Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
21.3.2008 | 00:25
286. - Vinsældablogg Friðriks Þórs Guðmundssonar
Friðrik Þór Guðmundsson skrifar áhugaverðan pistil um vinsældablogg. Fátt nýtt kemur þar fram, en hamrað er á því sem flestir hljóta að vita.
Vilji menn komast hátt á vinsældalistanum er augljóst að fyrirsagnirnar skipta miklu máli, sömuleiðis að linka í fréttir mbl.is og blogga sem oftast á hverjum degi. Sömuleiðis er mikilvægt að komast á listann sem þeir Morgunblaðsmenn láta tölvuna velja úr efstu bloggin sem sýnd eru.
Ég las byrjunina á svarhalanum sem kominn var við færslu Friðriks og tók meðal annars eftir því að Kristjana frá Stakkhamri benti á að vinsældirnar segi ekki margt því alls ekki sé víst að blogg sem kíkt er á séu lesin. Hvort eru menn að skrifa fyrir vinsældalistann eða til að verða lesnir? Skiptir einhverju verulegu máli hvort margir eða fáir lesa það sem maður skrifar, svo lengi sem einhverjir gera það?
Eflaust væri ekki skemmtilegt að skrifa löng blogg ef engir nenntu að lesa þau. Sjálfur kíki ég stundum á vinsældalistann en reyni að láta hann ekki trufla mig. Það er líka hægt að fá lista yfir 400 vinsælustu bloggin og það er ekki síður áhugavert að sjá hve margar heimsóknir þau blogg fá sem þar eru neðst. Hvort sú tala fer hækkandi eða lækkandi segir mér talsvert um vinsældir Moggabloggsins yfirleitt og það finnst mér skipta meira máli en vinsældir einstakra bloggara
Líka er fróðlegt að sjá lista yfir nýjustu bloggin og þar má sjá að ótrúlega margir eru enn að bætast við. Auðvitað falla margir út líka, en í heildina held ég að Moggabloggurum sé að fjölga og vinsældir þess að aukast.
Sigurður Hreiðar er byrjaður að blogga aftur og er það vel. Hann lýsir áhyggjum sínum af augljósu sambandi milli launahækkana og gengisfellinga. Sannleikurinn er sá að jafnvel þó verkalýðsfélög geti knúið fram launahækkanir með órjúfandi samstöðu sinna félaga eru það auðvitað peningaöflin sem ráða á endanum hve há laun eru greidd.
Þar með er ég alls ekki að segja að verkalýðsbarátta sé tilgangslaus. Aðeins að of mikil tilætlunarsemi og óbilgirni í þessum efnum getur haft öfugar afleiðingar, við það sem ætlunin var. Lífskjör almennings væru að sjálfsögðu líka mun verri en þau eru ef peningaöflunum hefði aldrei verið sýnd andstaða.
Verkalýðsbarátta hefur líka áhrif á innbyrðis skiptingu þjóðarkökunnar. Þannig ná þær stéttir sem standa sig vel í baráttunni stundum betri árangri en aðrar sem sanngjarnt væri að hefðu meira.
Gengisfelling þýðir að sjálfsögðu launalækkun fyrir allan þorra fólks. Áður fyrr voru gengisfellingar ákveðnar í reykfylltum bakherbergjum og venjulega voru þær gerðar til að tryggja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, eftir því sem sagt var. Nú er hins vegar búið að finna upp þægilegri aðferð og stjórnvöld geta jafnvel látið eins og þau vilji allt fyrir alla gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.3.2008 | 00:23
285. - Þingvallavatn og virkjanafyllerí
Anna K. Kristjánsdóttir bloggvinur minn notaði notaði um daginn fyrirsögnina: Ekki blogga ekki neitt.
Mikið skil ég hana vel. Hún er eins og ég að því leyti að hún hefur þörf fyrir að blogga á hverjum degi. Að öðru leyti ætla ég ekki að líkja okkur saman.
Ég man vel eftir því þegar álverið í Straumsvík var reist. Margir voru mjög á móti því og margt af því sem sagt var fallegt um þá framkvæmd hefur alls ekki komið fram. Ég er samt á því að það hafi verið gæfuskref að fara út í þá framkvæmd.
Líklega er ég virkjunarsinni. Ég er líka hlynntur aðild Íslands að Evrópubandalaginu og hef lengi verið. Margir líkja umsókn um aðild við landráð og víst er að þetta mál á eftir að valda miklum deilum.
Stóriðja í dag og væntanleg stóriðja valda líka miklum deilum um þessar mundir. Hræddur er ég þó um að þær kárínur sem yfir okkur hafa dunið að undanförnu í allskonar veiðibönnum og aflabresti ásamt gengisfellingu af markaðsvöldum (að sagt er) hefðu ekki farið vel í fólk ef engin hefði verið stóriðjan.
Ég segi nú bara svona, en auðvitað skil ég vel þá sem krefjast þess að varlega verði farið við beislun orku á næstu árum. Óvarlega hefur verið farið að undanförnu og þó Búrfellsvirkjun hafi tekist vel er ekki þar með sagt að virkjunarsinnar hafi alltaf rétt fyrir sér.
Til dæmis held ég að Efra-Falls virkjunin í Soginu hafi verið slys, þó hún hafi alls ekki verið álitin það á sínum tíma. Ég hef nokkrum sinnum heyrt Sigurð G. Tómasson tala um Þingvallavatn og lesið bloggið hans og finnst að þetta mál eigi skilið mun meiri athygli en það hefur fengið. Það að nota sjálft Þingvallavatn sem nokkurskonar miðlunarlón, án þess að fást til að viðurkenna það, nær náttúrulega ekki nokkurri átt.
Kastljósið tók að sér um daginn að auglýsa nýtt tölublað af einhverju blaði sem Illugi Jökulsson ritstýrir. Simmi tilkynnti ábúðarfullur að nú kæmi mynd af Múhameð spámanni á skjáinn, en aldrei kom nein mynd. Dæmigert Kastljós-klúður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.3.2008 | 13:51
284. - Asnaleg fyrirsögn
Ég sé að heimsóknir á bloggið mitt hafa verið miklu fleiri í dag en eðlilegt er. Líklega stafar það af því að fyrirsögnin og fyrstu málsgreinarnar eru villandi. Það var ekki meiningin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2008 | 00:16
283. - Umferðarslys á Holtavörðuheiði - hrikaleg aðkoma
Fyrir fáeinum árum kom ég þar að á Holtavörðuheiði sem umferðarslys hafði orðið á blindhæð.
Blóðslettur voru um allt og höfuðið af fórnarlambinu hafði skilist frá bolnum. Aðkoman var alveg hrikaleg. Svo virtist sem gerandinn hefði flúið af vettvangi og reynt að komast undan. Greinilegt var að bifreið hafði ekið á miklum hraða á kind sem í mesta sakleysi hafði átt leið um veginn. Þó þetta hafi bara verið kind var aðkoman skuggaleg. Ekkert var hægt að gera og ekki um annað að ræða en halda áfram. Kona sem hafði ekið bílnum á undan okkur gat þó ekki meira, heldur fékk mann sem var í framsætinu við hliðina á henni til að taka við.
Margt er áhugavert í sambandi við íslenskt mál og slæmt að vera ekki betur að sér í því en raun ber vitni. Um daginn var ég að skrifa lítilsháttar um upptökuheimilið í Breiðavík. Umhugsunarefni er beygingin á orðinu. Á Snæfellsnesi er hreppur sem nefndur er Breiðuvíkurhreppur og eru Arnarstapi, Búðir og Hellnar til dæmis í honum. Í mínum huga er hreppurinn kenndur við hina breiðu vík sem er vestan við Búðir. Þess vegna tel ég orðið beygjast eins og það gerir.
Einhvers staðar minnir mig að ég hafi heyrt að Breiðavíkurheimilið sé ekki kennt við breiða vík, heldur við vík þar sem breiður eru af einhverju og þess vegna beygjist það ekki eins og Breiðuvíkursveit. Eflaust getur þetta þó verið álitamál. Ég man ekki betur en menn hafi deilt lengi og hatrammlega um staðarnafnið Bolungarvík og réttmæti þess að hafa þetta err inni í orðinu.
Staðarnöfn taka líka stundum með sér forsetningar sem engin leið er að finna hvernig eru hugsaðar. Ýmist er talað um að vera á Selfossi eða í Keflavík. Hvort nöfn taka frekar með sér á eða í er oft afar vandséð. En bæði hvað það varðar og rithátt eins og fyrr var um talað þá finnst mér að venja fólks sem býr á staðnum eigi að ráða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.3.2008 | 00:39
282. - Kong Christian stod ved hójen mast og holdt sig fast
Ég minntist á Rafritið hér á blogginu um daginn.
Það má nálgast með því að fara fyrst á síðu Netútgáfunnar (www.snerpa.is/net) og svo áfram. Margt var að finna í Rafritinu og þeir sem gaman hafa af ýmiss konar gömlum fróðleik ættu kannski að skreppa þangað ef þeir hafa tíma.
Hér er innlegg sem birtist í 3. tölublaði Rafritsins og er komið frá Atla Harðarsyni sem nú er aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskólann á Akranesi og bróðir Bjarna framsóknarþingmanns.
Atli átti líka fjölmargar mjög góðar greinar í Rafritinu um heimspekileg efni.
Kong Christian stod ved hójen mast
Það hefur lengi verið útbreiddur misskilningur meðal íslenskra textafræðinga, málvísindamanna og sagnfræðinga að textinn við lag D. L. Rogerts um Kristján konung byrji svona:
Kong Christian stod ved hójen mast
og holdt sig fast.
Þetta er auðvitað ekki rétt. Nefndur texti er eftir danska ljóðskáldið Johannes Ewald og fyrsta erindið er svona:
Kong Christian stod ved hójen mast
í róg og damp.
Hans værge hamrede saa fast,
at Gotens hjælm og hjerne brast.
Saa sank hvert fjendligt spejl og mast
i róg og damp.
Fly, skreg de, fly, hvad flygte kan.
Hvo staar for Danmarks Christian
i kamp.
Kristján konungur hélt sér sem sagt ekki í mastrið eins og íslenskir textafræðingar, málvísindamenn og sagnfræðingar hafa talið.
Eftirfarandi er líka úr Rafritinu.
Íslendingar hafa aldrei kunnað að ferðast. Landnámsmennirnir voru svo miklir ratar í ferðalögum að eftir að þeir flæktust hingað treystu þeir sér ekki til að fara aftur og settust frekar að.
Ef Íslendingasögurnar eru lesnar vekur það athygli að varla hafa menn getað skroppið lengra en í næstu sveit án þess að þurfa að hafa vetursetu eins og þar var kallað.
Greinilega var aumingjaskapur manna á ferðalögum það mikill að þeir treystu sér ekki til að ferðast nema í júlí og ágúst. Á öðrum tímum var hætta á að þeim yrði kalt á nóttunni því ekki kunnu þeir að sauma almennileg tjöld. Og þá varð það fangaráð manna ef þeir fóru af einhverjum ástæðum í lengri ferðir að hafa vetursetu og er margar lýsingar á þeirri íþrótt að finna í fornsögum.
Þá settust menn upp hjá fólki með eða án samþykkis þess frá því í september og fram í maí eða lengur. Það fór síðan eftir ýmsum atvikum hver framvindan í vetursetunni varð. Oft tóku vetursetu-menn það til bragðs út úr leiðindum að nauðga kvenfólki á bænum og drepa vinnumenn og þræla og gátu þá orðið eftirmál út af þessu og þótti búendum stundum á sig hallað.
Ekki tíðkaðist þó mikið að menn gyldu líku líkt og tækju síðar upp vetursetu hjá þeim sem áður höfðu vetursetið þá. Meiri stæll þótti yfir því að finna fjarskylda ættingja í öðrum landshlutum til að vetursitja. Með þessu móti urðu stundum til leikfléttur sem stóðu áratugum saman með tilheyrandi ferðalögum, vetursetum og sumarreiðum.
Þrátt fyrir þetta fór ferðakunnátta Íslendinga lítt batnandi.
Þegar kom fram á Sturlungaöld olli þetta oft nokkrum vandræðum í fjölmennum herferðum, því þá voru sveitirnar sem hersetnar voru stundum ekki nógu stórar til að taka við heilum herflokkum til vetursetu og urðu af þessu árekstrar og vandræði og kom jafnvel fyrir að reynt var að brjótast með herflokka milli landshluta þó snjóföl væri á jörðu og fór þá oft illa og varð mörgum kalt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2008 | 01:46
281. - Meira um blogg og svarhala, Bobby Fischer og Magnús Magnússon Smith. Einnig smávegis um æviminningar Ævars Jóhannessonar
Nýjasti bloggvinur minn kvartar yfir hvað færslan mín frá því í gær sé löng. Þetta finnst mér ekki sjálfum. Ég reyni einmitt að hafa færslurnar ekki óhóflega langar. Öfugt við suma aðra þá blogga ég hinsvegar aldrei nema einu sinni á dag og stundum þarf ég að koma ýmsu að.
Í svarhala-bloggi mínu í gær var ég ekki að tala um hvort einstök komment væru löng eða stutt, heldur að ef maður hefur ekki þeim mun meiri áhuga á því umræðuefni sem veldur lengd svarhalans þá verður lestur þeirra ansi þreytandi.
Ég sé ekki betur en Bobby Fischer málið sé á leiðinni uppá yfirborðið aftur. Að þessu sinni er það ekki meint dóttir skákmeistarars sem um ræðir heldur bók sem nýlega er komin út og boðin til sölu á Ebay. Larry Evans hefur haft einhver afskipti af málinu, Helgi Ólafsson stórmeistari er einnig nefndur til sögunnar og mikið er um þetta rætt á skákhorninu, einkum af Torfa nokkrum Stefánssyni. Mér vitanlega hefur Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson ekki bloggað um málið ennþá, svo ég er að hugsa um að segja ekki meira í bili.
Á chesscafe.com er grein um Magnús Magnússon Smith. Þar stendur að hann hafi fæðst "near the village of Raudhamel" árið 1869. Ég man ekki betur en ég hafi lesið einhversstaðar fyrir löngu síðan að Magnús hafi verið fæddur að Dal í Miklaholtshreppi. Að Dalur sé rétt hjá Rauðamel og að Rauðimelur sé þorp finnst mér ekki góð landafræði. Greinin er samt góð að mörgu leyti og fyrir þá sem hafa gaman af skák og hafa ef til vill ekki heyrt Magnúsar getið fyrr, er hún nánast skyldulesning.
Var að enda við að lesa bókina "Sótt á brattann", sem er æviminningar Ævars Jóhannessonar sem kunnastur er fyrir lúpínuseyði sitt sem komið hefur að talsverðu gagni við krabbameinslækningar. Ævar vann lengi við Raunvísindastofnum Háskólans og lagði gjörva hönd á margt þar. Fylgdist með eldgosum, smíðaði alls kyns tæki og tól o.s.frv. Stundaði einnig ljósmyndun með mjög góðum árangri.
Þessi bók er um margt merkileg. Ævar hlaut litla skólagöngu en var þó efalaust miklum hæfileikum gæddur. Fékk berkla á unga aldri og það kom öðru fremur í veg fyrir að hann gengi menntaveginn. Lokakaflar bókarinnar fjalla um óhefðbundnar lækningar á ýmsum sjúkdómum og allskyns dulrænar frásagnir og þá kafla las ég ekki vandlega.
Þó Ævar hafi haft mikinn áhuga á miðlum og ýmsum dulrænum frásögnum er ómögulegt að leggja honum það til lasts. Hann nálgast ævinlega viðfangsefni sín með heiðarleika og opnum huga. Þó mér finnist margt í frásögnum hans bera vott um of mikla trúgirni hvað snertir miðla og dulrænar lækningar er frásögn hans af ýmsum tæknilegum og fræðilegum málum mjög sannfærandi. Óþarfi er samt að láta það hafa áhrif á hvern trúnað maður vill leggja á frásagnir hans af dulrænum fyrirbrigðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.3.2008 | 00:23
280. - Langir svarhalar eru leiðinlegir aflestrar og stundum enda þeir ekki fyrr en allir eru orðnir leiðir á þeim
Ég les samt alltaf öll komment sem ég fæ og aldrei verð ég fyrir því að fá langa svarhala, en missi mjög oft af því sem fram kemur í svarhölum annarra.
Það er líka undir hælinn lagt hvað ég nenni að skoða af linkum og myndböndum sem vísað er í á þeim bloggum sem ég heimsæki.
Bloggvinalistinn er mjög góð uppfinning og ég reyni alltaf að heimsækja alla bloggvinina daglega eða svo, ef kerfið segir mér að þeir hafi bloggað nýlega. Ef mér liggur mikið á þá les ég samt sum bloggin á hálfgerðu hundavaði til að komast yfir sem flest. Stundum eru það löngu bloggin sem verða fyrir barðinu á þessari ritskoðun minni, þó þau hafi oft inni að halda merkilegasta efnið.
Hvað skyldi það vera sem fær rithöfunda til að blogga? Tekur þetta ekki bara dýrmætan tíma frá öðru? Eru bloggskrif ekki áberandi annars flokks?
Það er varla hægt að kalla þetta alvarleg skrif. En skrif eru það samt. Kannski finnst mönnum eins og þeir séu að gæla við rithöfundinn í sér með því að blogga. En þeir sem þegar hafa gefið út bækur og skrifað flottan texta? Getur verið að þeir hafi gaman af að bloggast?
Þegar ég tefldi sem mest á yngri árum þá skeði það stundum að góðir skákmenn urðu briddsinum að bráð. Til dæmis man ég eftir að Jón Baldursson þótti efnilegur skákmaður í eina tíð. Hann varð svo reyndar heimsmeistari í brids, en það er önnur saga. Ég býst við að rithöfundar segi gjarnan um þá sem þeim finnst hafa rithöfundarhæfileika, en fara að blogga, að þeir verði blogginu að bráð.
En hvað er svona slæmt við bloggið? Er ekki ágætt að geta losnað við þau steinbörn úr maganum sem þar hafa nærst áratugum saman. Betra en að þau lendi bara í kistunni þegar öllu lýkur. Nú eða skrifborðs-skúffunni margfrægu.
Mér finnst stórgaman að geta fengið viðbrögð við skrifum mínum svotil samstundis. Þurfa ekki að klára bókina snemmsumars og bíða svo eftir áramótauppgjörinu eftir jólin og síðan er það spurningin um það hvort nokkur nennir að ritdæma afurðina.
Einu sinni gaf ég út blað sem ég kallaði Rafritið. Það var aldrei, eða næstum aldrei, prentað út heldur lifði sínu lífi sem tölvuskrá. (Hægt er að nálgast það hér ). Á þessum tíma rak ég líka BBS sem var í notkun uppi á Stöð 2 og var í orði kveðnu fyrir þýðendur til að senda þýðingar sínar á.
Það voru samt yfirleitt engir aðrir en Páll Heiðar Jónsson sem sendu þýðingar sínar á svo nýtískulegan hátt. Hann sendi þær yfirleitt með sínu 1200 baud módemi og ég man að textinn við eina meðalkvikmynd var svona 10 mínútur að rúlla í gegn.
Oft sat ég frameftir kvöldi við að ganga frá efni í Rafritið og svo setti ég það á BBS-ið þegar ég var búinn að því. Ég man ennþá hvað mér þótti eitt sinn stórkostlegt að sjá að ekki liðu nema nokkrar sekúndur, frá því að ég var búinn að ganga frá blaðinu og setja skrána á sinn stað, þar til fyrsti lesandinn var byrjaður að sækja blaðið. Tilfinning engu öðru lík. Helst að bloggið nái einhverju svipuðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.3.2008 | 00:21
279. - Nú held ég að vorið sé komið, svei mér þá. Líklega er bara Páskahretið eftir
Veðrið í dag er búið að vera mjög gott. Kannski vorið sé bara að koma.
Áslaug birtir prýðilega vorvísu á sínu bloggi og mynd líka. Hún er reyndar oft að birta myndir, vísur og ýmislegt annað þar.
Mér er það þvert um geð að vera sammála Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Ég ber samt heilmikla virðingu fyrir Salvöru systur hans og einkum þó þegar kemur að höfunarréttarmálum. Ég get ekki annað en verið sammála Hannesi í höfundarréttarströgglinu við Auði Laxness og börn. Hvernig er hægt að skrifa ævisögu rithöfundar án þess að vitna í hann? Nákvæmlega hvernig átti að vitna í bækur hans lá ekki fyrir þegar Hannes skrifaði bækurnar.
Samt get ég alveg viðurkennt að Hannes hefði getað farið miklu varlegar í sakirnar. En svoleiðis eftirágáfur eru heldur lítils virði. Í prinsippinu er ég á móti höfundarréttarlögum af öllu tagi, en viðurkenni þó að eins og vestræn þjóðfélög eru uppbyggð er óhjákvæmilegt annað en að höfundar hafi talsverðan rétt. Hinsvegar finnst mér réttur þeirra óþarflega rúmur nú á tímum þessarar allsherjar Netvæðingar og auk þess óhóflega langur.
Hverjum kom það til góða á sínum tíma, öðrum en voldugum útgáfufyrirtækjum, að lengja höfundarrétt úr 50 í 70 ár eftir dauða höfundar, eins og gert var árið 1997? Mér fannst sú gerð með öllu út í loftið og flestar aðrar breytingar sem gerðar hafa verið undanfarið á höfundarréttarlögum hafa eingöngu verið til bölvunar.
Mamma var fremur grannvaxin. Einhvern tíma voru annaðhvort Hulda á Mel eða Gudda á Sunnuhvoli að spyrja hana hvernig hún færi eiginlega að því að halda sér svona grannri. Þá sagði mamma og ég man mjög vel eftir því: "Þetta er ósköp einfalt. Ég fæ mér bara alltaf heldur minna en mig langar í." Þetta mætti vel kalla gamalt megrunarráð.
Af eihverjum ástæðum var nokkuð algengt í mínu ungdæmi að kveikja þyrfti á kertum. Við systkinin höfðum mjög gaman af því. Mest var þó gaman að fikta í kertunum. Láta næstum slökkna á þeim og ýmislegt í þeim dúr. Mamma sagði stundum við okkur: "Þið skuluð ekki vera að kvelja eldinn. Hann gæti átt eftir að ná sér niðri á ykkur." Vax máttum við ekki borða því þá mundum við hætta að stækka.
Mamma sagði alltaf "kvittering" en ekki kvittun. Líka sagði hún stundum: "Mig stansar á....." Orð eins og "mævængja" og "stígstappa" voru henni líka töm á tungu. Þessu gerðum við Ingibjörg óspart grín að og töldum þetta vitleysu hina mestu. Þetta var á þeim tíma þegar við þóttumst vera afskaplega gáfuð. Miklu gáfaðri en foreldrar okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2008 | 02:49
278. - Saumavélamennirnir stórhættulegu og óveður undir Hafnarfjalli
Ljótar eru fréttirnar um saumavéla-spekúlantana sem eru að leggja undir sig landið.
Það vill svo til að ég þekki vel fólk sem lenti í þeim. Nú situr það uppi með úrvalssaumavél sem fékkst á mjög góðu verði og bíður bara eftir því að Selfosslögreglan komi í heimsókn og stingi það á versta stað með þvaglegg.
Eiginlega er bara eitt í sambandi við þetta mál sem ég skil ekki. Hvað kom Neytendastofu þetta eiginlega við? Eru þessir aumingja menn, sem telja sig hafa einkarétt á að féfletta sauðsvartan almúgann, ekki færir um það sjálfir að hafa samband við Selfosslögregluna ógurlegu?
Ég er svolítið kunnugur í Árnessýslu og hef heyrt að sýslumaðurinn sem var á undan þeim núverandi hafi stundum verið gagnrýndur fyrir að gera lítið. Sá sem nú hefur tekið við er aftur á móti stundum gagnrýndur fyrir að gera of mikið. Já, það er vandlifað í henni verslu.
Annars er það með hálfum huga sem ég blogga þetta. Hvað veit ég nema útsendarar valdstjórnarinnar lesi öll blogg eða geti leitað að öllum sem voga sér að minnast á saumavélar. Eiginlega er það hið mesta vogunarspil hjá mér að setja þetta stórhættulega orð í fyrirsögn bloggsins.
Mesta óveður sem ég hef lent í um ævina var undir Hafnarfjalli. Saab bíllinn sem ég var á var það þungur að ég óttaðist ekki svo mjög að hann fyki. Snjór var á jörðu og ferðin sóttist afskaplega seint. Ég var í lest sem í voru eitthvað innan við tíu bílar. Veðrið var þannig að það gekk á með óskaplegum hryðjum en lægði mikið á milli og þá var hægt að sjá lítið eitt í kringum sig.
Þegar einni hryðjunni slotaði svolítið sá ég að afturljósin á bílnum á undan voru hvort uppaf öðru. Bíllinn var semsagt að fjúka út í buskann. Sem betur fer lenti hann í vegkantinum þegar hryðjunni slotaði og fólkið í honum gat komist út. Ég fór útúr bílnum til að aðstoða fólkið og það gerðu fleiri.
Meðan við vorum að bollaleggja um hvort nokkurt viðlit væri að koma bílnum á réttan kjöl aftur skall næsta hryðja á. Þá tókst bíllinn sem fokið hafði aftur á loft og rúllaði í burtu en við forðuðum okkur í skyndi inn í bílana.
Síðan var ekið á Akranes og gist þar. Okkur leist nefnilega ekki á að fara fyrir Hvalfjörð í þessu veðri. Morguninn eftir var komið ágætisveður.
Mig minnir að þetta hafi verið þegar ég var á leiðinni í jarðarförina hans pabba.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.3.2008 | 00:38
277. - Kettlingum komið í skjól og fleiri krakkasögur frá Vegamótum
Þegar við vorum á Vegamótum gerði stundum ansi slæm veður.
Eitt sinn vaknaði ég upp víð það um miðja nótt að glugginn inni hjá strákunum skelltist hvað eftir annað með miklum látum.
Ég fór inn til þeirra til að loka glugganum og heyrði að Benni hafði vaknað við djöfulganginn og sagði við mig hálf aumingjalega úr sinni neðri koju.
"Hann var að reyna að loka sér sjálfur."
Við áttum á þessum tíma kött. Þetta var læða og ég man ómögulega hvað hún hét. En kettlingafull varð hún eins og katta er siður. Í fyllingu tímans gaut hún svo fjórum kettlingum í bælinu sínu. Þetta var um miðjan dag en um nóttina á eftir vaknaði Bjarni í sinni efri koju við það að kisa var að klifra upp eftir gardínunni við hliðina á kojunni hans með kettling í kjaftinum. Síðan varð hann var við að þrír kettlingar voru komnir undir sængina hans til fóta.
Þetta var semsagt síðasti kettlingurinn sem hún var að koma á öruggan stað. Hvers vegna hún ákvað að leggja allt þetta á sig til að koma kettlingunum á nýjan stað hef ég aldrei skilið.
Bjarni vildi náttúrulega helst láta kisu eftir kojuna sína fyrst hún sýndi henni svona mikinn áhuga, en ég held að kisa hafi fallist á það að lokum að fara aftur í bælið sitt.
Benni var að segja frá viðureign sinni við hunangsflugu: "Það kom fluga og stang mig en ég rakti hana í burtu."
Einn daginn kom Bjarni þjótandi inn og sagði: "Mamma, mamma. Errið er komið í mig." Og það var alveg rétt hjá honum. Hann var allt í einu hættur að vera smámæltur og farinn að segja err eins og fullorðið fólk.
Benni fann eitt sinn dauðan fugl. Þegar hann var spurður hvort ekki væri ástæða til að jarðsetja hann með viðhöfn sagði hann. "Nei, það er allt í lagi. Ég henti honum bara upp til Guðs."
Virkileg óveður komu þarna stundum með afar litlum fyrirvara. Eitt sinn sá ég að bylur var að bresta á og strákarnir voru að leika sér í snjónum nokkra tugi metra frá íbúðarhúsinu. Ég var að vinna niðri í búð, sem er í svona 150 metra fjarlægð eða svo þegar ég sá til þeirra. Ég flýtti mér að ná í þá, en svo var bylurinn svartur og svo skyndilega skall hann á að ég komst ekki heim með þá báða í einu svo ég varð að skilja annan eftir og sækja hann svo eftir að ég var búinn að koma hinum í skjól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)