805 - Eden og Iðavellir

Þegar ég var að alast upp í Hveragerði fyrir þónokkrum áratugum vann Bragi Einarsson að því hörðum höndum að koma Eden á laggirnar. Upphaflega var þar bara gróðurhús og söluskáli og þónokkuð fyrir utan aðalbyggðina í Hveragerði. Staðurinn var þó við þjóðveginn eins og hann var þá. Eden stækkaði smámsaman og reksturinn gekk ágætlega og byggðist að ég held aðallega upp á ferðafólki sem átti leið þarna um. 

Bragi sinnti staðnum vel en undir það síðasta var hann kominn í niðurníðslu. Einkum eftir að Bragi féll frá og staðurinn var seldur. Upphaflega var ekki önnur byggð þarna en Eden og sjoppuskúrinn frá hótelinu við vegamótin niður að Núpum og þangað. Vegarspottinn niður í Ölfus var seinna færður að hringtorginu við aðalinnkeyrsluna í Hveragerði en það er önnur saga. Nú heitir Eden ekki lengur Eden heldur Iðavellir.

Þó Eden væri nokkuð langt fyrir utan bæinn létum við krakkarnir það stundum eftir okkur að rölta alla leið þangað einkum ef við höfðum grun um að hótelsjoppan væri líka opin. Hún var ekki opin nema öðru hvoru því umferð var ekki mikil um þjóðveginn og flestir fóru frekar í Eden sem var þarna rétt hjá.

Las það sem Jens Guð skrifaði um bestu bloggarana og er sammála honum. Eins og hann er ég kannski álitinn óttalegur besservisser. Sjálfum finnst mér það ekki. Tekst þó líklega stundum að láta líta svo út sem ég viti heilmikið en það er lítið að marka.

Hvernig er þessu eiginlega varið með bloggvinina inni á stjórnborðinu. Mér tekst aldrei að losna við þá alla. Oftast nær hverfa innleggin þeirra þegar maður er búinn að lesa þau (ef maður fer inn á þau úr stjórnborðinu) Stundum koma þau samt aftur eða hverfa ekki. Ég hefði líka haldið að nýjustu bloggin kæmu alltaf efst. Sú er samt ekki raunin.

Þetta eru samt engin stórvandræði því ég set þau blog sem ég endilega vil fylgjast með í google readerinn minn hvort sem um bloggvini er að ræða eða aðra. Gúgli ræður við flest. Koksar samt alltaf á Doktor Gunna, sem er þó úrvalsbloggari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

asben 16.9.2009 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband