verða nefnilega margir mér merkari til þessarar útnefningar. Þetta segi ég ekki einungis til að slá um mig, en sleppum því. Kófið kemur vonandi ekki aftur. Kannski náum við okkur á strik þegar því lýkur. Hver veit? Ætti kannski að tala um eitthvað annað.
Þórður er dauður og það fór vel segir einhvers staðar. Ekki er víst nóg með að ég slái um mig með spakmælum, heldur fá alkunn ljóð ekki að vera í friði fyrir mér. Svo er að sjá að tekist hafi á þessu mikla ári að kveða sjálfan Trump í kútinn. Ekki er víst að Biden verði neitt betri, en þó er hægt að vona. Að minnsta kosti er vel hægt að vona að hann og stjórn hans verði venjulegri og fyrirsjáanlegri. Kannski hefur Trump breytt bandarískum stjórnmálum varanlega. Ekki á ég von á að borgarastyrjöld brjótist út í bandaríkjunum, þó Trump vilji helst ekki fara. Væntingastjórnunin hefur sennilega mistekist hjá honum.
Þeir sem halda vilja áfram með annus horribilis þemað og sjá fótboltann sem upphaf og endi alls geta svosem minnst á Diego Armando mín vegna, en ég er að hugsa um að slá botninn í þetta blogg núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.11.2020 | 09:26
3032 - Pólitík og aðrar fíknir
Mig minnir að það sé 14. desember sem svonefndir kjörmenn í forsetakosningunum í bandaríkjunum koma saman og greiða formlega atkvæði um það hver skuli vera forseti næstu fjögur árin. Líklega er miðað við að marktækar kærur um kosningsvindl og þessháttar verði að vera komnar fram fyrir 8. desember. Trump núverandi forseti hefur lýst því yfir að hann muni á réttum tíma yfirgefa Hvíta húsið ef kjörmennirnir koma sér saman um að fleiri en 270 styðji Joe Biden. Ekki er mér kunnugt um að efast hafi verið um það. Svo mun líka áreiðanlega fara. Trump mun samt ekki viðurkenna ósigur heldur reyna að halda baráttu sinni áfram. Að mörgu leyti hefur hann með því dregið úr trausti því sem menn hafa hingað til haft á bandarískum kosningum.
Strax frá fyrsta degi blasa tröllaukin vandamál við Joe Biden. Samt má búast við aukinni ró yfir þessu valdamikla embætti. Ekki er hægt að búast við að embættið verði okkur Íslendingum hagstæðara en verið hefur. Samt sem áður má búast við talsverðum breytingum og vissulega verður fróðlegt að fylgjast með þeim.
Á margan hátt er það til marks um undarlega pólitík á Íslandi að hægt skuli vera að setja lög á verkföll. Að Píratar skuli hafa verið þeir einu sem atkvæði greiddu á alþingi á móti þessu er jafnvel enn skrýtnara. Samfylkingin sat að vísu hjá, en það er ekkert sérlega skrítið. Ekki geta allir uppgjafa sjálfstæðismenn farið í Viðreisn.
Ætli skrýtið og skrítinn sé eina orðið á íslensku sem ekki breytir um merkingu eða verður vitlaust eftir því hvort skrifað er einfalt-í eða ypsilon-í?
Ég er sammála Helga í Góu með það að Hótel Saga er tilvalið elliheimili. Á sínum tíma var ég svolítið ósáttur við þessa stóru byggingu sem skyggði mjög á Háskóla Íslands, þegar komið var í bæinn úr austri eins og flestir gerðu og gera enn. En svo má illu venjast að gott þykji. Ungt fólk sótti eitt sinn skemmtanir á Hótel Sögu, en er sennilega hætt því. Margir aldraðir eiga vafalaust ágætar minningar þaðan. Illa hefur gengið að reka þetta hótel að undanförnu hefur mér skilist og e.t.v. mætti sem best gera það að elliheimili. Auðvitað yrði það ekki ókeypis, en á það er að líta að breytileg afkoma á ekki síður við um aldraða en aðra.
Eiturlyfjafíkn er hættuleg. Að minnsta kosti er það svo í hinum vestræna heimi sem við lifum í. Spilafíkn er að því leyti slæm að hún skilur ekkert eftir. Ýmsir hafa komist uppá lag með að græða vel á þessari fíkn. Líka er hægt, eins og hér á landi er gert, að spara ríkinu útgjöld með þessum gróða. Söfnunarfíkn er að því leyti betri að hún skilur eitthvað eftir. Flestir safna allskonar hlutum en auðvitað er hægt að safna ýmsu öðru. Fíknsortir geta verið margskonar. Allir eru haldnir einhverskonar fíkn. Held ég að sé. Sjálfur er ég sennilega, núorðið a.m.k., haldinn einhvers konar bloggfíkn. Ekkert af þessu er samt hægt að taka með sér þegar haldið er í handanheimana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2020 | 13:46
3031 - Trump-tilraunin
Að sumu leyti er ég sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum. Á sínum tíma (ætli það hafi ekki verið svona á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.) las ég tímritið Time alveg í tætlur. Einkum hafði ég þá áhuga á stjórnmálum í bandaríkjunum og las næstum allt sem ég náði í og fjallaði um þau. Þau stjórnmál hafa mikil áhrif á heimsmálin og sennilega er það þessvegna sem ég hef næstum ótakmarkaðan áhuga á þeim. Að sumu leyti má segja að þar sé um að ræða lýðræði í sinni tærustu mynd. Í bandaríkjunum er sá suðupottur ólíkra menningarheima sem víða vantar. Í Evrópu má til dæmis segja að ólíkir menningarhópar hjá ólíkum þjóðum hafi mikil áhrif á stjórnmálin. Að mörgu leyti er Evrópusambandið tilraun til að sameina pólitíska hugsun álfunnar og koma fram sem mótvægi við heimslögregludraumum bandaríkjanna.
Að einu leyti virðast stuðningsmenn Trumps hafa rétt fyrir sér varðandi framboð Bidens. Áhrifamenn innan demókrataflokksins vildu miklu heldur fá Biden í framboð en Sanders eins og leit út fyrir um tíma. Sanders hefði sennilega ekki unnið Trump. Bandaríkjamenn eru einfaldlega ekki nógu vinstrisinnaðir til þess. Að mörgu leyti má auðvitað líta á Biden sem fulltrúa stjórnvaldaklíkunnar. Trump-tilraunin mistókst þó herfilega.
Man sérstaklega eftir því að þetta var á tímum gíslatökunnar í Teheran og Carter-stjórnarinnar, sem ég las Time mikið. Að þessu bý ég enn, þó hinn ótæmandi áhugi minn á bandarískum stjórnmálum hafi ekki vaknað aftur fyrr en nú á síðustu árum. Sennilega er óhætt að segja að Donald Trump hafi vakið þennan áhuga minn úr dvala.
Einnig fylgdist ég með vexti EU á þessum árum. Einkum inngöngu Bretlands og Danmerkur enda var það einmitt um þetta leyti, sem ég fór fyrst út fyrir landsteinana. Man vel eftir að Krag sagði af sér í kjölfar inngöngunnar. Var einmitt staddur í Danmörku þá.
Það er fleira sem ég hef áhuga á en stjórnmál í bandaríkjunum. T.d. íslensku máli. Þar er einkum tvennt sem truflar mig þessa dagana. Hvort er hvassara stormur eða rok? Og er nokkur munur á merkingu orðanna Fjallasýn og Dagsbrún? Ég á ekki við stéttarfélög og þessháttar, heldur það að austurhimininn byrjar að lýsast. Sjálfur nota ég þau í svipaðri merkingu og álít storm vera hvassari en rok. Varðandi fjöllin miða ég einkum við Akrafjall og Esjuna sem bæði eru í austurátt frá mér séð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.11.2020 | 05:19
3030 - Trump bakkar svolítið
Jæja, nú er Trump búinn að gefa það mikið eftir að líklegt er að stjórnarskiptin í bandaríkjunum gangi því sem næst eðlilega fyrir sig. Ekki er með öllu hægt að líkja þessum stjórnarskiptum saman við það sem gerðist árið 2000. Hlutur forsetans er allt annar. Samt sem áður er hægt að vonast til að skiptingin gangi sæmilega. Þrýstingur á Trump forseta innan repúblikanaflokksins var mjög að aukast, en hann er samt ekki búinn að gefast upp. Ég spáði því fyrir löngu að Biden yrði næsti forseta bandaríkjanna, en bjóst við að sigur hans yrði jafnvel stærri en raun varð á og að Trump mundi strax viðurkenna ósigur sinn. Sem ekki varð.
Auðvitað mætti margt segja um bandarísk stjórnmál. Brexit andstæðingur virðist Biden vera og samskipti hans og utanríkisráðherrans í stjórn hans við forsætisráðherra Bretlands verða án efa forvitnileg. Í heildina tekið má búast við að meiri ró færist yfir stjórnmálin í þessu stóra landi. Trump hefur þó í forsetatíð sinni alið á margan hátt á sundrungu innan þeirra og heldur því e.t.v. áfram. Ríkisstjórn er Biden strax byrjaður að mynda og reynslu og fjölbreytilegan bakgrunn virðist hann einkum leggja áherslu á.
Svo vildi til að ég var andvaka í nótt og þessvegna er ég svona fljótur með fréttirnar. Nenni samt ekki að skrifa meira núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.11.2020 | 11:24
3029 - Kosningarnar í bandaríkjunum
Sumir virðast halda að Trump haldi áfram fram á næsta kjörtímabil þessum leikaraskap sínum, að þykjast vera forseti bandaríkjanna. Svo er þó ekki. Að vísu er hann forseti eins og er og verður alveg þangað til á hádegi þann 20. janúar 2021, en nákvæmlega á þeim tímapukti lýkur kjörtímabili hans og hann er ekki forseti lengur. Ég held reyndar að hann muni ekki fara svo langt með þetta. Að hann viðurkenni ósigur er næstum óhugsandi úr þessu. Hinsvegar hlýtur hann að hrökklast úr embætti og hann er ekki svo skyni skroppinn að hann sjái ekki að betra er að hætta þessari vitleysu svolítið fyrir 20. janúar næstkomandi og geta þá komið aftur 2024. Að hann viðurkenni ósigur er alveg fráleitt. Hann hlýtur að halda sig við það að forsetaembættinu hafi verið stolið frá sér.
Nýr forseti á að taka við 20. janúar og fátt eða ekkert virðist geta komið í veg fyrir að það verði Joe Biden. Trump mun ekki flækjast fyrir svo lengi. Spurning er samt hvenær hann mundi viðurkenna ósigur sinn í verki. Ef það verður ekki Joe Biden sem tekur við verður það væntanlega forseti fulltrúadeildarinnar. Það er það segja Nancy Pelosi. Ég held nú að Trump vilji fyrir hvern mun koma í veg fyrir það. Svo mikið held ég að hatrið sé þar á milli.
Hvernig á Trump þá að snúa sér. Til þess að geta látið Hæstarétt bandaríkjanna fjalla um kosningarnar þarf að kæra fyrir brot á alríkistögum eða stjórnarskrá. Ekkert í kosningalögum er samkvæmt alríkislögum, heldur setja ríkin sjálf reglur um kosningaframkvæmd. Auðvitað er hægt að kæra lagaframkvæmd til Hæstaréttar en það hefur ekki verið gert. Ef vafi leikur á um kosningaúrslitin tekur foseti fulltrúadeildarinnar við stjórninni.
Þessvegna held ég að Trump muni á endanum viðurkenn ósigur sinn í verki með því að láta Biden fá stjórnartaumana. Allt sem hann gerir núna getur haft áhrif 2024. Kannski er hann þó ekki farinn að hugsa svo langt ennþá.
Annars er marklítið að velta fyrir sér hvað Trump muni gera. Hann er og hefur verið mesta ólíkindatól og mun væntanlega halda því áfram. Kannski finnur hann uppá einhverju alveg óvænu núna í þessari skák.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.11.2020 | 08:54
3028 - Trump og örsaga
Vissulega er Trump dálítið brjóstumkennanlegur þessa dagana. Það er að segja ef mark er takandi á vinstri sinnuðum og jafnvel hlutlausum fjölmiðlum. Einhverjir þjóðarleiðtogar þrjóskast þó enn við að óska Biden til hamingju. Sumir eru þó með ýmsa fyrirvara og ekki er hægt að neita því að séu reglur þannig að fara megi fram á endurtalningu ber að fara eftir því. Í byrjun desember er samt áreiðanlegt að höggva verður á þennan hnút hvort sem Trump getir það sjálfur eða aðrir verða til þess.Versti hlutinn af þessu öllu saman er að með þessu dregur Trump úr trausti almennings á kosningafyrirkomulaginu í USA.
Ég er þeirrar skoðunar að ekkert geti komið í veg fyrir valdatöku Biden´s 20. janúar og held satt að segja að Trump muni á endanum viðurkenna það sjálfur.
Til þess að koma þessu bloggi sem fyrst frá mér er ég að hugsa um að seta eina litla örsögu í þetta blogg til uppfyllingar. Hér kemur hún:
Ég var að telja áðan þessar svokölluðu örsögur sem ég setti í bloggið mitt fyrir nokkru síðan. Þær reyddust vera 13, og þar sem ég er dálitið hjátrúarfullur datt mér í hug að láta þær ekki vera það lengur. Þessvegna er að hugsa um að semja að minnsta kostir eina til viðbótar. Ég lofa samt engu um það að þær verði ekki fleiri. Vel er hugsanlegt að ég semji þær áfram svona til uppfyllingar.
Prótótýpan lofaði góðu. Með henni var hægt að drepa óvininn hvað eftir annað. Ekki svo að skilja að til stæði að gera það, en þetta sýndi að byssan var góð. Vélbyssan, því vélbyssu var vel hægt að kalla þetta undratæki sem var jafnlétt og fyrirferðarlítið og venjuleg skammbyssa. Hún var svo fullkomin að varasamt var að láta hana í hendurnar á hverjum sem var. Þessvegna var það sem hershöfðinginn sem stjórnaði æfingunni var með band í hendinni sem fest var við gikkinn á byssunni. Auðvitað hefði verið hægt að hafa byssuna einfaldlega óhlaðna á æfingunni. Svo var þó ekki. Ástæðan fyrir því var að eins og kunnugt er hugsa hershöfðingar mjög einkennilega. Honum hafði dottið þetta með bandið í hug uppá eigin spýtur, og þó liðþjálfar, majorar og annað fallbyssufóður hafi reynt að koma vitinu fyrir hershöfðingann gagnaði það ekkert. Hann sat alveg pikkfastur við sinn keip og varð ekki þokað þaðan.
Þó þessi vélbyssa skyti mörgum skotum á sekúndu voru skotin svo létt og lítil að vel mátti geyma þau hundruðum saman í skeftinu og jók það mjög lítið á þyngd vopnsins.
Nú miðaði hermaðurinn sem átti að prófa byssuna á óvininn en þá var það sem hershöfðinginn kippti óvart í spottann og við það missti hermaðurinn byssuna og hún byrjaði samstundis að skjóta. Skotin fóru aðeins í nokkurra sentimetra hæð og snerist hægt um leið. Þessvega var það sem allir viðstaddir særðust á fótunum og féllu emjandi til jarðar. Sömuleiðis sprungu öll dekk að þeim bílum sem í námunda voru. Þegar skotin loksins kláruðust, eftir að byssan hafi farið í allmarga hringi, lágu samtals fjórtán manns í valnum, flestir háttsettir í gangverska hernum og ekki varð af fleiri tilraunum með þetta hættulega vopn. Æðsti yfirmaður heraflans þvertók fyrir að fleiri prófanir færu fram.
Einhver (sennilega hershöfðingi) greip þá til þess ráðs að fleygja gripnum í ruslið. Þar var það sem Þorgrímur fann þetta magnaða vopn. Ekki þorði hann samt að snerta á því en sneri sér í þess stað til lögreglunnar og sagði þeim frá þessum merka fundi. Hvernig vissi hann hverskonar vopn þetta var? Jú, það var nefnilega í original umbúðakassa og á honum stóð mjög greinilega hverskonar vopn þetta var. Lögreglan í þessu landi var ekki á því að láta koma sér á óvart frekar en annarsstaðar og hélt þessu leyndu eins lengi og hægt var.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2020 | 14:03
3027 - Queen´s gambit
Það sem mér finnst best við bloggið, er að maður getur sent það sem maður skrifar beint út í eterinn og allur heimurinn getur lesið þessa snilld. Auðvitað gerir hann það ekki, en það er samt hugsanlegt. Allt má hugsa sér. Í alvöru talað þá finnst mér aðalkosturinn við bloggið vera sá að maður skrifar einhver fjárann. Kannski gáfulegt og kannski ekki, en þar með eru þessi skrif afgreidd og þarflaust að hafa meiri áhyggjur að þeim. Þeir sem vilja geta lesið þetta, hinir mega bara eiga sig. Kannski, og næstum áreiðanlega, vita þeir ekki af hverju þeir hafa misst. Mér hugnast engan veginn að skrifa eitthvað í dag og sjá það svo, ásamt öðrum vonandi, eftir svona eitt ár. Ef þetta væri vel sagt, sem jafnvel er hugsanlegt, væri ég löngu búinn að gleyma því eftir svo langan tíma.
Hraðinn er semsagt aðalkosturinn við bloggið. Auðvitað er þetta svolítið andhælislegt í mínu tilfelli því eftir því sem maður eldist hægir heimurinn sífellt meira á sér. Þetta hef ég orðið var við á síðustu árum. Þar að auki býður mér við hraðanum í amerískum bílamyndum (og bíómyndum þaðan almennt) þar sem allt virðist ganga útá að fara sem hraðast og með sem mestum gauragangi. Alveg er ég t.d. búinn að fá leið á spurningaþáttum í sjónvarpi, nema Útsvari og Kappsmáli, vegna þess að svarendur skyrpa jafnan útúr sér svarinu eins og bandarískir bílstjórar.
Einu sinni var hægt var að hefja kaffibollarabbið í morgunkaffinu á vinnustaðnum á því að gagnrýna eða tala um á annan hátt bíómynd gærkvöldsins. Það er alls ekki hægt lengur því í hverjum 20 manna hópi eru a.m.k. 19 sem alls ekki hafa horft á sömu mynd og þú.
Bloggið sem ég setti upp í gær var víst dálítið sundurlaust. Er það samt ekki einkennismerki nútimans að hafa allt sem sundurlausast? Best og auðveldast er að blogga þannig. Stundum þarf ég að hugsa heillengi um það sem ég skrifa á bloggið mitt. Hef reynt að temja mér að hugsa dálítið hægt því sjaldnast er það svo að maður skrifi jafnhratt og maður hugsar. Kannski er það þessvegna sem hlaðvörp af öllu tagi eru svona vinsæl nútildax. Margir tala nefnilega eins hratt og þeir hugsa. Stundum verður jafnvel talið hraðara en hugsunin og er það slæmt. Samt er það alltof algengt.
Nú er búið að fastsetja það að tekinn verður úr mér vinstri augasteinninn 16. desember næstkomandi og settur í staðinn gervisteinn sem á víst að vera miklu betri. Hægra augað verður svo tekið í gegn seinna, held ég. Annars er ekki margt um þetta að segja. Held að þeim Íslendingum sem í þessu lenda fari sífjölgandi og ekki er hægt að segja að þetta sé merkilegt.
Þáttaröðin Queen´s gambit á Netflix tröllríður nú öllu hér á landi. Hugsanlega er það vegna þess að hún er nokkuð vel gerð og á það bæði við um skákleg sjónarmið og venjuleg. Skákmenn eiga slíku ekki að venjast. Oft er skáksenur í þáttaröðum svo hlægilega vitlausar að verkjum veldur að horfa á slíkt. Þarna má segja að skákmenn séu meðhöndlaðir eins og manneskjur, en ekki eins og fávitar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.11.2020 | 21:47
3026 - Hvers vegna að blogga?
Fyrir hverja er maður að þessu?
Hefur maður einhver áhrif á þessa fáu sem lesa þetta?
Sumir skrifa í blöðin og halda að einhverjir lesi það.
Og bókasöfnin. Þau gætu sem best lánað myndir.
Gera þau það ekki?
Er ekki prentað mál hvort sem er orðið úrelt?
Sömuleiðis orð á skjá.
Jafnvel á smartskjá. Eða síma.
Eru það ekki myndir og vídeó sem hafa tekið við?
Er nokkurs virði að halda þessu áfram?
Samt er verið að hvetja krakka til þess að lesa sem mest.
Er ekki myndlæsi mun meira virði en venjulegur lestur?
Eru ekki fréttablöð og bækur að kafna í myndum?
Eru ekki allir að hamast við að taka myndir á símana sína.
Sagnfræðingar framtíðarinnar þurfa alls ekki að vera læsir.
Hefur fullyrðingunni um að ein mynd sé meira virði en þúsund orð verið mótmælt?
Er ekki lestur bara frestun á myndum?
Tekur því nokkuð að læra að lesa.
Er ekki hægt að hafa bara táknmyndir á öllum skiltum?
Ef ekki fylgir mynd eða vídeó er frétt ekki frétt eða hvað?
Sumir henda fréttum ef ekki fylgir mynd eða myndaupptaka.
Ég er að hugsa um að hætta þessari vitleysu.
Búinn að fá leið á þessu.
Moggabloggið er dautt.
Sömuleiðis fésbókin.
Eitthvað er samt til af bókum.
Sumir halda að þar megi allan fróðleik heimsins finna.
Grúskarar þurfa engu að kvíða.
Bækurnar hverfa ekki.
Gúgli greyið raðar bara orðum.
Raðar jafnvel myndum eftir orðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.11.2020 | 14:42
3025 - Farðu Trump og hættu að flækjast fyrir
Er ógæfa okkar mannanna fólgin í því að við skulum vita af dauðanum. Sif Sigmars færir sannfærandi rök fyrir því að svo sé í grein í Fréttablaðinu, sem ég var að enda við að lesa. Þó er ég ekki köttur en hef talsvert haft af þeim að segja á langri ævi. Kattasögur kann ég margar. Þó ætla ég ekki að þreyta þessa fáeinu tryggu lesendur sem ég þó hef, með því að tíunda þær hér.
Mörgum hefur liðið hálfilla undanfarin fjögur ár. Það er að sjálfsögðu vegna þess að Donald nokkur Trump hefur verið forseti bandaríkjanna. Það er auðvitað með öllu óþarfi að vera að ergja sig á því. Ef Bandaríkjamenn vilja kjósa hann, ber að leyfa þeim það. Þeir sem þetta lesa eru flestir í andTrumphópnum en þó ekki allir. Við stuðningsmenn Trumps vil ég bara segja að farið hefur nú fé betra. Ekki er samt víst að Biden sé neitt skárri. Að minnsta kosti getur maður samt reiknað með að hann láti ekki eins illa og Trump. Hvort hann verður okkur Íslendingum eitthvað hagstæðari efast ég um.
Nú um stundir er það einna mest spennandi í alþjóðlegum stjórmmálum hvort og hvenær Trump muni viðurkenna ásigur sinn. Satt að segja er ýmislegt sem bendir til þess að hann muni halda sig við þrjósku sína eins lengi og mögulegt er. Flokksbræður hans eru mjög hikandi við að ljá honum stuðning sinn en hann hótar þeim aftur á móti öllu illu ef þeir gera það ekki. Mest óttast repúblikanar að hann bjóði sig fram aftur árið 2024 og neiti þeim um stuðning sem ganga gegn honum nú. Ekki er víst að kverkatak hans á flokknum verði minna þá.
Það eru alltof margir sem halda að þeir hafi einhver áhrif. Hinir félagslegu miðlar sem svo eru kallaðir og Internetið yfirleitt hefur vissulega breytt lífinu hér að Jörðinni á undanförnum árum og áratugum. Samt væri það eflaust hagstæðara fyrir okkur mannkynið (jafnvel kvenkynið líka, hefði Bjartur í Sumarhúsum bætt við) að vera eða verða líkari kattkyninu en við erum núna. Með því gætum við hætt að hafa þessar áhyggjur að öllum sköpuðum hlutum.
Donald Trump verður til dæmis ekkert sérlega hættulegur, ef við bara hættum að hugsa um hann.
Í fyrstu málsgrein þessarar bloggfærslu minntist ég eitthvað á lesendahóp. Nú hefur Fornleifur sjálfur bæst í þennan hóp og er það vel. Þorsteinar tveir eru mínir tryggustu stuðningsmenn, Siglaugsson er kannski svolítið upptekinn við að gagnrýna Þórólf og kannski þríeykið í heild. Hver veit nema við losnum við veiruna á næstunni og getum jafnvel haldið Jól. Ekki mun ég samt þakka Þorsteini það, frekar Þórólfi. Annars er ég að verða leiður á öllum þessum þornum. Þau eru til mikillar bölvunar.
Nú er ég að fá smekk fyrir Netflixinu. Um daginn horfði ég á Queen´s gambit og í gærkvöldi á The Irishman Á flestan hátt er þetta hin besta dægrastytting.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2020 | 15:57
3024 - Teikað af snilld
Ekki hef ég í hyggju að kommenta neitt sérstaklega á bandarísku kosningarnar. Allir virðast vera með hugann við þær ennþá og þessvegna er upplagt að ræða um eitthvað annað.
Einu sinni hafði ég mikinn áhuga á stjörnufræði. Í þættinum nýjasta tækni og vísindi sá ég ekki betur um daginn en að á Hótel Rangá, sem ég hef hingað til haldið og held jafnvel enn að sé í námunda við Hellu, væri kofi með lausu þaki, sem hægt væri að renna til hliðar. Þetta líst mér óvenju vel á og vil gjarnan vita hvort þessi kofi gæti fylgt ef maður tæki herbergi þar á leigu. Þetta er bara svona hugmynd, sem ég fékk þegar ég sá þáttinn.
Einu sinni sem oftar var ég að flækjast um í Hveragerði. Þar var krakkahópur að teika og gekk fremur illa. Ég var á Sévrólettinum þá og bauð þeim uppá að halda í afturstuðarann hjá mér. Það gerðu þau en voru óvart svo mörg að ég komst ekki af stað. Spólaði bara á sama stað. Bað þau þá að fækka sér eitthvað og þá komst ég af stað. Þetta minnti mig á að mikið sport var að teika í Hveragerði í gamla daga. Einhver teikaði rútuna til Reykjavíkur og þorði ekki að sleppa fyrr en uppí í Kömbum því hún fór svo hratt.
Einhverntíma var það að Guðjón Björnsson, sem lengi var verkstjóri í garðyrkjustöðinni á Reykjum, reyndi að gera leikara úr okkur Jóa á Grund. Ekki veit ég með neinni vissu hvernig hann fékk þá hugmynd. Hugsanlega var það í framhaldi af því að við vorum, ásamt fleiri strákum, látnir fara í kvenmannsföt á skólaskemmtun eða einhverju þessháttar. Satt að segja var þetta fremur slæm hugmynd. Man að hann reyndi að kenna okkur einhver undirstöðuatriði í leiklist, en það gekk illa. Ég man að við áttum að leika Box og Cox. Já, það voru nöfnin á karakterunum sem við áttum að leika. Man ekki eftir neinu öðru í sambandi við þetta. Held samt að þetta hafi verið ákaflega stutt verk og lítið mál að læra textann, en leika kunnum við ekki neitt. Ekki man ég um hvað þetta verk snerist, en sennilega hefur það byggst á hefðbundnum misskilingi og átt að vera fyndið. Hvað um það. Fljótlega kom í ljós að ómögulegt var að framkvæma þetta og Guðjón gafst upp.
Einu sinni sá ég líka Guðjón Björnsson synda svonefnt hliðarsund. Þá var held ég verið að keppa á 17. júni á milli giftra og ógiftra að ég held í boðsundi. Hliðarsund er einhverskonar undarlegt sambland af skriðsundi og baksundi. Það sá ég framá þegar ég fór sjálfur að æfa sund nokkrum árum seinna. Lengst náði ég í því þegar ég varð annar í 1000 metra sundi með frjálsri aðferð á Héraðsmóti Skarphéðins. Þessu hef ég mögulega lýst í blogginu mínu fyrir löngu.
Hef undanfarið verið að lesa markvisst gömul blogg eftir sjálfan mig. (aðrir gera það víst ekki) Sumt af því sem þar er að finna væri vel hægt að nota í ævisögu ef ég nennti slíku. Sennilega er ég bestur í svona sundurlausum endurminningum. Fellur allur ketill í eld ef ég stend frammi fyrir því að þurfa að lesa yfir og raða, sortera og laga til, en það þyrfti óhjákvæmilega að gera ef verða ætti samfella úr þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)