802 - Um Bjarna óábyrga, vísnagerð almennt og fleira

Hef fengið með meira móti af heimsóknum hingað á bloggið að undanförnu. Kannski er það vegna vísunnar um Bjarna Ármannsson sem ég gerði um daginn og kannski er bara ekkert að marka þessar tölur sem Moggabloggsguðirnir halda að okkur. Vísan um Bjarna er svona:

Óábyrgi Bjarni
borgar ekki neitt.
Bankinn fúli farni
fær að súpa heitt.

Það er alveg rétt að þessi vísa eða að minnsta kosti fyrri hluti hennar (og betri) kom til mín skyndilega þegar ég leit á viðkomandi forsíðu DV í annað skipti. Lenti í beyglum með niðurlagið (tillögur vel þegnar) og þessvegna greip ég til þess ágæta ráðs að kenna öðrum um.

Einhverntíma hef ég sagt að oftast minni ein vísa á aðra. Að einhverju leyti að minnsta kosti. Þessi vísa minnir mig á vísuna alkunnu um manninn með hattinn. Kannski eru einhverjir búnir að gleyma henni. Svona man ég hana:

Maðurinn með hattinn
stendur upp við staur.
Borgar ekki skattinn
því hann á engan aur.

Þarna er hefðbundin stuðlasetning að vísu eitthvað skrýtin en það er alveg sama. Vísan er alkunn.

Eitt má Bjarni Ármannsson eiga. Hann er ekki eins mikið í felum og sumir aðrir sem útrásarvíkingar eru kallaðir. Sú er að minnsta kosti mín tilfinning.

Gæti auðvitað fjölyrt um svokallaðar þrælabúðir að Kumbaravogi en geri það ekki. Þótti viðtalið sem Þóra Kristín átti við Anne Kristine mjög athyglisvert. Kannski verður þetta mál bara svæft eins og mörg önnur, en samt...

Bloggið er að mörgu leyti meira einhliða en aðrir samskiptahættir á Netinu. Hentar samt vel fyrir fólk eins og mig sem hefur gaman af að skrifa. Fyrir suma aðra hentar kannski betur að tjá sig á miðli eins og fésbókinni. Þannig er það bara. Þó ég sé ekki skráður á Facebook og lesi yfirleitt ekkert þar geri ég ráð fyrir að margir fésbókarar lesi blogg.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband