483. - Allir krakkar, allir krakkar, eru í skessuleik

Kannski er kominn tími til að reyna að gera nýjan vísnaþátt. Hér eru nokkrar vísur sem ég vona að ég hafi ekki birt hér áður.

Sú vísnabók sem ég man eftir að hafa séð fyrst af öllum slíkum byrjaði á þessari vísu:

Allir krakkar, allir krakkar,
eru í skessuleik.
Má ég ekki mamma
með í leikinn þramma?
Mig langar svo, mig langar svo
að lyfta mér á kreik.

Mér fannst alltaf einsog verið væri að biðja um að lyfta sér á krók því ég vissi ekki hvað þetta „kreik" þýddi.

Vísa númer 2 í þessari bók var svona:

Áðan fór ég útá hól
með Önnu mína.
Þaðan leit ég sumarsól
á sjóinn skína.

Vísunum fylgdu myndir því á mynd sem fylgdi þessari vísu man ég að sjáanlegt var að þessi Anna var dúkka. Vel er hugsanlegt að í vísnabók þessari hafi verið ein vísa fyrir hvern staf í stafrófinu en ég man ekki eftir fleiri vísum úr henni.

Með allra fyrstu klámvísunum sem ég lærði voru eftirfarandi tvær um einhvern nafna minn og vel getur verið að það hafi verið þessvegna sem ég heyrði þær.

Á rúmstokknum Sæmundur situr
og segir við Elínu hljótt:
"Þú ert svo fögur og vitur
nú fæ ég það hjá þér í nótt."

En Elín hún ansar af bragði:
"Ég elska þig Sæmundur minn."
Um leið og lófann hún lagði
á lókinn og smeygði honum inn.

Síðustu ljóðlínunni má breyta ef hún þykir of dónaleg og hafa hana þannig:

á ljóshærðan unnusta sinn.

Langar þreyjir hjalar hlær
hikar bíður grundar.
Sprangar eygir falar fær
fikar ríður brundar.

Þessa vísu kenndi Helgi Ágústsson frá Birtingaholti mér. Hún er merkileg að því leyti að þarna er eingöngu sagnorðum raðað saman. Helgi var sjentilmaður hinn mesti og ég man að hann skrifaði þessa vísu á miða sem hann fékk mér og honum hefði aldrei dottið í hug að fara með hana fyrir framan kvenfólk það sem með okkur vann á pantanaskrifstofu Kaupfélags Árnesinga þegar þetta var.

Að mér riðu átta menn.
Einn af þeim var graður.
Kominn ertu á kvið mér enn.
Klemens sýslumaður.

Þetta er sagt vera beinakerlingarvísa. Það var mikið tíðkað í eina tíð að setja vísur í vörður og höfðu þær þetta nafn.

Hér eru tvær ágætar vísur sem mér finnst af einhverjum ástæðum að eigi vel saman.

Lífið hefur mér löngum kennt
að líða þrá og missa.
Koppurinn minn er kominn í tvennt
hvar á ég nú að pissa.

Regnið þungt til foldar fellur
fyrir utan gluggann minn.
Það er eins og milljón mellur
mígi í sama hlandkoppinn.

Eftirfarandi vísa er einskonar gáta. Ekki erfið að vísu. Kona að mjólka kú.

Tíu toga fjóra.
Tvö eru höfuðin á.
Rassinn upp og rassinn niður
og rófan aftan á.

Næstu tvær vísur eru líka gátuvísur og eftir Séra Svein Víking.

Löngum hafa menn leikið á hana.
Á lofti um nætur fengið að sjá hana.
Svo greinir hún líka gróft og fínt í sundur.
Enn gerast á henni vorsins stærstu undur.

Á hverju húsi er hann.
Og í bát þú sér hann.
Þversum jafnan þar.
Á sauðarhaus má sjá hann.
Þá sannast oft hver á hann.
og sætur svöngum var.

Og svo í lokin nokkrar vísur sín úr hverri áttinni:

Satt og logið sitt er hvað.
Sönnu er besta að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar allir ljúga.

Ein er spurning okkur frá
öllum ljóðavinum.
Hvaða munur er nú á
atómskáldi og hinum?

Rauður minn er sterkur, stór
stinnur mjög til ferðalags.
Suður á land hann feitur fór
fallegur á tagl og fax.

Jæja, nú er víst nóg komið. Læt þetta duga að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Yngvi Högnason

Mér dettur þessi stundum í hug þegar ég les bloggið þitt(eftir séra Svein) :

Margt er sér til gamans gert
geði þungu kasta
það er ekki einskis vert
að eyða tíð án lasta.

Yngvi Högnason, 19.10.2008 kl. 09:52

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

"Margt er sér til gamans gert" held ég að sé einmitt heiti bókar um fornar íslenskar gátur og leiki sem Hróðmar Sigurðsson tók saman. Hróðmar var kennari minn og ég hef minnst á hann í bloggpistlum mínum að mig minnir. Sonur hans Þórhallur var bekkjarbróðir minn í skóla.

Vísuna hef ég heyrt áður en kunni ekki og vissi ekki að hún væri eftir séra Svein.

Sæmundur Bjarnason, 19.10.2008 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband