105. blogg

Árný Filippusdóttir á Hverabökkum kallaði mig alltaf "litla frænda". Ég man að mér leiddist það.

Seinna þegar ég vann í Kaupfélaginu bauð hún okkur Bjarna eitt sinn að smakka á hrosshaus sem hún sagðist vera búin að sjóða í marga klukkutíma. Ekki leist okkur vel á það.

Mig minnir að það hafi verið Árný á kvennaskólanum sem hringdi í margar konur í Hveragerði og þar á meðal Magðalenu handavinnukennara og sagði: "Er þikkþakk á þinni. Það er nefnilega ekkert þikkþakk á minni." Flestir sögðu sikk sakk og skrifuðu það jafnvel zik zak og það þótti góður kostur að hafa slíkt á saumavélum.

Gestur á Hæli var eitt sinn við messu á Eyrarbakka. Tveir prestar predikuðu. Gestur var spurður hvernig honum hefðu líkað predikanir prestanna. Hann svaraði með vísu:

Annar lapskáss bar á borð

og beinakex fyrir náðarorð.

Hinn gaf okkur harðan fisk

og hangikjöt á silfurdisk.

Sumir hafa verið haldnir þeim misskilningi að að bærinn sem Gestur er kenndur við heiti Hæli. Svo er auðvitað alls ekki. Hann heitir Hæll.

Falleg bæjarnöfn að mínu mati eru t.d. Kúskerpi og Þverspyrna. Auðvitað eru ekki allir sammála mér um það. Kúskerpi er fyrir norðan því ég man eftir að hafa séð skilti með því nafni við veginn eitt sinn þegar ég fór til Akureyrar. Ef til vill hefur sá bær verið skírður upp eins og margir aðrir sem heita sjaldgæfum nöfnum. Bærinn Snússa var t.d. skírður upp og nefndur Ásatún. Sagt er að bærinn Tittlingastaðir hafi verið skírður Smáfuglastaðir. Sjálfur er ég ættaður frá bænum Látalæti í Landssveit.

 

Einu sinni gistu 70 manns hjá okkur á Vegamótum yfir nótt og í dag hefði það hugsanlega þótt fréttnæmt en þótti ekki þá. Þá var hríðarbylur og veðurútlit ekki gott, en rúturnar til Ólafsvíkur og Stykkishólms komust við illan leik að Vegamótum. Í annað skipti skall á ofsaveður eftir hádegi á aðfangadag og rúturnar komust ekki einu sinni að Vegamótum en sneru við skammt frá Borgarnesi. Tveir menn höfðu komið úr Helgafellssveitinni til að taka á móti fólki sem var væntanlegt að sunnan. Þeir gistu hjá okkur um kvöldið en þegar veður batnaði skyndilega um nóttina fóru þeir af stað heimleiðis en þurftu þegar til kom að ganga mestalla leiðina. Það þótti fréttnæmt og birtist frétt um það í DV eða Vísi.

Eitt sinn man ég eftir því að rafmagnslaust var í viku á Vegamótum og sveitunum í kring. Ekki þótti það sérstakt tiltökumál og allir gátu bjargað sér einhvern vegin. Frost var þó og mér er minnisstætt að ég hafði mestar áhyggjur af að frysi í klósettunum og setti frostlög í þau. Það var að ég held í þessari viku sem ferðafólk af Keflavíkurflugvelli kom í heimsókn og gisti hjá okkur í eina eða tvær nætur því bíllinn þeirra var bilaður. Hann hafði bilað á Fróðárheiði og verið skilinn þar eftir í eina eða tvær nætur. Þau hituðu meðal annars poka einn lítinn á prímusi og eftir sprengingar og læti í pokanum margfaldaðist hann að stærð og þegar hann var opnaður var hann fullur af poppkorni. Strákarnir mínir og systkinin í Holti störðu opinmynnt á þetta og fannst það jafnast á við dýrindis galdra.

Annars var það merkilegt með bilun þessa glæsilega jeppa sem ferðafólkið frá Keflavíkurflugvelli var á, að þó allt virtist í lagi og fjöldi manna hefði skoðað bílinn vildi hann alls ekki fara í gang. Viðgerðarmenn frá Rafveitunni komu að Vegamótum, en þangað hafði bíllinn verið dreginn. Einn í þeim hópi hafði orð á sér meðal félaganna að vera lunkinn við bílvélar. Hann hlustaði þegar reynt var að starta bílnum í gang og kíkti ofan í húddið og spurði svo hvort ekki væri naglalakk að finna á staðnum. Jú, það fannst og hann málaði með því yfir örlitla rifu á kveikjuhamrninum sem varla sást með berum augum og bíllinn rauk í gang á næsta starti.

Í vikulanga rafmagnsleysinu var stanslaust rok á austan næstum alla vikuna. Það var oft gaman að fylgjast með Rafveitumönnum þegar þeir voru að viðgerðum. Eitt sinn fylgdist ég með tveimur slíkum fara upp í tvöfaldan staur sem var skammt frá Vegamótum. Hlutverk annars var greinilega fyrst og fremst að fylgjast með að allt gengi vel fyrir sig hjá hinum við klifrið upp í staurinn. Hins vegar var rokið svo mikið að þegar hann horfði upp til að gá hvernig hinum gengi átti hann í miklum vandræðum með að halda jafnvægi og þeytast ekki í burtu. Það var eiginlega ekki fyrr en hann fann upp á því þjóðráði að leggjast endilangur á bakið á jörðina að þetta fór að ganga vel hjá honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Te eða kaffi, Sæmundur?

Nöldrari 29.8.2007 kl. 07:31

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sæll Nöldrari (IP-tala skráð)

Ekki er IP-talan þín skráð hjá mér svo ég veit lítið um hver þú ert. Svarið við spurningunni er já. Mér finnst þetta vera tilvísun í Ecce Homo svo ég geri ráð fyrir að við þekkjumst frá Bifröst. Kannski erum við bekkjarbræður (-systkini)

Ég hef líklega ekki sagt  mikið frá Bifrastarárunum hér á blogginu mínu. Þau ár eru þó um margt minnisstæð.

Gaman að heyra frá þér (hver sem þú ert). Takk fyrir það. 

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2007 kl. 18:03

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það var oft rafmagnslaust.  Einu sinni fór rafmagnið á aðfangadag.  Þá vildi svo skemmtilega til að við krakkarnir gáfum mömmu kerti og pabba vasaljós í jólagjöf.  Svo kviknaði í hárinu á Helgu systur...... og ég lamdi hana í hausinn... og slökkti.  Fannst það ekkert mjög leiðinlegt. 

Mig rámar í viku-rafmagnsleysið.  Var ekki orðið ansi kalt þá ?  Ég þykist eiga minningar um okkur krakkana liggjandi undir sæng, vegna kulda.

Anna Einarsdóttir, 29.8.2007 kl. 20:41

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, það var ansi kalt. Frostið úti var samt ekki mjög mikið og það bjargaði talsverðu. Ég var samt mest hissa á að fólk skyldi ekki í einhverjum mæli flýja þetta ástand. Flestir held ég að hafi getað haldið einhverjum smáhita í einu herbergi eða svo með gastækjum o.þ.h.

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2007 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband