604. - Svona er Ísland í dag. En öðruvísi var það

Dómgirni bloggverja er mikil. Alltof mikil. Ég reyni að vera ekki mjög dómgjarn og þessvegna hef ég aldrei valið þá bloggleið að linka í fréttir á mbl.is Mér finnst það til bóta. Menn þurfa að hafa gífurlega margt að segja til að blogga með fullri reisn oft á dag.

Fræðslublogg mega ekki vera of langdregin. Ef verið er að segja frá einhverju í bloggi eiga lesendur það skilið að orðalag sé sæmilegt. Það er að segja ef fleiri en fáeinum er ætlað að lesa það.

Bloggin eru sendibréf dagsins í dag. Útgefin strax. Mikið gríðarlega er Gúgli oft snar í snúningum. Stundum er ég varla búinn að sleppa blogginu út í eterinn þegar hann er búinn að henda það á lofti. Þó er ég ekki sígúglandi.

Atvinnuleysi er böl. Eða svo er sagt. OK. Á ég þá að hætta að vinna svo einhver atvinnulaus fái vinnuna mína? Dettur það ekki í hug. Nú er allskonar heilsuleysi farið að gera vart við sig og mér veitir ekki af peningunum. Eftirlaunin eru til skammar og þessi svokallaða ókeypis læknishjálp er mestan part þjóðsaga.

Hugsanlega verður stjórnlagaþing mál málanna fyrir kosningarnar í vor. Líklegast er samt að stjórnmálaflokkarnir taki það mál í gíslingu.

Þetta gerðist fyrir norðan. Í sveit einni var bær sem hét Kross. Skammt fyrir innan Kross var annar bær þar sem niðursetukerling ein hafði verið í nokkur ár.

Þegar flytja átti hana hreppaflutningi á bæ einn fyrir utan Kross umhverfðist hún og neitaði með öllu að fara þangað. Þetta þótti mönnum skrýtið því vistin á nýja bænum var talin betri. Úr kafinu kom að kerla kunni hrafl í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar og eitt vísuorð var henni ofarlega í huga:

Sálin má ei fyrir utan kross
öðlast á himnum dýrðarhnoss.

Hún ætlaði sko ekki að láta snuða sig um dýrðarhnossið.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smá leiðrétting á þjóðsögunni. Kerlingin, sem átti að flytja, átti að fara að Ballará á Skarðströnd sem er tveimur bæjarleiðum fyrir utan Kross. (Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri. Annað bindi, bls 494)

Bjarni Kristjánsson 15.2.2009 kl. 15:04

2 identicon

Var ekki talað um Ballará í Klofningi eða við Klofning hér í "den tid", Bjarni?

Ellismellur 15.2.2009 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband