Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020

3023 - Söngurinn um roðasteininn

Í mínu ungdæmi var „Sangen on den röde rubin“ eða söngurinn um roðasteininn sú bók sem við unglingarnir sóttum hvað mest í. Hún var klámfengin nokkuð og var einmitt þessvegna vinsæl mjög hjá okkur unglingunum. Þessi bók var eftir Norðmanninn Agnar Mykle og á íslensku var það stundum kallað „að myklera“ að klæmast eða tala um klámfengin efni. Eftir þennan sama höfund man ég eftir að hafa lesið smásagnasafnið „Blettirnir á vestinu mínu“. Ein saga eða réttara sagt atriði úr einni sögu þar er mér sérstaklega minnisstætt úr þeirri bók. Einhver úr krakkahópi henti heypoka fyrir eitt hjól bíls sem var að taka af stað og rak upp vein eitt mikið í sama mund og bíllinn keyrði yfir heypokann. Bílstjórinn snaraðist útúr bílnum og snöggreiddist svo ofsalega þegar hann uppgötvaði hrekkinn að hann sló strákinn utanundir sem stóð fyrir þessu. Þetta var enginn venjulegur löðrungur, heldur missti strákurinn heyrn á öðru eyranu í kjölfarið.

Að sjálfsögðu varð dómsmál úr þessu og bílstjórinn hafði fátt sér til afsökunar. Hann hafði ráðist á strákinn og skaðað hann alvarlega. Man að ég kenndi mjög í brjósti um bílstjórann enda er varla til verri hrekkur en að láta einhvern halda að hann hafi keyrt yfir barn.

Varð vitni að slíkum atburði í æsku og hann hefur aldrei liðið mér úr minni. Vörubíll hafði komið með einhverjar vörur í bakaríið í Hveragerði eða hugsanlega var bílstjórinn bara að versla þar. Af einhverjun ástæðum var bíllinn stöðvaður sunnan við bakaríið. Þegar hann var á leið í burtu var honum því bakkað austureftir. Lítið barn Sigursteins sem þarna bjó í litlu húsi rétt hjá hafði verið að leika sér aftan við bílinn og hann keyrði yfir það. Held að það hafi dáið samstundis. Man að nafni minn í Brekku kom hlaupandi frá verkstæðinu hjá Aage (kannski var það Aðalsteinn sem rak verkstæðið þá) og sagði bílstjóranum að hann væri að keyra yfir barn. Jafnframt rak hann okkur krakkana í burtu, en við höfðum verið á leiðinni í bakaríið held ég. Sá ekki atburðinn sjálfan en vörubílnum man ég mjög vel eftir. Þetta hefur eflaust verið nokkru fyrir 1950, en situr enn í mér. Þekkti allvel eina dóttur Sigursteins sem var nokkrum árum eldri en ég og Áróra hét eða heitir.

Eiginlega er ég alveg hættur að fara nærri eins oft og ég gerði inná fésbókina. Mér leiðist hún. Einkum eftir nýjustu breytingarnar. Þetta er mestmegnis óttalegt kjaftæði sem þar er að finna. Þó er þar mikið um allskonar upplýsingar sem slæmt er að vera án. Verst er hvað það eru margir sem skrifa á hana eða setja myndir þar og aldrei er nokkur friður. Þetta verður ein samfelld og lítt aðlaðandi hljómkviða allt gaulið þar. Allir eru ákaflega jákvæðir og bjartsýnir. Jafnvel hjátrúarfullir og sótthræddir. Satt að segja er þetta tímaþjófur hinn versti. Auðvitað er Moggabloggið og neikvæðnin þar ekki hótinu skárri. Aðalkosturinn er sá að ekki er eins mikið af einskisverðum tilkynningum og hrútleiðinlegum upplýsingum um týnda ketti og þessháttar þar. Kannski á ég bara of mikið af fésbókarvinum. Mér finnst líka að þessi bókarskratti sé einum of frekur og vilji að allir séu eins og hugsi svipað.

Bandarísku kosningarnar hafa að mestu leyti farið eins og flestir bjuggust við. Þegar þetta er skrifað er allsekki ljóst um úrslitin.

IMG 5388Einhver mynd.


3022 - Trump og Biden

Ruglandi skammstafanir. ÖSE er það venjulega kallað á íslensku. Og á að þýða Öryggis og samvinnustofnun Evrópu. Á ensku er þessi stofnun yfirleitt kölluð OSCE (Organization for Security and Co-operation in Europe) Þetta eiga auðvitað allir að vita, þó er ekki víst að allir geri það. A.m.k. hefur þetta stundum vafist fyrir mér. Alls ekki er hægt að ganga út frá því að allar skammstafir séu íslenskaðar með þessum hætti. Til dæmis veit ég ekki til að nafn stofnunarinnar NATO (North Atlandic Treaty Organization) sé íslenskað með þessum hætti. Svipað er að segja um Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn og Amerísku Geimferðastofunina og eflaust margar fleiri stofnanir og samtök. Íslenskir blaðamenn ætlast stundum til að lesendur þeirra séu sérfræðingar í skammstöfunum. Svo er þó ekki. Hjá vönduðum erlendum blöðum er skammstöfun yfirleitt útskýrð í sem allra stystu máli í byrjun greina sem fjalla um þessar stofnanir. Það mættu íslenskir blaðamenn einnig gera. Sjálfsagt yrðu sumir leiðir á því að fá mjög oft sömu tugguna, en við því er ekkert að gera. Þeir skilnings-sljóu eiga líka sinn rétt.

Hef greinilega verið byrjaður á bloggi um daginn og er að hugsa um að láta þessa byrjun halda sér. Hinsvegar er nokkuð langt síðan ég bloggaði síðast svo það er kominn tími til að ganga frá þessu. Þar að auki eru Bandarísku forsetakosningarnar mjög að nálgast svo það er að verða hver síðastur með að spá um úrslit þar. Ég er ekki að hugsa um að breyta neitt spá minni um það að Biden muni sigra. Held meira að segja að sigur hans verði nokkuð öruggur og að Trump nuni viðurkenna ósigur sinn vandræðalaust og þessar kosningar verði ekki eins sögulegar og sumir búast við.

Segja má að Trump hafi allt kjörtímabilið verið að vinna að þessum ósigri sínum. Jafnvel er hægt að halda því fram að hann verði úrslitunum feginn. Hafi raunar ekki einu sinni búist við því sjálfur að sigra fyrir fjórum árum síðan. Hann mun því bætast í hópinn með Bush eldri og Carter sem eins tímabils forseti núna á seinni árum. Eins og Bush hefur sína afsökun fyrir þessu í Ross Perot og Carter í gíslatökunni í Teheran hefur Trump sína afsökun í Covid-19 faraldrinum. Kannski hefur samt ekkert af þessu haft úrslitaáhrif. Að minnsta kosti vil ég álíta að grunnurinn að ósigri Trumps felist í skapgerð hans sjálfs, öðru fremur.

Miðað við hve langt er síðan ég bloggaði síðast er ekki líklegt að ég bloggi frekar um Trump og ættum við báðir að vera nokkuð ánægðir með það. Ekki er samt líklegt að ég frétti af ánægju Trumps, enda má segja að vandræðalaust sé að spá á sama hátt og flestar skoðanakannanir gera. Þeir sem varkárastir eru hafa samt einhvern fyrirvara á því að spá Biden sigri, en það geri ég ekki. Hef heldur ekki úr háum söðli að detta því eflaust taka ekki margir mark á þessu.

IMG 5398Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband