Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

475. - Kreppan hefur mörg andlit. Þar á meðal hópfaðmlag Glitninga

Það er auðvelt að rífa sig ofan í rassgat á blogginu. Kenna öllum öðrum um hvernig komið er. Heimta að Davíð sé rekinn, ríkisstjórnin segi af sér, þotuliðið sé gert eignalaust og svo framvegis og framvegis. Sannleikurinn er samt sá að þetta kusum við yfir okkur. Þetta er allt okkur sjálfum að kenna. 

Allt er pólitík. Allt heimsins ef og hefði snýst bara um það hvort við kusum rétt í síðustu kosningum. Ég trúi því að fulltrúar okkar leggi sig fram og geri hlutina eins vel og þeir geta. Ekki bara til þess að fá hugsanlega fleiri atkvæði í næstu kosningum eða lafa áfram við völd. Heldur til þess að hafa áhrif á það að heimurinn geti orðið betri á morgun en hann var í gær. Ómerkilegir og  valdasjúkir stjórnmálamenn eru þó til. Bæði hér á Íslandi og víðar.

Ekki líst mér vel á töfraformúluna um að biðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hjálp. Lausu endarnir eru þó svo margir að vel getur verið að það sé skynsamlegasta leiðin.

Í síðustu Kilju var fjallað um Stein Steinarr. Egill Helga eða einhver viðmælanda hans sagði Stein ekki njóta þeirrar aðdáunar sem hann ætti skilið. Þetta held ég að sé firra. Ég efast um að sá Íslendingur sé til sem ekki kannast við eitthvert ljóð eftir Stein. Kannski vita þeir ekki af því en það skiptir engu máli. Andi hans lifir svo sannarlega með þjóðinni.

Einnig var í Kiljunni minnst á alkasamfélagið. Ég er ekki frá því að Orri tali fyrir munn margra þegar hann hallmælir guðsorðaflaumnum og jesústaglinu. Ég hef aldrei þurft á SÁÁ eða AA að halda en hef eins og margir fleiri reiknað með að þar séu sæmilega rekin tryppin. Kannski er það misskilningur.

 

474. - Gasprarar eru gallagripir en sálarró er allra meina bót

Mér virðist stefna í alvarlega milliríkjadeilu við Breta. Mér er minnisstætt hve hataðir Bretar voru þegar á þorskastríðunum stóð. Ekki hefði verið mikill vandi fyrir stjórnvöld að espa fólk til óhæfuverka þá. Svipað getur orðið uppi á teningnum núna. Rétta ráðið er að draga andann djúpt og telja nokkrum sinnum uppað tíu.

Slæmt er hve mikið af umræðunni undanfarna daga hefur farið í að bollaleggja um hverjum ástandið sé að kenna og hvernig skuli ná sér niðri á þeim. Hatursáróður er aldrei til heilla. Reiði er afleitur félagi.

Einu sinni var sagt um Össur Skarphéðinsson að hann væri helsta vandamál Samfylkingarinnar. Líklega er hann svolítið að spekjast núna eftir að hann varð ráðherra. Þó er það ekki víst. Hann bloggar enn af miklum krafti. Einkum eftir miðnætti að sagt er. Trúlega minnist hann þá Þjóðviljaáranna. Sumir eiga um sárt að binda eftir eiturörvar hans en stundum lenda þær á honum sjálfum.

Davíð Oddsson er augljóslega mikill gasprari líka. En kjöftugum ratast stundum satt á munn. Sagt er að Davíð hafi gert margan útlendinginn frábitinn stuðningi við Íslendinga í þrengingum þeirra. Hann talaði um erlendar skuldir með óvægnum hætti í Kastljósviðtali um daginn. Davíð á það til að segja sannleikann umbúðalaust og talar þá gjarnan á annan hátt en embætti hans segir til um að hann ætti að gera. Sumir segja að hann tali eins og byltingarforingi.

Eiginlega eru þessir tveir menn nauðalíkir. Bæði í útliti og á annan hátt. Lífið á Íslandi væri öðruvísi ef þeirra nyti ekki við. Allir hafa yndi af að hafa skoðun á þeim. Ýmist er þeim lýst sem óalandi og óferjandi eða sem einhverjum mestu snillingum sem uppi hafa verið.

Geir Hilmar Haarde hefur vaxið í áliti hjá mér að undanförnu. Síðustu dagar hafa svo sannarlega verið eldskírn hans og hann hefur staðist þá raun. Á blaðamannafundinum í dag (fimmtudag) var hann þó áberandi taugaóstyrkur. Deilan við bresk stjórnvöld kann að hafa valdið því.

 

473. - Engu að treysta lengur. Hver er sjálfum sér næstur

Fyrir hinn venjulega sveitamann eins og mig er gengisfallið og verðbólgan sem það örugglega á eftir að valda miklu alvarlegra mál en hausfarir banka og uppkaup á þeim. Því er samt ekki að leyna að með því að hafa betri vexti í ýmsum vogunarsjóðum hefur bönkunum tekist að plata verulegan fjölda fólks til að geyma sparifé sitt fremur í slíkum sjóðum en á almennum sparisjóðsbókum.

Ég trúi því að innistæður á almennum sparisjóðsbókum séu tryggar. Séu þær það ekki er voðinn vís.

Sú breyting sem gerð var á peningamálum fyrir allmörgum árum og fólst í því að gegnið var látið fljóta og seðlabankanum gert í staðinn að einbeita sér að því að stýra verðbólgunni, hefur sýnt sig að vera illilega misráðin.

Með því var í raun spákaupmönnum bæði innlendum og erlendum afhent gengisskráningarvaldið. Íslensk stjórnvöld ráða engu um það. Með því að kaupa og selja krónur hefur óvönduðum mönnum tekist að hrifsa til sín völd yfir þvi hvernig krónan er skráð á mörkuðum.

Hvort hin alþjóðlegu fjármálavandræði halda áfram eða ekki er mest undir því komið hve mikla trú menn hafa á þeim kerfum sem þar ráða. Nóg er til af peningum. Þeir sem yfir þeim ráða eru bara hræddir um að ástandið haldi áfram að versna.

Sagnirnar um rússagullið held ég að séu bara pólitík og ekkert annað. Þeir eiga áreiðanlega nóg með sjálfa sig. Þannig lít ég í stuttu máli á málefni dagsins og hananú. Icesafe-málið er sérstakt mál og hugsanlega getur það valdið erfiðleikum í samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir.

 

472. - Kreppir að á Krepputorgi

Fór á sunnudaginn uppá Krepputorg í grenjandi rigningu. Þarna var fólk að hamast við að eyða sínum síðustu verðlausu krónum og svo bíður Bauhaus sjálfur uppi í brekkunni þess albúinn að hirða þær örfáu krónur sem ef til vill verða eftir. Hræddur er ég um að þessar verslanir verði flestar komnar á hausinn fljótlega. Kannski er bara best að bíða eftir rýmingarsölunum sem þá verða.

Í sumum búðanna þarna fékk ég IKEA-kennd. Hún er þannig að mér finnst beinlínis óþægilegt að standa og finna draslið umlykja mig og næstum kæfa. Samhliða þessari tilfinningu þá flýgur manni í hug að kannski komist maður aldrei aftur út úr þessum ósköpum. Villist kannski þar um til eilífðarnóns.

Nú er um að gera að gleyma því sem liðið er og hefja fátæktarbaslið. Nú verður aftur farið að tala um gamla verðið og svo framvegis. Ég á fastlega von á því að verðbólgan æði áfram næstu mánuðina. Ekki er ólíklegt að bráðum þurfi að fækka eitthvað núllum í krónu-umræðunni. Það er sparnaður sem við Íslendingar kunnum. Það getur vel farið svo að ekki fari almennilega að rofa til í efnahagsmálum fyrr en eftir nokkur ár. Við skulum bara reyna að þreyja Þorrann og Góuna þangað til.

Vonandi tekst að forðast þjóðargjaldþrot en einhverjir munu nota tækifærið og raka saman aurum. Nýja þotuliðið er þeir sem kunna á verðbólguna og tekst að láta hana fleyta sér yfir ójöfnurnar.

Það er ekkert víst að það verði þeir sömu og borðuðu fjármálastofnanir í morgunmat og banka í hádeginu. Það gæti eins verið kaupmaðurinn á horninu sem fann óvænt helling af gömlum stígvélum niðri í kjallara eða maðurinn sem safnaði snærisspottum og gerði úr þeim úrvals kaðla.

Það var að mörgu leyti ágætt að vera verslunarstjóri eins og ég var á verðbólgutímunum upp úr 1970 eða svo. Það var varla hægt að gera svo vitlaus innkaup að þau yrðu ekki ágæt á nokkrum mánuðum. Það sem var óhóflega dýrt í fyrstunni varð með tímanum að reyfarakaupum enda voru yfirleitt ekki dagprísar í gildi.

Ótti við vöruskort og hungur er alveg óraunhæfur núna. Síðasta raunverulega kreppa hér á Íslandi var um 1930 og þá áttu margir við erfiðleika að stríða. Að erfiðleikarnir verði jafnmiklir núna og þá var kemur ekki til greina. Þeir sem eiga peninga eða aðrar eignir geta þó vel búist við að tapa einhverju. Þeir sem ekkert eiga tapa ekki miklu.

Ásakanir um hverjum núverandi ástand sé að kenna eru til lítils og fara jafnan í hringi. Sem kjósendur óhæfra stjórnmálamanna berum við öll ábyrgð. Þotuliðið var bara að nýta sér tækifæri sem buðust.

Horfði í kvöld á viðtal við Davíð Oddsson á Netinu. Eins og venjulega brást RUV þar og skrúfaði fyrir gagnastrauminn áður en viðtalið var búið. Þetta er að verða illþolandi.

 

471. - Efnahagsmál og málfar

Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að blogga uppá hvern einasta dag. Þetta er ég samt búinn að venja mig á og tel mér trú um að þetta sé það sem lesendur mínir vilja.

Glitnisgerðin var ef til vill misráðin. Að minnsta kosti virðast áhrifin hafa orðið önnur en til var ætlast.

Þegar um hægist held ég að verðbólgan verði alvarlegasta efnahagsvandamálið. Annað fer mest eftir áliti manna og það er hægt að tala upp eða niður.

Í raun var erlendum og innlendum spákaupmönnum afhent gengisskáningarvaldið fyrir þónokkrum árum og þeir hafa greinilega ekki farið vel með það.

Að bankarnir séu svo að fara á hausinn hver af öðrum held ég að sé vegna ástandsins á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum.

Ég trúi því að það sé ljós við enda ganganna.

==============

Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu leitar af tveimur mönnum (hugsanlega af erlendi bergi brotna) á aldrinum 25-30 ára, í tengslum við grófa líkamsárás og rán ér átti sér stað á Laugarvegi s.l. nótt um kl. 03:30.

Maður á sjötugsaldri var þá leiddur af tveimur mönnum inn í húsasund skammt frá gatnamótum Laugarvegar og Frakkastígs, þar sem hann var barinn og rændur.

Ef einhver getur veitt upplýsingar um menn sem koma heim og saman við eftirfarandi lýsingu. Annar með ljósblá húfu, í ljósum leðurjakka með hvitum röndum þvert yfir brjóstkassa. Hinn var í dökkum jakka og með dökka prjónahúfu, hugsanlega í ljósum gallabuxum. Allar upplýsingar vel þegnar í síma 444 1100

================

Þetta er copypeistað af mbl.is. Endemis rugl er þetta. Ég veit svosem ekkert um efnisatriði málsins en málfarið er skelfilegt. Af hverju les vesalings blaðafólkið fréttirnar ekki lauslega yfir áður en þær eru sendar á Netið?

 

470. - Örstuttar efnahagshugleiðingar

Vonandi fer þetta allt vel. Nú er ég að horfa á umræður á Alþingi og bíða eftir tíufréttum í sjónvarpinu. Mikið að gerast og ekki ástæða til þess fyrir mig að vera að fjölyrða um það.

 

 

469. - Ástandið er að verða alvarlegt

Það er ekki vegna þess að ég hafi ekkert að segja sem ég bloggaði ekkert í gær. Ég var bara annað að gera. Í dag hefur svosem verið nóg að gera líka en ætli ég bloggi samt ekki smá.

Eru bloggin mín alltaf að styttast? Hvernig skyldi standa á því? Nóg er samt að gerast út um allt. Skyldi mér þykja því verra að blogga sem meira gerist? Getur verið að ég hafi minna að segja en áður? Er þetta merki um að ég sé að verða hálfleiður á blogginu? Þessu nýja tæki sem gerir svo mörgum lífið leitt en gleður fáa. Ég skil þetta bara ekki.

Hann ætlaði að hugsa en hætti við
og hélt bara áfram að tala.

Svo segir í þekktri stöku. Getur verið að ég sé farinn að blogga hugsunarlaust? Eða hugsa bloggunarlaust? Og það þegar bloggarar eru sífellt að verða sýnilegri og áhrifameiri.

Ég verð að fara að taka mig á. Það á bara ekki við mig að blogga um það sem á dagana drífur svona hversdagslega. Ég held líka að lesendur mínir vilji ekkert endilega fá að vita mitt álit á efnahagsmálunum.

 


468. - Einu sinni var bloggari

Einu sinni var bloggari sem hélt að hann væri svo flinkur að hann mundi aldrei lenda í bloggstíflu. Svo fór allt á hvolf í þjóðfélaginu í kringum hann. Bankar fóru á hausinn, gengið féll niður fyrir öll velsæmismörk og annað eftir því.

Bloggarinn vildi samt ekki skrifa um svona smámuni. Hann vildi bara skrifa um það sem honum þótti merkilegt. Gallinn var sá að enginn vildi lesa þessháttar þvætting. Fólk vildi miklu heldur lesa um gengisfellingar, fjandsamlegar yfirtökur og aðra óáran. Ekki um það sem gerðist í hugskoti bloggarans góða.

Auðvitað gat þetta ekki endað nema á einn veg. Bloggstíflan hvarf ekki fyrr en hann var farinn að skrifa eins og allir hinir. Að lokum varð hann eins og þeir. Sérfræðingur í öllu mögulegu en einkum þó gengisfellingum, fjandsamlegum yfirtökum og annarri óáran.


467. - Samtíningur og sitthvað

Sjaldan hafa efnahagsmál vakið jafn mikla athygli og nú undanfarið. Um þau mætti blogga marga metra en ég ætla ekki að gera það. Reyna að láta eins og ekkert sé.

Segja má að nokkrir stílar séu ráðandi í bloggskrifum. Auðvitað er heimsendastíllinn mest áberandi. Það er alltaf allt á hraðri niðurleið í heiminum. Þannig hefur það lengi verið. Samt bjargast allt yfirleitt að lokum.

Rövlstíllinn er ágætur til að koma ýmsu smálegu á framfæri sem ekki er auðvelt að koma að annars staðar. Líkist um margt kommentum. Um að gera að vera ekki með málalengingar heldur koma sér beint að efninu.

Í greinastílnum þarf að gæta þess að skrifa bara um eitthvað eitt efni. Útmála það sem um er rætt rækilega eins og verið sé að útskýra málin fyrir þroskaheftu barni.

Viðtalsstíllinn er ágætur ef maður vill koma einhverju á framfæri sem ekki er auðvelt að skrifa um. Svo eru allskyns viðtalsstílar til og upplagt að herma eftir einhverjum þeirra.

Samtíningsstíllinn er í raun og veru líkur greinastílnum en óhætt er að minnast á margt. Aðalatriðið í öllum þessum stílum er að vera ekki of langorður.

Svona í baksjón sýnist mér að þetta sé bara lýsing á því hvernig ég blogga. Þessvegna er þetta líklega Sæmundarháttur í bloggi eins og einhverntíma var sagt.


466. - Enn minnkar trúverðugleiki stjórnmálamanna

Það er ekki auðvelt að burðast við að blogga og minnast ekki á það sem allir tala um. Nefnilega bankayfirtökur og þessháttar. 

Ég býst við að til lengdar verði eftirtekja núverandi atburða sú að stjórnmálamenn verði jafnvel enn ótrúverðugri en verið hefur. Óhugsandi er að allir sjái ekki öðru hvoru augljósa lygi jafnvel hjá sínu uppáhaldsfólki. Flestir stjórnmálamenn ljúga blákalt ef þeir halda að þeir græði eitthvað á því.

Ég nefni engin nöfn og vil ekki taka þátt í persónulegu skítkasti en umræðan ber ekki lengur vitni um venjulegt pólitískt karp. Það er eitthvað miklu meira á seyði. Þó held ég að stjórnin lafi eitthvað áfram.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband