Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
11.1.2009 | 03:34
568. - Hvurslags er þetta? Einu sinni enn er bloggað um blogg.
Fólk sérhæfir sig. Líka í bloggi. Sumir skrifa aðallega um bankahrunið. Sumir um stjórnmál almennt (oftst nær þó um of bundnir á flokksklafa). Sumir um fréttir. Sumir skrifa oft. Aðrir sjaldan. Sumir krækja í fréttir á mbl.is (já, ég er aðallega að tala um Moggabloggara) og aðrir ekki. Sumir vilja fræða. Sumir skrifa einkum fyrir fjölskyldu og ættingja. Sumir um trúmál, aðrir um veður og svo blanda margir þessu saman með ýmsu móti. Sumir eru forsíðubloggarar og aðrir ekki.
Fáir skrifa um blogg almennt. Það er galli. Fjölmiðlar og blogg eru afar áhugavert efni. Það eru svo margir miklu betur að sér en ég um fjármálakima hverskonar að ekki sé talað um stjórnmál og Evrópumál að mitt ljós skín ekki skært þar. Fríðrik Þór og fleiri skrifa oft af mikilli þekkingu um fjölmiðla. Salvör er með fróðustu mönnum um blogg.
Blogg og athugasemdir við það eru að breyta stjórnmálalandslaginu hér. Vald hinna hefðbundnu fjölmiðla yfir hugum fólks er að minnka. Hlutverk þeirra er að matreiða fréttir. Ekki fyrst og fremst að segja frá þeim. Bloggarar eru að því leyti líkir fjölmiðlum að þeir reyna oftast líka að matreiða fréttirnar. Eru bara svo margir og lesendur vinsa miskunnarlaust úr.
Héðan í frá mun ég blogga sjaldnar en verið hefur og reyna að stytta bloggin. Það er nokkurs virði að komast öðru hvoru í hóp þeirra átta sem sem birtast á forsíðu blog.is. Ætlaði að mæta á Austurvelli í dag en komst ekki. Styð þó Hörð Torfasom án þess að skammast mín nokkuð fyrir það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.1.2009 | 02:02
567. - Kominn aftur á forsíðuna að ég held.
Fékk bréf áðan frá Árna Matthíassyni og skilst að það sem ég bloggaði um fyrir nokkru hafi verið samþykkt. Samkvæmt því ætti ég að vera orðinn forsíðubloggari aftur og læt semsagt á það reyna núna. Litlu súlurnar á talningablaðinu mínu eru nokkrar. Greinilega fæ ég mun færri heimsóknir þegar ég er ekki á forsíðunni. Það er hvíld að skrifa fyrir fáa og óþarfi að rembast við að blogga daglega. Hættur því.
Ég get ekki áfellst Moggabloggið fyrir að vilja hafa reglur einfaldar og skýrar. Ég samþykki alveg fyrir mitt leyti ritstýringaráráttuna. Margir eru ævinlega tilbúnir að hallmæla Moggablogginu. Ekki ég. Mér finnst þetta hafa tekist vel hjá þeim. Ómögulegt með öllu er að allir séu ánægðir því fjöldinn er mikill. Bloggið á Íslandi hefur breyst verulega með tilkomu Moggabloggsins. Þetta er umræða sem er markverð. Margir segjast aldrei lesa en gera samt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.1.2009 | 09:07
566. - Evrópusambandið, samfélagssinnar og kommúnistar.
Ég er orðinn leiður á að skrifa bara um hrunið mikla. Ef ég á að skrifa um málefni dagsins þá eru mér Evrópumálin hugstæðari um þessar mundir. Ég vil þó ekki á neinn hátt tengja aðildarumsókn hruninu. Upptaka evru tengist heldur ekki þessum málum. Evran kemur bara eða kemur ekki þegar þar að kemur. En úr því að þessi mál eru komin á dagskrá og Heimssýn hefur allt í einu öðlast tilgang þá er ekkert í veginum með að ræða þessi mál.
Hræddur er ég um að andstæðingar EU-aðildar séu að gera mistök í því að krefjast tvöfaldra kosninga. Kannski óttast þeir að aðildarviðræður skili viðunandi árangri og því sé um að gera að reyna að þyrla upp sem mestu moldviðri fyrir kosningu um það hvort fara eigi í viðræður. Ég sé engar líkur á að felt verði að fara í aðildarviðræður. Hvað er svosem að óttast? Að stóri ESB-drekinn komi og éti okkur? Ég held varla. Tvöfaldar kosningar geta verið ákveðin lausn fyrir stjórnmálaflokka sem vilja komast hjá klofningi eða fresta honum sem allra mest. Þetta mál er þó alls ekki flokkspólitískt og ber að forða því frá því þrefi sem þar tröllríður öllu.
Mest um vert tel ég hinsvegar að stjórnarflokkarnir báðir vilja reyna að koma í veg fyrir að næstu kosningar snúist um hrunið mikla. Sennilega hefur Geirharður gert mistök í því að fara í fötin hans Guðna og heimta tvennar kosningar og Imba snúið á hann.
Það er andlitsleysið sem vekur mestan ótta andstæðinga samfélagssinna og kommúista eins og Helgi Jóhann Hauksson segir. Það var andlitsleysið sem Ingibjörg Sólrún hafði áhyggjur af í kryddsíldarveislunni endasleppu. Það var andlitsleysið sem Eyþóri Árnasyni sviðsstjóra við Stöð 2 líkaði verst við í stympingum sínum við mótmælendur í Hótelborgarslagnum. Það er andlitsleysið sem Helgi Jóhann líkir við skilríkjabrennur Gandhis í Suður Afríku.
En eigum við samfélagssinnar að halda til streitu aðferðum sem vekja mestan ótta hjá víkingasveitum andstæðinga okkar? Ekki endilega. Við verðum að treysta því að lögreglan hafi samúð með okkur að vissu marki að minnsta kosti og andlitsleysið truflar störf hennar og gerir þau erfiðari. Ef tök andstæðinganna á lögreglunni eru fullkomin gagnast slíkt auðvitað einkum þeim en ég trúi ekki að svo sé.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2009 | 00:12
565. - Um ESB-aðild, sprengjur, skotelda og hvers kyns óáran
Í raun er það svo hér á Íslandi að hverjum sem er leyfist að puðra hverskyns sprengjum og skoteldum hvert sem er og hvar sem er í þrettán daga á ári. Frá jólum og fram á þrettándann. Allra síst skiptir lögreglan sér af þessu.
Ekki mundi ég vilja lenda í einhverju óláni á þessum tíma. Enginn tekur mark á neinum hvellum eða ljósblossum en halda bara áfram að éta sitt laufabrauð og drekka sitt malt og appelsín. Líka eru hvers kyns rán og innbrot afar heppileg um þetta leyti.
Auðvitað ætti meðferð hvers kyns skotelda að vera bönnuð öllum alltaf nema tilskilin leyfi komi til. Mér skilst að nú séu hvers kyns varðeldar með öllu bannaðir nema þeir séu í samræmi við gildandi brunavarnarsamþykktir og viðkenndir af slökkviliðum og björgunarsveitum.
Sennilega verður ekki lögum komið yfir þennan ófögnuð fyrr en við göngum í ESB. Þá er trúlegt að við neyðumst til að haga okkur eins og siðmenntað fólk.
Þetta heitir að drepa málum á dreif. Auðvitað lætur enginn afstöðu sína til inngöngu í Evrópusambandið ráðast á svona fáfengilegu og lítilvægu atriði. Það að ganga í ESB bindur hendur komandi kynslóða og verður ekki aftur tekið. Þessvegna er það svo nauðsynlegt að sem allra mest og upplýstust umræða fari fram um Evrópusambandið og hugsanlega aðild að því.
Sá um daginn í fréttum að við Fjölbrautaskólann á Akranesi er boðið upp á nám í Evrópufræðum. Ekki veitir af. Svo er hægt að halda áfram og fara í Háskólann að Bifröst í læri hjá Eiríki Bergmann. Hann er nú víst hlynntur aðild en andstæðingar aðildar hefðu áreiðanlega líka gott af þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2009 | 00:20
564. - Seint fyllist sálin prestanna. (Orðtak um ágjarnt fólk)
Orðtök eru stundum runnin frá þjóðsögum. Þau eru ekkert verri fyrir það. "Ýsa var það heillin" segja eflaust margir án þess að hugsa nokkuð um þjóðsöguna sem það orðtak er byggt á. "Seint fyllist sálin prestanna" er ekki algengt orðtak en þekkist þó. Um uppruna þess má lesa í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Sú saga er hér í lauslegri endursögn. Sál getur þýtt einhverskonar poki eða taska og gerir það í þessu tilfelli. Kölski kemur víða við sögu í íslenskum þjóðsögum. Ein þeirra fjallar um að maður nokkur bað sér stúlku en hún neitaði honum. Útaf þessu varð maðurinn hugsjúkur mjög og rölti eitthvað út í haga. Þar kom þá maður einn til hans (Kölski) og bauðst til að telja stúlkunni hughvarf. Manngreyinu fannst ekkert gera til þó hann þæði það boð. Aðkomumaður vildi að hann yrði vinnumaður sinn ef þetta gengi eftir og kvaðst koma aftur að ári liðnu. Stúlkunni snarsnerist hugur og giftust þau nú í snatri og urðu samfarir þeirra góðar. Þegar næstum ár var liðið fór maðurinn að velta mikið fyrir sér hvernig þetta færi allt saman. Leitaði til prestsins síns og sagði honum alla sólarsöguna. Prestur sá strax að hér var illt í efni og ráðlagði manninum að heimta að aðkomumaðurinn fyllti sál eina með peningum og mætti hann þá eiga sig. Eftir fyrirsögn prests var nú hóll nokkur holaður að innan og opnaður efst og þar í sett botnlaus sál. Þegar Kölski kom og vildi heimta vinnumanninn bað hann um að taskan efst á hólnum yrði fyllt af silfurpeningum og samþykkti Kölski það. Sótti síðan peninga og setti í sálina. Síðan meira, enn meira og svo enn og aftur miklu meira en ekki gekk rófan. Sagði að lokum: "Seint fyllist sálin prestanna" og stökk í burtu. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.1.2009 | 00:10
563. - Jú, það ber ekki á öðru. Ég er orðinn ósýnilegur eins og fleiri. Líka svolítið um kryddsíldaruppþotið við Hótel Borg.
Nánar tiltekið þá hafa Moggabloggsguðirnir tekið mig af einhverjum listum og nú birtist upphafið á bloggum mínum ekki á forsíðunni og ekki í upplýsingum um nýjustu bloggin. Ég get víst heldur ekki linkað í fréttir á mbl.is en það hef ég hvort eð er ekki gert svo það er bættur skaðinn. Þetta hefur eitthvað með samkeyrslu þeirra Moggamanna á sínum eigin kennitölulistum og þjóðskránni að gera. Eitt er gott við þetta og það er að nú ættu þær tölulegu upplýsingar um heimsóknir sem ég fæ að vera raunverulegri. Eflaust hefur stundum verið tilviljanakennt áður hverjir hafa rekist hingað inn. Kannski hefur þetta einhver áhrif á hve oft ég skrifa og hvernig. Sjáum til. Stuðningur við eða andúð á ákveðnum atburðum fer mest eftir þeim upplýsingum sem maður fær. Uppþotið við Hótel Borg á gamlársdag ber langhæst í allri fréttaumfjöllum. Sjálfum finnst mér frásögn Eyþórs Árnasonar sviðsstjóra hjá Stöð 2 og bloggvini mínum bera af. Auðvitað varð hann ekki sjónarvottur að öllu sem gerðist þarna. Hann lætur líka vera að dæma um það sem hann sá ekki. Eru þeir kallaðir stúdentar af því að þeir eru alltaf að stúta rúðum?" spurði sonur minn sem var nýfarinn að tala þegar sem mest gekk á í óeirðum víða um heim fyrir margt löngu. Til dæmis í París en þó ekki að ráði á Íslandi. Nú eru alvöru óeirðir ef til vill að skella á okkur Íslendingum. Mér virðist sem aðalágreiningurinn milli mótmælendahópa sé hvort hylja skuli andlitið eður ei. Engir vilja meiða aðra. Ekki heldur lögreglan. Andlitsleysi fylgja oft óeirðir sem leiða jafnvel til atburða sem engir vilja sjá. Nafnlaus fjöldi sem fyllir göturnar er aftur á móti það sem stjórnvöld óttast allra mest. Ég styð Hörð Torfason í því sem hann er að gera. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.1.2009 | 00:21
562. - Uppruni kryddsíldarnafnsins og svolítið um Stefán Pálsson, Jón Ólafsson o.fl.
Á gamlársdag var kryddsíldarveisla Stöðvar 2 stöðvuð með eftirminnilegum hætti. En hvernig byrjaði allt þetta kryddsíldartal. Einu sinni var kryddsíld bara krydduð síld. Svo var það einhvern tíma á fyrstu árum Vigdísar Finnbogadóttur í forsetaembætti að tilkynnt var að hún ætlaði í heimsókn til Danmerkur. Þar myndi hún hitta Margréti Þórhildi Danadrottningu og saman myndu þær verða í kryddsíldarveislu. Þetta sagði Mogginn að minnsta kosti og ekki lýgur hann.
Einhverjir illa innrættir Morgunblaðsóvinir fóru svo að rýna í danskar fréttatilkynningar um þetta sammenkomst og þar var talað um væntanlegan "krydsild" á fréttamannafundi sem halda átti. Ekkert minnst á kryddsíld. Þetta var þá bara svona snilldarleg þýðing og þannig fékk þetta orð sína sérstöku merkingu á íslensku.
Ekki löngu eftir að Stöð 2 hóf starfsemi sína árið 1986 var svo farið að hóa formönnum stjórnmálaflokkanna saman til veislu niðri á Hótel Borg á gamlársdag og ræða við þá um stjórnmál og sitthvað fleira. Þáttur þessi hlaut sæmilegar vinsældir og honum hefur verið haldið áfram allar götur síðan. Eflaust er þátturinn síðastliðinn gamlársdag sá sögulegasti þeirra allra.
Af hverju Stefán Pálsson varð ekki Samfylkingarmaður? Jú, hann sá að Skífu-Jón var eitthvað að bralla með æðstu forystumönnum þar. Lesið um þetta á blogginu hans. Linkur hér til hliðar.
Einar Kárason skrifaði á sínum tíma bók um Jón Ólafsson. Það er í rauninni ótrúlegt hvað maður hefur stundum verið nálægt valdaklíkunni án þess að vita það fyrr en eftir á. Alveg eins og maður fréttir yfirleitt ekki af góðæri fyrr en það er líðið.
Nú þurfa menn ekki lengur að fara til Póllands að kúka. Nóg að fara í Mývatnssveitina samkvæmt frétt á Stöð 2. Gísli Ásgeirsson yrkir ágætlega um málið. Linkur hér til hliðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.1.2009 | 00:24
561. - "Það veit ég að þetta endar með því að þeir drepa einhvern."
Í heimsstyrjöldinni síðari var mikið af stríðsfréttum í útvarpinu og oft sagt frá því að svo og svo margir hefðu fallið í tilteknum bardögum. Sögnin að falla getur haft mismunandi merkingar. Öldruð kona á Suðurlandi reiknaði ekki með neinu illu af náunganum og komst svo að orði þegar henni þótti nóg um þessar sífelldu fallista-fréttirnar í útvarpinu. "Það veit ég að þetta endar með því að þeir drepa einhvern." Þegar ég var í skóla fyrir margt löngu var séra Helgi Sveinsson einn af kennurum mínum. Einu sinni vorum við krakkarnir að leika okkur í fótbolta úti á skólatúni í löngu frímínútunum. Þegar þeim lauk ákváðum við (svotil allur bekkurinn ef ég man rétt) að vera bara áfram því næsti tími var Mannkynssaga hjá séra Helga. Þegar við loks mættum undir lok tímans var séra Helgi ekkert að æsa sig útaf þessu en átaldi okkur þó og ég er viss um að við gerðum þetta aldrei aftur. Séra Helgi var yndislega óhefðbundinn og það án þess að rembast. Hann var líka talandi skáld og orti oft vísur um okkur krakkana. Meðal annars þessa: Kolbrún yfir orku býr. Án þess að ég sé nokkuð að gera lítið úr Kollu þá datt mér þessi vísa í hug áðan þegar ég sá hve víða um bloggheima Ástþór Magnússon spýr nú sinni speki. Ég fer miklu sjaldnar að skoða póstinn minn en á stjórnborðið hér á Moggablogginu. Póstþjónninn sem tekur við bréfum sem stíluð eru á saemi@snerpa.is liggur líka á því lúalagi að setja sum bréf í einhverja ruslaskúffu. Þar fann ég um daginn nokkur bréf og þar á meðal eitt frá Ólafi Skorrdal síðan 20. desember þar sem hann kvartar undan því að eiga í miklum erfiðleikum með að koma frá sér athugasemdum á Moggabloggið. Þetta kom mér alveg á óvart því héðan frá séð lítur allt eðlilega út. Kannski finnst þeim Moggabloggsguðum Skorrdal eitthvað leiðinlegur og skrifa full mikið og ekki í þeirra anda. Ég vil samt að allir geti gert athugasemdir við mín bloggskrif. Líka Skorrdal. Kíkið á heimasíðu hans skorrdal.is |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2009 | 00:06
560. - Gleðilegt ár. Megi það nýja færa okkur kosningar og nýja ríkisstjórn. Segi ekki meir....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)