295. - Áframhaldandi endurnýting á minningum frá Hveragerði

Það sem hér fer á eftir eru endurnýttar minningar frá Hveragerði. Eftir IP-tölum að dæma eru það miklu fleiri sem lesa bloggið mitt núna en þá var.

Eftir að Bláfell brann breyttust allar tímaviðmiðanir hjá mömmu. Byrjunarviðmiðunin hjá henni var hvort eitthvað hefði gerst "áður en brann" eða "eftir að brann". Áður hafði hún einkum notað tímaviðmiðunina "þegar ég gekk með - Sigrúnu - Ingibörgu - Sæmund" o.s.frv.

Ég man vel að okkur barst mikið af allskyns dóti og fatnaði að gjöf og vorum við lengi að koma því öllu í lóg og neyddumst meira að segja að lokum til að henda einhverju af því.

Sagt var að pabbi hefði fengið 80 þúsund króna greiðslu frá tryggingafélögum vegna brunans. Ekki veit ég hvort það var mikið eða lítið, en staðreynd er að strax sumarið eftir reisti hann nýtt hús á grunni þess gamla og stendur það enn.

Nágranni okkar Jón Guðmundsson frá Blesastöðum, sem pabbi kallaði jafnan Jón blesa, var byggingameistari við gerð hússins. Mér er það minnisstætt að ég sá hann einu sinni detta ofan af þaki meðan á smíði hússins stóð, en sem betur fer meiddi hann sig lítið eða ekkert.

Fyrst um sinn eftir brunann héldum við öll til í einu herbergi hjá Sigmundi Guðmundssyni en fljótlega fengum við hús til leigu að Laufskógum eitt.

Minning sem tengist brunanum að vissu leyti er eitt lítilfjörlegt atvik frá sumrinu okkar að Laufskógum 1 - eða þegar við áttum heima vesturfrá eins og við sögðum jafnan sjálf. Þessi minning er ljóslifandi í minni mínu þó ég skilji ekki af hverju svo er:

Það er kosningadagur. Pabbi og mamma hafa farið að kjósa og við Vignir erum einir heima og erum báðir í herberginu í suðausturhorni hússins sem sennilega hefur verið stofan þó mig minni endilega að þar hafi verið koja.

Eins og stjórnmálanördar geta auðveldlega fundið út eru þetta forsetakosningarnar þar sem Ásgeir Ásgeirsson vann frækinn sigur á séra Bjarna.

Vignir er að leika sér á gólfinu í einhvers konar bílaleik og þarf að bregða sér í ýmis hlutverk. "Má ég kjósa?" segir hann og svarar síðan með svolítið breyttri röddu: "Já, þú mátt kjósa". Þetta endurtekur hann hvað eftir annað og eiginlega er minningin ekki lengri en þetta.

Ég held að ég hafi síðan sagt Ingibjörgu frá þessu og að við höfum notað þetta atvik lengi á eftir til þess að stríða Vigni með, en það má segja að hafi verið eftirlætisíþrótt okkar. Ef til vill er það ástæðan fyrir því að ég man þetta svona vel. Við stunduðum það að herma þetta eftir honum og ég man ennþá vel áherslurnar á orðunum og raddblæinn.

Einhvern vegin finnst mér að á sínum tíma hafi staðið til að Vignir yrði skírður Guðlaugur Viðar Vignir, en ekki bara Guðlaugur Vignir. En kannski er það tóm ímyndun í mér.

Þegar að því kom á sínum tíma að skíra Björgvin þá var Ingibjörg hörð á því að hún tæki ekki í mál annað en hann héti bara einu nafni. Hún væri sú eina í systkinahópnum sem héti bara einu nafni og léti ekki bjóða sér það lengur. Hún hafði sitt fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Búinn að lesa...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 30.3.2008 kl. 13:20

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mér finnst þetta skemmtilegt, Sæmi... Ég þekki ekkert til umhverfisins sem þú skrifar um, fólksins (nema þín), tímabilsins (er aðeins yngri) en mikið er alltaf gaman að lesa þessa minningapistla þína - nánast alveg sama um hvað þú ert að skrifa.

Þú gerir þér væntanlega grein fyrir þvílíkur fjársjóður skrifin þín eru fyrir afkomendur þína. Ég vildi að ég ætti eitthvað svipað frá mínu fólki.

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.3.2008 kl. 13:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband