290. - Eru Íslendingar rasistar?

Um þessa páskahelgi hefur borið óvenjumikið á fréttum af alls kyns ofbeldisverkum. Yfirleitt kemur þjóðerni eitthvað við sögu í málunum. Er hugsanlega að einhverju leyti við fjölmiðla að sakast í þessum efnum? Ég veit það ekki, en grunar það óneitanlega.

Ég hef enga trú á því að greina megi ofbeldishneigð eftir þjóðerni. Litháar, Pólverjar og annarra þjóða fólk er alveg örugglega upp til hópa alls ekki verra en við Íslendingar. Ef það er rétt að glæpatíðni meðal innflytjenda hér sé hærri en hjá Íslendingum þá hljóta að vera einhverjar ástæður fyrir því. Þær þarf þá að kanna og það án upphrópana um einstök tilvik.

Að útlend glæpasamtök flytji hingað inn fólk beinlínis til að nýta sér heimóttarskap, fáfræði og linkind okkar Íslendinga hef ég litla trú á. Ef einhvers konar glæpagengi útlendinga hér eru staðreynd, er miklu líklegra að þau hafi myndast eftir komu fólks til landsins og að þar ráði aðstæður miklu. Það er staðreynd að við bjóðum útlendingum oft uppá aðstæður sem við sjálf mundum aldrei sætta okkur við.

Auðvitað er það svo að þeir sem hingað flytjast eru að einhverju leyti úr öðrum þjóðfélagshópum en þeir sem eftir sitja. En að þeir séu glæpahneigðari legg ég engan trúnað á. Miklu líklegra er að það hvernig við Íslendingar tökum á móti þeim ýti með einhverjum hætti undir virðingarleysi þeirra fyrir íslenskum lögum, sé það fyrir hendi, og líka getur ókunnugleiki ráðið einhverju. Þar að auki getur verið að löggjöf okkar sé gölluð.

Tregða heiðarlegs fólks meðal innflytjenda til að starfa með lögreglunni við að upplýsa afbrot getur líka átt sér skýringar, sem þarf að finna. Alhæfingar þarf fyrir hvern mun að forðast.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, virðist vera byrjaður að athafna sig hér á Moggablogginu og ekki er að sjá annað en hann hafi farið beint á „Áttulistann" sem ég hef kosið að kalla svo. Auðvitað er það bara eðlilegt. Hann hefur eflaust frá fleiru að segja en þeir sem hingað koma af alls kyns sundurleitustu hvötum. Ég vorkenni þeim samt svolítið, sem ekki komast á þennan lista þó þá langi til þess og finnist að þeir ættu að vera þar, og eigi það ef til vill skilið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Góður pistill.

Umræðan Páskahelgina hefur verið svo furðuleg... ja, að orð ná eiginlega ekki yfir það.  Fullyrðingar út og suður sem byggðar eru á nánast engu efni til að styðja þær.  Eg segi fyrir mig, að ég er farinn að setja spurningarmerki við hvernig fjölmiðlar halda á þessum málum.

"Glæpagengi" "bófar" o.s.frv. sem gera útá samlanda sína og kúga af þeim fé... sko, ég er bara ekki alveg að kaupa þetta  svona hrátt af skepnunni. 

Það verður aldrei neitt vit í umfjöllun sem er ekkert nema upphlaup og upphrópanir.  Þetta mál allt þarf að rannsaka miklu betur og návæmar áður en farið er að alhæfa um viðkomandi málefni. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.3.2008 kl. 00:54

2 identicon

Sæmundur og Ómar - VAKNIÐ TIL VITUNDAR báðir tveir og hættið að lemja hausunum utan í steina. Í dag er árið 2008 og landið er að fyllast af erlendum glæpaklíkum og þið lifið ennþá í íslenskri sveitarómantík ca árið 1938.

Stefán 25.3.2008 kl. 10:09

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ómar: þakka þér fyrir góð orð um bloggið mitt.

Stefán: Það veldur mér svolitlum vonbrigðum að þú skulir skrifa undir dulnefni. Ég geri mér ljóst að andstaða við innflytjendur fer vaxandi, en get ekki breytt skoðunum mínum þess vegna. Mér finnst vera alið á þessari andstöðu, bæði af mönnum eins og þér og jafnvel oft af fjölmiðlum. 

Sæmundur Bjarnason, 25.3.2008 kl. 12:20

4 identicon

Ég er einmitt alveg gáttaður á umræðunni sem átt hefur sér stað undanfarið hér á Moggablogginu.  Xenófóbían, rasisminn og bara erkiheimskan sem hefur ráðið ríkjum er til þess fallin að verulega minnka trú manns á landanum.  Upphrópanir án rökstuðnings sem fáránlega margir virðast taka undir í einhverri múgæsingu... og einhvern veginn virðast talsmenn Frjálsynda flokksins alltaf birtast og njóta sín líkt og púkinn á fjósbitanum!

Dabbi 25.3.2008 kl. 12:21

5 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Góður pistill!  kv. B

Baldur Kristjánsson, 25.3.2008 kl. 16:59

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þakka hrósið, Baldur. Ég les alltaf bloggið þitt, en er lítið fyrir að skrifa athugasemdir. Innflytjendamál eru eilífðarmál og enginn endanlegur sannleikur til í þeim. Við verðum bara að reyna að gera okkar besta og berjast á móti öfgum hvar sem við sjáum þær.

Sæmundur Bjarnason, 25.3.2008 kl. 19:09

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frjálslyndi flokkurinn hefur ekkert með rasistaumræðu að gera.  Þeir sem þannig tala ættu að fara i smátékk og gá hvort þeir séu sjálfir ekki stútfullir af fordómum í garð heils stjórnmálaflokks, og alla félaga í honum.  Það er að verða ansi þreytandi að þurfa endalaust að benda fólki á að kynna sér sjálft málin, áður er rokið er með fordóma og oft hreinræktaðan rasisma út í fólk sem er í Frjálslyndaflokknum.  Lesið málefnahandbókina, lesið greinar eftir Kristinn H Gunnarsson, og Guðjón Arnar.  Og skoðið málfluttning margra annara flokksmanna, meðal annars mín.  Eg neita því alfarið að vera kennt við illan hug til útlendinga.  Og þið skulið bara benda á hvar þessi rasismi birtist á vegum Frjálslyndaflokksins áður en þið komið fram með endalausa sleggjudóma. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.3.2008 kl. 21:08

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er naumast!! Ég kannast ekkert við að hafa minnst á Frjálslynda flokkinn, en sé að einhver Dabbi hefur gert það hér fyrir ofan. Mér finnst flokkspólitískt karp í þessu máli hafa ósköp lítið gildi. Það hefur þó oft verið reynt að koma rasistaorði á Frjálslynda flokkinn og kannski engin furða þó talsmenn hans bregðist illa við orðum eins og þeim sem Dabbi lætur frá sér fara. Líklega er þeim líka dálítið uppsigað við séra Baldur og trúlega þá einnig við mig núna. 

Sæmundur Bjarnason, 25.3.2008 kl. 21:26

9 Smámynd: halkatla

fínn pistill, EN er ekki fyrirsögnin hálfgerður rasismi?

halkatla, 25.3.2008 kl. 23:07

10 identicon

ÆÆÆ........

magnus 25.3.2008 kl. 23:07

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Anna Karen, jú eiginlega er fyrirsögnin hálfgerður rasismi. Sérstaklega væri hún það ef orðaröðin væri önnur og spurningarmerkið farið.

Einar: Ég skil ekki hvaða hugsunarháttur það er sem er dapurlegur og ennþá erfiðara á ég með að skilja æ-in hans Magnúsar.

Sæmundur Bjarnason, 26.3.2008 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband