569. - Almenn mótmæli og ný stjórnskipan

Ástþór Magnússon fer víða og lætur mikið fyrir sér fara. Sumt af gagnrýni hans á rétt á sér. Hann sér vinstri slagsíðu á mótmælunum á Austurvelli. Spyrðir öll mótmæli saman og er á móti þeim ef þau falla ekki að jólasveinaheimspeki hans. Eitthvað er að í mótmælunum á Austurvelli. Það er ekki eðlilegt að þátttakendum þar fari fækkandi. Ekki er ástandið að batna. Það kann að vera eitthvað til í þessu með vinstri slagsíðuna. Alltaf var hætta á að stjórnmálaskoðanir að öðru leyti hefðu áhrif á mótmælin. Leggja þarf áherslu á að ná til þeirra sem kunna að vera svolítið hægrisinnaðir í stjórnmálaskoðunum en eru samt mjög á móti ástandinu í landinu. 

Margt er það við mótmælin á Austurvelli sem hefur tekist vel en þó ekki allt. Huga þarf að kröfunum, lengd fundanna, fundartíma, ræðumönnum, áróðri fyrir mætingu, samskiptum við lögregluna, klæðaburði, veðri og mörgu fleiru. Ef fundarmönnum fer fækkandi þá er lítið gagn að því að segja: „Ja, Íslendingar eru bara svo vitlausir og óvanir mótmælaaðgerðum að það er ekkert að marka þetta." Ég segi að það sé bara eitthvað vitlaust við umgerð fundanna. Önnur mótmæli af ýmsum toga sýna að almenn mótmæli af því tagi sem stunduð eru á laugardögum á Austurvelli eiga rétt á sér. Stjórnmálamenn reyna eins og þeir geta að koma sínum stimpli á mótmælin.

Hörður Torfason var í þættinum hjá Agli Helgasyni í dag og vildi ekki viðurkenna að mótmælendum fari fækkandi. Almenn mótmæli með fáum og einföldum kröfum eiga fyllsta rétt á sér og mótmælin núna eru til marks um nýja tíma í íslenskum stjórnmálum. Njörður P. Njarðvík mælti í þættinum fyrir hugmyndum um nýja stjórnskipun landsins sem áreiðanlega eiga mikinn hljómgrunn hjá þjóðinni en sennilega lítinn hjá sjálftökuliði flokkanna. Ef núverandi flokkar fá ekki mikinn skell í næstu kosningum mun þó fátt breytast. Best væri auðvitað að eitthvað mikið breyttist fyrir kosningar en það er ólíklegt. Flokkarnir með stóru effi munu nú á næstunni reyna að eigna sér ýmsar hugmyndir um breytta stjórnskipan en sannleikurinn er sá að eingöngu án þeirra verða einhverjar markverðar breytingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég tel að það sé rétt hjá Herði að mótmælendum á austurvelli fer ekki fækkandi.. á síðustu helgi voru amk 6000 manns þar.

Óskar Þorkelsson, 12.1.2009 kl. 17:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nú, hver þremillinn. Einhver sagði 1500 en auðvitað á maður ekki að trúa blöðunum. Hef ekki verið á síðustu fundum og get ekki dæmt um þetta sjálfur. Trúi því að fólki fari að fjölga á fundunum. Það er samt alls ekki vandalaust að standa fyrir þessu.

Sæmundur Bjarnason, 12.1.2009 kl. 17:59

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hér er afbragðs heimild um mannfjöldann.

http://hehau.blog.is/blog/hehau/entry/768157/ 

Óskar Þorkelsson, 12.1.2009 kl. 18:58

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Óskar. Ég skoða oft bloggið hjá Helga bloggvini mínum Haukssyni en ekki alltaf. Þetta hafði ég ekki séð. Myndirnar eru fínar og greinilegt að það eru margir.

Sæmundur Bjarnason, 12.1.2009 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband