287. - Ólympíuleikarnir í Kína - Eiga Íslendingar að mæta?

Sigurður Þór Guðjónsson skrifar hugleiðingu á sínu bloggi og hvetur til þess að Íslendingar sniðgangi Ólympíuleikana í Kína. Þessu er ég ekki sammála af ýmsum ástæðum.

Ekki mun nást samstaða um þetta og auk þess sýnir sagan að mótmæli af þessu tagi skila ákaflega litlu. Á móti kemur auðvitað að margt bendir til þess að Kínverjar ætli sér að nota Ólympíuleikana á ófyrirleitinn hátt í áróðursskyni. Sú skoðun er viðurkennd á Vesturlöndum að Hitlersstjórnin hafi misnotað Ólympíuleikana árið 1936 á freklegri hátt en aðrir.

Margar tilraunir hafa verið gerðar til að mótmæla ýmsu með því að sækja ekki Ólympíuleikana. Þær tilraunir hafa að mestu mistekist og ástæðan er einkum sú að Alþjóðaólympíunefndin á sig sjálf og hefur alltaf mótmælt því harðlega að blandað sé saman stjórnmálum og íþróttum.

Ólympíuleikarnir eru upprunnir á Vesturlöndum og þjóðir af þeim slóðum hafa yfirleitt einokað þá að mestu leyti. Þó okkur á Vesturlöndum þyki upplagt að nota þessa miklu íþróttahátíð til að mótmæla því sem miður fer í veröldinni er ekki víst að allir séu okkur sammála í því. Það er einkum með því að blanda ekki saman stjórnmálum og íþróttum sem Ólympíuleikarnir hafa náð þeirri útbreiðslu sem þeir þó hafa.

Íþróttamennirnir sjálfir vilja auðvitað helst að leikarnir verði haldnir og er það skiljanlegt. Í kringum leikana er mikil fjölmiðlaveisla og ekki vilja fjölmiðlarnir missa af henni. Þeir sem leikana halda vilja nota þá í áróðursskyni og er það skiljanlegt á sama hátt og afstaða íþróttafólksins. Of mikið má þó af öllu gera og margt bendir til þess að Kínverjar gangi langt í þessum efnum.

Íslensk íþróttahreyfing hefur yfirleitt ekki verið ginkeypt fyrir því að mótmæla með því að sækja ekki Ólympíuleikana. Á sínum tíma þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Moskvu mótmæltu margar þjóðir innrás Rússa í Afghanistan með því að mæta ekki og síðan mótmæltu Rússar og Austur-Evrópuþjóðir heimsvaldastefnu Bandaríkjanna með því að mæta ekki á Ólympíuleikana í Los Angeles fjórum árum seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband