Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

598. - Sérkröfur verður að salta. Samstöðu er þörf

Mér finnst langþægilegast að vera beggja handa járn í flokkspólitískum skilningi. Þó ég sé stundum svo vinstri sinnaður að mér finnst sjálfum nóg um get ég ómögulega neitað því að Hólmsteinninn kemur oft vel fyrir sig orði, Davíð var slyngur stjórnmálamaður hér áður fyrr og Björn Bjarnason er rökfastur og skýr í hugsun.

Hallgrímur Helgason er í bókum sínum of gefinn fyrir ódýra orðaleiki en óþarfi að kalla hann Baugspenna fyrir það eitt að dangla í geirinn hans Bíls.

Var að hlusta á kastljósupptöku. Ógleymanlegt að hlusta á Simma og Arnþrúði. Sérstaklega þegar Simmi sagði eftir að hafa lýst því fjálglega að allir ættu að snúa bökum saman og bla bla bla, að það væru tvær þjóðir í landinu. Þá segir Arnþrúður, snögg upp á lagið. "Og eiga þær að snúa bökum saman?"

Stjórnmálamenn og aðrir sem fjasa um kreppuna í ljósvakamiðlum ruglast oft á milljónum og milljörðum. Eiginlega er það engin furða. Gott væri ef allar skuldir gætu minnkað sem því nemur.

Varðandi Davíðsmálið vil ég bara segja það að þrátt fyrir deildar meiningar um margt verður ekki deilt um það að hann hefur sýnt forsætisráðherra landsins yfirgang og ókurteisi. Mál virðast nú vera að þróast á þann veg að vera Davíðs í Seðlabankanum er orðin svo táknræn að hann verður að víkja. Því miður er þetta mál að verða svo pólitískt að hvernig hann fer getur skipt verulegu máli. Jóhönnu er trúandi til að meðhöndla þetta mál með þeirri mildi og ákveðni sem til þarf.

Í komandi kosningum getum við sýnt valdamönnum hver hugur okkar er. Sem betur fer trúi ég því að mark sé takandi á kosningum hér. Ef takast á að koma á markverðum stjórnarfarsbreytingum er mikilvægt að það komi fram í kosningunum í apríl. Mikil þörf er að stilla saman strengi. Allir verða að stefna í svipaða átt. Sérkröfur verður að salta.


597. - Hvernig á að koma vitinu fyrir þá? Og svolítið um hana Rönku rausnarkerlingu

Sjálfstæðismenn eru með böggum hildar eftir að þeir voru hraktir úr stjórn. Skiljanlegt er að þingmenn þeirra séu sárir. Imba plataði Geir með eftirminnilegum hætti.

Pétur Blöndal tafsar svo mikið að hann sleppir miðjunni úr flestum orðum og virðist mismjólka sig í hverri setningu. Sigurður Kári minnir á upptrekktan simpansa úr gömlu apaspili. Það er samt langfyrirkvíðanlegast ef Davíð ætlar að halda áfram að hunsa forsætisráðherrann. Það gæti endað illa.

Á morgun (mánudag) hlýtur að sverfa til stáls í stóra Davíðsmálinu.

Betra er stutt blogg og leiðinlegt en langt og skemmtilegt. Svo löng geta blogg orðið að eftirsjá sé að tímanum sem fer í að lesa þau.

Hún Ranka var rausnarkerling
sem rak eitt hænsnabú.
Og hænurnar urpu eggjum
sem átu ég og þú.

Svo var það einhverju sinni 
með svolítið öðrum brag, 
og Rönku er það ríkt í minni 
hve reiddist hún þennan dag. 
 
Í hænsnakofa hennar
var haldið þann dag ball, 
því haninn hann var ungur 
og hneigður fyrir rall. 

Þetta er upphafið að löngu kvæði sem ég kunni einu sinni að mestu leyti. Þetta er frásaga um verkfall í hænsnakofa ef ég man rétt. Ég held að haninn hafi bent hænunum á að ekki væri hann að hamast við verpa eggjum en hefði það þó ágætt. Hænurnar ætluðu síðan að gera eins en Ranka kom þeim í skilning um annað.


596. - Þegar mér er mikið mál míg ég bara í skóna

Um daginn var Siv Friðleifsdóttir á Alþingi að líkja metingi stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga við pissukeppni. Hún nefndi síðan að Framsóknarmenn væru nú miklu betri í því sem um var að ræða. Með góðum vilja mátti alveg skilja á henni að hún gæti nú pissað lengst sjálf enda fór þingheimur að hlæja.

Merkilegt hvað rifjast upp fyrir manni og hvernig. Ég var ekkert að reyna að rifja neitt upp og það var ekkert sem minnti mig á þetta vísukorn sem við krakkarnir fórum oft með þegar ég var lítill. Það kom bara í hugann svona óforvarendis.

Piss, piss og pelamál,
púðursykur og króna.
Þegar mér er mikið mál
míg ég bara í skóna.

Þetta þekkist líklega enn. Að minnsta kosti kannaðist Gúgli eitthvað við púðursykur og króna. Nennti samt ekki að lesa það gjörla.

Ég sé fyrir mér að mikið verði rifist á næstunni um það hvort halda skuli áfram með svonefnt Tónlistarhús. Reiknað hefur verið út að því er mér skilst að það kosti um 13 milljarða að ljúka við húsið. Milljarðarnir gætu auðvitað orðið 30 eða 40 ef miðað er við ýmsar aðrar framkvæmdir. Ég á frekar von á því að ekki verði haldið áfram.

Sömuleiðis verður mikið rifist á næstunni um hvort halda skuli stjórnlagaþing eða ekki. Stjórnmálamenn munu flestir segjast vera því meðmæltir en líklegast er samt að ekki verði úr því. Bæði er það dýrt og svo er ótrúlegt að mönnum komi saman um hvernig að málum skuli staðið. Þetta getur ekki orðið að veruleika nema með atbeina Alþingis og störf þingmanna munu breytast mikið ef stjórnskipan verður breytt. Það er mannlegt að óttast breytingar.

Þingkosningar verða 25. apríl. Ég tók eftir því í umræðum á Alþingi um daginn að þingmenn þykjast eiga atkvæðin í landinu þó þeir hafi auðvitað ekki sagt svo. Kosningar verða haldnar sem fyrst til að ný framboð verði ekki eins vel undirbúin og þyrfti að vera. Ágæt lausn fyrir núverandi þingflokka væri að nýju framboðin yrðu sem flest svo atkvæðin skiptist milli þeirra.

Margir munu ekki kjósa eða gæta þess að kjósa engan af gömlu þingflokkunum. Ef ekki verður mjög mikil endurnýjun fólks á framboðslistum flokkanna er hætt við að fylgi þeirra minnki mjög verulega.

Já, ég er svona svartsýnn á ástandið.

 

595. - Hvalurinn Rauðhöfði og Hvalfjörður, Hvalvatn og Hvalfell

Þjóðsagan um Rauðhöfða fjallar um þetta. Hún er í tveimur útgáfum á vef Netútgáfunnar. Styttri útgáfan er hér en hin lengri hér.

Fyrr á tíð tíðkaðist það á Suðurnesjum að farið var í Geirfuglasker bæði til að sækja fugl og egg.

Maður nokkur hét Árni. Hann fór í skerið með öðrum en komst ekki til baka og var skilinn eftir. Ekki varð komist í skerið til að sækja hann á næstunni og var hann að lokum talinn af. Árið eftir þegar farið var í skerið fannst hann. Var hann fálátur og vildi ekki segja í hverju hann hefði lent.

Alllöngu seinna var hann í Hvalsneskirkju og þangað kom þá kona nokkur tígulega búin með ungbarn og vildi láta skíra það. Fór síðan. Prestur spurði Árna hvort hann ætti barnið en hann neitaði því þverlega.

Þá kom konan aftur og tók klæði sem í vöggunni var og kastaði á kirkjugólfið og sagði: „Þetta skal kirkjan eiga til minningar um hvort nokkurt óhræsi hefur átt hér í hlut." Var klæðið dýrindis hökull.

Síðan tók konan vögguna aftur og sagðist ekki eiga neitt sökótt við prestinn en lagði það á Árna að hann skyldi breytast í hið versta illhveli og granda skipum og mönnum. Skyldi ávallt einhver niðja hans vera hinn mesti ógæfumaður allt í átjánda lið.

Árni var með rauða húfu á höfði og tók þegar að þrútna og beljaði ógurlega. Menn ætluðu að binda hann en hann sleit sig af þeim og hljóp í sjó fram. Gerðist þar illhveli mikið með rautt höfuð og tók sér bólfestu á Faxaflóa. Einkum þar sem síðar var kallað Hvalfjörður.

Kraftaskáld nokkurt sem bjó að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd kvað hann upp í Hvalvatn eftir Botnsá. Þegar upp í gljúfrin kom hristist jörð mjög og kallast fossinn því Glymur og hæðirnar þar fyrir ofan Skjálfandahæðir. Við Hvalvatn þykjast menn hafa fundið hvalbein stórkostleg.

Mælt er að Einar á Iðu sem var dæmdur til lífláts fyrir barneign í meinum væri kominn af Árna í níunda lið, en nú er komið í hinn tólfta.

 

594. - Enn um afbakaða málshætti og þessháttar

Í þetta skipti ætla ég að skýra þá pínulítið og segja hvernig ég held að þeir eigi að vera. Tólf síðustu eru nýir. 

Hann kom eins og þjófur úr heiðskíru lofti.
   Þarna er tveimur málsháttum slegið saman. Hann kom eins og þjófur á nóttu og eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Hann lenti milli steins og steggja.
   Milli steins og sleggju (eða skips og bryggju)

Róm var ekki byggð á einni nóttu.
   Róm var ekki byggð á einum degi. (Held ég. Nota sjaldan sjálfur)

Það er ekki hundur í hættunni.
   Það er ekki hundrað í hættunni. (En hvaða hundrað er þetta?)

Betra er að hafa vaðið fyrir ofan sig.
   Betra er að hafa vaðið fyrir neðan sig. (Að sjálfsögðu)

Þar kom horn úr hljóði.
   Þar kom hljóð úr horni.

Þegar í harðfennið slær.
   Þegar í harðbakkann slær.

Þetta er nú ekkert til að hlaupa húrra yfir.
   Þetta er nú ekkert til að hrópa húrra yfir.

Þið eruð eitthvað svo spænskir á svipinn.
   Þið eruð eitthvað svo sposkir á svipinn.

Ekki fyrr en eftir djúpan disk.
   Ekki fyrr en eftir dúk og disk.

Láttu ekki slá um þig. Þú gætir forskalast.
   Láttu ekki slá að þér. Þú gætir forkulast.

Hann steig ekki feilnótu í leiknum.
   Hann steig ekki feilspor í leiknum.

Það þýðir ekkert að efna og efna, en lofa svo aldrei neinu.
   Það þýðir ekkert að lofa og lofa, en efna svo aldrei neitt.

Að hellast úr lestinni.
   Að heltast úr lestinni. (Hestur úr heybandslest)

Svo lengist lærið sem lífið.
   Svo lengi lærist sem lifir.

Að bera í blindfullan lækinn.
   Að bera í bakkafullan lækinn.

Að slá tvö högg með einni flugu.
   Að slá tvær flugur í einu höggi.

Hann sendi mér augntotur.
   Hann sendi mér augnagotur.

Sjaldan launar kálfurinn ofbeldið.
   Sjaldan launar kálfur ofeldið.

Að slá sjö flugur í sama höfuðið.
  (Kann ekki að skýra þennan).

Fyrir neðan allan þjófabálk.
   Út yfir allan þjófabálk.

Illt er að kenna gömlum hundi að skíta.
   Illt er að kenna gömlum hundi að sitja.

Punktur og pasta.
   Punktur og basta.

Fátt er svo með öllu illt að ekki geti versnað.
   Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.

Að hafa vaðið fyrir neðan nefið.
   Að hafa munninn fyrir neðan nefið. (Og að hafa vaðið fyrir neðan sig.)

Það verður að taka þetta með almennilegum vettlingatökum. (Höskuldur Þórhallsson ruglaðist á þessu í þingræðu en komst kannski ekki nákvæmlega svona að orði.)

   Það duga engin vettlingatök á þetta.

Það er ekki hægt að koma þessum ketti í nös.
   Þetta er ekki upp í nös á ketti.


Staður konunnar er á bak við eldavélina.
   Staður konunnar er við eldavélina. (Mjög umdeilanlegt - vægast sagt - þessi afbökun er oft eignuð Guðna Ágústssyni)

Að láta ekki deigið síga.
   Að láta ekki deigan síga.

Oft má saltkjöt liggja.
   Oft má satt kyrrt liggja.

Nú er komið annað hljóð í skrokkinn.
   Nú er komið annað hljóð í strokkinn.

Öl er annar maður.
   Öl er innri maður.

Gera býflugu úr úlvaldanum.
   Gera úlvalda úr mýflugu.

Vil gjarnan heyra um meira svona. Afbakaðir málshættir og orðtök geta verið bráðskemmtileg tilbreyting. Líka ruglað suma í ríminu.


593. - Gengið í bloggbjörgin

Þegar ég hitti Bjögga bróðir síðast spurði hann mig hvort það væri ekki eins og að ganga í björg að ánetjast Netinu. Þetta er alveg rétt hjá honum. Það er vel hægt að verða of hugfanginn af þessu öllu saman. Sumir eru gagnteknir af blogginu, aðrir af Fésbókinni, Flickrinu eða einhverju öðru. 

Í tímans rás er ég búinn að sveiflast öfganna á milli í þessu. BBS, póstlistar, Usenet ráðstefnur, IRC, Veraldarvefurinn o.s.frv. o.s.frv. Bloggið er bara það nýjasta og á margan hátt það fullkomnasta. Bindur mann þó á margan hátt.

Þegar ég var að byrja að blogga fór mikill tími í það hjá mér og athugasemdirnar voru beinlínis fyrirkvíðanlegar. Svo harðnar skrápurinn og þetta verður manni svo eiginlegt að maður tekur varla eftir því. Verður líka sífellt fljótari með færslurnar. Þetta er fyrst og fremst þjálfun í því að orða hugsanir sínar og koma þeim orðum á blað.  

Athugasemdirnar eru sál bloggins og nauðsynlegt að sinna þeim. Ranglega er ég farinn að ímynda mér að ég þekki ýmsa af bloggvinum mínum. Í bloggheimum er maður sá sem maður vill vera. Veit þó ekki hvernig aðrir sjá mann.

Hvort skyldu stjórnmálin vera að yfirtaka bloggið eða bloggið að yfirtaka stjórnmálin?


592. - Meira um dýradráp

Blogg mitt frá í gær virðist hafa vakið athygli. Heimsóknir eru með meira móti segir teljarinn. Kannski er það einkum fyrirsögnin og fyrstu línurnar sem fólk tekur eftir. Hvað veit ég?

Mín grundvallarafstaða til allra veiða er sú að aldrei skuli taka líf að ástæðulausu. Sú ástæða að skemmtilegt sé að drepa finnst mér ótæk. Við drepum flugur og önnur kvikindi af því að þau pirra okkur og valda óþægindum. Húsdýr af ýmsu tagi eru einnig drepin til matar. Sumum finnst sú ástæða ekki merkileg en mun betra er að sætta sig við hana en skemmtanagildið eitt.

Það má endalaust deila um dýravernd. Mörg sjónarmið eru uppi. Þegar konur kasta klæðum í nafni dýraverndar er verið að rugla saman sjónarmiðum og vekja athygli á einu máli með allt öðru.

Einn af þeim sem gerði athugasemd við grein mína í gær taldi að auka mætti veiðar til matar og það getur vel átt við hér á Íslandi. Ég vil hinsvegar gjarnan horfa hnattrænt á málin og tel að svo geti alls ekki verið í heiminum sem heild. Mannkynið væri miklu betur á vegi statt hvað fæðu snertir ef menn legðu sér almennt ekki kjöt til munns. Alltof stór hluti ræktanlegs lands er notaður til að framleiða gras fyrir grasbíta sem síðan eru étnir.

Fiskveiðar í sjónum eru okkur Íslendingum mikilvægar. Veiðar á landi hafa núorðið takmarkaða efnahagslega þýðingu. Svo mun einhverntíma einnig fara með sjóinn. Hann mun samt lengi taka við og ástæðulaust er vonandi fyrir okkur Íslendinga að hafa áhyggjur af framtíð fiskveiða. Þó verðum við að einhverju leyti að taka tillit til umheimsins og eru hvalveiðar dæmi um það.


591. - Sportveiðar eru morð og ekkert annað

Sigurbjörn Sveinsson læknir skrifar bloggpistil hér á blog.is sem hann nefnir "Veiða og sleppa". Þar ræðir hann um þann sið laxveiðimanna að veiða sama fiskinn helst margoft og pína hann sem mest. 

Á sama hátt og golfíþróttin er oft notuð sem afsökun fyrir hollri útivist eru hvers kyns veiðar oft einskonar afsökun fyrir heilbrigðum ferðalögum og náttúruskoðun. Það er þó mun viðfelldara að sjá menn lemjandi litla bolta en drepandi allt og alla.

Maðurinn er herra jarðarinnar og ber því ábyrgð á öðrum dýrategundum. Sportveiðar af öllu tagi eru forkastanlegar. Það er hægt að réttlæta það sem fram fer í sláturhúsum með nauðsyn og að efnahagslegu áhrifin séu hagstæð. Vel er þó hægt að komast hjá því að borða kjöt eins og grænmetisætur vita best.

Tekjur veiðifélaga af veiðileyfum eru auðvitað efnahagsleg áhrif. Þær tekjur eru þó oft í litlu samræmi við þær afurðir sem úr ánum koma. Netaveiðar eru heilbrigðari að því leyti að þar er meira samræmi milli tilkostnaðar og afraksturs.

Með því að hirða veiðidýr og nota eru menn oft að búa sér til afsökun á villimennskunni. Við "veiða og sleppa" aðferðina er sú afsökun horfin. Erfitt er að sjá að nokkuð vaki fyrir þeim sem þetta stunda annað en að pína sem mest. Þetta getur líka orðið til þess að fleiri fái tækifæri til að láta undan veiðieðli sínu sem kallað er. Afrakstur veiðiáa í peningum talið verður meiri með þessu og þannig er þetta græðgis- og gróðahyggja af útrásarvíkingatoga.

Það er bara þjóðsaga að manninum sé veiðieðlið í blóð borið. Sportveiðar eru morð og ekkert annað. Auðvitað ekki sambærilegar við mannsmorð en argasti ósiður samt.

Ég hef ekkert á móti veiðimönnum og þekki þá marga. Heimspekin að baki veiðunum hugnast mér bara ekki.

 

590. - Mikill er máttur íþróttanna. Rekum dagskrárstjórann

Eins og fleiri settist ég niður til að horfa á beina útsendingu með forsvarsmönnum nýrrar ríkisstjórnar. Ég hafði heyrt þess getið að til stæði að sýna beint í sjónvarpinu frá úrslitaleik í heimsmeistarakeppninni í handbolta. Svo kom lítil handboltamynd í hornið á skjánum og ég hélt satt að segja að það yrði látið nægja til að friða þá sem hafa meiri áhuga á boltaleikjum en stjórn landsins. En svo var útsendingin frá blaðamannafundinum bara rofin og handboltinn tók yfir. 

Ég var búinn að heyra um nýja ráðherra svo ég lét ofbeldið yfir mig ganga. Fylgdist síðan með handboltanum og þeim hluta blaðamannafundarins sem rausnast var til að sýna í hálfleik án þess að forvitnast frekar um ríkisstjórnarmyndunina í bili.

Auðvitað ber dagskrárstjóri ábyrgð á þessu. Þetta eru engar náttúruhamfarir. Þó tímasetningar raskist er um forgangsröðun mála að ræða. Fréttum hefur oft verið hent út í hafsauga vegna boltaleikja en hér tekur steininn úr. Sá sem ábyrgð ber á þessu hefur engan rétt til að segja að það hafi verið eitthvert kjaftæði sem fram fór á blaðamannafundinum, jafnvel þó honum hafi fundist það.

Það á að sjálfsögðu að reka þann afglapa sem réði þessu.

 

589. - Stjórnarmyndunarmenúettinn stiginn

Fjölmiðlungar eiga svo annríkt þessa dagana að þeir mega hvorki vera að því að borða eða sofa. Stjórnmálaleiðtogar safna snjókúlum af miklum ákafa og fela á ólíklegustu stöðum. Ekki veitir af vopnunum í komandi kosningaslag. 

Hörður Torfason stóð fyrir einni samkomunni enn á Austurvelli. Margar af þeim kröfum sem orðaðar hafa verið þar eru orðnar úreltar einfaldlega vegna þess að við þeim hefur verið orðið. Nýjasta krafan er að skora er á forsetann að skipa utanþingsstjórn. Þetta er ekki einu sinni á hans valdi ef alþingismönnum tekst að koma saman einhvers konar stjórn.

Það merkasta sem mögulegt er að fram komi núna er stjórnlagaþing. Ég óttast að eins fari fyrir því máli og eftirlaunaósómanum. Það verði einfaldlega talað í kaf. Ekkert mundi grafa eins undan valdi alþingismanna og ný stjórnarskrá.

Oft er talað um þrískiptingu valdsins. Á Íslandi er engin slík skipting. Alþingi ræður öllu. Óli reynir í örvæntingu að ná einhverju valdi til sín en Sjálfstæðismenn reyna jafnóðum að skjóta allt slíkt í kaf. Auðvitað er óæskilegt að ráðherraræðið sé eins mikið og það er. Framkvæmdavaldið getur þó alls ekki funkerað nema með samþykki Alþingis. Þetta samkrull kallast fulltrúalýðræði eða þingbundið lýðræði. Áður var hér þingbundin konungsstjórn. Þjóðin kom svo í staðinn fyrir kónginn og fékk að velja sér forseta. Bara til skrauts. Vald kóngsins kom frá Guði. Vald forsetans er ekki neitt.

Eitthvað er þó að breytast. Óli neitaði að skrifa undir lög og davíðinn fór í fýlu. Óli þykist hafa þingrofsvald og alles. Ekki þorði Geirharður að láta reyna á þetta með þingrofið. Tuldrar bara í barm sér: "Víst má ég rjúfa þing."

Einu sinni var ég prófdómari við Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi. Það var séra Árni Pálsson í Söðulsholti sem kom mér í það embætti og mér er nær að halda að þar hafi engin pólitík komið við sögu.

Eins og oft er í skólum voru allmargir kennarar við Laugagerðisskóla dálítið vinstrisinnaðir. Ekki man ég hver var menntamálaráðherra á þessum tíma en ég man að mest krassandi hryllingssagan sem sögð var í sambandi við kosningar sem stóðu fyrir dyrum var að ef menn gættu sín ekki þá gæti Ragnhildur Helgadóttir orðið næsti menntamálaráðherra.

Þetta rættist og ég varð meira að segja svo frægur að hitta hana eitt sinn á fundi ásamt fleirum í Menntamálaráðuneytinu við Hverfisgötu. Þar var líka Jónas Kristjánsson sem fulltrúi Videoson. Gott ef við vorum ekki að ræða um að Videokerfin í landinu tækju við rekstri Sjónvarpsins. Nei, segi bara svona. Man ekkert hvað við vorum að vilja þarna.

Síðan þetta var hafa Sjálfstæðismenn yfirleitt ráðið lögum og lofum í Menntamálaráðuneytinu eins og í landsstjórninni yfirleitt.

 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband