484. - Þjóðsögurnar heilla. En það er óþarfi að trúa öllu í þeim

Um daginn skrifaði ég um þjóðsöguna um Bjarna-Dísu og leiddi nokkrar líkur að því að draugatrú gæti haft slæmar afleiðingar.

Um þessar mundir er ég að lesa bók sem heitir „Úr manna minnum" og er safn greina um íslenskar þjóðsögur. Á bls. 26 í þeirri bók er tilvísun sem rakin er til Guttorms J. Guttormssonar og er þannig:

Að sönnu má finna því stað, að draugatrúin hafi ókosti nokkra, en hver getur sagt, hve mikinn þátt hún hefur átt í guðrækilegu líferni og framferði þjóðar vorrar. Ef maður gerði eitthvað stórvægilegt á hluta náungans, hvað var þá líklegra eða sanngjarnara en hann gengi aftur til að jafna reikningana. Var það ekki einmitt óttinn við slíkar heimsóknir, sem stuðlaði til þess, að menn kappkostuðu af fremsta megni að elska náungann eins og sjálfan sig og breyta við hann eins og þeir vildu, að hann breytti við þá sjálfa?

Ég geri alls ekki ráð fyrir að Guttormur hafi haft söguna af Bjarna-Dísu í huga þegar hann ritaði þetta þó mér sé hún ofarlega í sinni. Mér finnst þó langt seilst þarna til að gera draugatrúna sjálfsagða og eðlilega. Að hún hafi átt þátt í guðrækilegu líferni dreg ég í efa. Einnig að kristin trú hafi nokkurn einkarétt á nágrannaást.

Ég fer ekki ofan af því að draugatrú og allskyns hjátrú hafi oft haft mjög skaðleg áhrif. En hvort trú nútímamanna á svokölluð vísindi og tækni sé nokkuð betri veit ég ekkert um. Í framtíðinni kunna menn þó að komast að einhverri niðurstöðu um það og ég trúi því að mannkynið sé á framfarabraut þó hægt gangi.

Bloggvinur minn einn er fæddur að Kálfárvöllum í Miklaholtshreppi sé ég er. Það er Svanur Gísli Þorkelsson. Þegar ég fluttist í Miklaholtshreppinn árið 1970 voru Kálfárvellir búnir að vera í eyði í nokkurn tíma. Svarfhóll var næsti bær og hann var ekki kominn í eyði. Tún og ef til vill ýmislegt fleira á Kálfárvöllum var hins vegar nytjað frá Svarfhóli sem stóð rétt hjá. Sá bær fór þó í eyði áður en langt um leið. Árin mín á Vegamótum voru um margt athyglisverð og skemmtileg. Vel getur verið að ég skrifi einhvern tíma um þau.

Þessir sífelldu afslættir af öllu mögulegu valda því að ég þori eiginlega aldrei að kaupa neitt. Maður gæti verið að missa af einhverjum dúndrandi afslætti og vel er hugsanlegt að verið sé að megaplata mann. Verðið hafi bara verið skrúfað upp úr öllu valdi áður en afslátturinn var gefinn.

Einhvern tíma var gefin út bók sem heitir „Upp er boðið Ísaland". Sú bók var um einokunarverslunina en það væri kannski við hæfi að gefa nú út bók með þessu nafni og fjalla um útrásarvíkingana. Það má leiða líkur að því að trúverðugleiki og heiðarleiki okkar Íslendinga hafi verið á uppboði eða jafnvel útsölu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Johann Trast Palmason

Sagan af Bjarna Dísu er ein af uppáhalds sögum mínum úr þjóðsögum Jóns og var mér alltaf hugleikin, viðbótin um að sumir meintu að Dísa hafi en verið lifandi þegar Bjarni braut hana niður vegna hjátrúar.

svona var þetta og er svipað til nokkurra sagna fra kolviðarhóli.

En merkilega fannst mer að lesa síðar að draugatrúin og óttinn við drauga hefði fyrir alvöru sprungið út þegar við gerðumst mótmælendur og stóðum ein með guði án verndardýrlinga kaþólskunnar og jafnvel fjölgyðistrú víkingana.

Mannskepnan virðist ótrúleg þegar henni finnst hún standa ein í lífinu og til alls vís en sterk erum hún þegar henni finnst hún hafa samkomulag við verndara sína.

Johann Trast Palmason, 20.10.2008 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband