99. blogg

Á Reykjum II

 

Í garðyrkjustöð Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi var Guðjón Pálsson verkstjóri. Óli Valur Hansson vann þar líka, en stjórnaði ekki verkum, að ég held. Í stöðinni var talsverður fjöldi gróðurhúsa á þessum tíma.

Fyrir utan stóra húsið sem svo var kallað og núllið þá voru þau í númeraröð upp í svona 18 eða 20 að mig minnir og svo bananahúsið sem var nokkuð stórt hús og ferningslagað, sem var mjög óvenjulegt með gróðurhús. Enn er nánast greypt í huga mér hvernig húsunum var fyrirkomið á lóðinni sem garðyrkjustöðin stóð á.

Í bananahúsinu voru, eins og nafnið bendir til, ræktaðir bananar. Þeir voru þó aðeins í rúmlega hálfu húsinu. Hinn hlutinn var notaður undir ýmislegt. Ég man t.d. eftir gúrkum þar.

Eitt sinn vann ég við að "sjóða" í þeim hluta bananahússins sem ekki voru bananar í. Að "sjóða" var að væta moldina vel með sjóðandi heitu vatni og auk þess að vökva með eiturblöndu. Auðvitað voru engar plöntur í þessum hluta hússins meðan á suðunni stóð. Ég man að eitrið var blandað í tvöhundruð lítra tunnu sem stóð þar hjá á einhverskonar búkkum og saman við vatnið í henni var sett lítið eitt úr mæliglasi af eitrinu "Bladan". Ég var ekki með hanska eða neitt þegar ég sullaðist með eitrið og seinna var mér sagt að þetta væri mjög sterkt eitur. Líklega myndu unglingar í dag ekki vera látnir vinna með eitur af þessu tagi.

Bananarnir í bananahúsinu fengu sjaldan að þroskast í friði. Það var alltof mikil freisting að stela sér fáeinum stykkjum. Yfirleitt voru bananarnir þarna fremur litlir og ég man að stundum stakk maður einum eða tveimur í vasann þegar maður þurfti að fara á klósettið uppi í Byggingu.

Fyrir utan nemendur af Garðyrkjuskólanum unnum við nokkrir unglingar úr Hveragerði þarna. Oft var mikið fjör og læti og þó vinnan væri stundum erfið var hún aldrei leiðinleg.

Ég man að við vorum einhverju sinni að vinna í húsinu nr. 16 eða 17. Ég man bara að það var í fyrsta húsinu austan við nellikkuhúsið. Áslaug Káradóttir (dóttir Kára Tryggvasonar kennara og húsvarðar við Barna og Miðskólann í Hveragerði) spurði mig hvernig mér hefði gengið á einhverju tilteknu prófi í skólanum. "Ágætlega," sagði ég. "Nema ég kunni ekki helvítis sálminn." Þetta sagði ég í mesta sakleysi, en Áslaug og einhverjir fleiri sem þarna voru að vinna hneyksluðust mikið á orðalaginu hjá mér. Að tala um "helvítis sálminn" væri bara hreinlega guðlast.

Gústi var rúmir tveir metrar á hæð. Nemandi við garðyrkjuskólann. Ég man eftir honum við útplöntun á salati skammt frá húsunum númer fimm og sex. Bograndi yfir beðinu með fæturna nokkurn vegin fyrirhafnarlaust sitt hvoru megin við það segir hann: "Já, ég segi nú bara það, að það er betra að vera stór garðyrkjumaður en lítill garðyrkjumaður."

Bjöllur nokkrar fundust í steinseljubeði í húsunum númer 10 og 11. Silakeppir sögðu menn að þær hétu og væru þær hættulausar með öllu. Seinna hélt svo einhver því fram að bjöllur þessar hétu ranabjöllur og væru stórhættulegar öllum gróðri.

Smalli var dökkhærður og talsvert loðinn á löppunum. Hann langaði hinsvegar til að verða eins góður íþróttamaður og Óli Unnsteins sem var ljóshærður og ekki áberandi loðinn á löppunum. Smalli rakaði á sér lappirnar til að líkjast Óla sem mest.

Ólafur Unnsteinsson var ágætur íþróttamaður og varð seinna þjálfari í frjálsum íþróttum, en dó langt um aldur fram. Af einhverjum ástæðum eru þeir bræður hann, Grétar og Reynir mér hugstæðari en margir aðrir.

Þegar við vorum að tína tómata urðum við alltaf græn á höndunum og þau óhreinindi þvoðust ekki auðveldlega í burtu. Aldrei datt okkur þó í hug að nota hanska. Reynir Pálsson var vanur að setja plástur á allar smáskeinur og skurfur á höndunum á sér áður en hann byrjaði að tína tómata. Kannski var hann bara að spæla Guðjón með því að eyða plástrinum frá honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband