Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

485. - Bloggað daglega eða sjaldnar. Við minningablogg þarf að vanda sig

Ég þarf að fara að halda utanum þau bloggskrif mín sem kalla má endurminningar. Sonur minn benti mér á um daginn að ég er farinn að skrifa oft um það sama. Til dæmis er ég búinn að skrifa nokkrum sinnum um þetta blessað vídeókerfi í Borgarnesi. Ekki er það nógu gott. Tvennt gerir þetta allt saman þó bærilegra en ella. Ólíklegt er að mikið sé um að sama fólkið sé að lesa bloggið mitt núna og var að lesa það þegar ég skrifaði um tiltekið efni fyrst. Þó getur það vel verið. Til dæmis ættingjar og venslafólk. Hitt er að ég get varla trúað að ég skrifi eins um efnið í bæði skiptin. Hvað veit ég þó um það. 

Kannski væri best að skrifa eingöngu um málefni dagsins og pólitík. Líka mætti lýsa því hvað kemur fyrir mig og mína svona dagsdaglega. Mér finnst bara þessar endurminningar svo skemmtilegar þó þær séu oftast að mestu leyti ofur venjulegt karlagrobb.

Ég sé að mitt helsta vandamál í sambandi við bloggið er málæðið. Bloggin mín vilja verða alltof löng. Þó reyni ég að hafa þau sem styst og stytti þau oft allmikið fá fyrsta uppkasti. Samt eru þau of löng. Það sé ég þegar ég ber þau saman við blogg annarra.

Nokkrar myndir á ég og er að hugsa um að setja þær hér núna. Ekki er þörf á að skrifa sérstaklega um þær nema þá helst að ein myndin er úr strætóskýlaseríunni minni og heitir "Ósýnilega strætóskýlið". Líka er mynd af jeppa sem virðist vera búið að henda. Kannski fleiri jeppum verði hent á næstunni.

 
IMG 1248IMG 1255IMG 1256IMG 1262IMG 1265IMG 1266skyli

484. - Þjóðsögurnar heilla. En það er óþarfi að trúa öllu í þeim

Um daginn skrifaði ég um þjóðsöguna um Bjarna-Dísu og leiddi nokkrar líkur að því að draugatrú gæti haft slæmar afleiðingar.

Um þessar mundir er ég að lesa bók sem heitir „Úr manna minnum" og er safn greina um íslenskar þjóðsögur. Á bls. 26 í þeirri bók er tilvísun sem rakin er til Guttorms J. Guttormssonar og er þannig:

Að sönnu má finna því stað, að draugatrúin hafi ókosti nokkra, en hver getur sagt, hve mikinn þátt hún hefur átt í guðrækilegu líferni og framferði þjóðar vorrar. Ef maður gerði eitthvað stórvægilegt á hluta náungans, hvað var þá líklegra eða sanngjarnara en hann gengi aftur til að jafna reikningana. Var það ekki einmitt óttinn við slíkar heimsóknir, sem stuðlaði til þess, að menn kappkostuðu af fremsta megni að elska náungann eins og sjálfan sig og breyta við hann eins og þeir vildu, að hann breytti við þá sjálfa?

Ég geri alls ekki ráð fyrir að Guttormur hafi haft söguna af Bjarna-Dísu í huga þegar hann ritaði þetta þó mér sé hún ofarlega í sinni. Mér finnst þó langt seilst þarna til að gera draugatrúna sjálfsagða og eðlilega. Að hún hafi átt þátt í guðrækilegu líferni dreg ég í efa. Einnig að kristin trú hafi nokkurn einkarétt á nágrannaást.

Ég fer ekki ofan af því að draugatrú og allskyns hjátrú hafi oft haft mjög skaðleg áhrif. En hvort trú nútímamanna á svokölluð vísindi og tækni sé nokkuð betri veit ég ekkert um. Í framtíðinni kunna menn þó að komast að einhverri niðurstöðu um það og ég trúi því að mannkynið sé á framfarabraut þó hægt gangi.

Bloggvinur minn einn er fæddur að Kálfárvöllum í Miklaholtshreppi sé ég er. Það er Svanur Gísli Þorkelsson. Þegar ég fluttist í Miklaholtshreppinn árið 1970 voru Kálfárvellir búnir að vera í eyði í nokkurn tíma. Svarfhóll var næsti bær og hann var ekki kominn í eyði. Tún og ef til vill ýmislegt fleira á Kálfárvöllum var hins vegar nytjað frá Svarfhóli sem stóð rétt hjá. Sá bær fór þó í eyði áður en langt um leið. Árin mín á Vegamótum voru um margt athyglisverð og skemmtileg. Vel getur verið að ég skrifi einhvern tíma um þau.

Þessir sífelldu afslættir af öllu mögulegu valda því að ég þori eiginlega aldrei að kaupa neitt. Maður gæti verið að missa af einhverjum dúndrandi afslætti og vel er hugsanlegt að verið sé að megaplata mann. Verðið hafi bara verið skrúfað upp úr öllu valdi áður en afslátturinn var gefinn.

Einhvern tíma var gefin út bók sem heitir „Upp er boðið Ísaland". Sú bók var um einokunarverslunina en það væri kannski við hæfi að gefa nú út bók með þessu nafni og fjalla um útrásarvíkingana. Það má leiða líkur að því að trúverðugleiki og heiðarleiki okkar Íslendinga hafi verið á uppboði eða jafnvel útsölu.


483. - Allir krakkar, allir krakkar, eru í skessuleik

Kannski er kominn tími til að reyna að gera nýjan vísnaþátt. Hér eru nokkrar vísur sem ég vona að ég hafi ekki birt hér áður.

Sú vísnabók sem ég man eftir að hafa séð fyrst af öllum slíkum byrjaði á þessari vísu:

Allir krakkar, allir krakkar,
eru í skessuleik.
Má ég ekki mamma
með í leikinn þramma?
Mig langar svo, mig langar svo
að lyfta mér á kreik.

Mér fannst alltaf einsog verið væri að biðja um að lyfta sér á krók því ég vissi ekki hvað þetta „kreik" þýddi.

Vísa númer 2 í þessari bók var svona:

Áðan fór ég útá hól
með Önnu mína.
Þaðan leit ég sumarsól
á sjóinn skína.

Vísunum fylgdu myndir því á mynd sem fylgdi þessari vísu man ég að sjáanlegt var að þessi Anna var dúkka. Vel er hugsanlegt að í vísnabók þessari hafi verið ein vísa fyrir hvern staf í stafrófinu en ég man ekki eftir fleiri vísum úr henni.

Með allra fyrstu klámvísunum sem ég lærði voru eftirfarandi tvær um einhvern nafna minn og vel getur verið að það hafi verið þessvegna sem ég heyrði þær.

Á rúmstokknum Sæmundur situr
og segir við Elínu hljótt:
"Þú ert svo fögur og vitur
nú fæ ég það hjá þér í nótt."

En Elín hún ansar af bragði:
"Ég elska þig Sæmundur minn."
Um leið og lófann hún lagði
á lókinn og smeygði honum inn.

Síðustu ljóðlínunni má breyta ef hún þykir of dónaleg og hafa hana þannig:

á ljóshærðan unnusta sinn.

Langar þreyjir hjalar hlær
hikar bíður grundar.
Sprangar eygir falar fær
fikar ríður brundar.

Þessa vísu kenndi Helgi Ágústsson frá Birtingaholti mér. Hún er merkileg að því leyti að þarna er eingöngu sagnorðum raðað saman. Helgi var sjentilmaður hinn mesti og ég man að hann skrifaði þessa vísu á miða sem hann fékk mér og honum hefði aldrei dottið í hug að fara með hana fyrir framan kvenfólk það sem með okkur vann á pantanaskrifstofu Kaupfélags Árnesinga þegar þetta var.

Að mér riðu átta menn.
Einn af þeim var graður.
Kominn ertu á kvið mér enn.
Klemens sýslumaður.

Þetta er sagt vera beinakerlingarvísa. Það var mikið tíðkað í eina tíð að setja vísur í vörður og höfðu þær þetta nafn.

Hér eru tvær ágætar vísur sem mér finnst af einhverjum ástæðum að eigi vel saman.

Lífið hefur mér löngum kennt
að líða þrá og missa.
Koppurinn minn er kominn í tvennt
hvar á ég nú að pissa.

Regnið þungt til foldar fellur
fyrir utan gluggann minn.
Það er eins og milljón mellur
mígi í sama hlandkoppinn.

Eftirfarandi vísa er einskonar gáta. Ekki erfið að vísu. Kona að mjólka kú.

Tíu toga fjóra.
Tvö eru höfuðin á.
Rassinn upp og rassinn niður
og rófan aftan á.

Næstu tvær vísur eru líka gátuvísur og eftir Séra Svein Víking.

Löngum hafa menn leikið á hana.
Á lofti um nætur fengið að sjá hana.
Svo greinir hún líka gróft og fínt í sundur.
Enn gerast á henni vorsins stærstu undur.

Á hverju húsi er hann.
Og í bát þú sér hann.
Þversum jafnan þar.
Á sauðarhaus má sjá hann.
Þá sannast oft hver á hann.
og sætur svöngum var.

Og svo í lokin nokkrar vísur sín úr hverri áttinni:

Satt og logið sitt er hvað.
Sönnu er besta að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar allir ljúga.

Ein er spurning okkur frá
öllum ljóðavinum.
Hvaða munur er nú á
atómskáldi og hinum?

Rauður minn er sterkur, stór
stinnur mjög til ferðalags.
Suður á land hann feitur fór
fallegur á tagl og fax.

Jæja, nú er víst nóg komið. Læt þetta duga að sinni.


482. - Um Jón Val Jensson og fleira

Sat í morgun við tölvuskrímslið og á meðan ég flakkaði um netheima og bloggheima hlustaði ég með öðru eyranu á Útvarp Sögu. Þar var einkum rætt um það heyrðist mér hvað Jón Valur Jensson væri þröngsýnn. Mér finnst hann vera það á sumum sviðum. Hann er samt víðlesinn og fróður og á gott með að koma hugsunum sínum í orð og ekki orð um það meir. Nú ætla ég að halda áfram þar sem frá var horfið í gær. Þetta var semsagt bara til að reyna að plata fólk til að kíkja á bloggið mitt.

Útvarps- sjónvarps- og vídeófélag Borgarness - skammstafað ÚSVB var félag sem sá um vídeóútsendingar á níunda áratug síðustu aldar í kerfi því sem sagt var frá í síðasta bloggi.

Myndir til sýninga voru fengnar víða að. Einkum þó frá vídeóleigum en einnig þegar á leið frá rétthöfum. Til dæmis man ég að undir það síðasta fengum við talsvert af myndum hjá Háskólabíói. Þeir dreifðu myndum á vídeóleigur og höfðu mikið úrval af þeim. Aðalkosturinn við að skipta við þá var þó að við vorum aldrei rukkuð um leigugjald. 

Einnig var talsvert um annað efni því við vorum svo heppnir ÚSVB-ingar að ná tangarhaldi á sjónvarpstökuvél sem leikfélag Borgarness hafði með einhverjum hætti komið höndum yfir. Theodór Þórðarson formaður leikfélagsins og síðar yfirlögregluþjónn í Borgarnesi bjó í Höfðaholti og var afar vinsamlegur félaginu. Gott ef hann var ekki í stjórn þess. Stefán Haraldsson og Bjarni Jarlsson voru einnig í stjórninni að minnsta kosti um tíma. Björgvin Óskar Bjarnason var félaginu líka á marga lund hjálplegur og að mig minnir eitthvað í stjórn þess. Sömuleiðis reyndi ég eftir mætti að virkja börnin mín mér til aðstoðar.

Sjálfur var ég allan tímann frá upphafi kapalkerfisins og þangað til ég fluttist til Reykjavíkur árið 1986 aðalmaðurinn í félaginu að því leyti að ég sá um rekstur þess að nánast öllu leyti. Þetta var áhugaverður tími og margt sem var gert. Áramótaþættirnir sem við gerðum á þessum árum eru til dæmis eftirminnilegir. Sömuleiðis gerðum við spurningaþætti og héldum Bingó í beinni útsendingu svo fátt eitt sé nefnt.

Gjarnan voru kappleikir í knattspyrnu og körfubolta teknir upp á band og síðan sýndir í kapalkerfinu. Þetta var vinsælt efni og ég man að ég tók upp marga leiki og var orðinn allleikinn í því.

Ég man vel að margir höfðu af því áhyggjur að vídeókerfin væru að ganga á svig við höfundarlög með því að sýna myndir af vídeóleigum mörgu fólki samtímis. Í sjónvarpi ríkisins man ég að fjármálaráðherra sem á þeim tíma var Ragnar Arnalds var ekki fáanlegur til að fordæma vídeókerfin. Af þessu dró ég þá ályktun að öllu væri óhætt þá einstaka menn hefðu hátt.

Þegar ég fluttist úr Borgarnesi og hóf störf hjá Stöð 2, hinu nýja óskabarni þjóðarinnar, árið 1986 voru endalokin hjá vídeókerfunum á næstu grösum. Ég held að vídeókerfið í Borgarnesi hafi ekki starfað lengi eftir að ég fluttist í burtu.


481. - Um vaxtaprósentur og vídeókerfið í Borgarnesi

Okrari af gamla skólanum gerði sig sekan um þá ósvinnu að heimta 9 prósent vexti af viðskiptavinum sínum í stað þeirra sex sem vaninn var að fara fram á. Auk annars var hann svo forstokkaður að hann lét þessa nýju vaxtaprósentu sjást á pappírum hjá sér í stað þess að fela hana með málskrúði og brellum. Þegar hann var spurður hvernig í ósköpunum hann þyrði að gera þetta sem bæði væri með öllu ólöglegt og þar að auki ekki Guði þóknanlegt svaraði hann:

„Sko. Ég var eiginlega að vona að þegar Guð horfði á þetta ofan af himnum þá mundi honum kannski sýnast þetta vera 6 en ekki 9."

Á árunum 1978 til 1986 starfaði ég í Borgarnesi. Á þeim árum kynntist ég tölvum fyrst. Um mann vissi ég sem keypti sér Pet-tölvu en fékk engan hugbúnað með henni og gat lítið notað hana. Um þetta leyti fóru svokallaðar heimilistölvur að koma á markaðinn.

Nokkru eftir 1980 tók vídeóbyltingin svokallaða þjóðina heljartökum. Ég bjó þá í blokk sem stóð við Hrafnaklett. Þangað var keypt vídeótæki af AKAI gerð og notað til að sýna kvikmyndir samtímis í öllum íbúðum annars stigagangsins í blokkinni. Fljótlega æxlaðist svo til að ég tók við rekstri vídeókerfisins. Líklega mest vegna þess að ég var frekari en aðrir. Mér fannst satt að segja að ég væri best til þess fallinn að gera þetta og aðrir hreyfðu ekki andmælum.

Húsfélagið að Hrafnakletti 6 þar sem vídeótækið var varð fljótlega öfundað af öðrum íbúum Borgarness. Fljótlega þandist kerfið út og náði innan skamms í stigaganginn við hliðina og niður í Höfðaholt. Siðan kom að því að lagður var afleggjari niður í Sandvík og einnig Klettavík. Seinna meir áfram upp á Dílahæð, í Þórðargötu og áfram niður í Kveldúlfsgötu og Kjartansgötu.

Til að kynna fyrirfram dagskrána var fengin tölva af gerðinni Sinclair ZX 81 sem fékkst hjá Heimilistækjum í Sætúni en það fyrirtæki sá um lagningu videokerfisins fyrir okkur og tæknibúnað fyrir það. Þessi tölva var mikið þing og kostaði tólfhundruð og eitthvað krónur sem var auðvitað tombóluverð jafnvel þó krónan hafi verið verðmeiri þá en nú.

Skjár fylgdi þessari tölvu ekki og ekki alvöru lyklaborð. Þó var mesta furða hvað hægt var að láta hana gera. Hún skildi einhvers konar einfaldaða útgáfu af BASIC og hægt var að tengja hana við sjónvarpsskjá. Geyma mátti forrit fyrir hana á venjulegum segulbandskassettum og hlaða inn á hana af þeim.

Þetta var fyrir daga Stöðvar 2 og að minnsta kosti niðri í Sandvík hafði það löngum verið vandamál að ná sendingum frá ríkissjónvarpinu. Með kapalkerfinu fengu Sandvíkingar þannig góða mynd frá ríkisapparatinu auk annars.


480. - Blaðamannafundur um ekki neitt. Geir og Bjöggi höfðu ekkert að segja. Ætluðu þeir að segja eitthvað?

Nú eru strákarnir að fara svolítið framúr sjálfum sér. Það er engin ástæða til að halda blaðamannafund nema hafa eitthvað að segja. Mér fannst samt eins og þeir álitu að ástandið færi bráðum að skána. 

Var að lesa byrjunina á skýrslunni sem dregin var undan stólnum og það er ljótur lestur. Núna rétt áðan ætlaði ég svo að lesa grein í Financial Times sem mbl.is vísaði í en þá kostaði það. Mér var bara öllum lokið. Lesið pistilinn hennar Láru Hönnu um skýrsluna.

Tölum frekar um eitthvað annað. Eins og til dæmis Nobelsverðlaun í bókmenntum.

Það er fróðlegt að athuga ýmislegt í sambandi við þau. Eins og flestir Íslendingar vita hlaut Halldór Kiljan Laxness þau árið 1955. Sá sem fékk þau árið áður var enginn annar en Ernest Hemingway og árið þar á undan fékk Sir Winston Churchill þau.

Sagt er að Sir Winston hafi orðið nokkuð undrandi þegar hann frétti af verðlaununum og einhverjir veltu því fyrir sér hvort hann hefði ekki átt að fá friðarverðlaunin frekar. Hann hefði kunnað að meta íróníuna í úthlutun friðarverðlaunanna árið 1973 þegar Henry Kissinger og Le Duc Tho hlutu þau.

Það voru reyndar stórmennin Albert Schweitzer og George C. Marshall sem hlutu friðarverðlaunin árin 1952 og 1953.

Knut Hamsun hlaut bókmenntaverðlaunin hinsvegar þegar árið 1920. Mér er minnisstætt að ég las á sínum tíma um svipað leyti bækurnar Sjálfstætt fólk eftir Laxness og Gróður jarðar eftir Hamsun. Líkindi bókanna fóru auðvitað alls ekki framhjá mér en mér finnst langt gegnið að tala um að Laxness sé að stæla Hamsun með sinni bók.

Tveimur árum eftir að Laxness fékk verðlaunin fékk Frakkinn Albert Camus þau og Rússinn Boris Pasternak árið þar á eftir.

Það var svo ekki fyrr en árið 1962 sem John Steinbeck hlaut verðlaunin og Alexander Solzhenitsyn árið 1970.

Þegar skoðaður er listi yfir þá höfunda sem hlotið hafa bókmenntaverðlaun Nobels fer ekki hjá því að maður kannist við ýmis nöfn.

Norðmaðurinn Björnstjerne Björnson hlaut þau til dæmis árið 1903. Hann samdi meðal annars söguna ódauðlegu um Bör Börsson sem Helgi Hjörvar las í Íslenska Ríkisútvarpið við fádæma vinsældir á sínum tíma.

Norrænu skáldkonurnar Selma Lagerlöf og Sigrid Unset hafa einnig báðar fengið Nobelsverðlaunin.

Það var svo í fyrra (2007) sem Doris Lessing fékk verðlaunin. Það sýnir bara hvað úthlutunarnefndin er mikið á eftir tímanum.

 

479. - Enn er ég ekki laus við útrásina sælu úr systeminu

Einkennilegt hve margir fjármálasérfræðingar hafa komið í ljós að undanförnu. Þetta er einskonar vírus sem menn verða helteknir af. Sjálfur er ég alls ekki laus við einkennin. 

Menn eru mismunandi hneykslaðir á ýmsu sem viðgengist hefur í útrásinni miklu. Ég er einna mest hneykslaður á því að Landsbankanum skuli hafa verið leyft að stofna innlánsreikninga í útlöndum á ábyrgð ríkisins. Reikningarnir voru með háum vöxtum og peningunum eytt í allskyns vitleysu. Eitthvert fjármálaeftirlit hefur illilega brugðist. Jafnvel gæti verið ástæða til að reka einhvern en í ekta íslenskum stíl eru nú þeir sem hrapallegast brugðust að taka öll völd.

Fréttafýsnin er að drepa mig. Samt ætla ég að reyna að blogga um eitthvað annað en fréttir dagsins.

Að Morgunblaðið og Fréttablaðið skuli sameinast er auðvitað stórfrétt en svo mikið hefur gengið á hér á Íslandi að undanförnu að þessu eru ekki gerð mikil skil enda ekki merkileg tíðindi samanborið við annað.

Það er áreiðanlegt að ekki batnar ástandið við að dagblaðamarkaðurinn sé allur kominn á eina hendi. Svo er fyrir að þakka að bloggarar geta ennþá skrifað um það sem þeim dettur í hug. Aumingja blaða- og fréttamennirnir sem hjá mafíunni starfa verða að minnsta kosti að hugsa um saltið í grautinn.

Það eru mörg ár síðan ég sagði upp áskrift að Morgunblaðinu. Ekki geri ég ráð fyrir að endurnýja hana jafnvel þó 24 stundir renni inni í Moggann en verið gæti að útburðarbatteryið færi að henda í mig Fréttablaðinu án þess ég biðji um það.

Nei annars. Þetta er allt fréttatengt. Ég set þá bara inn nokkrar myndir sem ég hef tekið að undanförnu.

IMG 1098IMG 1102IMG 1105IMG 1106IMG 1108IMG 1113IMG 1128IMG 1138IMG 1146IMG 1186IMG 1236IMG 1237IMG 1242


478. - Fallandi gengi

Einu sinni las ég bók sem á íslensku heitir "Fallandi gengi." (The black Obelisk) Hún er eftir Eric Maria Remarque. Remarque (1898 - 1970) var af frönskum ættum en fæddur í Þýskalandi. Frægastur er hann sennilega fyrir hina miklu skáldsögu sína "Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum" (All Quiet on the Western Front.) 

Remarque barðist í þýska hernum í heimsstyrjöldinni fyrri og vera hans þar og reynsla varð grunnurinn að bókinni "Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum" sem hiklaust má telja hans merkustu bók. Árið 1932 flúði hann undan nasistum til Sviss og fluttist til Bandaríkjanna árið 1939 og síðan aftur til Sviss eftir síðari heimsstyrjöldina.

Bókin fallandi gengi var fyrst gefin út árið 1956 í miðju kalda stríðinu og varð þegar mjög vinsæl.

Í ávarpi höfundarins í upphafi bókarinnar í danskri þýðingu segir:

Bebrejd mig ikke, at jeg her taler om gamle dage. Verden ligger på ny i apokalypsens skær, lugten af blod og støvet fra den sidste ødelæggelse er endnu ikke henvejret, og laboratorier og fabrikker arbejder allerede på ny under højtryk på at bevare freden ved at opfinde våben, med hvilke man kan sprænge jordkloden i luften -

Verdensfreden! Aldrig er der blevet talt mere om den, og aldrig er der blevet gjort mindre for den, end i vor tid; aldrig har der været flere falske profeter, aldrig flere løgne, aldrig så megen død, aldrig så megen ødelæggelse og aldrig så mange tårer som i vort århundrede, fremskridtets, teknikkens, civilisationens, massekulturens og massemordets -

Bebrejd mig derfor ikke, at jeg nu går tilbage til de sagnagtige år, da håbet endnu vajede over os som et flag og vi troede på så mistænkelige ting som menneskelighed, retfærdighed og tolerance - og også på, at én verdenskrig måtte være belæring nok for en generation

Sagan gerist í Þýskalandi árið 1923. Þar ríkir þá óðaverðbólga og í bókinni er því mannlífi sem þrífst við slíkar aðstæður afar vel lýst.

Ludwig Bodmer er legsteinasölumaður við útfararstofu bræðranna Kroll. Laun eru greidd út daglega og síðan er frí í hálftíma svo hægt sé að flýta sér að nota peningana áður en þeir verða verðlausir.

Annar bræðranna Kroll og Ludwig keyptu mikið magn af matarmiðum á matsölustað í bænum áður en verðbólgan varð stjórnlaus. Þessir miðar eru nú gulls ígildi og eru að gera veitingahússeigandann brjálaðan.

Sagan er bæði skemmtileg og fyndin á köflum þó bakgrunnurinn sé allt annað en fyndinn. Síðan ég las þessa bók hefur mér alltaf komið hún í hug þegar rætt er um óðaverðbólgu.

Sjálfur safnaði ég frímerkjum í eina tíð og átti meðal annars frímerki frá Þýskalandi uppá marga milljarða marka. Yfirstimpluð og ekki falleg.


477. - Æ, reynum að hætta þessu veseni. Bloggmalið er allt að kæfa

Því skyldi ég vera að rembast við að blogga á hverjum degi? Hverjum skín gott af því? Er ekki ábyrgðarhluti að vera að rífast um smáskítleg mál meðan Róm brennur? Ég held að mörgum (þar á meðal mér) væri hollast að hætta þessu helvítis kjaftæði og reyna að gera eitthvað.

Mér líst samt betur á Rússana en Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ef ég mætti velja. Við höfum áður veðjað á Rússa og gefist sæmilega.

Ef ég blogga meira á næstunni þá reikna ég með að það verði um eitthvað allt annað en málefni dagsins. Þau eru að verða of flókin fyrir mig.

Svei mér ef vinsældir Moggabloggsins eru ekki að aukast. Það er að segja að notendum þess sé að fjölga. Mér finnst það ef ég lít sem snöggvast á listana yfir ný blogg og þessháttar. Hvernig stendur á því? Er mönnum svona mikið mál að tjá sig á þessum síðustu og verstu tímum?

Sá hjá einum nýjum að mælt er með því að menn skrái sig sem notendur svo þeir geti kommentað vandræðalaust á Moggablogg. Kannski aukningin stafi af því.

Svo getum við bara farið að stunda hvalveiðar af krafti. Hvalkjöt er gott.

 

 

476. - Um ábyrgð á núverandi ástandi og fleira

Öðru hvoru koma orðljótar og stórkarlalegar yfirlýsingar í kommentakerfið mitt. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því. Sigurður Þór Guðjónssson segir að hann beri enga ábyrgð á stjórnmálaástandinu á Íslandi í dag vegna þess að hann hafi ekki kosið það yfir sig.

Í mínum augum er það að stinga höfðinu í sandinn að afneita allri ábyrgð vegna þess að aðrir voru svo vitlausir að hafa ekki sömu skoðun og þeir. Þegar á herðir verðum við að bera ábyrgð hvert á öðru og þá skiptir kosningahegðun ekki meginmáli.

Jú, vissulega hafa útrásarræningjarnir flúið land. Stungið þýfinu í töskur og læðst í burtu. En það er hægt að hafa uppá þeim seinna. Núna er aðalmálið að vinna að því að ástandið byrji að lagast. Á margan hátt verður það nýr heimur sem sér dagsins ljós eftir þetta skipbrot frjálshyggjunnar.

Mér þykir einsýnt að hinni ósýnilegu hönd markaðarins verði ekki veifað mikið hér á Íslandi á næstunni. Vel má þó hugsa sér að þetta allt saman verði til góðs þegar fram í sækir.

Hver verða áhrifin á hina íslensku flokkapólitík af þeim atburðum sem nú eru að eiga sér stað? Mín spá er að þau verði lítil. Traust á stjórnmálamönnum hlýtur þó að minnka og mátti það síst við því. Hvort ríkisstjórnin situr áfram eða ekki fer eflaust eftir því hvernig og hvenær þessum ósköpum linnir.

Fjölmiðlum er þegar að fækka og mun fækka enn. Ekki gengdu þeir varðhundshlutverki sínu vel í kreppunni og aðdraganda hennar. Vonandi læra blaðamenn og ritstjórar ekki síður af þessu öllu saman en aðrir.

Ég er svo heppinn að eiga litlar eignir og engin hlutabréf. Mitt helsta áhyggjuefni er að gengishrunið verði það mikið að verðbólgan verði stórfelld á næstu mánuðum og árum.

Sömuleiðis kvíði ég því að þurfa að draga fram lífið á stórlega skertum lífeyristekjum fljótlega. Líklega þarf ég þó alls ekki að kvarta miðað við marga aðra.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband