Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

578. - Meiri líkur fyrir Geir að halda flokksformennskunni ef hann segir strax af sér

Fór niður í bæ í dag. Fyrst á Austurvöll en þar voru engir mótmælendur. Þeir fundust svo við stjórnarráðið en fóru svo aftur á Austurvöll en ég heim. Hef horft og hlustað á fréttir og þessháttar í kvöld og það er engin ástæða til að vera að blogga mikið um þetta. Ríkisstjórnin mun tæpast lifa þetta af. Geir er þó enn í afneitun.

Langskynsamlegast væri fyrir ríkisstjórnina að semja strax með sæmilega skipulögðum hætti um kosningar og stjórnarfyrirkomulag fram að þeim. Ótrúlegt er að stjórnin lafi framyfir landsfund Sjálfstæðisflokksins og möguleikar Geirs eru meiri á að halda formannssætinu þar ef hann segir af sér núna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.


577. - Bankakreppan í orðræðunni og þónokkur spakmæli

Við lifum athyglisverða tíma núna. Ekki beinlínis spennandi og skemmtilega en áhugaverða. Í mínum augum eru það einkum tveir frasar sem eru einkennandi fyrir tímabilið.

„Þið eruð ekki þjóðin", sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Kannski sagði hún það ekki nákvæmlega svona en þannig lifa orð hennar í þjóðarsálinni. Hinn frasinn er óttaleg sletta en hljóðar svona: „Helvítis fokking fokk."

Um báðar þessar setningar mætti fjölyrða heil ósköp en ég ætla að stilla mig um það. Í dag finnst mér þeir báðir vera lýsandi fyrir ástandið eins og það er.

Munnlegur samningur er ekki virði pappírsins sem hann er skrifaður á.

Farðu að mínum ráðum, ég þarf ekki á þeim að halda.

Hreint skrifborð er merki um troðfullar skrifborðsskúffur.

A clean desk is a sign of a sick mind.

Sá sem brosir í erfiðleikum hefur fundið einhvern til að kenna um.

A feature is a bug with seniority!

Ef þér mistekst allt í fyrsta skipti er fallhlífarstökk ekki fyrir þig.

Sælir er unglingarnir því þeir munu skuldirnar erfa.

Stöðugar breytingar eru komnar til að vera.

Það er lífshættulegt að verða gamall.

Ekkert er svo einfalt að ekki sé hægt að klúðra því.

Nú, þegar ég hef gefið upp alla von, líður mér miklu betur.

Þegar þú ert farinn að skilja hvernig tölvan þín vinnur, þá er hún orðin úrelt.

Frestaðu því aldrei til morguns sem þú getur alveg eins gert hinndaginn

Samkvæmt lögmáli Arkímedesar léttist hlutur sem settur er í vatn um þriðjung þeirrar vegalengdar sem er auð og hindrunarlaus framundan.

Láttu mig vita ef þú hefur ekki fengið þetta bréf.

Enginn sleppur lifandi frá lífinu.

Númerið sem þú hringir úr hefur verið aftengt.


576. - Um deilurnar um áramótin og nokkur góð spakmæli

Ég veit ekki til þess að deila Sigurðar Þórs Guðjónssonar við þá sem ráða hjá blog.is sé leyst. Verst þykir mér ef menn eru ekki einu sinni að tala saman. Sigurður Þór á fullt erindi hingað sem forsíðubloggari eins og hann var. Ég veit að ég er ekki einn um þessa skoðun. Menn gleymast fljótt hér. Oftast kannski af eigin völdum. Sigurður Þór deildi á þá Moggabloggsmenn í sambandi við breytingarnar sem urðu um áramótin. Sjálfur var ég settur útaf sakramentinu um tíma en því var kippt í liðinn. Mín reynsla af þeim sem hér stjórna er fremur góð.

Ég hef verið að blogga um málfar að undanförnu. Hér koma nokkur gullvæg brot úr tjónaskýrslum tryggingarfélaga:

Ég rakst á kyrrstæðan vörubíl, sem var að koma úr hinni áttinni.

Ég hélt að bílglugginn væri opinn, þangað til ég hafði stungið höfðinu út um hann.

Ég sagði lögreglunni að ég væri ómeiddur, en þegar ég tók ofan hattinn komst ég að því að ég var höfuðkúpubrotinn.

Það kom bara ósýnilegur bíll, rakst á mig og hvarf.

Ég sá að gamli maðurinn mundi aldrei hafa það yfir götuna og keyrði því á hann.

Ég var búinn að keyra í 40 ár, þegar ég sofnaði við stýrið og lenti í slysinu.

Sá fótgangandi stóð og vissi ekkert í hvora áttina hann átti að fara svo ég keyrði yfir hann.

Ég var á leiðinni til læknisins, þegar púströrið datt aftur úr mér.

Ég var að reyna að drepa flugu og keyrði þarna á símastaurinn.

Hinn bíllinn keyrði beint á mig, án þess að gefa neitt merki um hvað hann ætlaði að gera.

Það bakkaði trukkur í gegnum rúðuna á mér og beint í andlitið á konunni.

Maðurinn var alls staðar á veginum, ég varð að taka heilmargar beygjur áður en ég rakst á hann.

Ég beygði frá vegbrúninni, rétt leit á tengdamömmu og hentist út af veginum hinum megin.

 

575. - Um Samfylkinguna og Evrópubandalagið

Skúli Helgason framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar ritaði nýlega pistil um bankakreppuna á vef flokksins. Undir lok pistilsins segir Skúli:

Þá þarf að gefa þjóðinni skýr fyrirheit um framtíðina, ákvörðun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu skiptir þar verulegu máli en jafnframt þarf að móta nýja atvinnustefnu, hefja markvissa gagnsókn gegn atvinnuleysinu, forgangsraða í þágu velferðarþjónustu og almannahagsmuna  í ríkisfjármálum og leggja fram raunhæfar tillögur um sparnað í ríkiskerfinu sem fékk að blása út í góðærinu.

Eins og í pistlinum öllum er þarna um almennt snakk að ræða sem ekki er átakamikið að taka undir. Ég vil þó gera athugasemd við eina setningu þarna. Talað er um að aðildarumsókn að Evrópusambandinu skipti verulegu máli. Þetta er tóm vitleysa. Aðildarumsóknin skiptir engu sérstöku máli í þessu sambandi og þetta er bara sett þarna vegna þess að það er í samræmi við stefnuskrá flokksins.

Þetta segi ég þó ég sé í öllum meginatriðum fylgjandi aðild að Evrópusambandinu og hafi kosið Samfylkinguna í síðustu kosningum. Ef raunverulega á að ná einhverri samstöðu meðal þjóðarinnar um siðbót í stjórnmálum er engin ástæða til að auka á sundrungina með svona flokkspólitísku japli. 

Meirihluti þjóðarinnar er búinn að fá nóg að duglausum stjórnmálamönnum. Ef nota á tækifærið til að koma pólitískum hugðarefnum í gegn þegar nauðsynleg siðbót á sér stað er eins gott að vera án flokkanna. Það er rétt hjá Helga að lagalega séð er engin nauðsyn fyrir núverandi ríkisstjórn að fara frá fyrr en kjörtímabilinu er lokið árið 2011. Hins vegar er alveg öruggt að næsta vor verður krafan um kosningar orðin svo hávær að enginn flokkur getur staðið þar á móti.

Það getur vel verið að þá verði aðildarviðræður við Evrópusambandið hafnar en það verður ekki vegna þess að það sé nauðsynlegt siðbótarinnar vegna heldur vegna breyttrar stefnu ríkisstjórnarinnar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamning mun örugglega fara fram síðar en næstu Alþingiskosningar og þessvegna er óþarfi fyrir flokksbroddana að láta svona. Þeir eru bara að reyna að dreifa huga fólks frá efnahagsþrengingum komandi mánaða.

 

574. - Ég sný ekki roðið tvisvar í tíkina.

Er samt kannski einmitt að því. Þetta er eitt af þeim orðatiltækjum sem ég kann án þess að skilja nokkuð hvað meint er með því. Veit ekki heldur hvernig það er til komið. Samt þykist ég þess umkominn að segja öðrum til í sambandi við málfar.

Einhver fetti fingur útí að ég notaði orðið komment. Auðvitað er það sletta. Vel má segja athugasemd í staðinn. Merkingin finnst mér þó vera svolítið önnur. Mér finnst slettur ekki skipta miklu hvað málfar snertir. Öðrum kann þó að finnast svo. Ef slettur skiljast vel, laga sig sæmilega að beygingum og eru ekki alltof margar tek ég varla eftir þeim. Í setningafræði, kommusetningu og þess háttar, er ég alveg úti á þekju. Veit heldur ekki mikið um litla stafi og stóra. Það aftrar mér þó ekki frá því að láta móðann mása.

Fáir hafa orðið til þess að mótmæla mínum skilningi á því sem Sigmundur Ernir sagði (blogg nr. 571) svo ég tek þögn sem samþykki og held ótrauður áfram.

Einu sinni notaði ég póstforritið Elm. Það var löngu fyrir daga vafranna. Ný og ennþá fínni póstforrit komu og fóru en ég hélt áfram að nota Elm. Svo var mér sagt að ég væri síðasti Íslendingurinn sem notaði þennan forngrip. Þá hætti ég.

Ég er ekki enn farinn að skrá mig á fésbókina og verð líklega síðastur íslendinga til þess ef marka má sjónvarpsfréttir. Hvað er allt þetta fólk annars að gera á Facebook? Væri ekki nær að reyna að blogga smá?

Annars var fésbókaratriðið í áramótaskaupinu með því eftirminnilegasta sem þar var. Svo var zombinn sem vildi fá sætið á bekknum við Tjörnina líka góður.

Af hverju hafa svona margir horn í síðu bloggsins? Kannski er fólk svona góðu vant. Einu sinni var mest af því sem lesið var vandaður texti. Í bókum þar sem textinn var marglesinn yfir og hnökrar sniðnir af og blöðum sem voru prófarkalesin af þaulvönum mönnum. Bloggið er laust við þetta og þessvegna er textinn lélegur. Ætlast er til að fólk taki viljann fyrir verkið. Netskrif má helst ekki gagnrýna.

 

573. - Fjöldi fólks er illa staddur þegar kemur að málfari. Hugleiðingar um það og minningar frá Borgarnesi

Um daginn gagnrýndi ég Sigmund Erni Rúnarsson fyrir málfar í fréttum Stöðvar 2. (Blogg nr. 571) Nokkuð var fjallað um þetta í kommentum við þá færslu og voru menn bæði með og á móti því sem ég sagði. Ég er enn sömu skoðunar og þá. Mér finnst þetta skipta máli þó margir vilji fremur tala um annað. 

Þegar ég var verslunarstjóri í byggingavörudeild Kaupfélags Borgfirðinga í Borgarnesi fór ég öðru hvoru til Reykjavíkur til innkaupa. Þá var meira mál en nú að skreppa í höfuðstaðinn. Venjulega fóru í þetta tveir dagar. Oftast gisti ég á Hótel Esju. Stundum sofnaði ég útfrá útvarpinu og ég man eftir að í tvö skipti heyrði ég í svefnrofunum minnst á það í fyrstu fréttum að páfinn í Róm væri dauður. Í seinna skiptið hélt ég í alvöru að ég væri að upplifa eitthvert meiriháttar Deja Vu og varð heltekinn af þeirri hugsun. Auðvitað stóðst það ekki nánari skoðun. Aumingja páfinn hafði bara lifað svona stutt í embætti.

Einhvern tíma var ég í Holtagörðum í ferð af þessu tagi og fékk mér að borða þar með Gísla Sumarliðasyni. Þá var frá því sagt í hádegisfréttunum að einhver Sovétleiðtogi hefði hrokkið upp af. Um þetta ræddum við Gísli og ég spáði því að Andropov mundi taka við. Það var reyndar eina rússneska nafnið sem ég mundi eftir í svipinn. Mikil varð svo undrun mín nokkrum dögum seinna þegar frá því var sagt í fréttum að Andropov þessi hefði tekið við sem Sovétleiðtogi.

Egils saga er eflaust skyldulesning fyrir alla Borgnesina. Þegar dóttir mín var svona fjögurra eða fimm ára las ég fyrir hana kafla úr Egilssögu. Ég man að minnst er á Sandvík í sögunni og að hún sagði undrandi: "Ha. Niðri í Sandvík? Hér?" Hún lifði sig inn í frásagnirnar af Agli og þegar hún byrjaði í skólanum lenti hún í stælum við kennarann um aldur Egils þegar hann fékk ekki að fara með í veisluna úti á Ökrum vegna þess hve vondur hann var með víni.

Í Borgarnesi bjó ég á nokkrum stöðum. Síðast í blokk að Hrafnakletti 6. Í hana flutti ég strax og hún var fullbyggð. Íbúðirnar í stigaganginum sem ég bjó í voru rúmlega 10 minnir mig. Á einum stað var köttur. Eitt af fyrstu verkum húsfélagsins var að samþykkja bann við kattahaldi. Mér fannst það bara vera vegna þess að það var hægt. Mótmælti því og fór í fússi af fundinum þegar ég var ofurliði borinn. Ekki man ég hvað varð af kettinum.

Í bloggi mínu númer 570 var minnst á skemmtilega afbakaða talshætti. Nokkrir hafa orðið til að bæta við í kommentum. Núna er listinn einhvern vegin svona:

Hann kom eins og þjófur úr heiðskíru lofti.
Hann lenti milli steins og steggja.
Róm var ekki byggð á einni nóttu.
Það er ekki hundur í hættunni.
Betra er að hafa vaðið fyrir ofan sig.
Þar kom horn úr hljóði.
Þegar í harðfennið slær.
Þetta er nú ekkert til að hlaupa húrra yfir.
Þið eruð eitthvað svo spænskir á svipinn.
Ekki fyrr en eftir djúpan disk.
Láttu ekki slá um þig. Þú gætir forskalast.
Hann steig ekki feilnótu í leiknum.
Það þýðir ekkert að efna og efna, en lofa svo aldrei neinu.
Að hellast úr lestinni.
Svo lengist lærið sem lífið.

 

572. - Að blogga um annað en Þjóðargjaldþrotið með stórum staf

Jóna Á. Gísladóttir segist ætla að opna nýja bloggsíðu. Skil hana vel. Mér líður ekki alltaf vel hér á Moggablogginu innan um alla mannkynsfrelsarana. Ætla samt að halda eitthvað áfram. Verst er að mörgum finnst bloggið vera upphaf og endir alls. Víst er það mikilvægt og mér finnst það vera að taka yfir hlutverk hinna hefðbundnu fjölmiðla sem hafa staðið sig illa undanfarið. 

Gamlar minningar eru oft ruglingslegar að því leyti að erfitt er að tímasetja þær.

Eitt sinn var ég í heimsókn á Víðimelnum. Ekki veit ég hve gamall ég var en ég fór með einhverjum af krökkunum þeirra Ingu og Gunnars á leikvöll við Hringbrautina. Líklega hefur það verið gæsluvöllur og ég þá hugsanlega sex ára eða yngri. Finnst þó að ég hljóti að hafa verið eitthvað eldri. Trúlega var það Valli sem fór með mér á leikvöllinn.

Þarna voru allmargir krakkar að leika sér við ýmislegt. Meðal annars voru tveir strákar að leika sér í fótbolta. Markið var hliðgrind nokkur svona einn metri á hæð og nokkuð breið. Hliðið var í steinvegg. Þeir skutu á markið til skiptis og ég horfði á. Eftir eitt skotið kom þeim ekki saman um hvort boltinn hefði farið yfir hliðgrindina eða til hliðar við hana og rifust nokkuð um það. Skyndilega segir annar: "Spyrjum strákinn þarna. Hann sá það áreiðanlega."

Hann átti greinilega við mig og ég man að mér brá ónotalega því strákarnir voru af einhverjum ástæðum orðnið talsvert æstir. Ég hafði horft á þegar skotið var og séð greinilega að boltinn fór yfir hliðgrindina en ekki framhjá henni. Ég þorði samt ekki að segja annað en að boltinn hefði eiginlega farið yfir samskeytin þar sem hriðgrindin og veggurinn komu saman. Ég man ekki hvernig þetta fór á endanum og skil ekki hvers vegna þetta ómerkilega atvik er mér svona minnisstætt.

Kannski hefur mér einhverntíma þótt þetta gott dæmi um ákvarðanafælni mína og flótta frá öllum óþægindum. Einhvers staðar hef ég lesið að minningar okkar séu margar þannig til komnar að hugurinn sé sífellt að fara yfir þær og endurraða ýmsum brotum. Þau sem lengst lifa eru stundum ekkert merkileg nema frá eigin sjónarmiði og hafa kannski bara verið það einhvern tíma. Af hverju atvikin fara ekki í ruslakistuna eins og mörg önnur veit ég ekki.

 

571. - Slæmt málfar er alltof algengt í íslenskum fjölmiðlum

"Fjöldi fólks er nú illa statt" sagði Sigmundur Ernir í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Öllum getur misskátlast sagði kerlingin forðum og allir eiga leiðréttingu orða sinna. Þarna tel ég að það sé fjöldinn sem ræður kyninu en ekki fólkið. Rétt væri setningin þá svona: "Fjöldi fólks er nú illa staddur".

Auðvelt er að breyta orðalagi ef fólk er í vafa. Gera verður afdráttarlausar og miklar kröfur til helstu fjölmiðla þjóðarinnar. Stöð 2 er ekkert mbl.is þar sem óvaningar fá að æfa sig og gera mikið af vitleysum.

Í færslu minni í gær var vitnað til samsláttar á máltækjum hjá sálfræðingi í Silfrinu á sunnudaginn var. Í framhaldi af því urðu nokkrar umræður í kommentakerfinu sem benda má þeim á sem kunna að meta fyndnar afbakanir.

Í færslunni í gær skrifaði ég líka svolítið um skák en vísaði um nánari umfjöllun á Hrannar Baldursson. Kommentaði líka hjá Hrannari eða ætlaði að gera það. Kommentið fór svo frá mér öðruvísi en ég ætlaði en mér fannst það svo gott að ég ákvað að segja ekki meira.

Hvað er það sem Bush Bandaríkjaforseti sér mest eftir úr forsetatíð sinni? Jú, því að hafa lýst of fljótt yfir sigri í stríðinu við Íraka. Mikið væri veröldin öðruvísi ef meirihluti fólks áliti þetta hans verstu mistök. Áberandi er hve góðar óskir fylgja nýjum Bandaríkjaforseta hvarvetna að úr heiminum.

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að íslensk stjórnvöld hafa staðið sig mjög illa í snjómokstrinum eftir bankahrunið. Ingibjörg Sólrún hefur lýst því fjálglega hve mikið hún hefur lagt sig fram við moksturinn. Betra hefði verið að fá stórvirkari tæki strax og jafnvel væri réttast að leita núna út fyrir landsteinana þó seint sé.

 

570. - Um árangur í stjórnkerfismálum, skák og sálfræðing í Silfrinu

Til að árangur náist í stjórnkerfismálum þarf að einhenda sér í þau. Leggja smámál eins og bankahrun, aðild að Evrópusambandinu, kvótamál, stóriðju og þessháttar til hliðar í bili. Margir virðast sammála um að stjórnkerfisbreytingar séu nauðsynlegar. Jafnvel virðist talsverð samstaða um hvernig þessar breytingar skuli vera. Til að árangur náist líst mér best á tillögu Egils Jóhannssonar í Brimborg um Sjálfseyðingarflokkinn. Verði tryggt að flokkurinn stefni eingöngu að stjórnkerfisbreytingum og verði örugglega lagður niður mjög fljótlega þegar búið er að ákveða aðrar kosningar eftir þær fyrstu er von til þónokkurs fylgis. Að stofna nýja flokka til að koma mönnum á þing og vasast í allskyns málum eykur bara ruglið. 

9-year-old Hetul Shah (India) youngest ever to beat a GM. (Fyrirsögn í skákfréttablaði)

Níu ára gutti vinnur stórmeistara í skák. Ótrúlegt. Nú má Maggi litli Carlsen frá Noregi fara að vara sig. Nánar um þetta á blogginu hjá Hrannari Baldurs.

Sálfræðingur í Silfrinu hjá Agli á sunnudaginn sagði að kreppan hefði komið eins og þjófur úr heiðskíru lofti. Þarna er blandað saman tveimur þekktum orðtökum. Að koma eins og þruma úr heiðskíru loft og að koma eins og þjófur á nóttu. Kannski gerði sálfræðingurinn þetta viljandi og þótti fyndið. Þá var hann líka viljandi að rugla þá sem tóku eftir þessu. Þessi sálfræðingur hafði annars margt gott til málanna að leggja en talaði alltof hratt og var of óskýrmæltur.

Egill hefur bætt sig að undanförnu og er farinn að losa sig meira og minna við stjórnmálamennina sem áður voru eins og gráir kettir í þættinum hjá honum.

 

569. - Almenn mótmæli og ný stjórnskipan

Ástþór Magnússon fer víða og lætur mikið fyrir sér fara. Sumt af gagnrýni hans á rétt á sér. Hann sér vinstri slagsíðu á mótmælunum á Austurvelli. Spyrðir öll mótmæli saman og er á móti þeim ef þau falla ekki að jólasveinaheimspeki hans. Eitthvað er að í mótmælunum á Austurvelli. Það er ekki eðlilegt að þátttakendum þar fari fækkandi. Ekki er ástandið að batna. Það kann að vera eitthvað til í þessu með vinstri slagsíðuna. Alltaf var hætta á að stjórnmálaskoðanir að öðru leyti hefðu áhrif á mótmælin. Leggja þarf áherslu á að ná til þeirra sem kunna að vera svolítið hægrisinnaðir í stjórnmálaskoðunum en eru samt mjög á móti ástandinu í landinu. 

Margt er það við mótmælin á Austurvelli sem hefur tekist vel en þó ekki allt. Huga þarf að kröfunum, lengd fundanna, fundartíma, ræðumönnum, áróðri fyrir mætingu, samskiptum við lögregluna, klæðaburði, veðri og mörgu fleiru. Ef fundarmönnum fer fækkandi þá er lítið gagn að því að segja: „Ja, Íslendingar eru bara svo vitlausir og óvanir mótmælaaðgerðum að það er ekkert að marka þetta." Ég segi að það sé bara eitthvað vitlaust við umgerð fundanna. Önnur mótmæli af ýmsum toga sýna að almenn mótmæli af því tagi sem stunduð eru á laugardögum á Austurvelli eiga rétt á sér. Stjórnmálamenn reyna eins og þeir geta að koma sínum stimpli á mótmælin.

Hörður Torfason var í þættinum hjá Agli Helgasyni í dag og vildi ekki viðurkenna að mótmælendum fari fækkandi. Almenn mótmæli með fáum og einföldum kröfum eiga fyllsta rétt á sér og mótmælin núna eru til marks um nýja tíma í íslenskum stjórnmálum. Njörður P. Njarðvík mælti í þættinum fyrir hugmyndum um nýja stjórnskipun landsins sem áreiðanlega eiga mikinn hljómgrunn hjá þjóðinni en sennilega lítinn hjá sjálftökuliði flokkanna. Ef núverandi flokkar fá ekki mikinn skell í næstu kosningum mun þó fátt breytast. Best væri auðvitað að eitthvað mikið breyttist fyrir kosningar en það er ólíklegt. Flokkarnir með stóru effi munu nú á næstunni reyna að eigna sér ýmsar hugmyndir um breytta stjórnskipan en sannleikurinn er sá að eingöngu án þeirra verða einhverjar markverðar breytingar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband