Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
31.3.2008 | 00:26
296. - Það er svo margt að minnast á...
Þó skömm sé frá að segja man ég ekki með vissu, akkúrat núna, hvort ég tók landspróf vorið 1957 eða 1958. Líklega hefur það þó verið árið 1957 og þá hef ég sennilega verið að vinna uppá Reykjum veturinn eftir og svo hóf ég nám við Samvinnuskólann á Bifröst haustið 1959. Það er ég viss um að er rétt. Eflaust finnst mörgum það ekki skipta miklu máli hvort þessara ártala er rétt, en mér finnst það. Ég man langbest eftir einu prófi úr landsprófinu og held endilega að það hafi verið síðasta prófið.
Þetta var landafræðiprófið. Fyrir það var gefið eins dags upplestrarfrí. Ég notaði þetta upplestrarfrí þó ekki til þess að læra fyrir prófið heldur til að vinna allan daginn niðri í Steingerði á fullu verkamannakaupi. Ég man að mér þótti það ágætiskaup og gott ef það var ekki heilar 18 eða 19 krónur (gamlar) á tímann.
Steingerði var holsteinaverksmiðja sem var þar sem Kjörís kom seinna. Upphaflega var það hús frystihús. Ég veit samt ekki neitt um starfsemina í þessu frystihúsi, en það var margt reynt á þessum árum þó manni finnist stundum eftir fréttum að dæma að allt sé verið að gera í fyrsta skipti núna. Til dæmis lékum við krakkarnir okkur oft í rústum gömlu þangmjölsverksmiðjunnar sem var upp við Álfafell nálægt gömlu rafstöðinni. Þessar rústir voru nú eiginlega ekkert nema grunnurinn, en spennandi samt og á mörgum hæðum því húsið hafði verið byggt utan í brekkuna niður að ánni.
Pabbi vann um þessar mundir í Steingerði og stundum var þessi vinnustaður kallaður Síbería. Verkstjóri þarna var Bjarni Tomm, sem ég held að hafi verið ættaður úr Tungunum. Þarna unnu svona 5 - 10 manns og ég man eiginlega ekki eftir neinum sem þarna voru. Sæmi í Brekku hefur samt líklega unnið þarna.
Framkvæmdastjóri við verksmiðjuna Steingerði var Teitur Eyjólfsson sem áður bjó í Eyvindartungu í Laugardal og var um tíma fangelsisstjóri á Litla-Hrauni sem á þessum árum var gjarnan kallað Letigarðurinn. Ásthildar Teitsdóttur kona Gunnars Guðbjartssonar á Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi var dóttir Teits. Æ, þarna er ég víst að týna mér í merkingarlítilli ættfræði sem mörgum finnst ómerkilegri en flest annað. Þar að auki getur svosem verið að mig misminni þetta allt.
Nú, nú. Ég ætlaði víst að minnast á landafræðiprófið. Ritgerðarefnin í prófinu man ég að voru tvö og það sem ég valdi var "Svíþjóð". Líka var einhver fjöldi spurninga, en ég man lítið eftir þeim og ennþá síður eftir svörunum. Ég man ekki hvað ég fékk á þessu landafræðiprófi en það var lægra en ég átti von á. Aðaleinkunn mín úr landsprófinu var 5,97. Sagt var að prófinu væri náð ef einkunnin væri yfir 5. Það var þó lítils virði því framhaldseinkunn var 6. Það er að segja að það var sú einkunn sem Framhaldsskólarnir (Menntaskólarnir) kröfðust af þeim sem þar vildu fá inngöngu.
Auðvitað er alltaf hægt að segja ef og hefði, en ef ég hefði fengið 6 eða meira á landsprófinu hefði ég hugsanlega farið í Menntaskólann á Laugarvatni og þá hefði líf mitt ef til vill orðið allt öðru vísi en það varð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.3.2008 | 00:20
295. - Áframhaldandi endurnýting á minningum frá Hveragerði
Það sem hér fer á eftir eru endurnýttar minningar frá Hveragerði. Eftir IP-tölum að dæma eru það miklu fleiri sem lesa bloggið mitt núna en þá var.
Eftir að Bláfell brann breyttust allar tímaviðmiðanir hjá mömmu. Byrjunarviðmiðunin hjá henni var hvort eitthvað hefði gerst "áður en brann" eða "eftir að brann". Áður hafði hún einkum notað tímaviðmiðunina "þegar ég gekk með - Sigrúnu - Ingibörgu - Sæmund" o.s.frv.
Ég man vel að okkur barst mikið af allskyns dóti og fatnaði að gjöf og vorum við lengi að koma því öllu í lóg og neyddumst meira að segja að lokum til að henda einhverju af því.
Sagt var að pabbi hefði fengið 80 þúsund króna greiðslu frá tryggingafélögum vegna brunans. Ekki veit ég hvort það var mikið eða lítið, en staðreynd er að strax sumarið eftir reisti hann nýtt hús á grunni þess gamla og stendur það enn.
Nágranni okkar Jón Guðmundsson frá Blesastöðum, sem pabbi kallaði jafnan Jón blesa, var byggingameistari við gerð hússins. Mér er það minnisstætt að ég sá hann einu sinni detta ofan af þaki meðan á smíði hússins stóð, en sem betur fer meiddi hann sig lítið eða ekkert.
Fyrst um sinn eftir brunann héldum við öll til í einu herbergi hjá Sigmundi Guðmundssyni en fljótlega fengum við hús til leigu að Laufskógum eitt.
Minning sem tengist brunanum að vissu leyti er eitt lítilfjörlegt atvik frá sumrinu okkar að Laufskógum 1 - eða þegar við áttum heima vesturfrá eins og við sögðum jafnan sjálf. Þessi minning er ljóslifandi í minni mínu þó ég skilji ekki af hverju svo er:
Það er kosningadagur. Pabbi og mamma hafa farið að kjósa og við Vignir erum einir heima og erum báðir í herberginu í suðausturhorni hússins sem sennilega hefur verið stofan þó mig minni endilega að þar hafi verið koja.
Eins og stjórnmálanördar geta auðveldlega fundið út eru þetta forsetakosningarnar þar sem Ásgeir Ásgeirsson vann frækinn sigur á séra Bjarna.
Vignir er að leika sér á gólfinu í einhvers konar bílaleik og þarf að bregða sér í ýmis hlutverk. "Má ég kjósa?" segir hann og svarar síðan með svolítið breyttri röddu: "Já, þú mátt kjósa". Þetta endurtekur hann hvað eftir annað og eiginlega er minningin ekki lengri en þetta.
Ég held að ég hafi síðan sagt Ingibjörgu frá þessu og að við höfum notað þetta atvik lengi á eftir til þess að stríða Vigni með, en það má segja að hafi verið eftirlætisíþrótt okkar. Ef til vill er það ástæðan fyrir því að ég man þetta svona vel. Við stunduðum það að herma þetta eftir honum og ég man ennþá vel áherslurnar á orðunum og raddblæinn.
Einhvern vegin finnst mér að á sínum tíma hafi staðið til að Vignir yrði skírður Guðlaugur Viðar Vignir, en ekki bara Guðlaugur Vignir. En kannski er það tóm ímyndun í mér.
Þegar að því kom á sínum tíma að skíra Björgvin þá var Ingibjörg hörð á því að hún tæki ekki í mál annað en hann héti bara einu nafni. Hún væri sú eina í systkinahópnum sem héti bara einu nafni og léti ekki bjóða sér það lengur. Hún hafði sitt fram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2008 | 01:46
294. - Meira um gatnamótin á Auðbrekku og Nýbýlavegi. Einnig smávegis um istorrentmálið
Í fyrradag skrifaði ég um gatnamótin á Auðbrekku og Nýbýlavegi. Athugasemdir fékk ég við þau skrif eins og við mátti búast. Sigurður Þorsteinsson (ziggi.blog.is) fann að því sem ég hafði skrifað og lokasetningin hjá honum var þessi: "Ég legg til að við friðum Auðbrekkuna,- eins og hún var-. Setjum niður holurnar í göturnar aftur, ekkert malbik, bara gamli tíminn. Svo verður þjóðviljinn borinn í annað hvort hús og fiskbíllinn kemur á hverjum þriðjudegi."
Þessu svaraði ég með skætingi eins og mér fannst hans komment vera.
Þetta mál er samt ekkert til að hafa í flimtingum. Mér finnst það alvarlegur hlutur að verktakar hafi alla sem leið eiga þarna um í gíslingu mánuðum saman með því að hafa fjölmargar götur ýmist lokaðar eða hálflokaðar eftir sínum þörfum. Auðvitað ber Gunnar bæjarstjóri nokkra ábyrgð á þessu ástandi. Mér finnst samt alveg óþarfi að vera að blanda flokkspólitík í þetta eins og mér finnst Sigurður gera.
Ég hef ekkert sagt um það hvað mér finnst um allar framkvæmdirnar þarna. Ég veit þó að margir voru á móti því að byggja á Lundartúninu á sínum tíma. Það er samt sérmál og vel má gagnrýna seinagang við gatnaframkvæmdir án þess að fara út í skipulagsmál að öðru leyti.
Ístorrent málið virðist vera að taka nýja stefnu. Villi Ásgeirsson bloggvinur minn (vga.blog.is) og kvikmyndagerðarmaður skrifar um þetta og skyld mál á sínu bloggi. Mér skilst að hann eða einhverjir sem hann þekkir hafi staðið að vefsetri sem tók við af torrent.is á sínum tíma. (thevikingbay.org) og hvet alla sem áhuga hafa á þessum málum til að lesa bloggið hans.
Höfundarréttarmál eru mér talsvert hugleikin síðan ég stóð fyrir Netútgáfunni á sínum tíma. Því er ekki að neita að lögin sem um þau mál gilda voru okkur á þeim tíma til mikilla trafala. Margir hafa líka mjög óeðlilegar hugmyndir um Netið. Þar hefur það sjónarmið lengi verið uppi að sem allra mest eigi að vera ókeypis. Auðvitað er skiljanlegt að einstakir rétthafar eins og Friðrik Skúlason (frisk.blog.is) hafi ýmislegt við starfsemi af þessum toga að athuga. Mín skoðun er þó sú að útgefendur tónlistarefnis og kvikmyndaréttareigendur hafi oft farið offari í því að féfletta neytendur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.3.2008 | 00:08
293. - Minningar úr Hveragerði (bloggið um gatnamótin á Auðbrekku og Nýbýlavegi er svolítið neðar)
Það sem hér fer á eftir eru fáeinar frásagnir frá æsku minni í Hveragerði, sem ég hef áður sett á bloggið, en af því að lesendur mínir eru orðnir svo miklu fleiri núna, þá er ég að hugsa um að endurnýta þær.
Skrítið hvað maður man og hvað ekki. Ein af mínum fyrstu berskuminningum er að ég skar mig illa á hægri úlnlið. Nánast þvert yfir púlsinn og það blæddi mikið. Einhvern tíma var mér sagt að ég hafi verið þriggja ára þegar þetta gerðist. Þetta var niður við Ullarþvottastöð og það var flöskubrot sem ég skar mig á. Ég var ábyggilega ekki gamall þegar þetta var og eldri systur mínar hafa eflaust verið þarna með mér að passa mig. Ég man vel og nákvæmlega eftir atburðinum sjálfum. Hvar þetta var við Ullarþvottastöðina, hvernig glerbortið var (botn á grænni brennivínsflösku), að það lá ofan á einskonar fjalhöggi og að ég var líklega einn þarna þegar atburðurinn átti sér stað, a.m.k. var enginn til þess að trufla mig þegar ég lamdi hendinni ofan á flöskubotninn. Síðan man ég einungis eftir því að pabbi kom og sótti mig, vafði vasaklút um sárið, tók mig upp og hélt á mér heim á leið. Ég man vel eftir því að vasaklúturinn sem hann notaði var rauður og hvítur og gæti lýst honum í smáatriðum. Ég man meira að segja mjög vel hvar við vorum staddir (við norðvesturhornið á Kaupfélaginu) þegar ég tók eftir því að vasaklúturinn var rauður og að mér þótti mjög smart að hafa svona rauðan vasaklút bundinn um handlegginn. Meira man ég eiginlega ekki eftir þessum atburði, en mér er sagt að Lúðvík Nordal (afi Davíðs Oddssonar) hafi verið sóttur á Selfoss þar sem hann var héraðslæknir á þessum tíma og hann hafi saumað sárið saman.
Á þessum árum var það góð skemmtun að rúlla bíldekkjum á undan sér og lemja í þau með spýtu. Einhverju sinni fórum við Vignir uppá hól hjá elliheimilinu (þar sem kirkjan er núna) með dekk til að láta rúlla niður hólinn. Vel gæti verið að ég hafi verið svona 9 ára þegar þetta var og Vignir 6, ég man það ekki með neinni vissu, en okkur gekk ágætlega að láta dekkin renna niður hólinn þó heldur torsóttara væri að paufast með þau upp aftur. Dekkin lentu gjarnan á girðingunni við Sunnuhvol eða runnu meðfram henni. Í eitt skiptið náði Vignir (minnir mig) að láta sitt dekk renna með miklum hraða niður brekkuna án þess að það beygði nokkuð af leið. Þegar það kom að girðingunni við Sunnuhvol lenti það á steini og sveif í fallegum boga yfir girðinguna, en því miður lenti það í næsta stökki á þvottasnúru þar sem mikið af drifhvítum þvotti hafði verið hengt til þerris og reif hana niður í svaðið og vöðlaði þvottinum undir sig. Ekki þorðum við að gera vart við okkur til að geta fengið dekkið aftur, heldur hlupum í burtu og fórum skömmustulegir heim og sögðum okkar farir ekki sléttar. Mamma varð síðan að fara til Guddu á Sunnuhvoli og leysa dekkið út og man ég ekki annað en að það hafi gengið vel.
Ætli ég hafi ekki verið svona tíu eða tólf ára þegar við vorum nokkrir krakkar eitthvað að hamast í snjókasti skammt frá hótelinu rétt við spennistöð sem þar var. Af einhverjum ástæðum fórum við að henda snjókúlum í spennistöðina og einbeittum okkur von bráðar að glugga á henni sem var allhátt frá jörðu og ekki mjög stór. Fljótlega kom kapp í okkur og við fórum að hamast við að þekja gluggann með snjókúlum sem festust jafnan við gluggann vegna þess hve snjórinn var mátulegur til snjókúlugerðar. Þá var það sem götuljósin í þorpinu kviknuðu skyndilega. Ekki veit ég alveg af hverju það var, en okkur varð samhengið fljótlega ljóst. Götuljósin kviknuðu þegar dimmdi í spennistöðinni. Stórmerk uppgötvun. Sennilega höfum við lært heilmikið á þessu. A.m.k. situr þessi uppgötvun í mér.
Ingimar í Fagrahvammi átti eitt sinn gríðarstóran Sankti Bernharðshund (það var áður en hann eignaðist Kalló, úlfhundinn fræga, sem ættaður var úr Geysi á Bárðabungu eins og margir vita) Hundurinn, sem ég held að hafi verið kallaður Bjössi, beit eitt sinn strák í þorpinu (son Helga Geirssonar, minnir mig) svo flytja þurfti hann á sjúkrahús. Þá sagði bróðir stráksins: Ég vildi að hann hefði bitið mig, þá hefði ég fengið að fara til Reykjavíkur". Þetta þótti hraustlega mælt og líka er á það að líta að á þeim tíma var mikið ævintýri að fá að fara í langferð eins og frá Hveragerði til Reykjavíkur.
Þegar ég stundaði nám við Miðskóla Hveragerðis undir lok sjötta áratugar síðustu aldar var einn af kennurum mínum séra Gunnar Benediktsson, klerkur, kommúnisti, rithöfundur og margt fleira. Einhverju sinni var séra Gunnar að kenna okkur stærðfræði. Líklega hefur það verið í forföllum, því ég man ekki til þess að stærðfræði væri hans fag. Hins vegar var hann óviðjafnanlegur íslenskukennari og ég man ekki betur en að hann hafi kennt okkur dönsku líka.
Þegar sá sem tekinn hafði verið upp að töflu hafði lokið við að skrifa dæmið upp sagði Gunnar: "Ég held að best sé að byrja á því að útrýma öllum kommum."
Það var ekki fyrr en almennur hlátur glumdi við í skólastofunni sem Gunnar áttaði sig á tvíræðni orðalagsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mikil umræða er nú um "hreysivæðingu miðbæjarins í Reykjavík." Í Útvarpinu í kvöld sagði einhver: "Ég treysti verktakanum til að.......".
Ég treysti hinsvegar verktökum ekki til neins. Gott dæmi um yfirgang þeirra er það ástand sem búið er að vera mánuðum saman og á eflaust eftir að vera í marga mánuði ennþá á gatnamótum Auðbrekku og Nýbýlavegar í Kópavogi og götunum þar í kring.
Ég efast ekki um að það sé þægilegra fyrir verktakana að vera lengi að þessu, en hagsmunir þeirra sem þarna eiga oft leið um eru alls ekki þeir sömu. Kópavogi er stjórnað af manni sem hefur góðan skilning á þörfum verktaka.
Nú þegar harðnar á dalnum hjá auðmönnum landsins getur vel orðið þröngt í búi hjá þjóðþrifafyrirtækjum eins og fótboltafélögum og þess háttar. Frjálshyggjupostular þessa lands hafa haldið því fram að miklu heppilegra sé að fjársterkir aðilar styrki allskyns menningar og íþróttastarfsemi en að ríkið sé að vasast í þeim málum.
Varðandi þetta hafa þeir eflaust talsvert til síns máls þegar vel árar, en hver á að koma KR til bjargar ef Björgúlfur hefur ekki lengur efni á að henda í þá peningum?
Timaritið Herðubreið fékk góða auglýsingu á Stöð 2 í kvöld þar sem sagt var frá palladómi um Styrmi Gunnarsson í blaðinu og nafn Þorsteins Pálssonar ritstjóra Fréttablaðsins dregið inn í þá umræðu.
Það stefnir í skemmtilega baráttu í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust. Ég veit reyndar ekki frekar en aðrir hver verður þar í framboði fyrir demókrata og kannski kemur það ekki í ljós fyrr en í sumar. Demókrataflokkurinn í Bandaríkjunum er stærri en Republikanaflokkurinn og mun fleiri styðja hann jafnan eða segjast gera það í könnunum og þar að auki er hinn óvinsæli núverandi forseti í embættinu fyrir hönd repúblikana.
Samt má búast við spennandi kosningum í haust því margt getur gerst í forsetakosningum. Íbúar Bandaríkjanna eru upp til hópa mun íhaldssamari en Evrópumenn. Mér kæmi á óvart ef Bandaríkjamenn eru raunverulega tilbúnir til að kjósa annaðhvort konu eða svertingja í þetta mikilvæga embætti. En það kemur í ljós í haust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.3.2008 | 00:08
291. - Meira um innflytjendamál og rasisma
Innflytjendamál eru mörgum hugleikin, einstök dæmi eru þó ekki sannanir fyrir einu né neinu. Skoðanir okkar mótast samt mikið af einstökum dæmum. En við þurfum ekki að láta dæmi annarra, sem við heyrum sagt frá, stjórna skoðunum okkar. Sjaldan er öll sagan sögð og það sem aðrir segja um einstök dæmi, er ekki vel til þess fallið að hafa áhrif á skoðanir fólks.
Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, segir á sínu bloggi frá félagsskap sem nefnir sig Félag Anti-Rasista (stórir stafir að amerískum hætti) Veffangið er http://www.antirasista.net/. Auglýsendur á þessum vef eru Þórshamar, Gaukur á Stöng og Tuborg. Vefur þessi er mjög einkennilegur og ekki hugnast mér boðskapurinn sem þar er settur fram að öllu leyti. Samt finnst mér rétt að vekja athygli á þessu framtaki.
Sigurjón leggur sig í líma við að gera lítið úr þessum félagsskap. Sömuleiðis er talað mjög illa um félagið í kommentum við færslu Sigurjóns. Líklega er það vegna einhvers sem þar hefur verið, en er ekki lengur. Mér finnst engin ástæða til að vara við þessu vefsetri þó skrítið sé og hvet alla sem áhuga hafa á þessum málum til að skoða heimasíðu félagsins.
Blogg mitt frá í gær hefur kallað á talsverð viðbrögð. Ég verð samt að játa að mér komu athugasemdir Ásthildar Cesil Þórðardóttur nokkuð á óvart. Ég hef lesið margt eftir hana, meðal annars frá því á spjallborðinu malefnin.com, sem hún stjórnaði orðið síðast þegar ég vissi. Mér hefur alltaf fundist hún vera málefnaleg í sínum ummælum. Kommentið sem hún setti á síðuna mína í gær finnst mér ekki vera málefnalegt.
Ég sagði í gær að mér þættu fjölmiðlar oft fjalla undarlega um málefni sem tengjast innflytjendum. Eitt dæmi skal ég nefna. Um páskana var sagt frá tveimur illvirkjum í Danmörku. Blaðburðardrengur var myrtur og óður maður banaði tveimur manneskjum í eða við verslun. Á Stöð 2 var sagt frá þessum málum báðum í sama fréttatímanum. Sagt var að óði maðurinn í versluninni væri frá Íran. Ekki var hins vegar minnst á þjóðerni í sambandi við hina fréttina, en þó held ég að ekki hafi verið minni ástæða til þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.3.2008 | 00:22
290. - Eru Íslendingar rasistar?
Um þessa páskahelgi hefur borið óvenjumikið á fréttum af alls kyns ofbeldisverkum. Yfirleitt kemur þjóðerni eitthvað við sögu í málunum. Er hugsanlega að einhverju leyti við fjölmiðla að sakast í þessum efnum? Ég veit það ekki, en grunar það óneitanlega.
Ég hef enga trú á því að greina megi ofbeldishneigð eftir þjóðerni. Litháar, Pólverjar og annarra þjóða fólk er alveg örugglega upp til hópa alls ekki verra en við Íslendingar. Ef það er rétt að glæpatíðni meðal innflytjenda hér sé hærri en hjá Íslendingum þá hljóta að vera einhverjar ástæður fyrir því. Þær þarf þá að kanna og það án upphrópana um einstök tilvik.
Að útlend glæpasamtök flytji hingað inn fólk beinlínis til að nýta sér heimóttarskap, fáfræði og linkind okkar Íslendinga hef ég litla trú á. Ef einhvers konar glæpagengi útlendinga hér eru staðreynd, er miklu líklegra að þau hafi myndast eftir komu fólks til landsins og að þar ráði aðstæður miklu. Það er staðreynd að við bjóðum útlendingum oft uppá aðstæður sem við sjálf mundum aldrei sætta okkur við.
Auðvitað er það svo að þeir sem hingað flytjast eru að einhverju leyti úr öðrum þjóðfélagshópum en þeir sem eftir sitja. En að þeir séu glæpahneigðari legg ég engan trúnað á. Miklu líklegra er að það hvernig við Íslendingar tökum á móti þeim ýti með einhverjum hætti undir virðingarleysi þeirra fyrir íslenskum lögum, sé það fyrir hendi, og líka getur ókunnugleiki ráðið einhverju. Þar að auki getur verið að löggjöf okkar sé gölluð.
Tregða heiðarlegs fólks meðal innflytjenda til að starfa með lögreglunni við að upplýsa afbrot getur líka átt sér skýringar, sem þarf að finna. Alhæfingar þarf fyrir hvern mun að forðast.
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, virðist vera byrjaður að athafna sig hér á Moggablogginu og ekki er að sjá annað en hann hafi farið beint á Áttulistann" sem ég hef kosið að kalla svo. Auðvitað er það bara eðlilegt. Hann hefur eflaust frá fleiru að segja en þeir sem hingað koma af alls kyns sundurleitustu hvötum. Ég vorkenni þeim samt svolítið, sem ekki komast á þennan lista þó þá langi til þess og finnist að þeir ættu að vera þar, og eigi það ef til vill skilið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
24.3.2008 | 00:21
289. - Það er vegna þess að Ólympíunefndin á sig sjálf sem leikarnir eru svona vinsælir
Ég skrifaði dálítið um Ólympíuleikana á blogginu mínu um daginn og sagði meðal annars að Alþjóðaólympíunefndin ætti sig sjálf.
Þetta hefur mér alltaf fundist stærsti gallinn á þeirri ágætu nefnd, en kannski er þetta einmitt aðalkosturinn við hana. Nýir meðlimir komast bara í nefndina ef þeir sem fyrir eru kæra sig um það. Þannig að uppbyggingin er eins og í einhvers konar frímúrarareglu. Það þýðir ekkert að vera neitt sérstakt. Bara að viðurkenna þessa tilhögun og vera ekki líklegur til að stuðla að breytingum á kerfinu.
Já, já. Allskonar spilling þrífst þarna og peningaveltan er ævintýraleg. En með þessu getur nefndin verið eins ópólitísk og henni sýnist. Auðvitað er hún samt viðkvæm fyrir þrýstingi og meðlimir hennar alls ekki ópólitískari en aðrir. Ég er nokkuð viss um að sú hugmynd að sniðganga Ólympíuleikana í Kína mun ekki fá brautargengi innan íslensku ólympíunefndarinnar og þar með er málið dautt, því Alþjóðanefndin á hana náttúrulega. (altsvo íslensku nefndina) Já, það er allt fullt af undirnefndum sem aðalnefndin skipar og þar verður skipulagið að vera svipað. Alþjóðanefndin veður í peningum (eins og FIFA) og útdeilir styrkjum auðvitað með sinn eigin hag að leiðarljósi.
Það er margt skrýtið í starfsemi Ólympíunefndarinnar en um það má helst ekki ræða. Það eru nefnilega svo margir sem gera sér vonir um að hljóta einhverntíma mola af gnægtaborði hennar. Það að einhver þjóð fái að halda Ólympíuleika er auðvitað stórpólitísk ákvörðun og kostar ekki svo lítið.
Áður fyrr töpuðu þjóðir yfirleitt peningum á því að halda leikana (nema auðvitað ef áróðurinn og kynningin var álitin peninga virði) en nú í seinni tíð hafa gífurlegar fjárhæðir verið greiddar fyrir sjónvarpsréttindi og allskyns auglýsingasamninga svo dæmið hefur snúist við. Það er heldur ekki reynt að útiloka atvinnumenn í íþróttum lengur eins og gert var. Ólympíuleikar, heimsmeistarkeppni í fótbolta og Formúlu 1 kappakstur eru langvinsælastu íþróttaviðburðir í heiminum.
Ólympíuleikarnir eru þó óviðjafnanlegir og mesta íþróttahátíð sem um getur. Um það efast enginn. Það er einmitt vegna þess að misvitrar ríkisstjórnir og stjórnmálamenn yfirleitt hafa ekki fengið að vasast í málum Alþjóðaólympíunefndarinnar sem leikarnir hafa hlotið þessar gífurlegu vinsældir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2008 | 02:02
288. - Bloggfixið er flestum nauðsynlegt, jafnvel þó nú séu páskar
Það er eflaust misjafnt hvort fólk á betra með að skoða bloggin sem það vill lesa úr vinnunni eða heiman að frá sér. Flestir þurfa þó að fá sitt bloggfix yfir jafn langa fríhelgi og páskahelgin er. Eflaust verður mikið bloggað um helgina og mikið lesið líka. En svo eru líka margir fjarri bloggvélum þessa daga.
Mig minnir að ég hafi skrifað frekar illa um svarhala um daginn. Auðvitað er þó gott fyrir egóið að fá athugasemdir við færslurnar sínar, en ég fer ekki ofan af því að séu þær of margar verður leiðinlegt að lesa þær, að minnsta kosti fyrir aðra. Oft er þetta líka tilgangslaust karp sem margir missa af, sem þó hafa kannski áhuga á málefninu.
Það skiptir í mínum huga engu máli þó það sé Morgunblaðið sem hefur aukið vinsældir bloggsins svo gríðarlega sem raun ber vitni. Og þó margt ljótt megi segja um mbl.is og greinilegt sé að þar eru oft unglingar að æfa sig og prófarkalesturinn afar lélegur eða enginn, þá er ekki hægt að neita því að Moggabloggið er vel hannað og þjónustan þar góð. Auðvitað er bloggað víða annars staðar og það er hið besta mál. Bloggið hefur náð svo gríðarlegum vinsældum undanfarið að búast má við að þær geti varla orðið meiri.
Páskapælingin hjá Jóhanni Björnssyni heimspekingi og siðbótarmanni er einhvern vegin á þessa leið: Hvaða ástæða er til að vera að fara eftir boðorðunum fyrst Guð fyrirgefur manni hvort sem er alltaf?
Þetta er nokkuð sem aðeins sanntrúað fólk getur reynt að svara af einhverju viti. Aðrir segja eflaust að boðorðin fjalli eingöngu um siðferði og komi Guði eða guðstrú ekki nokkurn skapaðan hlut við.
Þetta er bara ein af þeim þversögnum sem bókstafstrúarfólk þarf alltaf að vera að glíma við. Mér finnst mikið af orkunni hjá því fara í að reyna að finna skynsamlegar skýringar á svonalöguðu. Það er miklu fremur verkefni heimspekinga að skýra mál eins og boðorðaþversögnina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.3.2008 | 11:20
287. - Ólympíuleikarnir í Kína - Eiga Íslendingar að mæta?
Sigurður Þór Guðjónsson skrifar hugleiðingu á sínu bloggi og hvetur til þess að Íslendingar sniðgangi Ólympíuleikana í Kína. Þessu er ég ekki sammála af ýmsum ástæðum.
Ekki mun nást samstaða um þetta og auk þess sýnir sagan að mótmæli af þessu tagi skila ákaflega litlu. Á móti kemur auðvitað að margt bendir til þess að Kínverjar ætli sér að nota Ólympíuleikana á ófyrirleitinn hátt í áróðursskyni. Sú skoðun er viðurkennd á Vesturlöndum að Hitlersstjórnin hafi misnotað Ólympíuleikana árið 1936 á freklegri hátt en aðrir.
Margar tilraunir hafa verið gerðar til að mótmæla ýmsu með því að sækja ekki Ólympíuleikana. Þær tilraunir hafa að mestu mistekist og ástæðan er einkum sú að Alþjóðaólympíunefndin á sig sjálf og hefur alltaf mótmælt því harðlega að blandað sé saman stjórnmálum og íþróttum.
Ólympíuleikarnir eru upprunnir á Vesturlöndum og þjóðir af þeim slóðum hafa yfirleitt einokað þá að mestu leyti. Þó okkur á Vesturlöndum þyki upplagt að nota þessa miklu íþróttahátíð til að mótmæla því sem miður fer í veröldinni er ekki víst að allir séu okkur sammála í því. Það er einkum með því að blanda ekki saman stjórnmálum og íþróttum sem Ólympíuleikarnir hafa náð þeirri útbreiðslu sem þeir þó hafa.
Íþróttamennirnir sjálfir vilja auðvitað helst að leikarnir verði haldnir og er það skiljanlegt. Í kringum leikana er mikil fjölmiðlaveisla og ekki vilja fjölmiðlarnir missa af henni. Þeir sem leikana halda vilja nota þá í áróðursskyni og er það skiljanlegt á sama hátt og afstaða íþróttafólksins. Of mikið má þó af öllu gera og margt bendir til þess að Kínverjar gangi langt í þessum efnum.
Íslensk íþróttahreyfing hefur yfirleitt ekki verið ginkeypt fyrir því að mótmæla með því að sækja ekki Ólympíuleikana. Á sínum tíma þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Moskvu mótmæltu margar þjóðir innrás Rússa í Afghanistan með því að mæta ekki og síðan mótmæltu Rússar og Austur-Evrópuþjóðir heimsvaldastefnu Bandaríkjanna með því að mæta ekki á Ólympíuleikana í Los Angeles fjórum árum seinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)