574. - Ég sný ekki roðið tvisvar í tíkina.

Er samt kannski einmitt að því. Þetta er eitt af þeim orðatiltækjum sem ég kann án þess að skilja nokkuð hvað meint er með því. Veit ekki heldur hvernig það er til komið. Samt þykist ég þess umkominn að segja öðrum til í sambandi við málfar.

Einhver fetti fingur útí að ég notaði orðið komment. Auðvitað er það sletta. Vel má segja athugasemd í staðinn. Merkingin finnst mér þó vera svolítið önnur. Mér finnst slettur ekki skipta miklu hvað málfar snertir. Öðrum kann þó að finnast svo. Ef slettur skiljast vel, laga sig sæmilega að beygingum og eru ekki alltof margar tek ég varla eftir þeim. Í setningafræði, kommusetningu og þess háttar, er ég alveg úti á þekju. Veit heldur ekki mikið um litla stafi og stóra. Það aftrar mér þó ekki frá því að láta móðann mása.

Fáir hafa orðið til þess að mótmæla mínum skilningi á því sem Sigmundur Ernir sagði (blogg nr. 571) svo ég tek þögn sem samþykki og held ótrauður áfram.

Einu sinni notaði ég póstforritið Elm. Það var löngu fyrir daga vafranna. Ný og ennþá fínni póstforrit komu og fóru en ég hélt áfram að nota Elm. Svo var mér sagt að ég væri síðasti Íslendingurinn sem notaði þennan forngrip. Þá hætti ég.

Ég er ekki enn farinn að skrá mig á fésbókina og verð líklega síðastur íslendinga til þess ef marka má sjónvarpsfréttir. Hvað er allt þetta fólk annars að gera á Facebook? Væri ekki nær að reyna að blogga smá?

Annars var fésbókaratriðið í áramótaskaupinu með því eftirminnilegasta sem þar var. Svo var zombinn sem vildi fá sætið á bekknum við Tjörnina líka góður.

Af hverju hafa svona margir horn í síðu bloggsins? Kannski er fólk svona góðu vant. Einu sinni var mest af því sem lesið var vandaður texti. Í bókum þar sem textinn var marglesinn yfir og hnökrar sniðnir af og blöðum sem voru prófarkalesin af þaulvönum mönnum. Bloggið er laust við þetta og þessvegna er textinn lélegur. Ætlast er til að fólk taki viljann fyrir verkið. Netskrif má helst ekki gagnrýna.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sæll. Um stóran staf og lítinn gilda reglur sem erfitt er að skilja. Til dæmis er þjóðleikhússtjóri skrifaður með litlum staf en Bandaríkjaforseti með stórum. Eina stafsetningarreglan án undantekninga er joð reglan. Hana er auðvelt að læra. Mér finnst fólk mega stafsetja rangt að vild ef hugsunin kemst til skila. Hins vegar hrekk ég stundum við þegar málinu okkar er misboðið. Ég hrekk aldrei við þegar ég les þitt prýðilega blogg.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 17.1.2009 kl. 02:00

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir góð orð.

Ætli Bandaríkjaforseti sé ekki bara stærri en þjóðleikhússtjóri!! Bráðum a.m.k.

Sæmundur Bjarnason, 17.1.2009 kl. 02:22

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

"Þú ert ekkert stærri en ég. Bara svolítið hærri." sagði Helgi Hjörvar útvarpsmaður við strákslána sem bauðst til að rétta honum eitthvað. Af einhverjum ástæðum er mynd af þessu úr gamla Speglinum mér minnisstæð.

Sæmundur Bjarnason, 17.1.2009 kl. 02:51

4 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Hundum gengur oft mjög illa að éta harðfiskroð, tennur þeirra ná illa að klippa það í sundur. Ég hef alltaf gefið mér að þannig sé þetta orðatiltæki til komið ?

Guðmundur Jónsson, 17.1.2009 kl. 09:54

5 identicon

Ég held að sagan um Helga Hjörvar (útvarpsmann, ekki þann sem nútíminn þekkir) sé upphaflega um Napolen Bonaparte. Skiptir annars engu, jafngóð saga fyrir það. Datt í hug af því Ben Ax nefnir "Bandaríkin", að málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins hafa fundið það upp af smekkvísi sinni að þær einingar, sem mynda þetta þjóðríki, heiti fylki. Rökfræðin bak við þá uppfinningu heldur að mínu mati ekki vatni. Ástæðan held ég sé hinsvegar fyrst og fremst heitt hatur margra vinstri manna á þessu þjóðríki, sem reyndar skiptir mig engu. Þeir séu að finna sér leiðir til að smækka þau í huga sínum og annarra. Hvað sem því líður, þá verða menn að vera það rökvísir að tala þá um Bandafylki Norður Ameríku. Ég ætla hinsvegar að halda áfram að kalla þetta fyrirbrigði Amríkuhrepp.  

Ellismellurinn 17.1.2009 kl. 14:13

6 Smámynd: Beturvitringur

Já, já, já. Takk. Þoli ekki þetta rugl með "fylkin". Hef einmitt notað nákvæmlega það sama þegar ég reyni að telja fólki hughvarf, nefnilega Bandafylki N-Ameríku, grr arg og garg. Mér finnst allir nota þetta; lærðir sem leikir.

þjóðleikhús er bara samsett úr þremur (venjulegum) no. Bandaríkjaforseti (eða bandafylkjaforseti: Þá er fyrsti hlutinn sérnafn.

Sæmundur.  "Nú hefði verið gaman að vera dauð fluga á vegg"

Beturvitringur, 17.1.2009 kl. 15:07

7 identicon

Dálítið skemmtilegt að Helgi Hjörvar skuli vera til umræðu í þessu samhengi.

Orðatiltækið "Ég sný ekki roðið tvisvar í tíkina" man ég aðeins einu sinni eftir að hafa séð á prenti (aldrei heyrt í tali) og það er í þýðingu Helga á þeirri ágætu sögu um Bör Börsson á Öldurstað.

Einhvers vegna settist þetta í minnið og flýtur nú upp þegar ég sé þig nota þetta.

Valdimar Gunnarsson 17.1.2009 kl. 15:37

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég hugsa að þarna séu hugrenningatengsl fram og aftur. Hef áreiðanlega sjálfur fyrst séð þetta orðtak í bókinni frægu um Bör Börsson. Helgi tengist náttúrulega Bör. Heyrði samt aldrei sjálfur hinn fræga útvarpslestur hans á sögunni.

Varðandi "fylkin" í Bandaríkjunum finnst mér eðlilegra að tala um ríki. Þau minnstu þeirra eru ekki mikið stærri en Ísland.

Sæmundur Bjarnason, 17.1.2009 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband