296. - Það er svo margt að minnast á...

Þó skömm sé frá að segja man ég ekki með vissu, akkúrat núna, hvort ég tók landspróf vorið 1957 eða 1958. Líklega hefur það þó verið árið 1957 og þá hef ég sennilega verið að vinna uppá Reykjum veturinn eftir og svo hóf ég nám við Samvinnuskólann á Bifröst haustið 1959. Það er ég viss um að er rétt. Eflaust finnst mörgum það ekki skipta miklu máli hvort þessara ártala er rétt, en mér finnst það. Ég man langbest eftir einu prófi úr landsprófinu og held endilega að það hafi verið síðasta prófið.

Þetta var landafræðiprófið. Fyrir það var gefið eins dags upplestrarfrí. Ég notaði þetta upplestrarfrí þó ekki til þess að læra fyrir prófið heldur til að vinna allan daginn niðri í Steingerði á fullu verkamannakaupi. Ég man að mér þótti það ágætiskaup og gott ef það var ekki heilar 18 eða 19 krónur (gamlar) á tímann.

Steingerði var holsteinaverksmiðja sem var þar sem Kjörís kom seinna. Upphaflega var það hús frystihús. Ég veit samt ekki neitt um starfsemina í þessu frystihúsi, en það var margt reynt á þessum árum þó manni finnist stundum eftir fréttum að dæma að allt sé verið að gera í fyrsta skipti núna. Til dæmis lékum við krakkarnir okkur oft í rústum gömlu þangmjölsverksmiðjunnar sem var upp við Álfafell nálægt gömlu rafstöðinni. Þessar rústir voru nú eiginlega ekkert nema grunnurinn, en spennandi samt og á mörgum hæðum því húsið hafði verið byggt utan í brekkuna niður að ánni.

Pabbi vann um þessar mundir í Steingerði og stundum var þessi vinnustaður kallaður Síbería. Verkstjóri þarna var Bjarni Tomm, sem ég held að hafi verið ættaður úr Tungunum. Þarna unnu svona 5 - 10 manns og ég man eiginlega ekki eftir neinum sem þarna voru. Sæmi í Brekku hefur samt líklega unnið þarna.

Framkvæmdastjóri við verksmiðjuna Steingerði var Teitur Eyjólfsson sem áður bjó í Eyvindartungu í Laugardal og var um tíma fangelsisstjóri á Litla-Hrauni sem á þessum árum var gjarnan kallað Letigarðurinn. Ásthildar Teitsdóttur kona Gunnars Guðbjartssonar á Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi var dóttir Teits. Æ, þarna er ég víst að týna mér í merkingarlítilli ættfræði sem mörgum finnst ómerkilegri en flest annað. Þar að auki getur svosem verið að mig misminni þetta allt.

Nú, nú. Ég ætlaði víst að minnast á landafræðiprófið. Ritgerðarefnin í prófinu man ég að voru tvö og það sem ég valdi var "Svíþjóð". Líka var einhver fjöldi spurninga, en ég man lítið eftir þeim og ennþá síður eftir svörunum. Ég man ekki hvað ég fékk á þessu landafræðiprófi en það var lægra en ég átti von á. Aðaleinkunn mín úr landsprófinu var 5,97. Sagt var að prófinu væri náð ef einkunnin væri yfir 5. Það var þó lítils virði því framhaldseinkunn var 6. Það er að segja að það var sú einkunn sem Framhaldsskólarnir (Menntaskólarnir) kröfðust af þeim sem þar vildu fá inngöngu.

Auðvitað er alltaf hægt að segja ef og hefði, en ef ég hefði fengið 6 eða meira á landsprófinu hefði ég hugsanlega farið í Menntaskólann á Laugarvatni og þá hefði líf mitt ef til vill orðið allt öðru vísi en það varð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég vill bara láta þig vita að ég les pistlana þína með miklum áhuga.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 31.3.2008 kl. 06:42

2 identicon

Sæll Sæmundur.

Ég dett stundum inn á bloggið þitt þó ég hafi aldrei kvittað fyrr.  Hafði gaman af að sjá minnst á Teit afa minn þarna.

Kveðja frá Egilsstöðum, Þorbjörg Gunnarsdóttir frá Hjarðarfelli.

Þorbjörg Gunnarsdóttir 1.4.2008 kl. 14:22

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gaman að heyra frá þér Þorbjörg.

Mér finnst eins og þið systkinin hafið verið að minnsta kosti fjögur. Hallgerður (gift Sturlu Böðvarssyni, forseta Alþingis) Guðbjartur, Högni og svo þú yngst. Þannig held ég að það hafi verið a.m.k. þegar ég var á Vegamótum. 

Sæmundur Bjarnason, 1.4.2008 kl. 15:39

4 identicon

Sæll aftur.

Við erum reyndar 6.  Í aldursröð Guðbjartur, Högni, Sigga (býr í Frakklandi), Hallgerður, Teitur (verkfræðingur í Reykjavík) og ég.  Ég hef búið á Egilsstöðum síðan 1987, gift og 3ja barna móðir.  Ég vinn núna á lítilli bókhaldsstofu við bókhald og launaútreikning, en er með BA-próf í bókasafnsfræði frá HÍ og vann lengi á bókasafni Menntaskólans á Egilsstöðum.

Ég hef mjög gaman af að lesa blogg gamalla Miklhreppinga, einkum hjá frænkum mínum Önnu Einars og Kristjönu og Ernu Bjarnadætrum.

kv. Þorbjörg.

Þorbjörg 2.4.2008 kl. 09:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband