Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
20.8.2007 | 01:25
97. blogg
þú sem ert í tölvunni.
Helgist þitt stýrikerfi,
tilkomi þitt netkerfi,
verði þinn vilji
svo á skjá sem í prentara.
Leið oss eigi í kerfisvillu,
heldur frelsa oss frá löngum biðtíma.
Gef oss í dag
vora daglegu útskrift
og fyrirgef oss þó vér fyrirgefum eigi villur í forriti,
því að þitt er kerfið
valdið og fólkið,
að eilífu
ENTER
Þetta er ágætt dæmi um allskonar skrif sem gengu í ljósum logum manna á milli á Netinu fyrir nokkrum árum og gera kannski enn. Ég man hvað mér þótti þetta óskaplega fyndið þegar ég sá þetta fyrst.
Allskyns próf eru líka afar vinsæl og margir eru tilbúnir til að taka þau og útvarpa niðurstöðunni jafnvel á blogginu sínu.
Brandarasöfn eru líka mörg til og sumir virðast hafa þá stefnu að blogga svona einn smábrandara á dag og eina litla fréttaskýringu kannski. Auðvitað geta þetta orðið þónokkrir brandarar á heilu ári, en hver er bættari? Jú, bloggarinn kannski. Trúlegt er að honum fari fram við skrifin og fari að skrifa eitthvað annað en aðkeypta brandara og lélegar fréttaskýringar.
Ég man vel þá tíð þegar Aluswiss var að hefja hér störf og verksmiðjan í Straumsvík var byggð og tók til starfa undir stjórn Ragnars álskalla. Þá var fullyrt að tilkoma verksmiðjunnar mundi verða til þess að hér mundi fljótlega rísa upp fjölbreyttur iðnaður tengdur áli. Líka að nú væri hver síðastur að nota okkar frábæra fossaafl því fyrr en varði yrði kjarnorka svo ódýr að vatnsorka gæti með engu móti keppt við hana.
Nú ætlar ítalskt fyrirtæki að fara að framleiða eitthvað dót úr áli og mikilli orku á Akureyri og á það að veita fjölda manns atvinnu. Álið þarf að flytja inn.Vel getur verið að þetta takist ágætlega. Svolítið óhönduglegt samt í ljósi sögunnar.
Í kvöld keyrði ég á eftir strætisvagni. Í afturglugganum á honum var mynd af fólki og fljótt á litið var að sjá eins og fjöldi manns væri í vagninum. Mér finnst að mörgu leyti eins og rekstur strætisvagnanna hafi undanfarna áratugi beinst einkum að því að sem allra fæstir noti þá. Ég held þó, að þeir sem um mál þeirra véla, hafi viljað vel. Hið almenna þjóðfélagsástand hefur bara verið einkabílnum hagstætt. Um leið og hagur fólks batnar reynir það að komast milli staða á þægilegri hátt en með strætisvögnum. Afleiðingin verður sú að sífellt stærri svæði fara undir bíla og umferðarmannvirki allskonar og borgin dreifir svo úr sér að til vandræða horfir.
Bjarni hefur það bara ágætt á Bahamaeyjum eftir því sem ég best veit. Fellibylurinn Dean sem nú er sem mest í fréttum mun að líkindum ekki angra hann mikið. Í mesta lagi að fólk í Nassau fái sent frá honum rok og rigningu eftir því sem veðurspámenn telja.
Við Benni (aðallega Benni þó) fórum í dag með frystikistuna gömlu á nýtt heimili við Dalveginn (endurvinnslustöð) og settum auk þess upp nýja skápinn í þvottahúsinu.
19.8.2007 | 02:06
96. blogg
Allt er í hers höndum útaf þessari menningarnótt. Gengur á með hljómleikum og alls kyns óáran. Ég er nú bara í vinnunni og get horft framhjá þessum ósköpum. Fór samt upp á efstu hæð áðan til að virða fyrir mér raketturnar og mikið skelfilega var þessi flugeldasýning ómerkileg svona úr fjarlægð séð. Í Bretlandi sá ég einu sinni flugeldasýningu úr flugvél og það var ólíkt merkilegra en þetta.
Benni kom við í dag eftir hádegið. Hafði farið í bókaskip og keypt sér fáeinar bækur. Ég endurtek: B-ó-k-a-s-k-i-p. Aðrir bókamarkaðir verða nú hálfhversdagslegir við hliðina á þessum ósköpum. Við Áslaug fórum og versluðum í Kringlunni og fengum okkur að borða. Þegar við vorum að fara var frumsýningarfólk af ýmsu tagi með borgarstjórann sjálfan í broddi fylkingar að hópast þangað og sennilega hefur einhver menningartengdur aðburður verið í aðsigi.
Fyrirsögn í Morgunblaðinu í dag var svona: Pálmi í Hagkaup. Að mínu viti hefði átt að standa þarna annaðhvort Pálmi í Hagkaupi eða Pálmi í Hagkaupum. Nefnifallsáráttan hélt ég að hefði ekki enn lagt undir sig Morgunblaðið. Reyndar les ég það ekki svo oft núorðið og vel getur verið að svonalagað sé orðin viðtekin venja þar. Það er reyndar fróðlegt að velta fyrir sér hvort orðið Hagkaup sé eintala eða fleirtala. Ég man ekki betur en Pálmi og aðrir fyrirrennarar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hafi talið orðið vera fleirtölu. Núorðið virðist mér að auglýsingastofur séu látnar sjálfráðar um hvort orðið sé haft í eintölu eða fleirtölu. Eintalan minnir mig að sé mun vinsælli. Framtíðin er svo að sjálfsögðu að beygja það alls ekki neitt.
Minna má á eilífðardeiluefnið um hvort rita skuli Bolungavík eða Bolungarvík. Þar koma eintala og fleirtala við sögu og reyndar fjölmörg atriði önnur. Sömuleiðis er stundum sérkennilegt á hvern hátt staðarnöfn taka með sér forsetningarnar á eða í og þar virðist engin regla ráða. Þegar svo er finnst mér einboðið að fara eftir málvenju íbúanna á staðnum.
Þegar ég fer í vinnuna keyri ég jafnan um Stekkjarbakkann og Höfðabakkann. Ég man vel eftir þeim hávaða og látum sem urðu þegar til stóð að byggja Höfðabakkabrúna. Þá á ég við brúna yfir Elliðaárnar en ekki það umferðarmannvirki sem gert var löngu seinna og liggur yfir veginn út úr borginni. Sumir kalla það reyndar Höfðabakkabrú líka.
Náttúruverndarsamtök af ýmsu tagi, íbúasamtök og alls kyns samtök lýstu sig algjörlega mótfallin því vistfræðilega stórslysi sem í uppsiglingu væri með byggingu þessarar brúar. Brúin var nú engu að síður byggð og núna þónokkrum áratugum seinna sýnist mér að illspárnar um hana hafi ekki gengið eftir.
Um 1960 gaf svokallaður Rómarhópur út rit þar sem spáð var mjög illa fyrir heiminum. Allt var á leið til andskotans, augljóst var að olía í heiminum mundi ganga til þurrðar löngu fyrir árið 2000 og annað eftir því. Fátt af þessu rættist, sem betur fer.
Það er af þessum sökum og ýmsum fleirum sem ég á svolítið erfitt með að trúa öllu því sem náttúruverndarsinnar segja um virkjanir og þess háttar. Jafnvel mætti kalla mig Kárahnjúkasinna. Sumt af því sem sagt er t.d. um hlýnun andrúmslofts er þó án efa rétt, en ef aldrei mætti gera neitt þá værum við enn á því stigi sem við vissulega vorum fram á nítjándu öld. Evrópubúum af hærri stigum þótti þá merkilegt að koma hingað og sjá óvitlaust fólk, en frumstætt mjög, sem bjó í moldarholum.
18.8.2007 | 03:19
95. blogg
Harpa Hreinsdóttir kommentar enn og aftur á mína síðustu bloggfærslu og af því að ég hef margra ára reynslu af blogglestri þá veit ég að komment eiga það til að fara framhjá manni.
Þess vegna ætla ég að reyna að afrita færslu hennar hér orðrétta, þó ég sé í nokkrum vafa um hvernig Moggabloggsguðirnir taka slíku.
- - - - - - - - - - - - - - - - -
Sæmundur: Ef þú vilt fá fleiri lesendur eða fleiri komment þá verðurðu að gefa hverri færslu lýsandi fyrirsögn. Sé fyrirsögnin áhugaverð sést hún á rss-listum og menn smella yfir á bloggið. Númer færslu er hvorki áhugavert né lýsandi.
(Svo má auðvitað nota öll ódýru trikkin hans Bols Bolssonar ;)
P.s. Ég hef þá einföldu stefnu í lífinu að andmæla hressilega hverjum þeim sem viðrar fordóma eða bull um geðsjúkdóma - í augnablikinu er það færsla og kommentakerfi einhverrar Önnu, http://www.anna.is/weblog/2007/08/hugarafl.php
Náttúrlega er ég ekki geðlæknismenntuð en ég er óvenju skynsamur geðsjúklingur :) og orðin hundleið á fólki sem heldur að það sé hægt að kjafta sig út úr alvöru þunglyndi og kvíða eða drekka ómælt te, eta remedíur, láta strjúka sér um höfuðkúpu eða prjóna / föndra sig út úr ástandinu. Af hverju hefur enginn stungið upp á því að sykursjúkir saumuðu út, í staðinn fyrir insúlingjöf, eða að púsluspil væru almennt notuð til lækka blóðþrýsting, í stað lyfja?
Harpa (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 10:16
- - - - - - - - - - -
Svo er þetta líka fín aðferð til að komast ódýrt frá bloggi dagsins!!! Verst ef Harpa tekur það illa upp að ég skuli nota komment hennar hér á þennan hátt.
Það verðskuldar þó meira en stuttaralegt svar svo ég hugsa að allt þetta blogg verði einhvers konar viðbrögð við því.
Varðandi byrjunina gæti ég svosem reynt að vera nasty og sagt að mér þætti rss-trikkið ekkert merkilegra en bola-trikkið.
Og hver segir að ég vilji umfram allt fá fleiri lesendur og fleiri komment? Kannski hef ég einhvern tíma kvartað undan kommentaleysi en það er meira svona almennur væll og til þess að fylla bloggsíðurnar. Mér er slétt sama hvort það eru margir eða fáir sem lesa þetta blogg. Ég veit að það eru einhverjir sem gera það og það dugar mér alveg. Aðallega er ég að þessu til að þjálfa skrifvöðvana, hvar sem þeir nú eru. Svo finnst mér eiginlega eins og ég sé að tala við þá sem ég veit eða held að lesi bloggið mitt reglulega. Harpa á nú á hættu að bætast í þann hóp.
Það er bara mín sérviska að merkja bloggin mín með færslunúmeri og ef það hentar illa rss-straumum sem eru á sveimi í netheimum, þá verður bara að hafa það. Ég skil samt vel að það geti hentað þeim sem lesa mikið af bloggum að geta í sjónhendingu séð um hvað tiltekin blogg fjalla.
Ég er svona almennt og yfirleitt á móti fyrirsögnum og því meir sem þær eru lengri. Það er eitt af undanlegheitum Moggabloggsins að þar virðast óralangar fyrirsagnir vera leið til vinsælda. Þeim til hjálpar sem lesa bloggið mitt að staðaldri er ég þó tekinn upp á því að setja stundum einskonar undirfyrirsögn í upphaf bloggsins.
Ég veit vel að númer bloggfærslna eru hvorki áhugaverð né lýsandi. Það hentar eflaust sumum að hafa fyrirsögnina sem líkasta einhvers konar fréttahelsti, en ég er bara ekki á neinn hátt að reyna að draga saman það sem ég vildi sagt hafa.
Ég hef lengi lesið bloggið hennar Hörpu og hugsa að í gegnum tíðina hafi hún menntað mig svolítið í geðlæknisfræðum þó mér þyki sumt annað sem hún skrifar skemmtilegra. Satt að segja finnst mér hálfleiðinlegt að okkur skuli hafa orðið sundurorða út af jafn ómerkilegum hlut og grein eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur, sem ég hef ekki einu sinni lesið.
Ég hef þá einföldu stefnu í lífinu að gera jafnan ráð fyrir því að fólk sé gáfaðra en það virðist vera. Einu sinni hélt ég að engir eða a.m.k. mjög fáir væru gáfaðri en ég. Það held ég ekki lengur.
Þú, Harpa vilt andmæla hressilega öllum þeim sem viðra fordóma og bull um geðsjúkdóma. Það er alveg ágætt. Mér finnst hinsvegar að rétt sé að fara með gát þó fólk sé ekki sammála manni. Auðvitað getur þurft að taka djúpt í árinni svo eftir sé tekið og hreinskilin og hressandi ummæli geta komið af stað áhugverðum skoðanaskiptum, en þau geta líka fælt þá frá sem síst skyldi.
17.8.2007 | 01:42
94. blogg
Allir tala um bloggið og ekki síst Moggabloggið. Þeir sem lengi hafa verið í bransanum og þykjast fyrir það vera merkilegri en aðrir, finna Moggablogginu flest til foráttu.
Fremstur í þeim flokki hefur verið Stefán nokkur Pálsson, sem kallar bloggið sitt "Um tilgangsleysi allra hluta." Hann hefur stundað það mánuðum saman að vera með sérstakar bölbænir um Moggabloggið í lok hverrar einustu bloggfærslu hjá sér. Ekki hefur hann þó haft fyrir því að rökstyðja þessar bölbænir og gagnrýni sína á fyrirbrigðið.
Nú virðist hann hinsvegar hafa gefist upp á þessari bölbænaþulu sinni. Blogg hans er jafnan athyglisvert og þó frægð hans virðist einkum tilkomin vegna þess, að hann hefur notað hvert tækifæri sem gefist hefur til að halda því fram, að hann sé landsins besti bloggari, þá er því ekki að neita að nokkur innistæða er fyrir því áliti.
Það eru vissulega atriði í sambandi við Moggabloggið sem eru gagnrýniverð. Áherslan sem lögð er á vinsældalista sem birtist og uppfærist að ég held jafnóðum er óþarflega mikil og svo eru tengingarnar á fréttir á mbl.is dálítið ankannalegar. Þessar tengingar er auðvelt að misnota ef markmið fólks er að komast sem efst á vinsældalistann og því er ekki að neita að það virðist markmiðið hjá sumum.
Bloggvinasóttin hefur líka heltekið marga þarna og söfnun þeirra var á tímabili greinilega vinsæl iðja. Mínir bloggvinir eru ekki margir og hér er smá greinargerð um þá:
Anna Einarsdóttir. Hún ólst upp með strákunum mínum þegar ég var á Vegamótum. Dóttir Einars Halldórssonar í Holti. Hún bloggar oft fremur stutt, en er skemmtileg. Hinsvegar skil ég stundum ekki kommentin á skrif hennar.
Arnþór Helgason. Hann bloggar alltof sjaldan, en er ágætur þegar hann tekur sig til. Sonur Helga Benediktssonar í Vestmannaeyjum og reyndist mér ákaflega vel þegar ég var, ásamt fleirum, að koma Netútgáfunni á laggirnar.
Bjarni Harðarson. Mamma hans er systir mín og þar að auki er hann þingmaður. Það verður gaman að fylgjast með honum í vetur. Hann og Elín sluppu vel frá jarðskjálftanum sem varð í dag í Perú.
Hlynur Þór Magnússon. Er því miður hættur að Moggabloggast, en bloggaði oft mjög skemmtilega. Fyrrverandi blaðamaður við Bæjarins Besta á Ísafirði. Mér er ekki grunlaust um að hann hafi hætt út af því að honum hafi ofboðið sum skrifin á mbl.is og satt er það, kunnátta þeirra sem þar skrifa er oft átakanlega léleg.
Jón Steinar Ragnarsson. Mjög góður penni, en er víst því miður að hætta að blogga.
Salvör Gissurardóttir. Einhver tölvufróðasta manneskja sem ég veit um. Systir Hannesar Hólmsteins, afar ritfær og viljug að prófa allskyns nýjungar. Bloggar mikið og skemmtilega. Mjög vel að sér um höfundarréttarmál og hefur aðra sýn á þau en margir aðrir. Lektor við kennaraháskólann að ég held.
Sigurður Þór Guðjónsson. Rithöfundur, skrifaði ef ég man rétt hina frægu bók Truntusól. Er hættur að blogga eins mikið og hann gerði fyrir nokkru, en alltaf skemmtilegur þó.
Ég held að aðalástæðan fyrir því hvað sumum eðalbloggurum er uppsigað við Moggabloggið sé sú að það er svo auðvelt að blogga þar. Þeim finnst líklega að það eigi að vera erfitt og flókið að blogga.
Eyjan.is var að ég held tilraun til að höggva skarð í Moggabloggsmúrinn. Ég álít nefnilega að Moggabloggið og margt fleira sem þeir Morgunblaðsmenn hafa fundið upp á, sé gert til þess að tryggja að sem flestir haldi áfram að fara á mbl.is og noti það jafnvel sem upphafssíðu.
Ýmsir góðir bloggarar eru á eyjunni og það væri kannski ekki svo vitlaust að kíkja þangað öðru hvoru og jafnvel á vísisbloggið líka. Ég læt samt hvorki þá sem þar skrifa né nokkra aðra hræða mig frá því að halda áfram að blogga á Moggablogginu.
Já og það var meiriháttar sigur fyrir mig að taka eftir því núna áðan að Harpa Hreinsdóttir hafði kommentað á bloggið mitt. Vá, ég er að verða frægur.
16.8.2007 | 01:07
93. blogg
Ég nefndi það fyrir nokkru að ég hefði þekkt bæði Bjössa fjósamann og Concordiu sem léku aðalhlutverk í miklu drama sem átti sér stað á Reykjum í Ölfusi á sjötta áratug síðustu aldar.
Á unglingsárum vann ég um tíma í garðyrkjustöðinni þar. Ætli ég hafi ekki verið þar samtals í svona tvö sumur og einn vetur, ég man það ekki nákvæmlega, en margs er að minnast frá þessum árum.
Verið var að byggja stóra húsið þegar ég var þar fyrst. Stóra húsið var 2000 fermetra gróðurhús sem á þeim árum þótti gríðarlega stórt. Venjuleg gróðurhús voru þá gjarnan svona 2 - 300 fermetrar. Stundum voru þau að vísu sambyggð og gátu þá náð yfir nokkuð stóran flöt samtals, en stóra húsið á Reykjum var í laginu eins og venjulegt gróðurhús. Sperrur allar voru úr járni en ekki tré eins og venjulegast var. Þegar ég hóf vinnu þarna vorum við að hamast við að glerja þetta flæmi. Tjöruefni var notað sem kítti og við vorum í sérstökum göllum við verkið sem fljótlega urðu útataðir í tjöru og hefðu líklega getað staðið sjálfir ef á það hefði reynt. Gott veður var þetta sumar, sólskin og hiti og ég man að það var kvöl og pína að þurfa alltaf að vera að fara í þessa grútskítugu tjörugalla. Lárus sonur Kristjáns í Reykjafossi jafnaldri minn var með mér í þessari vinnu. Einnig Guðmundur Ingvarsson sem seinna giftist Sigrúnu Helgadóttur. Lárus var jafnan kallaður Lalli. Eitt sinn sagði Guðmundur að það væri auglýst niðri í Hvergerði sýning á kvikmynd sem héti Tjöru-Lalli. Þetta var ekki alveg út í bláinn hjá honum því myndin var kölluð í íslenskri þýðingu Fjörulalli. Þarna skiptir máli hvort ll hljóðið er raddað eða óraddað sem kallað er. Eða eins og segir í vísunni alþekktu: Skólapiltar fara á fjöll / og faðma heimasætur. / Ungar stúlkur elska böll / einkanlega um nætur.
Auk vinnunnar við stóra húsið vann ég eitthvað við heyskap á Reykjabúinu þetta sumar. Þar var ekki mikilli tækni fyrir að fara og þó einn traktor væri til á svæðinu var mikið treyst á hesta. Ég man að ég var látinn vera á svokallaðri rakstrarvél sem hestur var spenntur fyrir. Þegar ég var kominn upp á sæmilegt lag með að raka heyinu í garða með því að lyfta rakstrargreiðunni á réttum stöðum þóttist ég sannarlega maður með mönnum og fór að blístra hástöfum. Þá brá svo við að hesturinn snarstoppaði og fékkst ekki til þess að fara af stað aftur. Með lagni tókst mér þó á endanum að koma honum af stað og fór aftur að blístra en þá snarstoppaði hann að nýju. Loksins skildi ég samhengi hlutanna og að hesturinn hafði vanist því að stansa alltaf ef blístrað var.
Jónas Jónsson frá Hriflu átti sumarbústað skammt frá garðyrkjuskólanum sem kallaður var Fífilbrekka. Þangað var ég sendur með hestinn og rakstrarvélina til að raka saman heyi á lóðinni. Til að komast inn á lóðina þurfti að fara í gegnum hlið sem var örlitlu breiðara en rakstrarvélin. Fyrir einhverja óskiljanlega heppni tókst mér bæði við komu og brottför að koma rakstrarvélinni þarna í gegn án þess að sæi á hliðstólpunum. Þegar ég fór man ég að Jónas var útivið og hafði orð á því hvað ég hefði góð tök á hestinum.
Það voru skemmtilegir karlar þeir Unnsteinn skólastjóri á Reykjum og Hriflu-Jónas. Jónas ævinlega í flókainniskónum sínum á Volkswagen bjöllunni (R-29) og Unnsteinn á Villysjeppanum sínum. Fjaðrirnar bílstjóramegin á jeppanum voru svo slitnar að hann hallaðist mikið til vinstri. Einu sinni keyrðu þeir saman Unnsteinn og Jónas skammt frá Hótelinu því hvorugur vildi gefa eftir enda báðir sjálfstæðir með afbrigðum.
Einhvern tíma var það þegar Hörður Sigurðsson var fjósamaður á Reykjum að ég hjálpaði honum við að halda belju. Hann stjórnaði náttúrulega aðgerðum en ég var látinn halda í beljuna. Nautið var fremur svaðalegt og mér stóð hálfgerður stuggur af því. En uppá beljuna fór það og þegar Hörður ákvað að nóg væri komið var ég látinn teyma beljuna í burtu. Það var svo ekki fyrr en nokkru seinna sem ég uppgötvaði brundtaum niður eftir allri hægri buxnaskálminni.
Einhvern tíma vann ég líka við það ásamt Herði og Val Einarssyni að slátra hesti og var það gert í Byggingunni sem svo var kölluð. Byggingin var bara venjulegt hús með geymslum og þess háttar niðri en kaffistofu og ýmsu fleiru á efri hæðinni og einnig rannsóknarstofu sem Axel Magnússon hafði. Það var Valur sem skaut hestinn með riffli og ég man að mér kom á óvart hve fljótt hesturinn hrundi niður þegar skotið reið af. Ekki eins og jafnan var í kvikmyndum að bæði menn og skepnur voru lengi að drepast eftir að hafa orðið fyrir skoti. Síðan þurfti að gera að hestinum og hluta skrokkinn í sundur. Lúga var í loftinu fyrir ofan staðinn þar sem hesturinn var felldur og með talíuverki var skrokkurinn hífður þar upp þegar búið var að flá hann og taka innan úr honum. Skömmu eftir að búið var að lyfta skrokknum brotnuðu spýturnar sem héldu honum uppi og bútur af þeim lenti í Val og meiddi hann svo hann hafði á orði að nú væri hesturinn að hefna sín. Úlpuræfill sem ég var í við þetta verk varð útataður í fitu og þegar hún þránaði kom svo vond lykt af úlpunni að ég varð að henda henni.
Allir eru að blogga um blogg / bloggið marga kvelur. / Barnaland og bloggið Mogg / býsna mikið selur. (Líklega auglýsingar - eða hvað?)
15.8.2007 | 03:44
92. blogg
Jón Steinar Ragnarsson segist vera að hugsa um að hætta að blogga. Og ég sem var nýbúinn að biðja hann um að gerast bloggvinur minn. Sem hann og gerði. Jón Steinar skrifar ljómandi skemmtilegar frásagnir en því er ekki að leyna að uppá síðkastið var hann farinn að endurnýta ansi margt af því sem hann hafði áður skrifað. Svona verð ég kannski einhvern tíma. (með endurnýtinguna á ég við)
Í kvöld kíkti ég á vísis bloggið sem ég minnist ekki að hafa gert áður. Líklega er margt athyglisvert þar. Ég sá þar m.a. blogg eftir einn af mínum eftirlætisbloggurum frá fyrri tíð. Ég skil eiginlega ekki af hverju ég hætti að lesa hann. Kannski var það útaf kommentunum. Þau voru oft ansi mikið útúr kú. Þetta var Ágúst Borgþór Sverrisson. Ég hef svosem eitthvað lesið eftir hann af smásögum, en ekki mjög mikið. Eitt sinn unnum við saman á Stöð 2.
En það var samt grein eftir íþróttafréttamanninn Henry Birgi sem vakti sérstaka athygli mína. Þar skrifaði hann um Bola Bolsson og Moggabloggið. Gagnrýni hans á Moggabloggið var ósköp einfeldningsleg og lík og margir aðrir hafa haft uppi og eiginlega bara skrif um vinsældabloggið og fréttabloggið. Ef menn þekkja Moggabloggið ekki af öðru þá er ekki við góðu að búast.
Stefán Friðrik Stefánsson hefur verið kallaður af sumum fréttabloggari númer eitt og sagður linka í allar fréttir á mbl.is. Mér er eiginlega alveg sama. Ég les bloggið hans stundum og finnst oft vera vit í því, þó málæðið sé auðvitað með ólíkindum.
Svo tók ég eftir því í kvöld þegar ég las bloggið henna Hörpu Hreins að hún ræðst þar með offorsi á Kolbrúnu Bergþórsdóttur og nýlega grein eftir hana í Blaðinu. Ég les nú þann Morgunblaðskálf afar sjaldan og hann er alveg hættur að berast heim eins og hann stundum gerði í vor. Kolbrún hefur vissulega gerst sek um fordóma í garð geðsjúkra, ef Harpa greinir satt og rétt frá öllu, sem ég hef enga ástæðu til að efast um. En það er dálítið langt gengið að kalla hana illa menntaða og fáfróða, því það er hún alls ekki.
Ég var að hugsa um að lesa ossur.hexia.net en gafst upp. Þetta eru svo ógnarlegar langlokur og ég er greinilega búinn að dragast eitthvað aftur úr því ég á margar greinar þar ólesnar.
14.8.2007 | 19:29
91. blogg
Nú er nokkuð um liðið síðan ég bloggaði síðast og mér finnst eins og ég sé hálfpartinn að bregðast þessum fáu lesendum mínum með því að skrifa þó ekki eitthvað.
Ég er ekki tilbúinn með neitt sérstakt og læt kannski bara nægja að segja svolítið af fjölskyldunni.
Á laugardaginn var fórum við upp í Skorradal þar sem Gunðný Rós var að gifta sig. Athöfnin fór fram úti undir berum himni og það var sýslumaðurinn eða fulltrúi hans sem framkvæmdi vígsluna. Veislan á eftir var ágæt þó fólk þyrfti að bíða svolítið eftir kjötinu. Á eftir því var kaffi og kökur. Það var farið að skyggja þegar við fórum af stað heimleiðis.
Ingibjörg systir var að ámálga það við mig að ég léti setja á DVD format 8 m/m kvikmyndir sem ég tók á sínum tima. Ég tók nú aldrei mikið af myndum m.a. vegna þess að ég átti aldrei almennilegar græjur og þar að auki voru filmurnar óheyrilega dýrar. Ég man samt eftir því að ég á mynd sem tekin var þegar Atli og Bjarni voru litlir og fjölskyldan bjó í húsinu Bræðraborg, sem er vestur í þorpi (Hveragerði). Þar sjást aðstoðarskólameistarinn og þingmaðurinn leika sér í sandkassa og þegar þeim sinnast eitthvað endar það með því að meistarinn lemur þingmanninn með tilþrifum.
Bjarni er nú bráðum búinn að vera í hálfan mánuð erlendis. Ekki getur hann þó strax farið að leita sér að vinnu. Það er samt að mér skilst nokkuð öruggt að hann fær fimm ára dvalarleyfi, en gæti þurft að bíða eftir því í nokkrar vikur.
Benni er að koma sér æ betur fyrir í Helluvaðsíbúðinni og Jói Hafdísar er búinn að vera í eintómu basli í næstum allt sumar vegna misheppnaðrar aðgerðar á hné og sér ekki enn fyrir endann á því.
Þetta er nú aðallega fyrir þá sem ekki lesa kommentin. Um daginn skrifaði ég dálítið um veruna á Vegamótum. Síðan hefur svosem ýmislegt komið upp í hugann. Eitt er það sem Anna í Holti minnti mig á í kommentum við færsluna um daginn. Það var þegar við fengum Bjarna til að fara skríðandi útað Langholtsrétt og aftur til baka. Eitthvað átti hann að fá borgað fyrir þetta afrek, sem ég bjóst við að væri nánast óframkvæmanlegt. Bjarni sneri á mig að einu leyti. Ég vissi að eymsli í hnjám yrðu helsta vandamálið en Bjarni útbjó einskonar hnjáhlífar úr gúmmíi og batt þær á sig. Vegalengdin frá Vegamótum að Langholtsrétt og til baka er sennilega svona 3 - 4 kílómetrar og Bjarni mátti ekki standa upp til að hvíla sig á leiðinni og ef bílar mundu stoppa fyrir honum þar sem hann væri skríðandi í vegkantinum mátti hann bara jarma. Í sem allra stystu máli lauk þessu þannig að Bjarni kláraði sína píslargöngu og var vel að verðlaununum kominn.
Bjarni lét sér yfirleitt fátt fyrir brjósti brenna. Eitt sinn þegar við vorum í heimsókn að Velli í Hvolhreppi hjá Jóni bróður Áslaugar þá gerði hann sér leik að því að imponera krakkana á bænum með því að éta ánamaðka og flugur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.8.2007 | 22:00
90. blogg
Mig minnir að það hafi verið Erlingur Brynjólfsson á Selfossi sem eitt sinn fyrir allmörgum árum kallaði bloggið sitt svolítið yfirlætislega: "Svona á að blogga." Þá var hann safnvörður í Húsinu á Eyrarbakka og var í tiltölulega fámennum hópi manna sem bloggaði reglulega.
Nú kallar hann bloggið sitt "Ég og sú kampagráa" en í millitíðinni hét það "Fréttir úr feðgabyggð" og kannski hefur það haft fleiri nöfn í áranna rás. Núorðið skrifar hann mest um köttinn sinn eða kettina réttara sagt því sú kampagráa tók uppá því á gamals aldri að eignast eitt stykki kettling. Sonur hans er aftur á móti orðinn safnvörður í Húsinu á Eyrarbakka. Já, ég hef lesið bloggið hans samfellt í mörg ár og finnst hann skemmtilegur.
Annars er gríðarlega vinsælt að blogga um blogg. Það virðist vera um að gera fyrir bloggara að þykjast hafa vit á öllum sköpuðum hlutum. Upplagt beskeftigelse fyrir besservissera af öllum gerðum. Enda eru besservisserar fjölmennir meðal bloggara. Þeir fullyrða jafnan allan andskotann og það er sjaldgæft að vitleysurnar séu reknar ofan í þá. Þó kemur það fyrir og er verulega skemmtilegt.
Aðrar gerðir af bloggurum eru t.d. listaspýrurnar. Þeir sem á annað borð hafa gaman af að skrifa eru gjarnir á að blogga. Rithöfundar eiga oft góða spretti á blogginu. Einn slíkan rakst ég á um daginn. Jón Steinar Ragnarsson heitir hann og kannski hefur hann aldrei gefið út neina bók, en hann skrifar eins og sá sem valdið hefur. Að vísu endurnýtir hann sumar sögurnar en það er allt í lagi.
Sumir skrifa næstum ekkert nema um það hvað þeir taka sér fyrir hendur þann daginn og líta á þetta sem ofur venjulega dagbók. Svo er alls ekki. Bloggið er svo miklu meira en dagbók. Menn geta eiginlega látið bloggið vera það sem þeim sýnist. Það er mjög gaman að skrifa svona fyrir allan heiminn. Að sjálfsögðu veit ég að það eru ekki ýkja margir sem lesa þetta rövl í mér, en það er sama. Væri ég að skrifa dagbók þá mundi ég ekki reikna með að nokkur ætti eftir að lesa það. A.m.k. afar fáir. En allir munu alltaf hafa aðgang að því sem maður lætur frá sér fara á bloggi. Gúgli sjálfur tekur það meira að segja til handargagns. Það er að vísu hægt að breyta bloggi eftirá og sumir gera það, en aldrei hefur reynt á það hjá mér og ég er efins um að ég mundi treysta mér til þess. Ætli ég mundi ekki heldur reyna að skrifa mig frá því sem ég hefði áður skrifað.
Svo er náttúrlega alveg upplagt að nota bloggið sem vettvang til að láta meðlimi stórfjölskyldunnar vita hvað er að gerast svona almennt og yfirleitt. Hverjir eru að fara að gifta sig. Hverjir eru að fara til útlanda. Hverjir eru að skipta um vinnu, o.s.frv. Og það eru margir sem gera það.
Margir nota bloggið líka eins og ég, þ.e. vaða elginn viðstöðulaust um alla skapaða hluti. Það eina sem ég reyni að passa mig á er að skrifa ekki langar færslur og helst ekki margar á dag. Svo verður bara að ráðast hvað af því sem ég er að velta fyrir mér kemst á blað.
Mér finnst eðlilegt að endurminningar skipi veglegan sess í því sem ég skrifa. Eflaust eru sumir af þessum lesendum sem ég þó hef, einkum að sækjast eftir því. Ættingjar mínir sumir vilja líka eflaust fylgjast með því sem er að gerast hjá mér og mínum. A.m.k. ímynda ég mér það.
Teljararæksnið er alltaf að halda því fram að svo og svo margir hafi skoðað bloggið mitt og nefnir jafnvel fjölda IP talna í því sambandi. Mér dettur þó ekki í hug að trúa þeirri vitleysu. Meðan engir nenna að kommenta á bullið í mér þá hef ég enga trú að þeir séu margir sem lesa þetta. Ég veit um fáeina og ég er alveg ánægður með að vera að blogga fyrir þá. Og svo sjálfan mig og möppuna uppi í hillu að sjálfsögðu.
Stundum fer heilmikil umhugsun í bloggið, en stundum lítil. Sumt er auðvelt að skrifa um, en erfitt um annað. Stundum þarf ég heilmikið að snurfusa textann eftirá og stundum lítið.
Það virðist enn vera svo að moggabloggurum sé að fjölga. Ef maður lítur á nýjustu bloggin getur maður séð að alla daga bætast einhverjir við. Suma daga reyndar ekki nema svona þrír til fjórir en aðra daga allt upp í tíu eða fimmtán. Hvað verður um alla þessa bloggara? Ég geri svosem ráð fyrir að mikið af þessu sé bara eitthvert fikt,
Athyglisverð er líka færsla sem Salvör Gissurardóttir skrifar í dag um nýjung sem Morgunblaðið er að hleypa af stokkunum og digg.com.
Annars er ég að fara í brúðkaup á morgun. Guðný Rós dóttir Bjössa bróður er að fara að gifta sig að Fitjum í Skorradal og þangað stendur til að við förum. Þetta ætti að geta orðið ágætisferð. Langt síðan ég hef komið í Skorradalinn.
7.8.2007 | 01:24
89. blogg
Þorgeir í Holti og Bjarni S eru að metast um hvor eigi fisknari pabba.
Þorgeir segir:
"Pabbi fór niður í Straumfjarðará og veiddi svo stóran lax að hann gat ekki lyft honum."
"Iss," segir Bjarni, "það er nú ekki mikið. Pabbi fór að veiða upp í Baulárvallavatni og veiddi þrjá stóra silunga og tvö skrímsli!!"
Eitt sinn fórum við í gönguferð í áttina niður að sjó. Þegar við komum að eyðibýlinu Laxárbakka var fugl þar fyrir og forðaði sér út með miklum vængjaslætti og hávaða þegar ég kom þangað inn. Álitamál er hvorum okkar brá meira fuglinum eða mér. A.m.k. man ég enn hvað mér brá ofboðslega mikið. Mig minnir að við höfum ekki farið öllu lengra í þetta skipti enda er ekki heiglum hent að komast niður að sjó á þessum slóðum. Líklega fórum við þó að fossi einum sem er í Straumfjarðaránni á þessum slóðum.
Strákarnir mínir þeir Bjarni og Benni léku sér mikið við systkinin Önnu og Þorgeir í Holti. Þau stunduðu það, þegar ferðamenn komu að Vegamótum, að líta út eins og aumingjar svo ferðamennirnir aumkuðu sig yfir þau og gæfu þeim eitthvað. Oft furðuðu þau sig á því að ferðamennirnir væru að tala eitthvert óskiljanlegt bull í stað þess að tala bara íslensku eins og venjulegt fólk.
Hundurinn Pési var mikill vinur strákanna minna og lék sér oft við þá enda álíka stór og þeir. Já hann hét eiginlega Pési, en ef verið var að skamma hann var hann gjarnan kallaður Pétur. Eitt sinn beit Pési Benna í handlegginn. Benni reiddist þessu og beit Pésa í kjaftvikið. Ég man enn hvað Pési greyið var skömmustulegur á eftir.
Þegar við fluttumst að Vegamótum fannst Pésa mikið til bílaumferðarinnar koma og gelti á hvern einasta bíl, sem um veginn fór. Mér tókst þó að venja hann af þessum ósið og hann steinhætti að gelta á bíla. Einskonar samkomulag tókst þó með okkur um að honum væri frjálst að gelta á traktora sem um veginn fóru. Þá gelti hann af hjartans lyst og ég lét það átölulaust.
Rauðakúla heitir fjall eitt á Snæfellsnesi og er það nokkurn vegin beint upp af Miðhrauni, ef ég man rétt. Fjall þetta er með hæstu fjöllum á nesinu en eiginlega bara gjallhaugur. Eitt sinn fór ég í gönguferð á fjall þetta ásamt einhverjum fleirum, sem ég man ekki hverjir voru. Mér er þó minnisstætt að Pési var með í þessari för og þótti honum greinilega að þetta væri feigðarflan hið mesta og á uppleiðinni hélt hann sig allan tímann mjög nálægt mér. Oftast var trýnið á honum nokkurnveginn við hælinn á mér. Seinlegt var að ganga á fjall þetta, því vegna þess hve laust það er í sér rennur maður a.m.k. hálfa leið til baka í hverju skrefi. Pési átti þó ekki í neinum erfiðleikum með þetta því hann var léttfættari en svo að hann sykki í gjallið. Á niðurleiðinni stungum við hann hinsvegar af því við gátum tekið risaskref í skriðunum en Pési þurfti að tipla þetta eins og hann væri á háhæla skóm.
Borgarbörn vita fæst hvað raunverulegt myrkur er. Á Vegamótum var á þessum tíma ekki mikið um útiljós og þessvegna dimmt þar á kvöldin ef ekki naut birtu frá snjó eða tungli. Íbúðarhús okkar var nokkur hundruð metrum norðan við verslunarhúsin og einhverju sinni er ég var á heimleið um kvöld og þótti mér betra að fara eftir veginum því þá var mögulegt að grilla í hlið og þess háttar á leiðinni. Á miðri leið heyri ég skyndilega más mikið og hvás og að einhver stór vera hleypur eftir veginum. Síðan veit ég ekki fyrr til en svört flygsa hendist á mig og þá fyrst átta ég mig á því að þetta er Pési, en mér var eiginlega hætt að standa á sama þegar ég heyrði ferlíkið nálgast af miklum hraða og másið og hvásið verða sífellt greinilegra.
Áslaug konan mín lærði á bíl á árunum sem við vorum á Vegamótum. Þegar Pési sá hana í fyrsta sinn setjast undir stýri á bílnum okkar forðaði hann sér bak við hús.
Eftir að Hafdís fæddist var hún gjarnan látin sofa í vagninum sínum undir eldhúsglugganum við tröppurnar. Pésa þótti líka gott að lúra í góðu veðri á tröppunum. Einhverju sinni sá hann traktor eða eitthvað annað áhugavert niðri á vegi og tók að gelta. Við það vaknaði Hafdís og fór að gráta og Pési var hundskammaður fyrir tiltækið. Æ síðan var það svo, að ef Pési var í námunda við vagninn þegar Hafdís vaknaði og fór að gráta forðaði hann sér bak víð hús og kenndi sér greinilega um.
Rollurnar í Strympu voru engar venjulegar rollur. Þær stunduðu það að bíta grasið í kringum Vegamót og ef eitthvað var að veðri hópuðust þær á stéttina fyrir framan verslunina og skitu þar allt út. Pésa þótti gaman að stríða rollunum og hljóp stundum í hringi í kringum þær og lét ófriðlega. Eitt sinn náði þó ein rollan að króa Pésa af uppi á tröppunum sínum og þjarmaði þar að honum. Pési vældi undan henni og bar sig aumlega og á endanum þurfti að bjarga honum undan rollunni. Þessar nafntoguðu Strympurollur gerðu Þorgrími mjólkurbílstjóra einnig stundum lífið leitt. Þá lágu þær og jórtruðu á veginum þegar mjólkurbíllinn kom þar að og létu sér ekki segjast þó Þorgrímur þeytti flautuna. Það var ekki fyrr en hann fór út úr bílnum og sparkaði í þær, að þær hundskuðust í burtu.
6.8.2007 | 01:22
88. blogg
Það er að æra óstöðugan að reyna að fylgjast með því hvar fólk bloggar núorðið og finna bloggin þess. Allir þeir sem vinsældum ná virðast vera umsetnir og barist um að fá þá til að blogga nú frekar hér en þar.
Eitt sinn fylgdist ég vandlega með því sem Steingrímur Sævarr bloggaði en nú held ég að hann sé að mestu hættur því og farinn að bola Sigmundi Erni úr fréttastjórastólnum hjá Stöð 2. Annars minnir mig að Simma hafi verið sparkað uppá við og hann kallaður Forstöðumaður fréttasviðs eða eitthvað þess háttar.
Þetta minnir mig á þegar Sigurði Kolbeins var komið úr stól markaðstjóra hjá Stöð 2 og hann látinn taka að sér forstöðu þróunardeildar í staðinn. Fróunardeild sögðu sumir.
En þetta var útúrdúr. Ég var að tala um bloggara. Pétur Gunnarsson aka hux var einu sinni í uppáhaldi hjá mér, þó framsóknarmaður sé. Svo fór hann á eyjan.is held ég og bloggið hans hef ég ekki séð síðan. Einhverjir held ég að hafi líka farið að blogga á visir.is Kannski maður athugi þessi mál við tækifæri. Stebbi Páls er í sumarfríi núna og bölbænir í garð Moggabloggsins þess vegna heldur færri en vant er.
Hlynur Þór Magnússon, sem eitt sinn var blaðamaður á BB hefur nú snarhætt að láta í sér heyra hér á Moggablogginu, en einhversstaðar sá ég samt athugasemd frá honum nýlega.
Sigurður Þór Guðjónsson bloggar lítið þessa dagana. Það er eins og Grikkirnir hafi dregið úr honum allan mátt.
Svo eru einhverjir farnir að keppa í því sýnist mér hér á Moggablogginu að hafa fyrirsagnirnar sem allra lengstar. Sjálfur sleppi ég þeim, en er núna byrjaður á einskonar undirfyrirsögnum.
Blog.mbl.is er búið að taka yfir skak.is og á skákhorninu kvarta menn yfir því að á nýju bloggsíðuna vanti tengil yfir á hornið. Ég hef lítið orðið var við Egil Helga að undanförnu og veit eiginlega ekki hvar hann bloggar akkúrat núna. Þó hann viðurkenni það helst ekki sjálfur, þá var hann einmitt vanur að blogga á við tíu manns.
Ég hef ekki farið mikið á ossur.hexia.net að undanförnu en held að það sé alltaf sami kjafturinn á Össuri, svo eflaust væri rétt (og líklega skemmtilegt) að lesa það blogg, þó maðurinn sé orðinn ráðherra.
Ég uppgötvaði í gær að ég er náskyldur Gunnari Helga Eysteinssyni sem bloggar hér á moggablogginu af talsverðum móð og lætur fylgja með mynd af sér, sem sennilega er tekin um það leyti sem hann lærðí að ganga. Ég man ekki betur en að Gunnar Helgi sé einn af þeim fáu sem kommentað hafa á bloggið mitt svo einhvern tíma hefur hann lesið það.
Þessa klausu fann ég á bloggi einu í gærkvöldi:
Bloggvinir óskast
Ég virðist agalega afskiptalaus og einmanna, hef aðeins tvo bloggvini
og sára-fáir nenna að kvitta eða kommenta. Vilt þú ekki vera
bloggvinur minn?
Einn góðan veður dag, verð ég obboð fræg.
Þetta er býsna áhugavert og uppúr þessu fór hún (Sirrý Sig.) að setja inn skáldsögu í mörgum hlutum. Ég fór að lesa þessa sögu sem heitir Jens og Co. eða eitthvað þessháttar. Nú eru komnir 17 hlutar og ég bíð eftir fleirum.