Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

799 - Úr einu í annað

Sparisjóðsstjórinn sat á stjórnarfundi þar sem mikilvægar og leynilegar ákvarðanir um framtíð fyrirtækisins voru teknar. Eiginkona hans seldi nokkrum dögum seinna bréf í fyrirtækinu. Auðvitað bjó hún ekki yfir neinum innherjaupplýsingum. Slíkt er aðeins mögulegt að sanna ef upptökur eru til af öllum samskiptum þeirra hjóna á tímabilinu. Þær eru víst ekki til.

Mikið er fjargviðrast í fjölmiðlum og fésbókum útaf Helga Hóseassyni. Nær hefði nú verið að gera eitthvað fyrir kallinn meðan hann lifði. Kannski hefði hann ekki einu sinni þegið það. Skilst að hann hafi verið sérvitur með afbrigðum. Nú vantar sárlega mann sem kann að hanna skilti. Hóseas-hönnunin er dálítið gamaldags.

Nú man ég eftir öðru sem Stiglitz sagði. Hann sagði að flatur niðurskurður af öllum skuldum væri della. Sigmundur Davíð sagði 20 prósent, Lilja sagði 4 milljónir, einhver sagði meira og sumir slógu úr og í og sögðu að skera mætti smá eða jafnvel mikið, þó ekki of mikið o.s.frv. Fátækir skulda lítið og fá lítinn afslátt. Ríkir skulda mikið og fá mikinn afslátt.

Það voru neyðarlögin svokölluðu sem fóru verst með okkur. Að tryggja hundrað prósent eina tegund af skuldum var fáránleg vitleysa. Hvernig hægt var að telja þingheimi trú um að skynsemisvottur væri í þessu skil ég ekki. Ekki þurfti annað en að seðlabankinn tryggði Visa-greiðslur að vissu hámarki til að ekki færi allt í kaos. Svo máttu allir fara á hausinn sem voru á leiðinni á hausinn.

Auðvitað er ekki erfitt að vera gáfaður eftirá. Það geta allir. Bæði Alþingismenn og aðrir. Fyrirfram og meðan á málum stendur er þetta oft mun erfiðara.

Í forsíðufyrirsögn í Mogga sjálfum segir í dag: "Fátt skemmtilegra en að fara á fjöll." Ég er nú svo takmarkaður að þetta minnir mig á vísuna:

Skólapiltar fara á fjöll
og faðma heimasætur.
Ungar stúlkur elska böll,
einkanlega um nætur.

Þarna skiptir máli röddun eða ekki röddun og er oft gaman að leika sér að slíku. Önnur vísa sem gaukað var að mér um daginn er svona:

Hef ég alltaf á því gát
yfirsjónir bæta.
Þegar tungan mín er mát
mun ég kverkar væta.

Sagt hefur verið að íslensk vísnagerð rísi hæst í drykkjuvísum, hestavísum og klámvísum. Líklega er það rétt.

Gísli Ingvarsson er ekki skráður sem bloggvinur minn þó Moggabloggari sé. Hann bloggar sjaldan en um daginn skrifaði hann ágæta grein um ESB á bloggið sitt og kallar hana "Þetta eru "engin rök" Fyrir Birgittur Borgaranna. Lesið hana ef þið eruð að velta ESB fyrir ykkur. Já, hann er meðmæltur aðild.

Og fjórar myndir.

IMG 3928Blómstrandi kaktus.IMG 3955

Stökkpallur.

IMG 3956Landslag í Reykjavík.

IMG 3978Sólarlag í Reykjavík.

 

798 - Nafnleysi á Netinu

Les jafnan blogg Láru Hönnu Einarsdóttur. Nýlega birti hún á bloggi sínu athyglisverða grein um nafnleysi á Netinu eftir AK-72. Hann er moggabloggari eins og hún en ekki jafn vinsæll. Einhvern tíma hefði ég með yfirlæti miklu og fyrirlitningu kallað flestar greinar hans "pólitíska langhunda".

Ég reyni að forðast að hafa mín blogg óhóflega löng. Það er einkum vegna þess að ég er sjálfur á móti löngum greinum. Þær eru þó oft mjög læsilegar og áhugaverðar. Einkum þó ef þær fjalla um málefni sem ég hef fyrirfram áhuga á. Ef ekki, leiðist mér fljótlega og hætti að lesa. Það er auðvitað minn veikleiki en lesefni nútildags er svo mikið að enginn kemst yfir að lesa allt.

Mál á að höfða vegna þess að svindlað hafi verið á fólki með því að fá það til að samþykkja myntkörfulán. Gengisfellingar gærdagsins voru ekki síður svindl. Þeir sem minna mega sín hafa alltaf verið undir yfirstéttina og alls kyns spillingu seldir. Með blogginu hafa þeir fengið rödd og munu ekki láta allt yfir sig ganga lengur.

Ætli bjartsýni fari ekki að aukast. Þetta sífellda svartagallsraus er alla að drepa. Og svo er að koma haust. Mér finnst að það megi sleppa búsáhaldabyltingu í vetur. Reynt er að grípa alla sem hingað koma í boði Egils sem ráðgjafa ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnar Egils Helgasonar.

Beinar sjónvarpsútsendingar RUV (fréttir, kastljós o.fl.) á Netinu eru mjög í skötulíki. Stopular, sífelld rof og annað rugl. Ég er ekki trúaður á að þetta virðist svona vegna þess að ég sé svo vitlaus þó það geti auðvitað verið. Aðra hvora viku þarf ég að treysta á Netið hvað fréttir og annað snertir. Stöð 2 finnst mér alltaf standa sig miklu betur hvað beinu útsendingarnar snertir.

Lúmskir geta fordómarnir verið og oft er stutt í þá og útlendingahatrið. Minnist þess að hafa lesið smáfrétt í Morgunblaðinu fyrir allmörgum árum. Þar var sagt frá því að steypubíll hefði oltið í Ártúnsbrekkunni og fjölyrt nokkuð um það. Lokasetningin í fréttinni var síðan: "Ökumaður var kona."

Í þessu bloggi ætlaði ég að fjalla um nafnleysi á Netinu. Það komst bara ekki að því annað glapti. Þó minntist ég ekki á það sem mest ber á í fréttum núna.

 

797 - Bloggarar og rannsóknarblaðamenn

Nafnleysi og múlbinding fjölmiðlanna er aðalmálið í dag. Lára Hanna hvetur fólk til að fara á tónleika Harðar Torfasonar. Þangað kemst ég ekki og finnst ég ekki skulda honum neitt þó hann hafi staðið sig ágætlega í búsáhaldabyltingunni í vetur.

Nú vill fjármálaeftirlitið og líklega einnig stjórnvöld koma böndum á fjölmiðlana. Kæra rannsóknarblaðamennina sem eru að æsa fólk upp til óhæfuverka. Hræða þannig þessa blaðamenn og aðra frá að gera eitthvað svipað. Árás er einnig gerða á nafnleysingja á Netinu.

Rannsóknarblaðamenn eru nauðsynlegir. Auðvitað hafa þeir sínar stjórnmálaskoðanir eins og aðrir, en svo lengi sem þeir halda trúverðugleika sínum og vinna sína vinnu vel, eiga þeir að fá að vera í friði fyrir yfirvöldum. Ofsóknir á hendur þeim eru smánarblettur á þeim sem þær stunda.

Nafnlausir bloggarar og athugasemdir sem erfitt er að rekja fara mjög í taugarnar á stjórnvöldum. Hvort einhver stjórnmálamaður hafi verið á fylliríi eða kvennafari skiptir aðra en viðkomandi litlu máli. Að stjórnmálamenn og þó einkum ráðherra r sinni sínu trúnaðarstarfi almennilega er miklu mikilvægara. Þeir sem óttast rætni og kjaftasögur eiga ekki að gefa kost á sér til opinberra starfa.

Bloggarar hafa hlutverki að gegna. Þeir benda á hlutina og samanlagt eru áhrif þeirra mikil og fara vaxandi. Þeir bloggarar sem fara offari í persónuníði detta út því fáir nenna að lesa ruglið í þeim. Fúkyrðaflaumur hjálpar heldur ekki. Sumir stunda hann af svo mikilli áfergju að þeir eyðileggja fyrir sér með því.

Professor Stiglitz mælir með að krónan verði notuð enn um sinn. Það fannst mér athyglisverðast í máli hans. Það er ekki það sem oftast er haldið fram. Margir vilja losna við krónuna og fyrir því eru rök. Ef hún verður endurreist fljótlega og það reynist vel er samt engin ástæða til að leita að nýrri mynt. Stjórn peningamála verður þó að vera miklu markvissari en verið hefur. Sérstaða okkar byggist að mörgu leyti á krónunni og hún getur tryggt talsverðan sveigjanleika á mörgum sviðum.

Inngangan í ESB er síðan alveg aðskilið mál. Evran getur ekki komið hingað nærri strax hvort eð er, en auðvitað má tengja krónuna henni eins og Danir gera.

 

796 - Detox, talnaspeki og nafnlausir bloggarar

Miklar umræður hafa oft orðið í bloggheimum um ýmis hjávísindi. Ég nefni bara tvennt sem mér kemur undireins í hug. Detox og talnaspeki. Hvorttveggja tel ég vera örgustu hjátrú og vitleysu án þess þó að hafa annað fyrir mér en eigið hyggjuvit. Hef ekki nennt að safna sönnunargögnum til eða frá um þetta enda aldrei reiknað með að ég mundi reyna að sannfæra aðra um þetta álit mitt þó ég sé auðvitað að því núna.

Að hægt sé að segja eitthvað til eða frá um skapgerð fólks eftir tölum einum er gersamlega andstætt öllum líkum. Sama er um detox að segja. Það er með öllu ósannfærandi að stólpípur og svelti gagnist fólki almennt þó auðvitað geti það komið að gagni með öðru við ákveðin tilfelli. Ég er sammála Svani Sigurbjörnssyni bloggvini mínum sem hefur skrifað talsvert um þessi mál.

Umræðan um nafnlausu bloggarana er mjög að aukast. Menn eru líka farnir að kveinka sér meira undan skrifum á Netinu en áður var. Björgvin G. Sigurðsson var einhversstaðar að kvarta undan netníði og í sambandi við hans mál var spjallsíðan er.is nefnd. Þar skilst mér að flestir séu með dulnefni og láti allt flakka eða næstum því. Einnig er grein á dv.is um að Tryggvi Þór Herbertsson sé ekki par ánægður með skrif Teits Atlasonar um sig.

Bloggið er sífellt að vinna á. Að kvartað sé undan því sem þar er skrifað bendir auðvitað til að mark sé tekið á því. Það er vel. Stjórnmálamenn eiga líka mun auðveldara með að ná til fólks nú þegar farsímar eru í öðrum eða þriðja hverjum vasa og allskyns tengsl er að auki hægt að hafa gegnum Netið.


795 - Sundsmokkar og ýmislegt fleira

Egill Jóhannsson frá Brimborg talar vel um íslensku krónuna á sínu bloggi og að hún gagnist að minnsta kosti útflutningsatvinnuvegunum vel. Þetta kann að vera rétt, en er styrking krónunnar ekki ansi dýru verði keypt? Eru það ekki einmitt seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem hamast við að styrkja hana? Kannski með röngum aðferðum, en samt... 

Hrannar Baldursson  ræðir á sínu bloggi um fjölkvæni og margt sem því tengist. Ekki er ég sammála öllu sem hann segir um það. Púkinn bendir síðan á eigið blogg í þessu sambandi og þar og í athugasemdum við það er margt áhugavert að finna. Samkynhneigð kemur líka við sögu þó ég sjái ekki í fljótu bragði hvað hún á skylt við fjölkvæni og þess háttar. Þar er einnig að finna markverðar pælingar um troll eða tröll og margt í því sambandi.

Brandarinn um sundsmokkana gengur nú enn einu sinni um netheima. Hugurinn leitar í ýmsar áttir. Vesalings afgreiðslustúlkan hefur líklega hugsað: "Hvað eru sundsmokkar eiginlega? Je minn, eru sérstakir smokkar fyrir svoleiðis lagað?" Og áfram leitar hugurinn. Kannski eru það syndandi smokkar að forða sér. Ætlaði maðurinn kannski að kaupa sundhettu en ekki sunnudagsmoggann eins og í ljós kemur í lokin.

Á sínum tíma kunni ég kvæðið um Jón hrak að mestu utanbókar. Eftirfarandi línur úr kvæðinu eru mér einkum minnisstæðar.

Eftir japl og jaml og fuður
Jón var grafinn út og suður.

Kalt er við kórbak.
Kúrir þar Jón hrak.
Ýtar snúa austur og vestur
allir nema Jón hrak.

Í kvæðinu er sagt að grafarmenn hafi holað Jóni niður út og suður eftir að hann var dauður. Hvernig höfundur komst að því að kaldara væri að snúa út og suður en austur og vestur vissi ég aldrei. Velti því þó dálítið fyrir mér. Trúmál hafa alla tíð verið mér uppspretta nokkurrar furðu. Of auðveld leið þykir mér þó að afneita öllu slíku sem tómri vitleysu.


794 - Ólafur "bölvar og ragnar" Grímsson

Athugasemdir sem ég fæ leiða oft til áframhaldandi hugleiðinga á þessu bloggi mínu. Ekki er forseti Íslands og gerðir hans meðal minna helstu áhugamála. Að ég skuli taka mér fyrir hendur að verja gerðir hans hugnast fáum bloggurum. 

Jón Steinar Ragnarsson fer mikinn í upphafi athugasemda við síðasta blogg mitt. Meðal annars segir hann:

Ég lít svo á að samþykki forsetans á þessu frumvarpi sé ógilt af þeirri einföldu ástæðu að hann setur fyrirvara fyrir henni. Það er fordæmalaust og á sér enga lagastoð. Já hans skal vera já og nei hans skal vera nei. Ekkert kannski eða ef.

Þetta álit Jóns er ógilt af þeirri einföldu ástæðu að Ólafur Ragnar er þjóðkjörinn og álit hans þyngra á metunum en Jóns Steinars. Því miður verður aldrei með öllu komist hjá mannjöfnuði í því kerfi sem við búum við. Gagnrýni Jóns Steinars beinist því fyrst og fremst að stjórnskipulagi okkar.

Já, stjórnskipulagið er gallað en stjórnleysi er verra.

Ég hef hér á bloggi mínu einnig varið inngöngu Íslendinga í ESB. Þar er um miklu stærra mál að ræða en undirskrift Ólafs Ragnars.

Það er ósköp einfalt að vera „Fúll á móti", þegar rætt er um forseta Íslands og bankahrunið yfirleitt.Neikvæðir bloggarar gera samt mikið gagn því nú eru fjárhagslegir loftfimleikar áreiðanlega orðnir mun erfiðari en áður.

Hlustaði í morgun á forstjóra OR tala á útvarpi Sögu um HS-málið. Hann kunni svör við nánast öllu en hvað er þetta svosem annað en svindilbrask og hlýtur ekki fólki að detta REI í hug? Vantar okkur ekki einmitt svolítið af svindilbraski?

Friðrik Þór Guðmundsson býður sig fram til forystu í Borgaraflokknum en þar er nú allt í uppnámi. Sjáið blogg Friðriks ef áhugi er á þessum málefnum. Ég kaus borgarahreyfinguna í síðustu kosningum og finnst mér koma gerðir þessa fólks svolítið við.


793 - "Bloggheimar loga," segir mbl.is

„Bloggheimar loga vegna ákvörðunar forsetans," sagði í fyrirsögn á mbl.is. Ekki varð ég mikið var við þessa loga. Um tíu þúsund manns skrifuðu þó undir beiðni til Ólafs um að skrifa ekki undir lögin um ríkisábyrgðina á Icesave-samningnum. 

Að mínum dómi hentaði þetta mál ekki vel til þjóðaratkvæðagreiðslu. Óljóst er hvað unnist hefði ef ríkisábyrgðarfrumvarpið hefði verið fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Störf Ólafs Ragnars að öðru leyti en því að skrifa undir ríkisábyrgðarlögin eru síðan annar kapítuli og engin ástæða til að blanda þessu tvennu saman.

Hávær minnihluti þjóðarinnar er óánægður með allt sem gert er eða ekki gert. Hávaði breytir engu. Valdið er hjá Alþingi. Skoðaði um daginn upptökur frá átökunum í lok síðasta árs og er undrandi á því hve litlu munaði í raun að bylting yrði hér á landi. Nú eru mjög minnkandi líkur á að svo verði.

Ólafur Ragnar Grímsson var síðast kjörinn sem forseti sumarið 2008 (sjálfkjörinn raunar því enginn bauð sig fram á móti honum) og næstu forsetakosningar eiga að óbreyttu ekki að fara fram fyrr en árið 2012. Ólíklegt er að hann bjóði sig einu sinni enn fram þá. Lítil ástæða er til að velta mikið fyrir sér framtíð forsetaembættisins fyrr.

Sveitarstjórnarkosningar fara fram næsta sumar og næstu Alþingiskosningar eiga samkvæmt fjögurra ára reglunni að fara fram árið 2013. Síðasta kjörtímabil Alþingis var stutt vegna bankahrunsins og vel getur verið að næstu Aþingiskosningar verði fyrir 2013.

Ef halda á stjórnlagaþing sem á að fá rétt til þess að setja nýja stjórnarskrá þarf Alþingi að afsala sér valdi sínu. Ekki er víst að þingmenn geri það með glöðu geði. Ráðgefandi stjórnlagaþing er líklegri möguleiki. Hefð er ekki fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum hérlendis og árið 2004 dugði neitun forseta á undirskrift fjölmiðlalaganna ekki.


792 - Pólitík og vísur

Bloggið er harður húsbóndi. Að minnsta kosti ef reynt er að ná einhverjum vinsældum. En eru vinsældirnar þess virði að sækjast eftir þeim? Sumir virðast álíta það. Halda jafnvel að aðrir bloggi bara eftir einhverri flokkslínu. Ef menn starfa í stjórnmálaflokki getur slíkt auðvitað verið. Trúi ekki að pólitískar ambissjónir flækist almennt fyrir bloggurum. Sumir þeirra halda kannski að þeir séu marktækir fjölmiðlar en það er önnur saga. 

Eftir hverju fer maður þegar maður les blogg? Ég lít venjulega yfir byrjunina á bloggvinalistanum mínum. Skoða blogg-gáttina. Athuga hvað hefur komið í Google-readerinn minn og svo framvegis. Það sem kannski skiptir mestu máli er í mínum huga nafn bloggarans, fyrirsögnin og fyrstu línur bloggsins og svo það hvort maður hefur í rauninni tíma til að lesa mikið af bloggum. Ekki fer ég með þau í rúmið og svolítinn tíma þarf ég sjálfur til að skrifa mitt blogg.

Þegar ég yrki um fréttatengt efni eru það oftast áreynslumiklar og lélegar vísur sem útúr því koma. Einstöku sinnum eru það samt vísur sem ég er sæmilega ánægður með. Einhverntíma ekki alls fyrir löngu orti ég vísu í tilefni af frétt í blaði og svo vill til að ég man þá vísu og hef sennilega birt hana áður hér á blogginu:

Á Letigarðinn leita ég
frá lymskubrögðum símans.
Þar er vistin þægileg.
Þar er Magga Frímanns.

Ein vísa minnir yfirleitt á aðra. Í ævisögu Guðmundar G. Hagalín er þessi vísa:

Þú ert Manga þægileg
þar af ganga sögur.
Æ, mig langar uppá þig,
eikin spanga fögur.

Ekki að ég sé að hugsa þannig um Möggu Frímanns enda er konan mín líka stelpa frá Stokkseyri.

Kannski hugsa ég of mikið í vísum. Einhverju sinni sagði Káinn (Kristján Níels Jónsson) þegar hann var af kvennahópi frá Íslandi beðinn að segja álit sitt á stuttu tískunni sem þá var farin að ryðja sér til rúms:

Kæru löndur hvað veit ég
karl um pilsin yðar.
Mér finnst síddin mátuleg
milli hnés og kviðar.

791 - Bloggarar ofsóttir

Hrannar Baldursson skrifar oftast mjög athyglisverða pistla. Lýður Guðmundsson talaði víst um það um daginn í Kastljósi að bloggarar og fleiri væru að ofsækja stjórnvöld og aðra. (Útrásarvíkinga??)

Hrannar gagnrýndi þá skoðun og nú vill hann snúa hlutunum við. Það eru bloggarar og hlustendur útvarps Sögu sem segja sannleikann umbúðalausan og lýðurinn (Lýður G.) ofsækir þá.

Hvorttveggja er að nokkru leyti rétt. Gagnrýnendum útrásarinnar og stjórnvalda hættir til að fara offari. Einnig gagnrýnendum bloggsins og Sögu. Öll eru þessi mál að fara í gamla flokkahjólfarið og er það slæmt.

Þegar rætt er um pólitík finnst mér alltaf gagnlegt að nota hugtökin hægri og vinstri þó margir séu mjög á móti því. Með bankahruninu síðastliðið haust varð talsvert mikil vinstri sveifla í landinu. Á sama tíma er að verða mikil breyting á fjölmiðlun allri og margir fóta sig illa í nýja veruleikanum.

Ein er sú auglýsing sem ég hata djúpu hatri. Eins og sumir vita hef ég gaman af að tefla bréfskákir á Netinu án þess þó að tíma að borga fyrir það.

Á vefsetrinu chesshere.com tefli ég jafnan þónokkrar bréfskákir í einu og þar er þessi umrædda auglýsing. Verið er að auglýsa broskalla eða eitthvað þess háttar og það bregst ekki að ég er í djúpum skákpælingum þegar ein broskallafígúran segir skyndilega „say something" hátt og snjallt.

Aldrei bregst það að ég hrekk í kút við þetta og bölva auglýsingunni í sand og ösku.

Þó ég sé skelfilegur rati í matartilbúningi hef ég af einhverjum ástæðum ótrúlega gaman af að lesa skemmtileg matarblogg. Uppgötvaði eitt slíkt alveg nýlega. Elín Helga Egilsdóttir heitir sá Moggabloggari sem þar heldur á penna. Er afskaplega dugleg við að blogga og birtir mikið af myndum. Verst að hún getur varla haldið þetta út mjög lengi.


790 - Samtalsblogg

A: „Þó ég hafi ekki fundið það upp, hentar svona samtalsblogg mér ágætlega."

B: „Einmitt það, já."

A: „Já, þá get ég nefnilega til dæmis talað um melrakkann á Bessastöðum án þess að tala óviðurkvæmilega um forsetann."

B: „Nú?"

A: „Já, það er eiginlega persóna í leikriti sem segir þetta en ekki ég."

B: „Já, svoleiðis."

A: „Svo er þetta líka ágæt aðferð til að koma ýmsu að sem erfitt er að gera öðruvísi. Eins og til dæmis hrósi um sjálfan sig."

B: „Já, já."

A: „Svo get ég alltaf haft annan aðilann voða vitlausan."

B: „Huh. Ekki mig."

A: „Nei, bara einhvern."

B: „Sjálfan þig, kannski?"

A: „Ja. Jæja. Kannski ekki. En samt..."

B: „Æ, þú er svo vitlaus."

A: „Ég? Ekki aldeilis.

Þögn.

A: „Ég er ekkert skyldugur til að standa við allt sem ég segi á mínu bloggi."

B: „Nú, af hverju ekki?"

A: „Ég er nefnilega listamaður."

B: „Er það eitthvert alibi?"

A: „Já. Að sumu leyti að minnsta kosti."

B: „Það finnst mér ekki."

A: „Finnst þér þá að ég ætti að standa við allt sem ég segi?"

B: „Já, eiginlega."

A: „Það er nú dálítið vafasamt. Ég segi svo margt."

B: „Segðu þá bara minna."

A: „Það get ég ekki."

B: „Nú?"

A: „Já, ég verð að blogga um eitthvað sem fólk nennir að lesa."

B: „Sama hvaða vitleysa það er?"

A: „Já, svona næstum því. Ætti ég þá að muna eftir öllum skoðunum sem ég hef á öllu mögulegu?"

B: „Auðvitað. Gerirðu það ekki?"

A: „Ja. Jú, eiginlega."

B: „Hefurðu kannski eina skoðun í dag og aðra á morgun á því sama?"

A: „Nei, nei. Vitanlega ekki."

B: „Hvert er þá vandamálið eiginlega?"

A: „Ég man það ekki almennilega."

Öllu má ofgera. Ég held ég sé hættur þessu í bili. Bein ræða er ágæt þó annað geti hentað stundum. Nú bíðum við semsagt bara eftir að heyra frá forseta vorum og fósturjörð. Ja, kannksi ekki fósturjörð, en næstum því.

Mér finnst leiðinlegt hvernig oft er talað um forsetann. Mér finnst að ekki eigi að láta persónuna sem embættinu gegnir hverju sinni hafa áhrif á virðinguna fyrir embættinu. Þó margir hallmæli forsetanum er það bara í nösunum á þeim. Það er vel hægt að bera virðingu fyrir forsetaembættinu en fyrirlíta öll stjórnvöld í landinu á sama tíma. Óþarfi er að láta upphrópanirnar og reiðina bita á forsetanum.

Ólafur Ragnar getur kennt sjálfum sér að nokkru leyti um það hvernig um hann er talað. Það var fyrir hans tilstilli sem fjölmiðlar fóru að velta sér uppúr öllu sem á Bessastöðum gerist. Auðvitað kemur okkur það við en það er óþarfi að láta einsog einhver óbótamaður sitji þar í óþökk þjóðarinnar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband