806 - Um ESB og ýmislegt annað

Bloggumræða öll um bankahrunið og mál sem tengjast því er að færast ískyggilega mikið í gömlu pólitísku skotgrafirnar. Þó er margt breytt. Vinstri sveiflan er greinileg. Mörgum finnst að aðrir hugsi of lítið um þjóðmál. Samt hefur vitund fólks um þau aukist mikið að undanförnu. Búast má við að heimsendi verði frestað um óákveðinn tíma.

Athyglisverðar eru skoðanakannanir sem sýna mikla andstöðu við ESB. Hluti þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr vill samt koma okkur þangað og einhverjir úr stjórnarandstöðunni. Stjórnarandstaðan vill þó einkum komast að kjötkötlunum.

Þeir sem ráða munu reyna að breyta áliti fólks á ESB og geta ráðið hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram. Ég hef ekki heyrt neinn draga í efa að slík atkvæðagreiðsla muni ráða að endingu. Líklegt er þó að núverandi ríkisstjórn muni ekki geta ráðið þessu máli til lykta. Samstaða um það er ekki til staðar innan hennar.

Stuðningur og andstaða við ESB mun sveiflast til á næstunni og þróun mála, jafnt stjórnmála og annarra, mun ráða þar miklu. Hugsanlega er slæmt fyrir andstæðinga aðildar að toppa svona snemma án þess að nokkuð sé vitað hvenær úrslitin ráðast.

Aðili með netfang á internet.is hefur kvartað við mig undan því að geta ekki sent athugasemdir á bloggið mitt. Ekki veit ég hvernig á þessu stendur en oft hef ég heyrt á það minnst að erfitt sé að senda komment á Moggabloggið. Margir virðast hafa gripið til þess ráðs að skrá sig á Moggabloggið til að losna við vandræði þessi. Þetta heyrði ég einhverntíma en hélt að búið væri að ráða bót á því.

Á dönskuprófi í Samvinnuskólanum að Bifröst fyrir margt löngu kom fyrir það sem á íslensku nefnist að „sofa yfir sig". Það olli sumum nemendum talsverðum erfiðleikum að snúa þessu á dönsku. Að prófinu loknu var dönsk stúlka sem vann þarna spurð og að sjálfsögðu er þetta á dönsku „at sove over sig". Danska orðið „tesi" olli líka heilabrotum en þýðir auðvitað tesía.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband