Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
30.9.2009 | 00:35
819 - Breiðdalsjökull, vefsafn.is og fleira
Æseifið ógurlega
ekkert ég skilið fæ.
Veldur mér tárum og trega.
tæpast ég sönsum næ.
Samt er það mín óbifanlega trú að upphafið að Icesafe-hörmungunum hafi verið í þeirri fáránlegu vitleysu sem Alþingismenn voru plataðir til að samþykkja á næturfundi og kallað neyðarlög.
Nú er Jóhanna farin að sýna tennurnar. Hundskastu til þess Steingrímur minn að stjórna þínu fólki", finnst mér hún vera að segja. Annars er þetta bara búið hjá okkur."
Kannski er dögum núverandi ríkisstjórnar að ljúka. Kannski komast Sjálfstæðismenn í ríkisstjórnina og fá að vera memm. Samfó og VG neyðast þá til að sætta sig við þá. Aðrir verða væntanlega áfram í kuldanum. Annars er svo deprimerandi að hugsa um þetta allt saman að ég er að hugsa um flýta mér að taka upp léttara hjal.
Einn af forverum mínum á Vegamótum á Snæfellsnesi var mér sagt að hefði verið Breiðdal einhver. Oft snjóaði mikið á Nesinu. Stundum var skaflinn framan við staðinn jafnstór húsunum eða stærri og þá kallaður Breiðdalsjökull. Of sást alls ekki úr veitingahúsinu eða versluninni hvort bílar voru á hlaðinu. Stundum komust þeir ekki einu sinni um hlaðið og sátu þar fastir.
Nú eru meira en tuttugu ár síðan ég flutti af Snæfellsnesinu á Reykjavíkursvæðið. Á þeim tíma man ég aðeins einu sinni eftir að komið hafi snjór hér sem talandi var um.
Veður á Snæfellsnesi voru stundum hörð og élin svört. Aftur á móti finnst mér að alltaf hafi verið sólskin og gott veður í Hveragerði þegar ég var að alast upp. Jafnvel á veturna þó kafsnjór væri yfir öllu. Skrítið.
Undarlegur samsetningur
Frá því var sagt í fréttum í dag að opnað hefði verið vefsetrið vefsafn.is og sér Þjóðarbókhlaðan um það. Ég þangað og fór náttúrlega strax að athuga bloggið mitt. Þar rakst ég fyrir einhverja tilviljum á þennan einkennilega samsetning sem ég var með öllu búinn að gleyma.
Bloggið er verkfæri andskotans
og ég tek þátt í því.
Bloggið er bölvuð árátta
og ég ræð ekki við mig.
Bloggið er fyrir sjúka fasista
og mig.
Bloggið tekur aldrei enda
frekar en önnur vitleysa.
Að blogga sökkar feitt
en ég geri það samt.
Bloggið bætir heiminn
halda sumir.
Bloggið er fjölmiðill
og miðlar fjölum.
Bloggið er að leggja undir sig heiminn
og Írak jafnvel líka.
Bloggið er upphaf og endir alls.
Trúlegur fjandi.
Bloggið er komið til að vera.
Hvert ætti það svosem að fara?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.9.2009 | 00:40
818 - Þetta er ekki blogg
Enda hef ég ekkert að segja. Ætla samt að fylla svona eins og eina málsgrein með engu. Ekki sé ég að Moggabloggurum sé að fækka mikið. Í gær bættust við sjö nýir hér og annað eins í fyrradag. Þetta er samkvæmt listum á Moggablogginu sjálfu og auðvitað er mögulegt að Davíð hafi haft hönd í bagga með að hækka þessar tölur en ég trúi því samt ekki. Ég hef ekki í hyggju að yfirgefa þennan stað að sinni. Sjá til í nokkra daga að minnsta kosti.
Og nokkrar myndir sem teknar voru í dag við Rauðhóla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.9.2009 | 00:06
817 - Enn um blogg
Sagt er að athugasemdir séu sál bloggsins. Þær eru að minnsta kosti lykillinn að flestum bloggsamskiptum. Sjálfur var ég nokkra stund að átta mig á þessu og hafði framanaf heldur horn í síðu kommenta. Sérstaklega ef þau voru mörg eða óhóflega löng. Ekki aðeins leyfi ég öllum sem vilja að gera athugasemdir við mitt blogg heldur geri ég mér far um að svara sem allra flestum eins og Jens Guð gerir. Þeir sem kæra sig lítið um athugasemdir setja á þær hindranir. Ef kommentið mitt birtist ekki strax athugasemdast ég helst ekki aftur á því bloggi. Meira þarf ekki til. Að loka með öllu fyrir athugasemdir er síðasta sort" eins og Einar smiður hefði sagt. Þeir sem slíkt stunda vilja greinilega ekki nein bloggsamskipti. Auðvitað geta óþverralegar athugasemdir komið og jafnvel í miklum mæli. Óþarfi hlýtur þó að vera að loka á komment þess vegna til frambúðar. Hvernig hafa bloggarar samband sín á milli? Hér á Moggablogginu geta menn sent bloggvinum sínum orðsendingar. Villi í Köben sendi sínum bloggvinum (og þar á meðal auðvitað mér) meldingu um að Svanur Gísli væri að trúarbloggast. Talaði jafnt um páfa sem hina ýmsu guði. Ég þangað en treysti mér ekki til að kommenta neitt enda hef ég ekkert vit á trúmálum. Fyrst þegar ég fór þangað var Jón Valur ekki einu sinni mættur. Nú er hann búinn að bæta úr því. Það minnir mig á að ég ætlaði alltaf að skoða stuðningsblogg þessa kristilega stjórnmálaflokks þar sem deilur eru sagðar hafa verið um það hvort Kapella Háskólans sé fyrir alla eða bara suma. Fann ekki Jón Val meðal bloggvina minna þrátt fyrir ítarlega leit. Síðan gleymdist þetta. Fast er nú skorað á alla að hætta að Moggabloggast. Gallinn er bara sá að ég veit ekki hvert ég á að fara. Annars færi ég eflaust. Hverjir fara? Og hvert? Hverjir verða eftir? Hverjir styðja Davíð og auka með því tekjur Moggaræfilsins? Þetta eru aðalspurningarnar í dag. Samkvæmt skilgreiningu Svans Gísla er ég búinn að vera í Sæmundarhætti allt þetta blogg svo nú er ég hættur. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
27.9.2009 | 00:11
816 - Gestur Þórhallason
Frá því er sagt í Heiðarvígasögu að Víga-Styr hafi vegið Þórhalla bónda á Jörfa fyrir litlar sakir. Þórhalli átti tvö börn, Áslaugu og Gest. Voru þau bæði ung þegar faðir þeirra var veginn. Gestur Þórhallason var smár vexti og seinþroska. Nokkrum misserum seinna er það var ámálgað við Víga-Styr að hann bætti börnum Þórhalla föðurmissinn í einhverju tók hann því illa og einu föðurbæturnar sem þau fengu var grátt og illa haldið óþrifalamb. Gesti líkaði þetta að vonum stórilla. Einhverju sinni þurfti Víga-Styr að gista að Jörfa og laumaðist Gestur þá að honum og eins og segir í Heiðarvígasögu: höggur með öxi af öllu afli í höfuð hönum bak við eyrað hægra megin svo í heila stóð og mælti: Þar launaði eg þér lambið grá," hleypur út laundyrnar og skellir í lás. Ekki er að orðlengja það að þarna lét hinn mikli kappi Víga-Styr líf sitt við lítinn orðstír og er orðtakið að launa einhverjum lambið gráa frá þessu komið. Gestur Þórhallason komst undan og lík Víga-Styrs var flutt að Helgafelli til Snorra goða og segir frá þeim atburðum og ýmsu öðru í Heiðarvígasögu. Nú er ég loksins að verða búinn að lesa bókina Skáldalíf" eftir Halldór Guðmundsson. Hún er um margt mjög athyglisverð. Fátt eitt í bókinni kemur mér á óvart um Þórberg Þórðarsons. Meðal annars er það eflaust vegna þess að ég hef lesið mikið eftir hann og um hann auk þess sem ég hef alltaf haft nokkurt dálæti á honum. Eins og flestir vita er einnig sagt frá Gunnari Gunnarssyni í þessari bók. Frásögnin af fundi hans með Hitler er æsispennandi. Hafði reyndar heyrt af henni áður en margt er samt mjög fróðlegt um Gunnar í bókinni. Höfundur bókarinnar er allan tímann dálítið utan og ofan við frásögnina og ekki er fyrir að synja að skoðanir hans liti hana dálítið. Lára Hanna skrifar góðan pistil um Davíð Oddsson og Teitur Atlason á eyjunni.is bloggar líka skemmtilega um karlinn. Pistillinn hjá Teiti er þó alltof langur og of mikil fljótaskrift á honum. Lára Hanna finnst mér stundum of hatursfull í skrifum sínum og ekki síst þarna. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.9.2009 | 00:11
815 - D.Oddsson
Er búinn að gæta þess nokkuð vel undanfarið að minnast ekki á Davíð Oddsson hér á blogginu og hefur næstum tekist það. Nei, ég er ekki hættur að moggabloggast og ætla að sjá til hvernig þetta æxlast alltsaman. Hef ekki orðið fyrir mikilli pressu með að hætta á Moggablogginu enda er ég svo gamall að ég man vel eftir Hauki pressara þegar hann bjó á Vífilsstöðum. Ég á erfitt með að hætta að blogga alveg fyrirvaralaust hér á Moggablogginu þó mér hugnist ekki sérlega vel að blogga undir stjórn Davíðs. Ég verð að vita hvert ég á að fara með mitt blogg, hvernig sá staður er og svo framvegis. Þjónustan við okkur bloggarana hérna hefur verið í lagi. Þó stjórnendur bloggsins hafi viljað ráða ýmsu varðandi tengingar við fréttir, stórhausa, nafnlaus skrif og ýmsa lista hefur flokkapólitík ekki ráðið neinu svo séð verði. Bloggarar virðast flestir vera fremur vinstrisinnaðir. Að minnsta kosti þeir sem ég hef lesið mest. Áskriftinni að Morgunblaðinu sagði ég upp fyrir löngu og get ekki gert það aftur. Moggabloggið er fremst af þeim bloggum sem tengjast blöðum og sjálfur er ég svo vanur að skrifa hér að það mundi verða mér talsvert átak að venjast nýju umhverfi. Þó Morgunblaðið muni líklega leggja upp laupana einhverntíma á næstunni hef ég þá trú að mbl.is haldi áfram að vera til og þar með Moggabloggið. Sú stefna sem rekin er hér er ekki að öllu leyti slæm. Áherslan er á að fá sem flesta netverja til að heimsækja síðuna. Fréttaskrifin á mbl.is mættu auðvitað vera betri en við höfum fyrrverandi sendiherra hér á Moggablogginu, sem leiðbeinir fólki. Þó ég færi að segja mönnum til í réttritun eða öðru slíku þá er ég enginn Eiður Guðnason. Í mesta lagi einskonar taxfree outlet of the real thing". Um daginn horfði ég á Helga Seljan yngri ræða við Jón Bjarnason ráðherra í Kastljósi ríkissjónvarpsins. Annað eins viðtal hef ég aldrei séð. Ráðherrann virtist varla vita nokkurn skapaðan hlut. Þó Helgi þyrfti öðru hvoru að kíkja í glósurnar sínar virtist hann mun betur heima í þeim málum sem rædd voru. Athyglisverðast fannst mér að ráðherrann virtist ráðleggja mönnum að taka ekkert mark á Samkeppnisstofnum. Og svo er hann á örfáum vikum búinn að breytast úr kvótaóvini í kvótakóng. Verður kannski á endanum stuðningsmaður ESB. - Nei, annars ég meina þetta ekkert. Hvort er það Árvakur eða Þórsmörk sem gefur út Moggann? Er Þórsmörk kannski bara eignarhaldsfélag sem á þá Kerið og Moggann? Bara að spögúlera. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
25.9.2009 | 00:25
814 - Sæmundarháttur í bloggi
Í Borgarnesi var haft fyrir satt að stórtöffarar nokkrir hefðu skroppið til Reykjavíkur til að fá sér pulsu á Umferðarmiðstöðinni, sem þá var eini staðurinn á landinu þar sem opið var allan sólarhringinn, þó í gati væri. Þetta þótti hraustlega gert. Nokkru fyrr hafði Palli á Álftavatni á Snæfellsnesi skroppið eftir varahlut til Reykjavíkur þegar heyskapur stóð sem hæst og komið samdægurs til baka. Það var sömuleiðis vel að verki staðið. Sannleikurinn mun gera yður frjálsan. En er það sannleikurinn sem predikaður er á útvarpi Sögu? Ekki finnst mér það. Einhverjum finnst það samt eflaust. Rétta ráðið er að hafa upplýsingar sem flestum aðgengilegar. Vilji menn losna við að útvarp Saga hafi áhrif á fólk er ekki rétta leiðin að herða kröfur um fjölmiðlun almennt og reyna að hanka Arnþrúði á einhverju lítilvægu atriði til að gera stöðinni erfitt fyrir. Arnþrúður eignaðist Sögu á sínum tíma og hefur sýnt framá að hægt er að reka útvarpsstöð án þess að leggja aðaláhersluna á plötuspilun. Einu sinni var Jón Valur Jensson bloggvinur minn hér á Moggablogginu. Ekki lengur. Sá vinskapur slitnaði ekki fyrir minn tilverknað. Bloggið sem slíkt er mér alltaf ofarlega í huga þrátt fyrir Sæmundarháttinn í bloggi sem mér er stundum strítt á. Ég vanda mig svolítið við bloggin mín en sú árátta nær bara til skrifelsisins. Sumir bloggarar blogga ekki bara oft á dag, ýmist með fréttatengingum eða ekki, heldur myndskreyta bloggin sín fagurlega að auki. Þetta hef ég aldrei komist uppá lag með. Nenni heldur ekki að eyða tíma í það. Passa mig bara á að hafa bloggin hæfilega löng (eftir því sem mér finnst) og geri svo bara eitthvað annað. Helst auðvitað ekki neitt því það er ótrúlega freistandi þegar maður er kominn á minn aldur að liggja bara í leti og láta aðra puða. Auðvitað eru myndskreytt blogg miklu fallegri en önnur. Oftast eru þessar myndir einhvers staðar af netinu og í góðu samræmi við það sem skrifað er. Kannski eru þær teknar úr söfnum sem menn búa sér til á Netflakki. Hvað er Sæmundarháttur í bloggi? Já, ég er óttalega inbilskur" og hugsa mun meira um sjálfan mig en aðra. Sumir sem lesa blogg skilja þetta með Sæmundarháttinn eflaust á einhvern hátt. Þeir sem nota þessa glósu hljóta að skilja hana betur en aðrir. Í fljótu bragði man ég ekki eftir nema einum núbloggandi manni sem hefur notað þetta. Þeir kunna þó að vera fleiri. Mér dettur í hug að Sæmundarháttur geti verið: Blogg um blogg. Að slá alltaf úr og í. Vera upptekinn af sjálfum sér. Vera svolítið kjánalegur en óvitlaus samt. Að blogga oft og setja stundum myndir aftast. Fíflagangur um sem allra flest. Sambland af öllu þessu. Auðvitað er ég með þessu að vekja athygli á blogghættinum og vonast til að orðalagið nái fótfestu. Er ég svo einstakur að það þurfi sérstakt orð um það hvernig ég blogga? Gæti verið að ég væri þá orðinn ofurbloggari eins og ég hef alltaf stefnt að? "Upp á síðkastið hefur borið meira á því en venjulega hvað bloggarar moggabloggsins eru uppteknir af sjálfum sér. Segja má að margir þeirra hafi síðustu daga tekið upp svo kallaðan Sæmundarhátt á sínum bloggum. Ástæða þess kann að vera, a.m.k. að hluta, að einhver bankamaður og annar pólitíkus kvörtuðu hástöfum fyrir skömmu við fjölmiðla landsins undan bloggurum, hvað þeir væru dómharðir og ósanngjarnir." Segir Svanur Gísli. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
24.9.2009 | 00:13
813 - Trúmálapælingar, Þórbergur Þórðarson og fleira
Áhugaverðar trúmálapælingar voru í athugasemdum við blogg Hrannars Baldurssonar sem hann kallaði Eru trúarbrögð nauðsynleg?" Lokorð greinar hans eru þess eðlis að þau kalla á viðbrögð. Þar segir Hrannar: Einstaklingar þurfa nefnilega ekkert endilega á trúarbrögðum að halda. Samfélög gera það." Eins og oft vill verða í trúmáladeilum fór umræðan út um víðan völl og hver át úr sínum poka. Ég las samt athugasemdirnar allar og hafði gaman af. Þeir sem mest höfðu sig í frammi í athugasemdunum komu mér þannig fyrir sjónir: Hrannar sjálfur fannst mér vera sá mest leitandi af öllum og í raun gefa eftir fyrir sumum sem þarna birtust og voru ansi frekir til fjörsins. DoctorE kom úr annarri átt en flestir aðrir. Hann er greinilega búinn að koma sér upp kerfi í þessum málum og ekkert fær hnikað hans skoðunum. Svanur Sigurbjörnsson kom vel fyrir sig orði og var rökfastur vel. Matthías Ásgeirsson er greinilega vanur rökræðum af þessu tagi og vill stjórna. Aðrir komu sjaldnar með athugasemdir og lögðu ekki ýkja mikið til málanna. Þetta var þegar athugsemdirnar voru um 40. Nú sé ég að þeim hefur fjölgað mikið. Veit ekki hvort ég les þær allar. Saknaði úr umræðunni Kristins Theódórssonar. Hann hefur oft lagt gott til þessara mála og bloggpælingar hans eru alltaf athyglisverðar. Ég lagði ekki í að blanda mér í umræðurnar enda hitnar mönnum oft nokkuð í hamsi við svona lagað. Þeim sem vilja kynna sér þetta nánar er bent á blogg Hrannars og athugasemdir við það. Björn Þorri Viktorsson sem vildi allra vandamál leysa er nú sjálfur í vanda staddur. Fram hefur komið í fréttum að hann stundi kennitöluflakk og skilji skuldir eftir í gjaldþrota fyrirtækjum svo enginn fái neitt. Slíkt er ekki vinsælt nútildags. Kannski er þetta ekki alveg svona, en ég hef ekki séð það borið til baka. Eftir að Bréf til Láru" kom út árið 1924 var höfundurinn Þórbergur Þórðarson rekinn úr kennarastörfum sínum við Iðnskólann í Reykjavík og Verslunarskólann. Sömuleiðis var styrkur sá sem hann hafði haft frá Alþingi til orðasöfnunar lækkaður mikið. Þórbergi sárnaði þetta að vonum en fáir urðu til að taka upp hanskann fyrir hann. Flestir þögðu og létu ofbeldið yfir sig ganga. Sama er að gerast nú. Reynt er að stjórna umræðunni og múlbinda þá sem segja of mikið. Talsvert hefur verið skrifað um Morgunblaðið að undanförnu. Margir hafa fullyrt að það sé búið að vera. Það kann að vera rétt en tengist ekki á nokkurn hátt þeim ritstjóraskiptum sem nú standa yfir. Tíðarandinn leyfir ekki stórt og vandað blað á þeim örmarkaði sem hér er. Allra síst að hægt sé að selja slíkt blað. Lífdögum þess gæti fjölgað ef það væri ókeypis. Þó DV eigi við að glíma leiðinlega sögu og oft sé illa um það talað þá er sú ritstjórnarstefna sem þar er rekin mun söluvænlegri til langs tíma litið. Þróunin er samt sú að það sem ekki er á Netinu sé lítils virði. Lára Hanna fékk raðfullnægingu - eða allavega rað-eitthvað - þegar hún frétti að Bubbi kóngur ætlaði kannski að setjast á friðarstólinn fræga á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2009 | 00:36
812 - Persónukjör og fleira
Fyrir nokkru var sagt frá því í fjölmiðlum að sveitarstjórnir vildu ekki mæla með að persónukjör yrði viðhaft við sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor. Röksemdirnar sem færðar voru fyrir þessu voru allar einstaklega fáránlegar. Sumar jafnvel fáránlegri en það að fólk réði ekki við þetta því það væri svo heimskt. Þó var það nefnt. Man eftir að nefnt var líka að fólk gæti lent í því" að verða kosið í sveitarstjórn þó það hefði ekki ætlað sér slíkt. Sömuleiðis að talning yrði tímafrekari og að úrslit mundu kannski ekki liggja fyrir alveg strax. Ef fólk gefur kost á sér á lista en er ekki tilbúið til að taka því að lenda í" sveitarstjórn til hvers er það þá á lista? Eingöngu til að vekja athygli á sér eða hvað? Í Mogganum um daginn var sagt frá einhverjum írskum gaur sem ætlar að halda leynilega tónleika í Reykjavík. Það líst mér vel á. Spurning samt hve leynilegir þeir eru fyrst Mogginn komst á snoðir um þá. Ég er ákveðinn í að halda leynilega tónleika einhverntíma í vetur. Þeir verða sko alveg leynilegir. Sennilega fæ ég ekki einu sinni að vita um þá sjálfur og allsekki Mogginn. Fór í gær í Apótek. Það sem ég keypti kostaði ekki neitt. Samt fór ég í apótek þar sem ég hélt að vörur væru fremur ódýrar. Spurning hvort tekur að hugsa um það þegar hlutirnir kosta ekkert. Í apótekinu fletti ég eintaki af Séð og heyrt" meðan ég beið. Þá kom þessi vísa fljúgandi til mín. Ekki merkileg eða neitt þannig. Simmi komst í Séð og heyrt" |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.9.2009 | 00:10
811 - Forman og Fischer
Sagt var í fréttum að Milos Forman hefði ætlað að gera kvikmynd um heimsmeistaraeinvígið í skák milli Borisar Spasskys og Bobby Fischers sem háð var í Reykjavík árið 1972. Af því varð ekki og sennilega mest vegna þess hve Fischer var skrýtinn. Líklega hefði ég farið að sjá þessa mynd því auk skákáhugans þá er Forman einn af þeim örfáu leikstjórum sem ég hef haft sérstakt dálæti á. Þar má auðvitað einnig nefna Stanley Kubrick. Clockwork Orange er einhver eftirminnilegasta kvikmynd sem ég hef séð um æfina. Yfirleitt er ég lítið gefinn fyrir kvikmyndir. Hárið eftir Milos Forman hef ég þó séð nokkrum sinnum og ég er ekki í vafa um að hann hefði gert skákeinvígi aldarinnar góð skil. Grímur Atlason á eyjunni.is bloggar um vantrú um daginn og hvetur fólk til að kasta sinni kristnu ríkistrú. Í minningu Helga Hóseassonar er ekki úr vegi að athuga þessi mál svolítið einmitt núna. Eftir því sem Grímur segir er lítið mál að skipta um trúfélag. Umtalsverðar fjárhæðir eru í húfi og önnur trúfélög meira en tilbúin til aðstoðar. Ekki sé lengur nóg að skrá sig bara utan trúfélaga því þá renni peningarnir (sirka tíu til fimmtán þúsund kall á haus per ár - skilst mér ) bara aftur til ríkisins en ekki til háskólans eins og áður var. En hvað verður svo um skrokkinn eftir að maður er dauður? Ástæðulaust er að hafa áhyggjur af því. Líka ástæðulaust að koma aðstandendum að óþörfu í vanda svo þarna ættu trúfélög vissulega að leiðbeina fólki. Þegar um það er rætt að koma á Stjórnlagaþingi eða bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum með einhverjum hætti er að sjálfsögðu verið að ræða um að taka vald frá Alþingi. Almenningur vill þetta samt en stjórnmálamenn ekki. Hætt er við að málið verði flokkspólitískt þegar farið verður að ræða smáatriði í sambandi við það. Stjórnmálaflokkarnir munu verja sig. Þessvegna kann að vera ástæða til að fallast á ráðgefandi stjórnlagaþing því líklegt er að stjórnmálaflokkarnir yrðu að sætta sig við niðurstöður þess ef einhverjar yrðu. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2009 | 00:11
810 - Bloggið er æði
Bloggið er mitt rómantíska æði.
Um þessar mundir er ég að lesa bók Halldórs Guðmundssonar um þá Þórberg Þórðarson og Gunnar Gunnarsson. Skáldalíf minnir mig að hún heiti. Þetta er mjög athyglisverð bók og það er alls ekki útilokað að ég bloggi um hana aftur þegar ég er búinn með hana. Sé að ég hef lesið talsvert eftir Þórberg en minna eftir Gunnar.
Einhverju sinni byrjaði ég á Fjallkirkjunni eftir Gunnar Gunnarsson en gafst upp á henni. Man þó að mér þótti Afi á Knerri litríkur kall. Af einhverjum ástæðum líkaði mér ekki eins vel við söguna að öðru leyti. Svartfugl las ég nokkru seinna og hreifst mjög af þeirri sögu. Finnst enn í dag að varla sé hugsanlegt að hægt sé að segja söguna af Sjöundármálunum betur en Gunnar gerði í þessu verki.
Sé núna að Fjallkirkjan er einkum um ævi Gunnars sjálfs. Sögu Borgarættarinnar las ég aldrei og man ekki eftir að hafa séð nema stutt brot úr kvikmyndinni sem gerð var eftir henni.
Þegar ég hóf nám að Bifröst í Borgarfirði var Birna Torfadóttir meðal efribekkinga þar. Eitt sinn kom Helga nokkur í heimsókn til hennar. Þá var hvíslað í matsalnum að þetta væri Lilla Hegga" og þurfti ekki að segja meir. Allir þekktu Sálminn um blómið". Seinna varð ég svo verslunarstjóri í Silla og Valda búð að Hringbraut 49. Hún var í viðbyggingu við blokkina þar sem Þórbergur bjó ásamt Margréti sinni. Þórbergur sjálfur kom stöku sinnum í verslunina. Einkum til að kaupa sér drottningarhunang sem var einskonar allrameinabót þá og er kannski enn. Magga kom mun oftar í búðina og talaði miklu meira en Þórbergur.
Á sinum tíma las ég Ofvitann" og Íslenskan aðal" og fannst þær bækur báðar mjög góðar. Seinna las ég svo Sálminn um blómið" og hef lesið talsvert úr Bréfi til Láru" og ýmsum öðrum bókum eftir Þórberg. Einnig að sjálfsögðu mikið um hann. Sömuleiðis samtalsbókina Í kompaníi við allífið".
Í Silfri Egils" var í dag sunnudag sagt frá einum fimm eða sex bókum um bankahrunið. Enga þeirra hef ég lesið og er ekki viss um að ég eigi það eftir. Þó var ekki minnst á eina bók sem Íslendingur skrifaði um hrunið. Hún var líka á ensku ef ég man rétt og eftir Ásgeir Jónsson (Bjarnasonar ráðherra) áróðursmálaráherra Kaupþings á útrásarárunum. Af hverju ætli hún hafi ekki verið skrifuð á esperanto? Það hefði Þórbergi líkað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)