575. - Um Samfylkinguna og Evrópubandalagið

Skúli Helgason framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar ritaði nýlega pistil um bankakreppuna á vef flokksins. Undir lok pistilsins segir Skúli:

Þá þarf að gefa þjóðinni skýr fyrirheit um framtíðina, ákvörðun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu skiptir þar verulegu máli en jafnframt þarf að móta nýja atvinnustefnu, hefja markvissa gagnsókn gegn atvinnuleysinu, forgangsraða í þágu velferðarþjónustu og almannahagsmuna  í ríkisfjármálum og leggja fram raunhæfar tillögur um sparnað í ríkiskerfinu sem fékk að blása út í góðærinu.

Eins og í pistlinum öllum er þarna um almennt snakk að ræða sem ekki er átakamikið að taka undir. Ég vil þó gera athugasemd við eina setningu þarna. Talað er um að aðildarumsókn að Evrópusambandinu skipti verulegu máli. Þetta er tóm vitleysa. Aðildarumsóknin skiptir engu sérstöku máli í þessu sambandi og þetta er bara sett þarna vegna þess að það er í samræmi við stefnuskrá flokksins.

Þetta segi ég þó ég sé í öllum meginatriðum fylgjandi aðild að Evrópusambandinu og hafi kosið Samfylkinguna í síðustu kosningum. Ef raunverulega á að ná einhverri samstöðu meðal þjóðarinnar um siðbót í stjórnmálum er engin ástæða til að auka á sundrungina með svona flokkspólitísku japli. 

Meirihluti þjóðarinnar er búinn að fá nóg að duglausum stjórnmálamönnum. Ef nota á tækifærið til að koma pólitískum hugðarefnum í gegn þegar nauðsynleg siðbót á sér stað er eins gott að vera án flokkanna. Það er rétt hjá Helga að lagalega séð er engin nauðsyn fyrir núverandi ríkisstjórn að fara frá fyrr en kjörtímabilinu er lokið árið 2011. Hins vegar er alveg öruggt að næsta vor verður krafan um kosningar orðin svo hávær að enginn flokkur getur staðið þar á móti.

Það getur vel verið að þá verði aðildarviðræður við Evrópusambandið hafnar en það verður ekki vegna þess að það sé nauðsynlegt siðbótarinnar vegna heldur vegna breyttrar stefnu ríkisstjórnarinnar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamning mun örugglega fara fram síðar en næstu Alþingiskosningar og þessvegna er óþarfi fyrir flokksbroddana að láta svona. Þeir eru bara að reyna að dreifa huga fólks frá efnahagsþrengingum komandi mánaða.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér þykir mjög vænt um það að þú skulir hafa komið auga á þetta.

Ekki hvað síst fyrir það að ég þykist vita í hvoru liðinu þú hafir verið.

Ég er mjög harður andstæðingur ESB aðildar og mér svíður rosalega þegar sumir ráðamenn eru að notfæra sér ástandið nú af öllum mætti og oft vondum meðulum líka til að reyna að einhenda þjóðini inní ESB, sama hvað það kostar.

Þetta virðist fyrir suma vera eins og heitustu trúarbrögð.

Einnig finnst mér sumir líka reyna að rugla um ESB aðild fram og aftur til að breiða yfir eigin skít og öll vandmálin og þannig rugla fólk í ríminu.

Slíkt vitleysis tal verður bara til þess að hrunið verður enn dýpra og verra og seinkar því að raunveruleg uppbygging geti hafist í þjóðfélaginu.

Því finnst mér ESB sinnar vera að fiska í kogruggugu vatni og veifa oftast röngu tré.

Að ætla að reyna að keyra í gegn aðildarumsókn að ESB nú í þessu ástandi yrði aðeins til þess að kljúfa þjóðina uppí tvær hatrammar fylkingar sem berðust á banaspjótum.

Vegna þess að í þessum málum eru mjög heitar þjóðlegar tilfinningar hjá okkur sem berjumst gegn aðild og við látum ekki okkar hlut eftir án baráttu, það er alveg víst.

Slík Þjóðar sundrung yrði sem fleinn í hold þjóðarinnar og er alls ekki það sem þjóðin þarf helst á að halda núna.

Gunnlaugur Ingvarsson 18.1.2009 kl. 10:43

2 identicon

Mínar heitustu tilfinningar í þessu máli og öðrum sem snúa að efnahagshruninu eru ekki þjóðlegar heldur snúast um tækifæri barnanna minna til að búa við mannsæmandi lífskjör, tækifæri til mennta og valkosta um búsetu og störf í opnum heimi. Til að það megi verða er lykilatriði fyrir þjóðina að endurheimta trúverðugleika á alþjóðavettvangi. Formlegar aðildarviðræður við ESB væri skýr skilaboð til furðu lostinna útlendinga hvaða leið við viljum fara til að taka upp trúverðugan gjaldmiðil og skapa stöðugleika. Eins og staðan er núna er algerlega óljóst hvert þetta þjóðfélag stefnir og sú óvissa er kæfandi, bæði fyrir almenning og atvinnulífið.

Ég mun ekki gefa tækifæri barnanna minna eða kröfuna um að mótuð verði stefni í peningamálum þjóðarinnar og alþjóðasamskiptum upp á bátinn án baráttu og finnst satt að segja frekar ömurlegt að sitja undir ásökunum um að "notfæra" mér ástandið til að koma taka mikilvægar ákvarðanir. Hvenær á að taka slíkar ákvarðanir ef ekki þegar þeirra er mest þörf og framtíðartækifæri okkar eru í húfi?

Mín börn munu ekki lifa á heitum þjóðlegum tilfinningum, við þurfum viðskiptafrelsi og vaxtartækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf.

Arnar 18.1.2009 kl. 13:23

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst mestu máli skipta að þjóðin verði sameinuð í því að koma á siðbót í stjórnmálum. Allt sem er umdeilt og skiptir fólki í hópa á að leggja til hliðar til að ná þeirri samstöðu. Auðvitað er hægt að vinna að málum samtímis en næstu kosningar eiga eingöngu að snúast um þessa siðbót. Stjórnmálamenn sem halda ýmsum flokkstengdum málum fram á að sniðganga.

Sæmundur Bjarnason, 18.1.2009 kl. 15:28

4 identicon

Varðandi innlegg arnars hér að ofan langar mig að leggja orð í belg.

Börnin mín bjuggu við mannsæmandi lífskjör alveg þangað til menn urðu svo uppteknir af alþjóðavæðingu og einkavæðingu og álvæðingu.  Eftir þetta glannalega fyllerí sem við höfum verið á þá hafa timurmennirnir tekið völdin. Þjóðin er skuldsett upp í rjáfur og reikningurinn sendur barnabörnum mínum. 

Í þessari upplausn allri hafa lýðskurmararnir komið fram og boða allsherjarlausn í einhverju ESB og evru.  Orðræða án innihalds.  Engar skýringar á hvað er gott og hvað ekki.  "Þetta er bara gott".  Annað er kallað áróður.  Og fjölmiðlungar taka undir sönginn og flytja trúboð þessara lýðskrumara gagnrýnislaust og neit að tala við þá sem efast og benda á veiku hliðarnar.  Kalla það bara áróður og slíkt birti þeir ekki né segi frá.  

Það vantar vitræna umræðu um þessa hluti en fyrst þurfum við að koma okkur út úr vandamálum dagsins til að börn og okkar og barnabörn geti um frjálst höfuð strokið í framtíðinni. 

Áróður um ESB til lausnar vanda dagsins er bara ekki það sem við þurfum að deila um ofan á allt annað.  

Sú umræða hefur sinni tíma. 

101 18.1.2009 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband