607. - Er afturhaldskommatitturinn orðinn stjórnsýslubastarður?

Segi bara svona. Það er alltaf gaman að góðum orðum þó þau beri kannski vott um skítlegt eðli. 

Einhvern tíma las ég að Bandaríkjaforseti hefði 250 þúsund dollara í árslaun. Þetta var fyrir löngu síðan og vel getur verið að hann hafi hærri laun núna. Samt er þetta svimandi upphæð. Ég man líka að einhvern tíma var kaup mitt hærra en þingfararkaup. Þingmenn höfðu að vísu allskyns sporslur en ég ekki. Samt eru þetta óttalegir smápeningar nútil dags og eiginlega til skammar. Svo hafði maður ekki einu sinni rænu á að næla sér í starfslokasamning.

Siggi Kolbeins kallaði mig fyrir sig og spurði mig hvort mér væri ekki sama þó launin mín hækkuðu úr 80 þúsundum í 120 þúsund. Hvernig átti ég neita slíku? Að vísu átti ég að undirrita eitthvert plagg og í því var minnst á launaleynd en hún skipti nú litlu máli samanborið við kauphækkunina.

Mesti kosturinn við bloggið er að enginn getur tekið af manni orðið. Sama hvað maður fimbulfambar. Það er svo annað mál hverjir nenna að lesa bullið. Auðvitað er alltof mikið að blogga á hverjum degi. Ég er bara búinn að venja mig á þetta og á erfitt með að hætta. Helsta ráðið er að blogga alltaf stutt. Orðin vilja þó verða of mörg.

Áður fyrr lugu ljósmyndir ekki. Nú gera þær það eins og þeim sé borgað fyrir. Fotosjoppaðar myndir flæða óstöðvandi um Netið. Ég get logið eins og ég vil með orðum. Eða með þögninni. Sem er áhrifaríkast.

Þegar ég vann hjá Kaupfélagi Borgfirðinga í Borgarnesi var alltaf sérstök tilhlökkun að fara í kaffið á morgnana. Þá gat maður látið gáfulegar athugasemdir fljúga í allar áttir. Ennþá betra var þetta í desember því þá var allskyns bakkelsi með kaffinu. Kannski bara með seinna kaffinu. Það var mamma hans Konráðs á bílastöðinni sem sá um baksturinn.

Nú er það helst að maður dreifi misgáfulegum athugasemdum hér á blogginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Nú er það helst að maður dreifi misgáfulegum athugasemdum hér á blogginu."

Þú ert alveg á réttu róli.  Það eru alls ekkert skemmtilegustu bloggin þegar fólk er að rembast við að reyna að vera svo gáfulegt.

Malína 18.2.2009 kl. 03:38

2 identicon

Nei, alls ekki, ég er alveg sammála Malínu.

EE elle

EE 18.2.2009 kl. 09:59

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég reyni alltaf að vera sem heimskulegastur á mínu bloggi, blaðra bara um veðrið og svoleiðis!

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.2.2009 kl. 13:48

4 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Þú ert í dag, kæri bloggvinur, eins og bankabókin mín. Þú byrjaðir vel en .....

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 18.2.2009 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband