3032 - Pólitík og aðrar fíknir

Mig minnir að það sé 14. desember sem svonefndir kjörmenn í forsetakosningunum í bandaríkjunum koma saman og greiða formlega atkvæði um það hver skuli vera forseti næstu fjögur árin. Líklega er miðað við að marktækar kærur um kosningsvindl og þessháttar verði að vera komnar fram fyrir 8. desember. Trump núverandi forseti hefur lýst því yfir að hann muni á réttum tíma yfirgefa Hvíta húsið ef kjörmennirnir koma sér saman um að fleiri en 270 styðji Joe Biden. Ekki er mér kunnugt um að efast hafi verið um það. Svo mun líka áreiðanlega fara. Trump mun samt ekki viðurkenna ósigur heldur reyna að halda baráttu sinni áfram. Að mörgu leyti hefur hann með því dregið úr trausti því sem menn hafa hingað til haft á bandarískum kosningum.

Strax frá fyrsta degi blasa tröllaukin vandamál við Joe Biden. Samt má búast við aukinni ró yfir þessu valdamikla embætti. Ekki er hægt að búast við að embættið verði okkur Íslendingum hagstæðara en verið hefur. Samt sem áður má búast við talsverðum breytingum og vissulega verður fróðlegt að fylgjast með þeim.

Á margan hátt er það til marks um undarlega pólitík á Íslandi að hægt skuli vera að setja lög á verkföll. Að Píratar skuli hafa verið þeir einu sem atkvæði greiddu á alþingi á móti þessu er jafnvel enn skrýtnara. Samfylkingin sat að vísu hjá, en það er ekkert sérlega skrítið. Ekki geta allir uppgjafa sjálfstæðismenn farið í Viðreisn.

Ætli skrýtið og skrítinn sé eina orðið á íslensku sem ekki breytir um merkingu eða verður vitlaust eftir því hvort skrifað er einfalt-í eða ypsilon-í?

Ég er sammála Helga í Góu með það að Hótel Saga er tilvalið elliheimili. Á sínum tíma var ég svolítið ósáttur við þessa stóru byggingu sem skyggði mjög á Háskóla Íslands, þegar komið var í bæinn úr austri eins og flestir gerðu og gera enn. En svo má illu venjast að gott þykji. Ungt fólk sótti eitt sinn skemmtanir á Hótel Sögu, en er sennilega hætt því. Margir aldraðir eiga vafalaust ágætar minningar þaðan. Illa hefur gengið að reka þetta hótel að undanförnu hefur mér skilist og e.t.v. mætti sem best gera það að elliheimili. Auðvitað yrði það ekki ókeypis, en á það er að líta að breytileg afkoma á ekki síður við um aldraða en aðra.

Eiturlyfjafíkn er hættuleg. Að minnsta kosti er það svo í hinum vestræna heimi sem við lifum í. Spilafíkn er að því leyti slæm að hún skilur ekkert eftir. Ýmsir hafa komist uppá lag með að græða vel á þessari fíkn. Líka er hægt, eins og hér á landi er gert, að spara ríkinu útgjöld með þessum gróða. Söfnunarfíkn er að því leyti betri að hún skilur eitthvað eftir. Flestir safna allskonar hlutum en auðvitað er hægt að safna ýmsu öðru. Fíknsortir geta verið margskonar. Allir eru haldnir einhverskonar fíkn. Held ég að sé. Sjálfur er ég sennilega, núorðið a.m.k., haldinn einhvers konar bloggfíkn. Ekkert af þessu er samt hægt að taka með sér þegar haldið er í handanheimana.

IMG 5182Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mörg er Sæma ferleg fíkn,
fjöru ljóti lallinn,
Helgi veitir honum líkn,
á Hótel Sögu kallinn.

Þorsteinn Briem, 28.11.2020 kl. 18:42

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

     Um Steina.
Eitt sinn hróið elti tófu
engum veitir fró né líkn.
Helgi í Góu hitar lóu
hann mjög sóar sinni fíkn.

Sæmundur Bjarnason, 30.11.2020 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband