Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

809 - Er framtíðin græn?

Horfði um daginn á myndina í Ríkissjónvarpinu um efnahagsböðulinn John Perkins. Myndin er ágætlega gerð þó sumt í henni sé afar ótrúverðugt. Til dæmis voru vindla-atriðin sem voru endurtekin hvað eftir annað beinlínis hlægileg. 

Sumir vilja heimfæra það sem segir í myndinni upp á Ísland í dag. Þeirra á meðal er John Perkins sjálfur. Það er þó af og frá að Ísland sé á sama stigi og Equador og Iran. Viss atriði eru samt umhugsunarverð. Til dæmis er engin ástæða til að ætla AGS einhverja góðsemi í samskiptum sínum við okkur Íslendinga. Stefna þeirra kann þó að hafa breyst frá því sem hún var fyrir aldarfjórðungi.

Er farmiðinn inn í framtíðarlandið grænn? Svo virðist vera. Erfiðara er að mynda sér skoðun á umhverfismálum en ýmsum öðrum. Hvað mig snertir er þar einkum í gildi sú regla að ég er undir mestum áhrifum frá síðasta ræðumanni. Mér finnst að vísu bölvað hve bensínið er orðið dýrt en er samt ekki viss um að aðrir orkugjafar verði samkeppnisfærir alveg á næstunni. Á ég svo bara að hugsa um hvað gerist alveg á næstunni? Það er önnur spurning sem gríðarlega erfitt er að svara.

Svanur Gísli Þorkelsson bloggar um naflaskoðanir bloggara og hæðist að „Sæmundarhætti í bloggi", sem hann kallar svo. Þó ég sé spéhræddur mjög get ég ekki annað en látið sem ekkert sé. Ekki er hægt að ráðast að Svani Gísla eða því sem hann skrifar á sitt blogg. Hann er nefnilega meðal bestu bloggara og veit manna best hvað er við hæfi að blogga um.

Og í lokin nokkrar myndir:

IMG 3922Kaktus í sólskini.

IMG 3931Blómskrúð.

IMG 3948Hér mun Háskólinn í Reykjavík rísa. (Ef Guð lofar - og mótmælendur.)

IMG 3993Úr skólagörðum fullorðinna í Kópavogi.

IMG 4007Regnbogi í Reykjavík. (tvöfaldur)


808 - Bless Borgarahreyfing

Ég verð að viðurkenna að ég kaus Borgarahreyfinguna í síðustu kosningum. Auk þess er ég búsettur í Kópavoginum og ber því einhverja ábyrgð á því að Þór Saari situr á þingi. Ekkert eitt atriði hefur styrkt fjórflokkinn jafnmikið í sessi að undanförnu og það slys. Ekkert er við því að gera úr því sem komið er. Líklegast er að ég kjósi í næstu kosningum einhvern af fjórflokkunum beint eða kjósi ekki.

Hvers vegna hefur kosning Þórs Saari styrkt fjórflokkinn kynni einhver að spyrja? Því er fljótsvarað. Næstu áratugina mun fólk gera ráð fyrir því með réttu eða röngu að ný framboð séu lík Borgarahreyfingunni að því leyti að alls óvíst sé hvernig þingmenn þeirra reynist og þess vegna forðast að kjósa þau.

Orkubloggarinn Ketill Sigurjónsson er sannarlega orkumikill. Blogg hans eru fróðleg og góð. Greinarnar langar og ítarlegar. Langoftast er ég sammála honum en reyni þó að horfa á það gagnrýnum augum sem hann skrifar.

Rætt er um að Páll Baldvin Baldvinsson verði Þjóðleikhússtjóri. Mér líst vel á það. Páli kynntist ég nokkuð þegar ég vann með honum á Stöð 2. Ekki verður logn og ládeyða í kringum embættið ef Páll fær það. Skylmingar hans og Kolbrúnar Bergþórsdóttur í bókmenntaþættinum Kiljunni eru oft skemmtilegar. Að vera í vinsælum sjónvarpsþætti og á allra vörum landar mönnum oft góðum embættum.

Rætt var um rímnakveðskap í síðustu Kilju. Rímnakveðskapur er bráðskemmtilegur ef hann skilst sæmilega en annars er hann hundleiðinlegt þrugl. Ætlast er þó til að hann þyki ævinlega fínn því hann er í tísku núna.

Ágúst Borgþór, sem sjálfur er úrvalsbloggari, sagði einhverntíma á sínu bloggi að það væri hvíld frá alvarlegri skrifum að blogga og meinti örugglega að hann vandaði sig síður við það en önnur skrif. Fyllsta ástæða er samt til að vanda sig við bloggskrif. Einkum ef þau eru það skásta sem maður gerir.


807 - Bíðum aðeins

Icesave hér, Icesave þar. Mér finnst bara rétt að bíða og sjá. Er einhver ástæða til að ætla að allar frásagnir séu réttar? Kannski eru þetta bara athugasemdir varðandi fordæmi í öðrum málum. 

Ekki er endalaust hægt að ætlast til að allir bloggarar fordæmi bankahrunið og allt sem því tengist í öllum sínum skrifum. Annað verður að komast að.

Eitt það áhrifamesta sem styrkir stjórnvöld í sessi er sú þöggun sem á sér stað með því að að alltaf sé eitthvað nýtt um að hugsa. Hver nennir að hugsa um Jón Jósep Bjarnason og árás ríkisskattstjóra á hann núna þegar Icesave er aftur komið á dagskrá? Sú þöggun sem þar er gangi er þó alvarleg og ástæða fyrir bloggara að fylgjast vel með.

Vanræksla í samfélaginu olli bankahruninu fyrst og fremst. Vel má kalla það landráð af gáleysi. Engum sérstökum er endilega um að kenna. Spilling eða aulaháttur var sannarlega við lýði hjá öllum sem gátu komið í veg fyrir þetta. Hvort er verra? Veit það ekki. Spillingin er það sem við verðum að losna við.

Tvær tegundir mála eru það sem ég skipti mér yfirleitt lítið af en eiga það til að valda mörgum hugarangri. Það eru skipulagsmál og umhverfismál. Tilfinningahiti er þar oftast mikill og menn sjást ekki fyrir.


806 - Um ESB og ýmislegt annað

Bloggumræða öll um bankahrunið og mál sem tengjast því er að færast ískyggilega mikið í gömlu pólitísku skotgrafirnar. Þó er margt breytt. Vinstri sveiflan er greinileg. Mörgum finnst að aðrir hugsi of lítið um þjóðmál. Samt hefur vitund fólks um þau aukist mikið að undanförnu. Búast má við að heimsendi verði frestað um óákveðinn tíma.

Athyglisverðar eru skoðanakannanir sem sýna mikla andstöðu við ESB. Hluti þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr vill samt koma okkur þangað og einhverjir úr stjórnarandstöðunni. Stjórnarandstaðan vill þó einkum komast að kjötkötlunum.

Þeir sem ráða munu reyna að breyta áliti fólks á ESB og geta ráðið hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram. Ég hef ekki heyrt neinn draga í efa að slík atkvæðagreiðsla muni ráða að endingu. Líklegt er þó að núverandi ríkisstjórn muni ekki geta ráðið þessu máli til lykta. Samstaða um það er ekki til staðar innan hennar.

Stuðningur og andstaða við ESB mun sveiflast til á næstunni og þróun mála, jafnt stjórnmála og annarra, mun ráða þar miklu. Hugsanlega er slæmt fyrir andstæðinga aðildar að toppa svona snemma án þess að nokkuð sé vitað hvenær úrslitin ráðast.

Aðili með netfang á internet.is hefur kvartað við mig undan því að geta ekki sent athugasemdir á bloggið mitt. Ekki veit ég hvernig á þessu stendur en oft hef ég heyrt á það minnst að erfitt sé að senda komment á Moggabloggið. Margir virðast hafa gripið til þess ráðs að skrá sig á Moggabloggið til að losna við vandræði þessi. Þetta heyrði ég einhverntíma en hélt að búið væri að ráða bót á því.

Á dönskuprófi í Samvinnuskólanum að Bifröst fyrir margt löngu kom fyrir það sem á íslensku nefnist að „sofa yfir sig". Það olli sumum nemendum talsverðum erfiðleikum að snúa þessu á dönsku. Að prófinu loknu var dönsk stúlka sem vann þarna spurð og að sjálfsögðu er þetta á dönsku „at sove over sig". Danska orðið „tesi" olli líka heilabrotum en þýðir auðvitað tesía.


805 - Eden og Iðavellir

Þegar ég var að alast upp í Hveragerði fyrir þónokkrum áratugum vann Bragi Einarsson að því hörðum höndum að koma Eden á laggirnar. Upphaflega var þar bara gróðurhús og söluskáli og þónokkuð fyrir utan aðalbyggðina í Hveragerði. Staðurinn var þó við þjóðveginn eins og hann var þá. Eden stækkaði smámsaman og reksturinn gekk ágætlega og byggðist að ég held aðallega upp á ferðafólki sem átti leið þarna um. 

Bragi sinnti staðnum vel en undir það síðasta var hann kominn í niðurníðslu. Einkum eftir að Bragi féll frá og staðurinn var seldur. Upphaflega var ekki önnur byggð þarna en Eden og sjoppuskúrinn frá hótelinu við vegamótin niður að Núpum og þangað. Vegarspottinn niður í Ölfus var seinna færður að hringtorginu við aðalinnkeyrsluna í Hveragerði en það er önnur saga. Nú heitir Eden ekki lengur Eden heldur Iðavellir.

Þó Eden væri nokkuð langt fyrir utan bæinn létum við krakkarnir það stundum eftir okkur að rölta alla leið þangað einkum ef við höfðum grun um að hótelsjoppan væri líka opin. Hún var ekki opin nema öðru hvoru því umferð var ekki mikil um þjóðveginn og flestir fóru frekar í Eden sem var þarna rétt hjá.

Las það sem Jens Guð skrifaði um bestu bloggarana og er sammála honum. Eins og hann er ég kannski álitinn óttalegur besservisser. Sjálfum finnst mér það ekki. Tekst þó líklega stundum að láta líta svo út sem ég viti heilmikið en það er lítið að marka.

Hvernig er þessu eiginlega varið með bloggvinina inni á stjórnborðinu. Mér tekst aldrei að losna við þá alla. Oftast nær hverfa innleggin þeirra þegar maður er búinn að lesa þau (ef maður fer inn á þau úr stjórnborðinu) Stundum koma þau samt aftur eða hverfa ekki. Ég hefði líka haldið að nýjustu bloggin kæmu alltaf efst. Sú er samt ekki raunin.

Þetta eru samt engin stórvandræði því ég set þau blog sem ég endilega vil fylgjast með í google readerinn minn hvort sem um bloggvini er að ræða eða aðra. Gúgli ræður við flest. Koksar samt alltaf á Doktor Gunna, sem er þó úrvalsbloggari.


804 - Um Jón biskup Arason og fleira

Sagt er að Jón biskup Arason hafi ort eftirfarandi:

Vondslega hefur oss veröldin blekkt,
vélað og tælt oss nógu frekt,
ef ég skal dæmdur af danskri slekt
og deyja svo fyrir kóngsins mekt.

Þetta reyndi ég einhverntíma að stæla með eftirfarandi árangri:

Vondslega hefur mig veröldin blekkt
vélað og svikið og prettað.
Fer ég þó ætíð með friði og spekt
og fumlaust ég skrifaði þetta.

Kannski mundi ég bara ekki nema byrjunina og prjónaði svo við það. Þetta var nefnilega fyrir daga Gúglsins og maður treysti meira á skeikult minni en nú er til siðs.

Er annars ekki allur kveðskapur meiri og minni stæling? Mér finnst það. Og ekki síður önnur skrif. Ekki finnur maður upp ný orð nema þá einstöku sinnum og mestmegnis óvart. Man samt vel eftir að söguhetjan í „Sulti" Hamsuns fann upp orðið „Kúbúá". Hvorki meira né minna. Man samt ekki hvað það þýðir ef það þýðir eitthvað.

Páll Skúlason sagði í Silfri Egils um daginn að meiri jöfnuð þyrfti í samfélagið. Man vel eftir því að á tímum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar var talað um að ójöfnuður í tekjum væri að aukast. Steingrímur sjálfur tók undir það í sjónvarpsviðtali. Man hve ósáttur ég var við að hvorki hann né aðrir voru tilbúnir að taka á því máli.

Jöfnuð í launum og öðru þarf ekki bara til þess að  skipta gæðum sem jafnast heldur líka til að stuðla að þeirri sátt í samfélaginu sem svo sárlega skortir nú.

Örlög Borgaraflokksins eru þyngri en tárum taki. Og þessu fólki greiddi maður atkvæði sitt. Hér sannast enn og aftur hið fornkveðna að því minni sem flokkar eru því harðari og óvægnari eru deilur innan þeirra. Fjórflokkurinn blívur.

Nú er Kristinn Theódórsson Moggabloggari (kt.blog.is) farinn að stríða DoctorE með trúmálapælingum. Hann (DoctorE) er að mestu hættur að kommenta hjá mér og þolir kannski ekki vel að gert sé grín að honum. Er oftast nær talsvert einstrengingslegur og öfgasinnaður. Vel getur verið að oft sé þörf á því en líka getur verið að hann fæli fólk frá sér með þessu. Stuðaði stjórnendur Moggabloggsins nóg til þess að þeir lokuðu blogginu hans. Heldur þó áfram að kommenta eins og rófulaus hundur.

Hrannar Baldursson skrifar um lokunina á gagnagrunni Jóns Jóseps Bjarnasonar og kallar hana "Landráð af gáleysi". Sammála Hrannari að öllu leyti. Vísa bara á grein hans um þetta efni. Hún er verulega góð eins og hans er von og vísa.


803 - Rjúpan

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá því að eitt sinn hafi María mey boðað fugla himinsins á sinn fund og skipað þeim að vaða eld. Þeir vissu að henni bar að hlýða og gerðu það því umyrðalaust. Af því urðu fætur þeirra fiðurlausir og sviðnir inn að skinni. 

Rjúpan þrjóskaðist þó við og vildi ekki vaða eldinn. María reiddist henni fyrir það og lagði á hana að hún skyldi verða allra fugla meinlausust og varnarlausust. Ávallt vera ofsótt af bróður sínum fálkanum sem dræpi hana og lifði af holdi hennar.

En hún lagði rjúpunni þá líkn með þraut að hún skyldi mega skipta litum eftir árstíðum og vera alhvít á vetrum en mógrá á sumrum til að fálkinn gæti síður greint hana frá snjónum á veturna og lyngmóunum á sumrin.

Þetta hefur gengið eftir æ síðan. Þegar fálkinn hefur drepið systur sína rjúpuna og étið hold hennar að hjartanu gerir hann sér grein fyrir að hún er systir hans og setur þá að honum svo mikla sorg að hann vælir ámátlega lengi á eftir.

 

802 - Um Bjarna óábyrga, vísnagerð almennt og fleira

Hef fengið með meira móti af heimsóknum hingað á bloggið að undanförnu. Kannski er það vegna vísunnar um Bjarna Ármannsson sem ég gerði um daginn og kannski er bara ekkert að marka þessar tölur sem Moggabloggsguðirnir halda að okkur. Vísan um Bjarna er svona:

Óábyrgi Bjarni
borgar ekki neitt.
Bankinn fúli farni
fær að súpa heitt.

Það er alveg rétt að þessi vísa eða að minnsta kosti fyrri hluti hennar (og betri) kom til mín skyndilega þegar ég leit á viðkomandi forsíðu DV í annað skipti. Lenti í beyglum með niðurlagið (tillögur vel þegnar) og þessvegna greip ég til þess ágæta ráðs að kenna öðrum um.

Einhverntíma hef ég sagt að oftast minni ein vísa á aðra. Að einhverju leyti að minnsta kosti. Þessi vísa minnir mig á vísuna alkunnu um manninn með hattinn. Kannski eru einhverjir búnir að gleyma henni. Svona man ég hana:

Maðurinn með hattinn
stendur upp við staur.
Borgar ekki skattinn
því hann á engan aur.

Þarna er hefðbundin stuðlasetning að vísu eitthvað skrýtin en það er alveg sama. Vísan er alkunn.

Eitt má Bjarni Ármannsson eiga. Hann er ekki eins mikið í felum og sumir aðrir sem útrásarvíkingar eru kallaðir. Sú er að minnsta kosti mín tilfinning.

Gæti auðvitað fjölyrt um svokallaðar þrælabúðir að Kumbaravogi en geri það ekki. Þótti viðtalið sem Þóra Kristín átti við Anne Kristine mjög athyglisvert. Kannski verður þetta mál bara svæft eins og mörg önnur, en samt...

Bloggið er að mörgu leyti meira einhliða en aðrir samskiptahættir á Netinu. Hentar samt vel fyrir fólk eins og mig sem hefur gaman af að skrifa. Fyrir suma aðra hentar kannski betur að tjá sig á miðli eins og fésbókinni. Þannig er það bara. Þó ég sé ekki skráður á Facebook og lesi yfirleitt ekkert þar geri ég ráð fyrir að margir fésbókarar lesi blogg.

 

801 - Skoðanir Björns Þorra

Björn Þorri lögfræðingur heldur því fram að myntkörfulánin séu ólögleg. Hef ekki mikla trú á að sú túlkun haldi fyrir dómstólum. Menn þar eru yfirleitt íhaldssamir og skíthræddir við stjórnvöld. Röksemd í dómi var eitt sinn að tiltekinn úrskurður yrði ríkinu of þungbær, erfiður og kostnaðarsamur. Réttmæti félagsgjalda í afurðasölufélögum eða eitthvað þess háttar var þar til umfjöllunar, ef ég man rétt.

Björn Þorri segir einnig að "þeir borgi sem geti" aðferðin sem stjórnvöld virðast mæla með gangi einfaldlega ekki upp vegna þess að annaðhvort flytjist fólk úr landi eða komi sér sem skjótast í jaðarhóp til að fá aðstoð.

Að í bloggi mínu númer 800 skuli hafa verið minnst á Bjarna Ármannsson og millurnar hans 800 er hrein tilviljun. Það get ég guðsvarið svo hjálpi mér DoctorE. Ég er alltaf að reyna að skrifa ekki um útrásarvíkingana og bankahrunið en gengur illa. Ekki get ég skrifað um veðrið því ég hef ekkert vit á því. Þykist samt geta greint á milli góðs og slæms veðurs.

Almennt finnst mér athugasemdir við blogg minna virði en bloggið sjálft. Tvær ástæður eru einkum fyrir því. Færri sjá það sem þar er skrifað þó oft eigi það ekkert síður erindi til margra. Menn vanda sig heldur ekki eins mikið í kommentum og á blogginu sjálfu. Þannig er það að minnsta kosti með mig. Á móti kemur að kommentin geta með tímanum orðið sérstök tegund af samskiptamáta og vissulega eiga þau rétt á sér. Þarna er ég auðvitað fyrst og fremst að tala um Moggabloggara og aðra í náðinni. Ekki veit ég hvað þeir eiga að gera sem úthýst er.

Ég er stundum ósáttur við fréttamat fjölmiðla. Tvö dæmi skal ég nefna. Guðný dóttir Bjössa bróður míns var að bera út póst um daginn og þá beit hana hundur. Ekki held ég að minnst hafi verið á það í fjölmiðlum en lauslega þó á fésbókinni. Hitt dæmið er um átökin á Geirsnefi. Mér skilst að hundur hafi einnig komið þar við sögu en veit samt lítið um málið. Hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og mikið á bloggi.

 

800 - Óábyrgi Bjarni og gamlar myndir

Sá áðan forsíðuna á DV þar sem var mynd af Bjarna Ármannssyni og sagt frá 800 milljónunum sem hann skuldaði en var ekki svo óábyrgur að borga. Þá var eins og eftirfarandi vísu væri hent inn í hausinn á mér:

Óábyrgi Bjarni
borgar aldrei neitt.
Bankinn fúli farni
fær að súpa heitt.

Síðustu ljóðlínuna skil ég reyndar ekki almennilega enda er líklega einhver löngu dauður hagyrðingur að yrkja þetta í gegnum mig!!

Mynd birti ég hér á blogginu mínu þann 20. nóvember 2007. Þessi mynd var tekin upp við Reykjafoss og er svona:

Aðra mynd sem tekin var á skátamóti við Þingvallavatn birti ég 9. nóvember 2007. Sú mynd er hér:

Þessar myndir hafa orðið tilefni bréfaskrifta. Þeir sem eru á myndinni frá skátamótinu eru sæmilega auðþekktir nema sá sem er aftan við hópinn. Hef ekki ennþá fengið fregnir af því hver það er.

Myndin sem tekin er upp við Reykjafoss hefur einnig valdið dálitlum heilabrotum. Nokkuð öruggt er samt að þeir sem þarna eru í öftustu röð eru talið frá vinstri: Lárus Kristjánsson, Sæmundur Bjarnason, Atli Stefánsson. Miðröð talið frá vinstri: Atli Michelsen (sonur Aage Michelsen), Már Michelsen, (sonur Paul V. Michelsen eða Palla Mikk eins og hann var alltaf kallaður.) Vignir Bjarnason, Ingvar Christiansen. Í fremstu röðinni er meiri vafi á ferðinni. Lengst til hægri er samt örugglega Björgvin Bjarnason. Í miðjunni og við hliðina á honum er Viðar Þórhallsson (þó ekki alveg víst) og lengst til vinstri líklega einhver Bjöggi sem ekki eru vituð nánari deili á.

Atli Stefánsson mun luma á fleiri myndum sem teknar voru á sama tíma og Reykjafossmyndin. Fengur væri að fá að birta þær.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband