3033 - 2020

„Annus horribilis“ sagði Englandsdrottning eitt sinn þegar hún þurfti að slá um sig með latínu. Enskumælandi gera það oft að slá um sig með latínu eða frönsku. Hún átti nú við eitthvað annað ár og er alveg hundgömul, bráðum 100 ára, svo lítið er að marka hana. Samanborið við hana er ég hreinasta unglamb, ekki orðinn áttræður.

Samt er það svo að ársins í ár 2020, verður áreiðanlega lengi minnst sem eins hins hryllilegasta sem við flest höfum lifað. Hvurslags er þetta? Árið er ekki búið, þarftu endilega að láta svona? Gæti einhver sagt. Satt er það árið er ekki búið, en síðustu mánaðmót þess eru á næsta leyti. Dag skal að kveldi lofa, en mey að morgni, segir máltækið. Ekki er þvi að neita að landið er aðeins að rísa. Hvað mega þeir segja sem upplifðu árið 1918?

„Væntingastjórnun“ sagði Kári. Og rataðist enn einu sinni satt orð á munn. Þríeyið hefur sennilega ekki staðið sig nógu vel einmitt þar. Kannski er Kári „Samviska þjóðarinnar“ eins og tímaritið „Spegillinn“ þóttist einu sinni vera.

Kannski er ég alltof fljótur á mér að útnefna árið í ár „annus horribilis“, en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Ég er nefnilega því marki brenndur að vilja alltaf vera að slá um mig með málsháttum eða spakmælum. Þegar árið er líðið „í aldanna skaut“ verða nefnilega margir mér merkari til þessarar útnefningar. Þetta segi ég ekki einungis til að slá um mig, en sleppum því. Kófið kemur vonandi ekki aftur. Kannski náum við okkur á strik þegar því lýkur. Hver veit? Ætti kannski að tala um eitthvað annað.

„Þórður er dauður og það fór vel“ segir einhvers staðar. Ekki er víst nóg með að ég slái um mig með spakmælum, heldur fá alkunn ljóð ekki að vera í friði fyrir mér. Svo er að sjá að tekist hafi á þessu mikla ári að kveða sjálfan Trump í kútinn. Ekki er víst að Biden verði neitt betri, en þó er hægt að vona. Að minnsta kosti er vel hægt að vona að hann og stjórn hans verði venjulegri og fyrirsjáanlegri. Kannski hefur Trump breytt bandarískum stjórnmálum varanlega. Ekki á ég von á að borgarastyrjöld brjótist út í bandaríkjunum, þó Trump vilji helst ekki fara. Væntingastjórnunin hefur sennilega mistekist hjá honum.

Þeir sem halda vilja áfram með annus horribilis þemað og sjá fótboltann sem upphaf og endi alls geta svosem minnst á Diego Armando mín vegna, en ég er að hugsa um að slá botninn í þetta blogg núna.

IMG 5179Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fjandi var nú illt í ári,
allt er þó að rísa,
Þórólfur og kerskinn Kári,
hvor annan oftast prísa.

Þorsteinn Briem, 30.11.2020 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband