482. - Um Jón Val Jensson og fleira

Sat í morgun við tölvuskrímslið og á meðan ég flakkaði um netheima og bloggheima hlustaði ég með öðru eyranu á Útvarp Sögu. Þar var einkum rætt um það heyrðist mér hvað Jón Valur Jensson væri þröngsýnn. Mér finnst hann vera það á sumum sviðum. Hann er samt víðlesinn og fróður og á gott með að koma hugsunum sínum í orð og ekki orð um það meir. Nú ætla ég að halda áfram þar sem frá var horfið í gær. Þetta var semsagt bara til að reyna að plata fólk til að kíkja á bloggið mitt.

Útvarps- sjónvarps- og vídeófélag Borgarness - skammstafað ÚSVB var félag sem sá um vídeóútsendingar á níunda áratug síðustu aldar í kerfi því sem sagt var frá í síðasta bloggi.

Myndir til sýninga voru fengnar víða að. Einkum þó frá vídeóleigum en einnig þegar á leið frá rétthöfum. Til dæmis man ég að undir það síðasta fengum við talsvert af myndum hjá Háskólabíói. Þeir dreifðu myndum á vídeóleigur og höfðu mikið úrval af þeim. Aðalkosturinn við að skipta við þá var þó að við vorum aldrei rukkuð um leigugjald. 

Einnig var talsvert um annað efni því við vorum svo heppnir ÚSVB-ingar að ná tangarhaldi á sjónvarpstökuvél sem leikfélag Borgarness hafði með einhverjum hætti komið höndum yfir. Theodór Þórðarson formaður leikfélagsins og síðar yfirlögregluþjónn í Borgarnesi bjó í Höfðaholti og var afar vinsamlegur félaginu. Gott ef hann var ekki í stjórn þess. Stefán Haraldsson og Bjarni Jarlsson voru einnig í stjórninni að minnsta kosti um tíma. Björgvin Óskar Bjarnason var félaginu líka á marga lund hjálplegur og að mig minnir eitthvað í stjórn þess. Sömuleiðis reyndi ég eftir mætti að virkja börnin mín mér til aðstoðar.

Sjálfur var ég allan tímann frá upphafi kapalkerfisins og þangað til ég fluttist til Reykjavíkur árið 1986 aðalmaðurinn í félaginu að því leyti að ég sá um rekstur þess að nánast öllu leyti. Þetta var áhugaverður tími og margt sem var gert. Áramótaþættirnir sem við gerðum á þessum árum eru til dæmis eftirminnilegir. Sömuleiðis gerðum við spurningaþætti og héldum Bingó í beinni útsendingu svo fátt eitt sé nefnt.

Gjarnan voru kappleikir í knattspyrnu og körfubolta teknir upp á band og síðan sýndir í kapalkerfinu. Þetta var vinsælt efni og ég man að ég tók upp marga leiki og var orðinn allleikinn í því.

Ég man vel að margir höfðu af því áhyggjur að vídeókerfin væru að ganga á svig við höfundarlög með því að sýna myndir af vídeóleigum mörgu fólki samtímis. Í sjónvarpi ríkisins man ég að fjármálaráðherra sem á þeim tíma var Ragnar Arnalds var ekki fáanlegur til að fordæma vídeókerfin. Af þessu dró ég þá ályktun að öllu væri óhætt þá einstaka menn hefðu hátt.

Þegar ég fluttist úr Borgarnesi og hóf störf hjá Stöð 2, hinu nýja óskabarni þjóðarinnar, árið 1986 voru endalokin hjá vídeókerfunum á næstu grösum. Ég held að vídeókerfið í Borgarnesi hafi ekki starfað lengi eftir að ég fluttist í burtu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Um félaga Jón Val Jensson má margt gott segja, eins & þú framtelur, en hann er það þröngsýnn að ég hef heyrt það á skotspónum að eitt sinn hafi hann lent í störukeppni við sjálfann sig, & tapað.

Ég var líka 'videóglæpamaður' & er smásálarlega í því enn.

Steingrímur Helgason, 18.10.2008 kl. 00:29

2 identicon

Víðsýnir eru skoðanalausir..

LS.

LS 18.10.2008 kl. 13:25

3 Smámynd: Heidi Strand

Að nóta J.V.J. sem beitu.

Heidi Strand, 18.10.2008 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband