98. blogg

 Gleymdi USB-lyklinum mínum heima og þar er Word-skjal með ýmsum minnisatriðum sem að gagni gætu komið við bloggskrifin. Þessi  minnisatriði snúa einkum að endurminningum og þess háttar.

Eitthvað ætti mér samt að leggjast til. Einn aðalkosturinn við bloggið er að hér er hægt að láta móðann mása án þess að nokkur geti gripið fram í fyrir  manni.

Á árum áður varð skógræktaráróður ætíð hvað háværastur þegar Vigdís stakk hríslu í mold. Mér hefur þó alltaf fundist meiri þörf fyrir almenna landgræðslu en skógrækt, en það er víst minni kolefnisjöfnun í henni og minna fyrir stórfyrirtækin að græða á.

Það er kannski útaf þessu sem mér finnst ein eftirminnilegasta vísan úr deilunni miklu um fjölmiðlalögin sem tröllreið þjóðinni árið 2004 vera þessi:

Vanhæfur kom hann að verkinu.

Vigdís plantaði lerkinu.

Bónus hann á

einsog hvert barn má sjá.

Það er mynd af honum í merkinu.

Samt var ég nú eiginlega meiri stuðningsmaður ÓRG en Davíðs í þessu máli. Önnur ljóðlínan er auðvitað alveg útúr kú, en lyftir samt þessari limru í mínum augum.

Frjótæknar held ég að sæðingamenn séu yfirleitt kallaðir núorðið. Mér dettur í hug vísan fræga: Hér áður þurfti bóndinn að borga fyrir kúna / ef bola þurfti að sækja, en nú er þetta breytt. / Því það er komið úrvalslið frá Ameríku núna / sem ólmir vilja gera þetta fyrir ekki neitt.

Þegar ég var á Vegamótum voru þeir Hjörtur á Fossi og Jóhannes á Furubrekku frjótæknar fyrir allt Snæfellsnesið (að ég held) og komu oft við á Vegamótum. Einu sinni sagði Hjörtur mér frá því að þegar hann mundi setjast í helga steininn margfræga gæti hann vel hugsað sér að setjast að á Vegamótum og þar væri langlíklegasti staðurinn fyrir þéttbýlismyndun á sunnanverðu nesinu. Eiginlega er ég alveg sammála honum.

Dætur Jóhannesar á Furubrekku unnu hjá mér á Vegamótum hver á eftir annarri. Ég man einkum eftir Láru, Unu og Ingunni. Kannski voru þær fleiri og syni átti hann eflaust líka.

 

Áslaug, Benni og Hafdís fóru í gærkvöldi í bókaskipið og keyptu sér fáeinar bækur. Ég hef orðið var við, að sumir halda að eingöngu séu guðsorðabækur til sölu í þessu skipi og það hélt ég eiginlega fyrst og líklega hefur fjölmiðlum skilist það einnig. Svo er þó alls ekki. Þarna eru allskonar bækur til sölu og ekki er útilokað að ég fari þangað á næstunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband