Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
19.2.2009 | 01:47
608. - Auðvitað eru bloggarar bloggurum verstir
Ég hef sjaldan skrifað eins langa athugasemd á blogg eins og í gær hjá Sigurði Þór Guðjónssyni. Hann var að hallmæla blogginu eins og hann gerir oft og ég reyndi að bera svolítið í bætifláka fyrir það og held því kannski áfram hér eftir nennu.
Alltaf eru einhverjir sem halda framhjá blogginu. Eiður Guðnason gerði það um daginn. Heldur víst að það sé eitthvað merkilegra að skrifa grein í Moggann. Segi svona. Auðvitað lesa fleiri Moggagreinina hans en bloggið. Skil þetta vel. Ef mönnum líður sæmilega vel með sín skrif þá sé ég ekki að það skipti miklu máli um hvað er skrifað né hvar. Gott samt að hafa aðgang að því ef maður skyldi hafa áhuga. Mín vegna má Sigurður Þór skrifa eins og hann vill um veðrið. Ég les það stundum. Finnst ég samt ekki vera neitt skyldugur til þess. Það er ég einn sem ákveð hvað ég les af bloggum.
Ég fylgist yfirleitt með Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni fornleifafræðingi í danaveldi þó sumum finnist hann ekki skemmtilegur. Fyndið fannst mér þegar einhver var í athugasemdum að kalla hann vinstrisinnaðan. Hann var einmitt eitthvað að agnúast út í Eið Guðnason. Þess vegna minnist ég á hann hér.
Það sem ég hef einkum áhyggjur af í sambandi við mína eigin bloggnáttúru er að ég er sífellt að festast meira og meira á Moggablogginu þó ég viti mætavel að prýðilega og forvitnilega er bloggað víða annars staðar. Moggamenn reyna líka eins og þeir geta að hlaða undir einhverja samkenndartilfinningu meðal sinna bloggara og vilja um leið stjórna hvernig bloggið er hjá sér.
Með því að Moggabloggast erum við auðvitað að auglýsa Moggaræfilinn sem er á hausnum eftir því sem sagt er. Ég veit að ég er í vinnu hjá Moggamafíunni án þess að fá nokkuð borgað fyrir það. Þjónustan er bara góð hjá þeim og meðan mér býðst ekki jafngóð eða betri ókeypis þjónusta annars staðar held ég áfram að blogga hér. Á sama hátt og Sigurði Þór finnst ekkert blogg vitrænt nema veðurblogg þá þykir mér skemmtilegast að blogga um blogg. Þar má alltaf finna umræðuefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.2.2009 | 01:57
607. - Er afturhaldskommatitturinn orðinn stjórnsýslubastarður?
Segi bara svona. Það er alltaf gaman að góðum orðum þó þau beri kannski vott um skítlegt eðli.
Einhvern tíma las ég að Bandaríkjaforseti hefði 250 þúsund dollara í árslaun. Þetta var fyrir löngu síðan og vel getur verið að hann hafi hærri laun núna. Samt er þetta svimandi upphæð. Ég man líka að einhvern tíma var kaup mitt hærra en þingfararkaup. Þingmenn höfðu að vísu allskyns sporslur en ég ekki. Samt eru þetta óttalegir smápeningar nútil dags og eiginlega til skammar. Svo hafði maður ekki einu sinni rænu á að næla sér í starfslokasamning.
Siggi Kolbeins kallaði mig fyrir sig og spurði mig hvort mér væri ekki sama þó launin mín hækkuðu úr 80 þúsundum í 120 þúsund. Hvernig átti ég neita slíku? Að vísu átti ég að undirrita eitthvert plagg og í því var minnst á launaleynd en hún skipti nú litlu máli samanborið við kauphækkunina.
Mesti kosturinn við bloggið er að enginn getur tekið af manni orðið. Sama hvað maður fimbulfambar. Það er svo annað mál hverjir nenna að lesa bullið. Auðvitað er alltof mikið að blogga á hverjum degi. Ég er bara búinn að venja mig á þetta og á erfitt með að hætta. Helsta ráðið er að blogga alltaf stutt. Orðin vilja þó verða of mörg.
Áður fyrr lugu ljósmyndir ekki. Nú gera þær það eins og þeim sé borgað fyrir. Fotosjoppaðar myndir flæða óstöðvandi um Netið. Ég get logið eins og ég vil með orðum. Eða með þögninni. Sem er áhrifaríkast.
Þegar ég vann hjá Kaupfélagi Borgfirðinga í Borgarnesi var alltaf sérstök tilhlökkun að fara í kaffið á morgnana. Þá gat maður látið gáfulegar athugasemdir fljúga í allar áttir. Ennþá betra var þetta í desember því þá var allskyns bakkelsi með kaffinu. Kannski bara með seinna kaffinu. Það var mamma hans Konráðs á bílastöðinni sem sá um baksturinn.
Nú er það helst að maður dreifi misgáfulegum athugasemdum hér á blogginu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.2.2009 | 09:27
606. - Þessi bloggstíll heitir: "Vaðið úr einu í annað."
Mikið er veðrið gott þessa dagana. Ef birtutíminn væri svolítið lengri mundi ég segja að það væri vor í lofti.
Einhvern vegin er það svo að allskyns guðrækilegar vísur og sálmar sitja í minninu á manni og dúkka þar upp þegar minnst varir. Ein er svona:
Vertu Guð faðir faðir minn
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leið mig út og inn
svo allri synd ég hafni.
Það er mjög tíðkað að gera grín að Guðstrú og þessháttar. Ekki er ég barnanna bestur í því.
Þegar ég var prófdómari í Laugagerðisskóla kom einu sinni svar á Kristinfræðiprófi sem var svona: "Þú skalt gjalda keisaranum sitt og Guði hitt." Þetta þótti mér hraustlega mælt og hló mikið.
Ó, Jesú bróðir besti
og besti vinur mesti
var líka einhvern tíma sungið af mikilli tilfinningu.
Pukurpólitík er vinsælasta pólitíkin á Íslandi í dag. Sama hvað um er að ræða aldrei skal viðurkenna það nema óhjákvæmilegt sé. Það er beinlínis hræðilegt nú á þessum síðustu og verstu tímum að horfa uppá hve stjórnmálamenn eru fastir í þessu hjólfari. Ég held að Geir hafi meira að segja haldið eins miklu leyndu fyrir sjálfum sér um bankahrunið og hann mögulega gat.
Boðað hefur verið frumvarp um Stjórnlagaþing. Gott ef framsóknarmenn þykjast ekki ætla að flytja það sjálfir. Um það verður rifist talsvert en síðan verður það svæft í nefnd. Óværum svefni þó því margir munu reyna að vekja krógann.
Ég hef verið að velta því fyrir mér hverjir stjórni þessu landi. Allir þykjast vilja lækka vextina. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bannar það. Davíð sem þó er bráðflinkur við að hækka og lækka vexti getur ekki einu sinni komið vitinu fyrir landstjórann og er þá fokið í flest skjól. Jóhanna grúfir sig bara ofan í pappírana sína og segir að það megi lækka vextina einhvern tíma seinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.2.2009 | 00:06
605. - Já er nei og nei er já. Eða svoleiðis
Egill Helga er alltaf áhugaverður í Silfrinu. Ég er ekki alltaf sammála honum og get vel skilið þá sem telja talsverða vinstri slagsíðu á þættinum. Blaðamaður einn að nafni Magnús Björn Ólafsson vakti sérstaka athygli mína í þættinum í morgun. Hann sagðist vinna við hið kommúníska blað "Nei" og í mínum huga er ekkert neikvætt við það. Nei er eitt af þessum vefritum sem sprottið hafa upp að undanförnu. Ég hef lítið fylgst með því blaði og hugðist því nálgast það beint. Nei.is skilaði ekki tilætluðum árangri því ég lenti beina leið á ja.is eða með öðrum orðum símaskránni. Sem var ekki það sem ég ætlaðist til. Nei.com skilaði heldur ekki því sem ég var að leita að. Þá var ekki annað eftir en að spyrja Gúgla að þessu og þá kom í ljós að urlið er: this.is/nei. OK nú get ég farið að lesa þetta gagnmerka rit. Í föðurlandi frjálshyggjunnar er læknishjálp góð. Dýrari samt en allt sem dýrt er. Þeir sem nógu ríkir eru geta þó notfært sér hana. Hinir fá einhverja afgangslæknishjálp eftir að þeir eru orðnir öreigar en mega að öðru leyti eiga sig. Ef ég á að velja milli Evrópska módelsins og þess Ameríska þá vel ég það Evrópska. Ég er ekki bara að hugsa um læknishjálp og þess háttar. Það er margt í Evrópska módelinu sem mér hugnast betur en samskonar atriði í því Ameríska. Í grunninn eru Íslendingar líka Evrópuþjóð þó Amerísk menning hafi náð fótfestu hér hin síðari ár og Amerísk viðhorf grasseri í ákveðnum stjórnálaflokki. Jón Baldvin Hannibalsson hefur útskýrt vel muninn á þessu tvennu. Ég man ekki öll rökin en mismunurinn er augljós. Stórveldisárangur Bandaríkjanna undanfarið er þó mun meiri. Evrópumenn voru iðnir við kolann hér áður fyrr og víst er að þeir eru víða hataðar öðrum fremur. Núorðið virðast Bandaríkjamenn samt verða meira fyrir barðinu á hryðjuverkamönnm og er ekki að furða. Konan mín hafði ákveðið að nú skyldi hafið nýtt líf. Þáttur í þessu var að ég átti að hella í vaskinn öllu wiskyinu mínu. Ég tók tappann úr fyrstu flöskunni og hellti úr henni í vaskinn að undanteknu einu glasi sem ég drakk. Svo tók ég tappann úr næstu flösku að undanteknu einu glasi sem ég drakk. Næst hellti ég úr þriðju flöskunni í glasið að undanteknum einum vaski sem ég drakk. Þá var komið að tíunda vaskinum. Ég hellti úr honum í glasið fyrir utan eina flösku sem ég drakk. Svo studdi ég húsið og taldi tappana áður en ég fór að sofa. Þeir voru tuttugu og fjórir. |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.2.2009 | 00:06
604. - Svona er Ísland í dag. En öðruvísi var það
Dómgirni bloggverja er mikil. Alltof mikil. Ég reyni að vera ekki mjög dómgjarn og þessvegna hef ég aldrei valið þá bloggleið að linka í fréttir á mbl.is Mér finnst það til bóta. Menn þurfa að hafa gífurlega margt að segja til að blogga með fullri reisn oft á dag. Fræðslublogg mega ekki vera of langdregin. Ef verið er að segja frá einhverju í bloggi eiga lesendur það skilið að orðalag sé sæmilegt. Það er að segja ef fleiri en fáeinum er ætlað að lesa það. Bloggin eru sendibréf dagsins í dag. Útgefin strax. Mikið gríðarlega er Gúgli oft snar í snúningum. Stundum er ég varla búinn að sleppa blogginu út í eterinn þegar hann er búinn að henda það á lofti. Þó er ég ekki sígúglandi. Atvinnuleysi er böl. Eða svo er sagt. OK. Á ég þá að hætta að vinna svo einhver atvinnulaus fái vinnuna mína? Dettur það ekki í hug. Nú er allskonar heilsuleysi farið að gera vart við sig og mér veitir ekki af peningunum. Eftirlaunin eru til skammar og þessi svokallaða ókeypis læknishjálp er mestan part þjóðsaga. Hugsanlega verður stjórnlagaþing mál málanna fyrir kosningarnar í vor. Líklegast er samt að stjórnmálaflokkarnir taki það mál í gíslingu. Þetta gerðist fyrir norðan. Í sveit einni var bær sem hét Kross. Skammt fyrir innan Kross var annar bær þar sem niðursetukerling ein hafði verið í nokkur ár. Þegar flytja átti hana hreppaflutningi á bæ einn fyrir utan Kross umhverfðist hún og neitaði með öllu að fara þangað. Þetta þótti mönnum skrýtið því vistin á nýja bænum var talin betri. Úr kafinu kom að kerla kunni hrafl í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar og eitt vísuorð var henni ofarlega í huga: Sálin má ei fyrir utan kross Hún ætlaði sko ekki að láta snuða sig um dýrðarhnossið. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.2.2009 | 00:22
603. - Ofnbakaðir málshættir og endurtekin orðtök
Um daginn var ég að blogga um afbakaða málshætti. Reyndar hef ég aldrei skilið muninn á málshætti og orðtaki og geri ekki enn. Annað sem líka getur verið ákaflega skemmtilegt er þegar orð breytast í annað en ætlast er til. Dæmi: Lau + garda + gur = Laugardagur. Erpulsakum = Er púls á kúm? Tré og runnar - Gunnar. (Sagt með mjög djúpri röddu. Var sérstaklega fyndið þegar mál þessu tengt var í hámæli.) Margri nunnu er ábótavant. Skyldu steggirnir á tjörninni eiga erfitt með andardráttinn? Skyldu endurnar þar ekki vera ágætir endur-skoð-endur? A: "Af hverju ertu að blogga um þetta?" B: "Nú, eitthvað verð ég að skrifa." A: "Eins og öllum sé ekki sama hvort þú bloggar eða ekki." B: "Ég veit það ekki. Kannski bíða menn eftir að ég bloggi." A: "Huh. Sér er nú hvert sjálfsálitið." B: "Þetta er ekki sjálfsálit. Bara nauðsynlegt" A: "Nú?" B: "Já, mér hundleiðist þetta." A: "Af hverju ertu þá að þessu? B: "Ég veit það ekki." A: "Hættu þá bara." B: "Þetta er ekki orðið alveg nógu langt til þess." A: "Ha? Hvað áttu við?" B: "Ég þarf helst að hafa þetta heila blaðsíðu eða svo." A: "Hvað meinarðu? Þetta samtal okkar? Ætlarðu að hafa það í blogginu?" B: "Já." A: "Andskotinn. Þá er ég farinn." |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.2.2009 | 00:06
602. - Ef þú ert tryggður þá færðu það bætt
Þetta er ein af þeim setningum sem dynja á okkur daginn út og inn. Mér finnst minn eigin útúrsnúningur á svona löguðu oftast betri en það sem auglýsandinn virðist ætlast til. Ef ég á að gagnrýna sérstaklega þessa setningu þá er fyrst til að taka að hún er í karlkyni en lítill vandi hefði verið að hafa hana í hlutlausu kyni. Kvenfólki gremst trúlega svona. Minn einka útúrsnúningur er sá að það sé óþarfi að bæta þeim það sérstaklega sem eru svo vitlausir að tryggja hjá tryggingarfélagi sem tímir ekki að vanda texta í auglýsingum. Pósturinn allur pakkinn er setning sem ég sný líka gjarnan útúr með sjálfum mér og segi sem svo að það sé óþarfi að miklast af því að skila í heilu lagi pökkum sem póstinum er trúað fyrir. Las og skoðaði nýlega tvær mjög áhugaverðar bækur. Páls saga - Gefin út 2008 af bókaútgáfunni Veröld. Sagan fjallar um ævi blaðamannsins Páls Jónssonar og er einnig afburðagóð aldarfarslýsing. Ég hef ekki lesið margt eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson en þessi bók er frábærlega góð. Mér finnst þessi bók ásamt með Sjálfstæðu fólki Kiljans og bókinni Í verum eftir Theodór Friðriksson móta mjög hugmyndir mínar um Ísland á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Seinni hlutann hef ég að lifað sjálfur og hef miklu fleira við að styðjast en um fyrri hlutann. Frásögnin í bókinni er afar grípandi þó einföld sé. Aldarfarslýsingin er þannig að það er eins og höfundur leggi enga áherslu á hana en samt er hún snilldarleg. Mér finnst lýsingarnar á ævi sögumannsins minna svolítið á Þórberg Þórðarson og Sult Hamsuns en þó eru engar krúsidúllur þarna. Einfaldleikinn ræður og það er erfitt að hætta að lesa. Hin bókin sem mig langar að skrifa nokkur orð um heitir Minnisstæðar myndir. Íslandssaga áranna 1901 - 1980 í ljósmyndum. Inga Lára Baldvinsdóttir valdi myndirnar og Sigurður Hjartarson tók saman annál. Mál og menning 1990. Þarna er saman komið ágætt úrval mynda frá fyrri hluta aldarinnar sem leið. Margar þeirra segja mikla sögu og víst er að mörg frásögnin verður mun eftirminnilegri með viðeigandi myndskreytingu. Myndirnar segja einkum frá minnistæðum tíðindum aldarinnar og eru ágætar sem slíkar. Myndirnar eru þarna í aðalhlutverki en annállinn einkum til að minna á hvað markvert gerðist á hverjum tíma. Ég las hann ekki svo gjörla en skoðaði allar myndirnar. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2009 | 01:32
601. - Árur, miðlar, spáfólk og allt það slekti
Ég hef alltaf furðað mig á því hvernig miðlar og aðrir af svipuðu sauðahúsi geta starfað í gegnum útvarp. Hvernig í ósköpunum geta spilin hennar Ragnheiðar á Sögu sagt henni hvernig einhverjum líður sem hringir í hana. Ég næ þessu bara ekki. En út á þetta og kannski eitthvað fleira er hún nú komin á þing!! Gísli Ásgeirsson (bróðir Páls á Háteigsveginum) skrifaði nýlega blogg undir fyrirsögninni "Árulesari sest á þing". Þar fjallar hann um Ragnheiði Ólafsdóttur frá Akranesi varaþingmann Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Ég er svipaður Gísla með það að hafa talsverðan áhuga á hjáfræðum. Yfirleitt er sá áhugi fremur neikvæður. Ég held samt að Ragnheiður sé ekki slæmur þingmaður. Gæti meira að segja verið úrvals þingkona ef hún lætur hjáfræðin ekki trufla sig. Ef hún fer aftur á móti að beita sínum spáhæfileikum og steinalestri á samþingmennina er hætt við að ég missi alla trú á henni. Annars skilst mér að Ragnheiður hafi staðið sig ágætlega á þinginu. Sagt strákastóðinu þar til syndanna. Mér finnst oft ömurlegt að heyra í sjónvarpinu hvernig þingheimur hagar sér. Það markverðasta í sambandi við hjáfræði sem ég hef heyrt lengi er Áruhreinsunin í Hafnarfirði. Gott ef ég heyrði þetta ekki fyrst hjá Gísla Ásgeirssyni. Þessi hreinsun á að hafa gengið svo vel að útvarpsauglýsingar frá henni dynji á landsmönnum. Kannski er þetta tóm vitleysa. Þó er ekkert skrítið þó fólk vilji hafa áruna sína sem hreinasta. |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.2.2009 | 00:15
600. - Prófkjör Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi
Heyrði ekki betur í fréttum áðan en að bæði Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætli að gefa kost á sér í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi. Þorgerður Katrín þorir ekki gegn Bjarna í formannskjöri. Treystir á að fá tækifæri síðar. Ekki er víst að svo verði. Ég á ekki vona á að til sérstakra tíðinda dragi í þessu prófkjöri frekar en öðrum. Auðvitað yrði þó gaman ef þau skötuhjúin yrðu með þeim neðstu. Það held ég sé hugsanlegt. Það er margt í sambandi við efnahagsmál sem ég skil ekki. Ef ég reyni að rifja upp umræður frá því fyrir hrun minnist ég þess að ég gat aldrei skilið hvers vegna menn vildu ekki losna við jöklabréfin svokölluðu. Alltaf var gefið út meira og meira af þeim og þótti sniðugt. Mér fannst augljóst að með því að selja sífellt fleiri slík væri í raun verið að afhenda spákaupmönnum gengisskráningarvaldið. Margir hafa reynt að rekja upphaf bankavitleysunnar til einkavæðingar bankanna. Það er eflaust rétt en mikilvægt skref í vitleysunni var líka þegar ákveðið var að Seðlabankinn ætti ekki lengur að glíma við gengið (hafði víst ekki efni á því!!) heldur einbeita sér að verðbólgumarkmiðum. Þetta fannst mörgum afar vel til fundið. Mér fannst það hinsvegar skrýtið vegna þess að ég skil ekki efnahagsmál. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.2.2009 | 00:36
599. - Það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast
Geir Haarde var í imbakassanum í kvöld og sagði óvart að allt snerist um kosningabaráttu hjá Sjálfstæðisflokknum. Meinti reyndar stjórnarandstöðu og leiðrétti sig. Allir stjórnmálaflokkar eru komnir í bullandi kosningabaráttu. Ekki síður Samfylkingin en aðrir. Kannski vilja þeir gera eitthvað almennilegt líka en kosningabaráttan er númer eitt. Það er enginn vafi í mínum huga að bloggið er komið til að vera. Það getur þó eflaust breyst og mun gera það. Áfram munu margir vilja tjá sig á þennan hátt. Sumir þykjast aldrei lesa blogg en flestir bloggarar finna að minnsta kosti fáeina lesendur. Annars væru þeir ekki að þessu. Hvernig á að blogga? Það er spurningin. Sjálfur er ég alltaf í vafa. Á ég að linka? Á ég að myndskreyta bloggið og reyna að láta það líta sem best út? Á ég að blogga langt eða stutt? Um hvað á ég að blogga? Sumir blogga bara fyrir fjölskyldu og nána vini og þá gjarnan ekki nema öðru hvoru. Aðrir eru alltaf að þessu. Jafnvel oft á dag. Já, spurningarnar eru endalausar. Lausnirnar sem ég hef fundið eru einkum þær að blogga frekar stutt í hvert skipti. Blogga reglulega og frekar oft. Um það bil daglega. Linka aldrei í fréttir. Og svo framvegis. Allt er þetta samt breytingum undirorpið. Einu sinni notaði ég ekki einu sinni fyrirsagnir. Ég númera bloggin mín alltaf og hef ekki séð aðra gera það. Sérviska í sérflokki. En hefur þetta áhrif? Ég veit það ekki. Kannski. En meðan mér finnst gaman að þessu og það truflar mig ekki við annað held ég því áfram. Að koma hugsunum sínum í orð með sæmilegum hætti er fyrst og fremst æfing. Að kalla lesendur sína fávita eins og sumir gera er oflæti. Pólitík snýst um skoðanir. Sínar eigin og annarra. Stjórnmál eru trúboð. Stjórnmálamenn og útrásarvíkingar hafa svikið okkur illilega undanfarin ár. Góð hugmynd er að gefa öllum þeim sem um stjórnmál og efnahagsmál hafa vélað að undanförnu langt frí. Hvað stjórnmálamennina varðar getum við gert það í komandi kosningum. Ekki með því að kjósa réttan flokk. Heldur með því að kjósa ný öfl. Stuðla að því að stjórnlagaþing verði haldið fyrr en seinna og að það fái raunveruleg völd. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)